fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Veröld stjórnmálamanna

Það líður ekki sá dagur að okkur berast fréttir af spillingu stjórnmálamanna. Stangveiðiferðir og lúxushótel virðast vera daglegt brauð. Samgögnunefnd sem öll fær svera styrki til þess að reka heimili í Reykjavík og á hús þar krefst þess að fá ekki bara til viðbótar lúxushótel heldur einnig dagpeninga.

Fram hefur komið í umfjöllum um ferðir menntamálaráðherra til Kína að þær hafi ekki bara kostað 5 millj. kr. heldur megi bæta við hótelkostnaði á lúxushótelum og reikningum vegna gleiðra veizluhalda. Okkur er tjáð að þegar stjórnmálamenn fari erlendis og í ferðir innanlands þá fái þeir dagpeninga, en síðan eru hótel- og veitingahúsreikningar greiddir að auki. Þessir hinir sömu hafa með eftirminnilegum hætti tekið sér eftirlaun og hafnað því að leiðrétta þau.

Stjórnmálamenn standa svo alvarlegir fyrir framan almúgann og segja að hann verði að fara að reglum. Dagpeningar eru til þess að greiða kostnað á ferðalögum, þeim er skipt upp í hótel og fæði. Það er nefnd stjórnmálamanna sem setti þessar reglur og það er nefnd á þeirra vegum sem reiknar reglulega út hvað dagpeningar eigi að vera hverju sinni. En við höfum oft orðið var við að íslenskum stjórnmálamönnum detti ekki í hug að fara eftir þessum reglum þegar snýr að þeim sjálfum.

Ísland býr við gjörspillta stjórnsýslu. Í öðrum löndum sem vilja láta telja sig siðmenntuð, þá er stjórnmálamönnum gert að segja af sér komist upp að þeir séu að bruðla með almannafé. T.d. er ljóst að Stangveiðiráðherrann hefði orðið að segja af sér umsvifalaust og við ætlumst til þess að hann geri það. Sama gildir um þá borgarstjórnarmenn sem fóru í stangveiðiferðina.

En sú vissa er meðal almennings eins og heyrist í umræðum á vinnustöðum að það sem upp á yfirborðið kemst, sé einungis lítill hluti af þeirri spillingu sem viðgengst meðal íslenskra stjórnmálamanna. Nú ríkir það ástand að saumað er að almenning með lækkun kaupmáttar, hækkun vaxta og minnkandi atvinnu. Hinir gjörspilltu stjórnmálamenn standa gleiðfættir á sama tíma fyrir framan almenning og segja honum að leggja bílum og draga saman útgjöld. Hér má minna á greinar Ólafar Norðdal í Morgunblaðinu og ítrekuð ummæli ráðherra Sjálfstæðisflokksins undanfarið. Eða svo maðiur tali ekki um ummæli og athafnir Árna Johnsen.

Stjórnmálamenn bjóða svo almenning hiklaust og kinnroðalaust upp á þá skýringu að þeir hafi verið á fundum fram efitr kvöldi og byrjað að morgni. Hvað með fundi á Alþingi, það er verið að segja okkur að þingmenn gisti þá á Hótel Borg vegna þess að þeir nenni ekki heim til sín, 5 mín. akstur eins og frá Kríunesi heim til Árna hann á heima nánast í næsta húsi. Það er hreint út sagt ótrúlega ósvífið hvað stjórnmálamenn bjóða okkur almenning upp á í málflutning sínum. Ósvífnar lygar hiklaust bornar fram.

Og þegar almenningur mætir til þess að hylla handboltamenn stillir þetta lið sér fremst á sviðið. Þetta fólk er gjörsamlega veruleikafyrrt. Það sem er alvarlegast að það hefur sýnt sig í að íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki getu til þess að takast á við stjórn landsins í efnahagserfiðleikum eins og við höfum upllifað það undanfarið. Fullkomið ráðaleysi ríkir meðal þeirra á fundum sem við aðilar vinnumarkaðs sitjum með þeim. Sé litið til athafna þeirra þá segir þetta sig sjálft.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Líkt og svo oft áður, hittir þú naglann á höfuðið.
Siðleysi stjórnmálamanna er þó fyrst og síðast kjósendum sjálfum að kenna.

Það er einfaldlega engin hefð fyrir því að refsa mönnum fyrir spillingu; Íslendingar eru enn í moldarkofunum hvað það snertir.

Spillingin mun lifa góðu lífi á Íslandi þar til þjóðin sjálf rís upp gegn henni.

Nafnlaus sagði...

Magnað var líka að hlusta á jafnréttisfrömuðinn, formann Samfylkingarinnar, í viðtali við Helga Seljan í vikunni. Ingibjörg S. Gísladóttir var spurð um hvað liði afnámi eftirlaunaósómans.

Svarið var að mikilvægast í því máli væri að formenn flokkanna - sem víla nú og díla á ný um sín eftirlaun, að þeir næðu samstöðu. Mikilvægast að þeir næðu samstöðu!

Skítt með jafnrétti! Við þurfum að ná samstöðu. Samstöðu um að búa sjálfum okkur forréttindi.

Formaður Samfylkingarinnar er algjörlega rammvillt. Hvílíkur jafnaðarmaður. Hvílíkur jafnréttissinni.

Nafnlaus sagði...

Það soglega við þetta er að það virðist enginn stjórnmálamaður vera til sem hefur einhverja sómatilfinningu !
Þarna er prestur sem getur ef til vill ,,gefið" öðrum nefndarmönnum fyrirgefningu !
Mér er enn í fersku minni væntanlegi fundur einhverrar nefndar, ef til vill verið þessi sama samgöngunefnd með öðru fólki, þegar upp komst um Árni Johnsen við byggingaframkvæmdir !

Já,hvers vegna gerum við kjósendur ekki bara eitthvað í þessu ?

Eru trukkarnir ekki klárir með kúamykju fyrir alþingi og ráðhús ?

Auðvitað verða þessir fáu lögregluþjóna, sem virðast vera í vinnu, fengnir til að hlaupa og öskra ,,gas", ,,gas", ,,gas" !!!!!

Nafnlaus sagði...

Las ég rétt, eða kemur fram í pistli þínum að þingmenn á Alþingi Íslendinga hafi gist á HÓTEL BORG þar sem þeir komist ekki til heimila sinna sem eru lengra frá miðbæ Reykjavíkur??

EF ELLIÐAVATNSGISTINGIN VAR FRÉTT, ER HÓTEL BORG ÞÁ EKKI STÓRFRÉTT?!