föstudagur, 31. október 2008

Ótengdur forsætisráðherra

Alltaf er Geir eins og út á þekju. Hann er að láta hratt vaxandi atvinnuleysi koma sér á óvart. Samtök launamanna eru búin að hamra á því allt frá því vor að ríkisstjórnin verði að grípa til mannaflsfrekra aðgerða þegar líði á haustið. Gert var grín af þessu af stuttbuxnaliðinu í Sjálfstæðisflokknum með margskonar útúrsnúning og fleira og Geir neitaði að halda samráðsfundi eins svo margoft hefur komið fram í fréttum.

Nýjustu tölur varðandi atvinnuleysið eru uggvekjandi, segir Geir H. Haarde forsætisráðherra í morgun mjög undrandi á stöðunni og ætlar að taka atvinnumálin til umræðu á ríkisstjórnarfundi og telur mjög mikilvægt að atvinnureksturinn í landinu geti gengið svo fólk geti haldið störfum sínum.

Bíddu aðeins; hver var það sem sló stórum verkefnum út af borðinu um daginn. Er nema von að allt gangi hér á afturfótunum með svona fólk við völd?

Undanfarna daga er búið að segja upp 10% þeirra rafiðnaðarmanna sem vinna á almenna markaðnum, þetta er til viðbótar þeim sem hafa horfið af landi brott og hins mikla fjölda sem fór inn í verknáms- og háskólana í haust. Það hefur orðið um það bil 25% fækkun á störfum innan rafiðnaðargeirans á almennum markaði í haust.

Þessi til viðbótar eru fyrirtækin markvist að keyra niður laun í landinu um 10%, auk þess að fella niður yfirvinnu.



Það er að bresta á fjöldaflótti úr landinu :

Hér er auglýsing sem okkur barst áðan
Námskeið um flutning til Norðurlandanna
Norræna félagið vekur athygli á námskeiðum ætluðum fólki sem hyggur á flutning til Norðurlandanna. Um er að ræða tvö stutt námskeið þar sem farið verður yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga við flutning, til að mynda varðandi skráningu, atvinnu og húsnæði auk þess sem þátttakendum gefst færi á að bera fram spurningar. Þjónusta Halló Norðurlanda og heimasíða verður einnig kynnt.

Þriðjudaginn 4. nóvember kl. 19:30 – Flutningur til Noregs og Svíþjóðar
Þriðjudaginn 18. nóvember – Flutningur til Danmerkur

Námskeiðin eru ókeypis og öllum opin og henta þeim sem hyggja á atvinnu í þessum löndum, halda þangað til náms eða annarra erindagjörða.. Hafa ber í huga að nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðin en nánari upplýsingar um skráningu fást hjá Ölmu Sigurðardóttur á skrifstofu

Norræna félagsins og á http://www.norden.is/.

Heimasíða: http://www.hallonorden.org/

fimmtudagur, 30. október 2008

Hrun Sjálfstæðisflokksins og efnahagsstefnu hans

Fylgi Vinstri-grænna mælist nú meira en fylgi Sjálfstæðisflokksins, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Samkvæmt könnuninni mælist fylgi Samfylkingar 31%, VG 27%, Sjálfstæðisflokks 26%, Framsóknarflokks 10% og fylgi Frjálslynda flokksins er 3%.

Svarhlutfall var 66% sem segir kannski ekki minnstu söguna. Íslenskir stjórnmálamenn hafa gengið svo kyrfilega fram af fólki með fullkomlega ábyrgðarlausu hátterni og spillingu á undanförnum misserum. Þar er ég að vísa til hátternis sjálfstæðismanna í borgarstjórninni og svo stjórn efnahagsmála.

Hætt er við að fall stjórnarflokkanna eigi eftir að aukast ennfrekar. Þá ekki síst þegar nokkur þúsund manna verður búin að missa vinnuna og hinn hlutinn fallinn verulega í launum og verðbólgan á fleygiferð upp á við og vextirnir þar á eftir.

Sífellt koma fleiri atriði fram sem segja okkur hversu afkáralegir stjórnarhættirnir hafa verið á undanförnum árum. Stjórnvöldum hefði verið í lófa lagið að fyrirbyggja hamfarir heimilanna, sparifjáreigenda og sjóðsfélaga lífyerissjóðanna.

Ekki er ólíklegt að þegar búið verður að kanna atburðarásina, að stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins verði líkt við skipulagða árás á heimilin.

Ellen

Það var alltaf mikil upplifun að taka leið 14 innan úr Vogunum niður á torg og fara í Gamla bíó. Þar lögðu margir grunn að viðskiptaferli með þátttöku í margslungnum skiptimarkaði teiknimyndablaða. Öll höfðu þau ákveðið gengi og var gengi Dell blaðanna hæst. Kvikmyndir og blöð Lone Rangers á hestinum Silver með félaganum Tonto voru mitt uppáhald. Þeir tóku vondu gæjana í bakaríið og þeystu svo út í sólarlagið og kvöddu með “Hæ-jó Silver, away.”

Gamla bíó hefur í gegnum tíðina eignast ákveðin sess í hugum margra. Ég er einn þeirra sem fer í ákveðnar hugræna stellingu þegar ferðinni er heitið þangað. Í gærkvöldi var tilefnið ein af mínum uppáhaldssöngkonum Ellen. Hún var mætt þar með Eyþór manninum sínum og þrem dætrum þerim Elínu, Sigríði og Elísabetu. Auk þeirra voru á sviðinu bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir, Pétur Ben og Magnús Tryggvason á trommur. Allt toppfólk hvert á sínu sviði, enda var ekki ein einasta feilnóta slegin.

Uppistaðan í prógraminu voru vitanlega lögin hans Magga Eiríks. Hann mætti á sviðið og tók eitt lag, einnig kom KK bróðir Ellenar upp á svið og tók eitt lag. Auk þess voru nokkur ný lög og vitanlega sálmur. Ellen er ákaflega örugg söngkona og veit upp á hár hvernig hún á að beita röddinni. Hún hefur áður verið með þetta band með sér og þau sýndu öll að þar fór fólk í efstu deild.

Mér fannst stundum að þau hefðu hægt á taktinum einum um of í nýjum útsetningum, en annars voru þetta frábærir tónleikar í frábæru húsi. Húsið fer vel með tónlistarfólkið og ekki síður áheyrendur. Öllum leið vel og ófarir efnahagslífsins gleymdust í tvo frábæta klukkutíma. Alveg verið til í að sitja aðeins lengur og draga það að hoppa út í fáránleikann.

miðvikudagur, 29. október 2008

Enn einn dagur

Nú er Sterling fallið og Maradonna að verða landsliðsþjálfari Argentínu, sagði útvarpsklukkan glaðhlakkalega við mig þegar hún byrjaði sín daglegu störf. Ástæða gjaldþrotsins er að ekki fengust meiri lán frá Íslandi. Þar kom enn ein staðfesting á því sem haldið hefur verið fram að fjámálasnillin fólst í því að skiptast á bréfum og hækka gengi þeirra í hvert skipti og fá svo lán heima á Íslandi. Innistæðulaus peningagufa sem markvisst var stefnt að endaði í vasa almennings.

Ekki kom fram á því hvort karlinn Maradonna sé búinn að ná valdi á sínum vandamálum, en það er virðist vera og er fínt mál. Hendi guðs mun leiða Argentínu áfram í fótboltanum. Er þetta sönnun þess að ekkert vandamál sé svo stórt að ekki sé leið út? Argentínu tókst að laga til hjá sér en það gekk svo sem ekki vandræðalaust. Þeir fengu lán frá Alþjóðasjóðnum, en löguðu ekki til gjaldmiðilinn og það tók þá 4 klst., segir sagan að eyða öllu láninu, í að reyna að verja vonlausan gjaldmiðilinn.

En svo kynnti klukkan Agnesi til leiks og hún skammaðist út í að allir vildu bara sjá blóð og finna út hverjir hefðu tekið rangar ákvarðanir. Fólk á umyrðalaust að taka fram vinnuhanskana og halda áfram, sagði hún. Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að að hún taki undir með sínum mönnum um að engu eigi breyta og bara þjösnast áfram í sama farinu.

Það liggur fyrir að rangt hefur verið staðið að peninga- og efnahagstefnu þessa lands og almenningur ætlar ekki að halda áfram í óbreyttu ástandi. Það verður að grafa að rótum vandans og það kallar á víkja verði þeim sem hafa haldið í hina röngu stefnu, varla verður þeim falið að sjá um uppbygginguna. Þessi bankastjórn hgefur staðfastlega haldið uppi fölsku gengi og fölskum lífskjörum. Sem leiddi til þess að fólk skuldsetti sig á röngum f0rsendum og situr nú í heimatilbúinni súpu seðlabankastjórnar.

Seðlabankastjórar norðurlandanna stóðu saman um að hjálpa okkur ekki um aur án þess að fyrir lægi samkomulag við Alþjóðasjóðinn. Semsagt þeir treystu því ekki að við myndum taka fram stóru ryksuguna og hefja hreinsum í efnahagsstjórninni. Umræðan hér heima snérist upp í að það myndi valda því að Íbúðalánasjóður yrði lagður niður og heilbrigðiskerfið einkavætt og fleira í þeim dúr og engin hefði gert neitt rangt eins og reynt er að telja okkur í trú um.

Okkur var bent á að ekki stæði neitt í þessa veru til og reyndar hefði um alllangt skeið drjúgur hluti heilbrigðiskerfisins verið einkavæddur, sem er rétt. Alþjóðasjóðsmennirnir sögðu að þeir kæmu með tillögur, en það þýddi ekki endilega að menn þyrftu að fara eftir þeim. En Davíð hefur lengi haldið í háa vexti, og varð reyndar að lækka þá um daginn til þess að halda friðinn. En nú fékk hann bandamenn og nýtti það til þess að hækka snarlega aftur. Smjörklípa segir Valgerður. Jarðaför krónunnar er hafin segja hagdeildir atvinnulífsins.

þriðjudagur, 28. október 2008

Áfram á sömu braut, sama hvað það kostar

Það er hreint út sagt ömurlegt að þurf að horfa upp á ábyrgðarleysi þeirra sem hafa valdið íslenskum heimilum og fyrirtækjum óbætanlegum skaða. Neita að horfast í augu við staðreyndir. Heimta að ekki sé leitað að sökudólgum. Reyna að hafa áhrif á umfjöllun í fréttum og koma ábyrgð yfir á aðra.

Það blasir við að ríkisstjórnin, seðlabankastjórnin ásamt fjármálaeftirlitinu unnu ekki vinnuna sína. Seðlabankinn hefði þurft að byggja upp varasjóð, sömu upphæð sem við erum þessa dagana að taka dýrum dómum að láni, á annað þúsund milljarða. Það var ekki gert vegna þess að það var alltof dýrt. Með öðrum orðum að það blasti við að það þurfti að gera aðrar ráðstafanir eins og t.d. að sækja um aðild að ESB. Afleiðingarnar hér á landi eru þær að þetta lendir á heimilum og fyrirtækjum, en það sjáum við ekki annarsstaðar. Ef þessir menn hefðu unnið vinnuna sína þá væri staðan hér sú sama og annars á norðurlöndunum.

Öll umhirða bankanna með sparifé landsmanna hvort sem það var í eignastýringu eða þá eignir lífeyrissjóðana í bönkunum ber það með sér að innandyra átti að minnka sem mest tap þeirra og koma því yfir á lífeyrissjóði og einstaklinga. Þetta var gert í skjóli þeirra viðhorfa sem stjórn Seðlabankans hefur og viðheldur.

Forsvarsmenn bankanna ásamt hægri stjórnmálamönnum vönduðu almenning og samtökum þeirra ekki kveðjurnar. Fólk hvatt til þess að ganga úr stéttarfélögum og hætt að greiða til sjúkrasjóða og eins í séreignasjóði lífeyrissjóðanna og þannig mætti áfram telja.

Nú er verið að ráða sama fólkið inn aftur í nýju bankana og þetta fólk virðist halda launum sínum og vill að auki fá greidda bónusa fyrir að það að greiða úr þeim flækjum sem þeir sjálfir settu upp og urðu okkur til skaða. Þetta er gert í skjóli þess að ráðherrar og Seðlabankastjórn neitar því alfarið að axla ábyrgð og forsætisráðherra ásamt Seðlabankastjóra endurtaka í síbilju þá yfirýsingu að þeir ætli að halda áfam á sömu braut og vextir hækkaðir í 18%.

Með öðrum orðum ráðherrar eru í raun að hvetja fólk að flytja erlendis.

sunnudagur, 26. október 2008

Varphænur heimskunnar

Margir velta þessa stundina fyrir sér niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins. Þar kemur fram að fylgi stjórnmálaflokkanna breytist nokkuð en ekkert í samræmi við það ógnvænlega ástand sem efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins hefur leitt yfir Ísland.

Á bloggi Egils Helga er því velt upp í dag hvort við séum hæsn.

Íslendingar hafa látið stjórnmálamenn sína komast upp með margskonar spillingu sem ekki hefur verið liðin í öðrum löndum. Margoft hafa komið upp stöður hjá íslenskum ráðherrum sem í öðrum löndum væru ekki liðnar, jafnvel kostað afsagnir.

Íslenskir stjórnmálamenn kalla hiklaust mótmæli almennings við athöfnum þeirra skrílslæti. Þar bendi ég t.d. á viðbrögð Moggans og ráðherra sjálfstæðisflokksins við réttmætum mótmælum Reykvíkinga við ótrúlegum athöfnum borgarfulltrúa Sjálfstæðismenna í vetur. Hæðst er af mómælafundum, eins og t.d. hefur verið gert að undanförnu.

Ríkisstjórnir víkja sér hiklaust undan þjóðaratkvæðagreiðslum og þær stinga frumvörpum þingmanna sem eru þeim ekki þóknanleg undir stól. Hafnað er að afnema eftirlaunalög þrátt fyrir mikil mótmæli almennings og ráðherrar gera hiklaust hróp að fjölmiðlamönnum og segja þá beita sig einelti spyrji þeir óþægilegra spurninga. Ráðherrar neita að tala við fjölmiðlamenn sem ekki spyrja þægilegra spurninga.

Spaugstofumenn hafa oft fjallað um þennan landlæga undirlægju hátt okkar og m.a. sýnt okkur réttilega með fótspor ráðherra um allt bak.

Nú blasir við að landinn ætli að láta mótmælalaust yfir sig ganga mestu og alvarlegustu mistök sem stjórnmálamenn hafa leitt yfir íslendinga og skapað okkur ótrúverðugleika um öll nágrannalönd okkar.

Hjá Agli stendur :
Hvað með Ísland sem “Hænsnalýðveldi,” nokkurn veginn sbr. orðSteinars Sigurjónssonar í bókinni Blandað í svartan dauðann: “Íslendingar eru hænsn!”

Eru íslendingar hænsnalýðveldi?Varphænur heimskunnar?!

Það er eiginlega ekki hægt annað en að taka undir þetta og vaxandi fjöldi er búinn að fá sig fullsaddan og býr sig undir að fara. Gjörið svo vel sjálfstæðismenn þið eruð búnir að gera endanlega upp á bak, eins og Dr. Gunni orðar það réttilega.

Endurreisn atvinnulífs

Á ársfundi ASÍ var vitanlega fjallað mikið um stöðu á vinnumarkaði. Allnokkur hópur einstaklinga gefur sér þegar þeir fjalla um starfsemi verkalýðsfélaga, að umræðan snúist einvörðungu um að gerð kjarasamninga. Svo er vitanlega ekki, launamönnum er vel kunnugt þá staðreynd að til þess að tryggja atvinnu og bætt kjör þurfa að vera til vel rekin fyrirtæki. Fyrirtækin eru í sjálfu sér starfsfólkið. Það er hinn vinnandi hönd sem skapar arðinn, ekki fjármagnið eins og svo margir hægri menn telja í sinni kapitalísku veröld.

Við horfum þessa dagana yfir sviðna jörð kapítalismans. Fyrirtækin eru að verslast upp og það leiðir til minna atvinnuöryggis og lakari kjör allra. Komist fjármálamarkaður ekki gang innan mjög skamms tíma er hætta er á að fyrirtæki lendi í gjaldþroti, þrátt fyrir að um góðan rekstur sé að ræða.

Það er fyrirtækjunum lífsnauðsyn að hafa tryggt aðgengi að fjármagni. Sama gildir um sprotafyrirtæki þau þurfa aðgengi að þolinmóðu fjármagni og umhverfi sem veitir þeim rými til þess að komast yfir þróunnarskeið. Í þessu sambandi má t.d. líta til Danmerkur, en þeir hafa verið ákaflega snjallir við að byggja upp atvinnulíf sitt, þó svo þeir séu ekki jafnríkir af náttúruauðlyndum eins og við.

Í þessu sambandi má t.d. benda þá leið sem danir völdu þá leið að heimila sprotafyrirtækjum ef þau réðu fólk á atvinnuleysisbótum, þá gæti það haldið bótunum í tiltekinn tíma til þess að halda launakostnaði niðri.

Þrákelkni stjórnvalda undanfarinna ára í að halda í krónuna hefur leitt til gríðarlegra vandamála hjá sprotafyrirtækjum, eins margoft hefur komið fram í máli forsvarsmanna þeirra. Nú blasir við að mörg þeirra munu flytja úr landi verði ekki stefnubreyting hjá stjórnvöldum og þeim mun fylgja velmenntað ungt fólk.

Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur leitt okkur sífellt lengra inn á þá braut að vera hráefnisframleiðandi. Hugsun skammtímagróða hefur alfarið ráðið það för. Það er eins og flokkurinn líti svo á að við þurfum einungis að hugsa um þá kynslóð sem nú lifir.

Fiskur er fluttur lítt unnin úr landi, og það eru álver sem flokkurinn vill til þess að nýta alla orkuna. Við endurskipulaggningu þjóðfélagsins þarf að huga að því þróa ný störf, tækni og sjálfbæra þróun. Markmið nýfrjálshyggjunar einkennast af hagræðingu í mannahaldi og launamálum. Allar ákvarðanir taka mið af skammtíma og ekki er um endurnýjun eða uppbyggingu að ræða.

Farið er inn í fyrirtækin og þau standa svo eftir óvarin fyrir áföllum, eins og blasir við okkur þessa dagana í áður gömlum og grónum fyrirtækjum. Í þessu sambandi má benda á hvernig farið hefur fyrir Thacherismanum í Englandi þegar járnbrautir, vatnsveitur og rafveitur hafa verið einkavæddar. Eftir nokkur ár er búið að hreinsa út öll verðmæti og ekki hægt að tryggja öryggi almennings og annað hvort að verður að verja skattfé til þess að kaupa hin fyrrverandi almenningsfyrirtæki aftur og byggja þau upp frá grunni eða afnotagjöld eru hækkuð ótæpilega.

Lífeyrissjóðirnir hafa um langt árabil án árangurs kallað eftir því að stjórnvöld breyti lögum um fjárfestingar sjóðanna. Það þarf að skapa forsendur fyrir aðkomu lífeyrissjóðanna að endurreisn atvinnulífsins. Leiða má að því rök að töp lífeyrissjóðanna hefðu verið töluvert minni ef þeir sem hafa mótað efnhagstefnuna á undanförnum árum hefðu farið að óskum lífeyrissjóðanna.

Þar má benda fyrst og síðast á lög um forsendur í áhættumati í eignastýringu lífeyrissjóðanna. Gera þarf lífeyrissjóðum kleift að fjárfesta í fasteignum eða fasteignafélögum, t.d. eignum sem leigðar eru einstaklingum og fyrirtækjum eða sveitarfélögum og ríkinu. Það er góður fjárfestingarkostur fyrir langtímafjárfesti eins og lífeyrissjóði að eiga fasteignir. Hér ætla ég að marggefnu tilefni að ítreka enn einu sinni, að rekstur hjúkrunarheimila er allt annar hlutur.

Hér má t.d. nefna að mörg heimili eru að fara í þrot, núgildandi lög krefjast þess að lífeyrissjóðirnir selji strax þær fasteignir, sem falla til þeirra á nauðungaruppboðum. Yfir landinu sveima hrægammarnir og þeim gæti beðið góðir bitar í þessari stöðu. Það er bæði lífeyrissjóðum og ekki síður heimilum og fyrirtækjum til hagsbóta að þeir gætu átt þær fasteignir sem til þeirra falla á nauðungaruppboðum og leigi þær til fyrri eigenda þar til þeir hafi komið undir sig fótunum á ný.

laugardagur, 25. október 2008

Útifundur á Austurvelli

Í dag kl. 15.00 var haldin útifundur á Austuvelli. Ræðumenn voru undirritaður ásamt Einari Má Guðmundssyni. Einar fór á kostum eins og honum er einum lagið og dró upp hverja myndina á fætur annari um afkárleg og grátleg vinnubrögð ríkisstjórna Ísland og þær hörmungar sem þær hafa leitt yfir íslenskan almenning.

Töluverður fólksfjöldi var á fundinum og mikill samhugur í fólki. En í kjölfar hans var boðuð önnur uppákoma þar sem átti að fara í blysför. Virtist vera að þetta ylli miskilning. Það er vatn á myllu ríkisstjórnar og ekki síður Moggamanna sem hafa dregið upp háðskar myndir af þessum fundum í aðferðum sínum við að hreinsa eigendur sína og ekki síður ríkisstjórnarflokkinn sem hefur mótað efnahagsstefnuna á undaförnum árum . Í Mogganum var því haldið fram að einungis hefðu verið um 500 manns á fundinum fyrir viku, en þar voru á þriðja þúsund manns.

Læt hér fylgja ræðu mína :
Ráðamenn þjóðarinnar hafa undanfarið hamrað á því að almenningur eigi ekki að eyða tíma í leit af sökudólgum. Hvers vegna leggja þeir svona mikla áherslu á þetta? Óttast þeir að almenning verði þá betur ljóst hvað hafi í raun orðið til þess að við komum mun verr út í hinu mikla efnahagsóverðri en önnur lönd?

Er þeim um megn að horfast í augu við það fólk sem er að missa heimili sín og allan sparnað? Eða þá sem standa núna uppi atvinnulausir? Ráðherrarnir mæta í hvern fréttaþáttinn á fætur öðrum þar sem þeir víkja sér undan að svara spurningum um ástandið og hvað standi til að gera til úrbóta.

Aftur og aftur hafa þeir verið staðnir af því að hafa látið okkur fá rangar upplýsingar, eða þá að þær hafa verið misvísandi og stangast á við það sem þeir sögðu okkur í gær. Undanfarin ár hafa margir innlendir og erlendir hagfræðingar bent á að íslenska hagkerfið gæti ekki haldið áfram á þeirri efnahagsbraut sem ríkisstjórnir undanfarinna ára hafi markað, það gæti ekki leitt til annars er ófarnaðar. Ítrekað var bent á að hagsældin sem ráðherrar okkar stærðu sig svo af, væri í raun byggð á sandi og við blasti harkaleg lending.

Ráðamenn svöruðu með því að þar færu úrtölu- og öfundarmenn. Í stað þess að endurskoða stefnuna og koma stjórn á hið ofsafengnu græðgi sem var á útrásarvíkingunum, var hrunadansinn efldur með því að lækka skatta á þeim hæst launuðu. Jafnframt fóru ráðamenn um heiminn með auðmönnunum og böðuðu sig í skyni alnægtarsólarinnar. Ekki var lagt í varasjóði eins og hagfræðingar lögðu til, en fjármunum sóað á báða bóga.

Til þess að ná í enn meira fjármagn til þess að spila úr voru opnaðir innlagnadeildir í nágrannalöndum okkar og boðið upp á hærri vexti til þess að fá almenning þeirra landa til þess að leggja fram sparnað sinn. Hér heima var almenningur hvattur til þess að flytja alla sína peninga af tryggum bankabókum og setja á eignastýringareikninga.

Lagt var að launamönnum að ganga úr stéttarfélögunum og láta iðgjöld sjúkrasjóða og séreignasjóða renna inn á eignastýringareikningana. Boðið var upp á hærri vexti og hagkvæmari lán. „Byrjaðu að græða og taktu yfirdráttarlán hjá okkur á 24% vöxtum“.

Svikamyllan snérist sífellt hraðar. Auðmennirnir lánuðu sjálfum sér peningana og inneignir erlendu reikningana voru fluttir hingað heim svo þeir hefðu úr enn meiru að spila. Öflug og velrekin fyrirtæki lentu í klónum á spilafíklunum. Þau voru síðan bútuð niður og búin til ný. Sjóðir fyrirtækjanna tæmdir, eignir þeirra veðsettar og öll verðmæti flutt á spilaborðið.

Brosin breikkuðu á íslenskum ráðamönnum. Davíð hrópaði ferfallt húrra og íslenskir ráðherrar og forsetinn fluttu lofræður um hina snjöllu fjármálaspekinga, sem við hefðum verið svo lánsöm að eignast. Lög og reglur eru eitur í beinum frjálshyggjunnar og ríkisstjórnir Íslands afnámu lög og rýmkuðu heimildir svo dansgólfið yrði enn stærra. Þrátt fyrir aðvaranir þekktra hagfræðinga var hver hæðin á fætur annarri var byggð ofaná spilaborgina.

„Hvers vegna búum við við hærri verðbólgu, hærri vexti og hærra verðlag hér á landi“ spurði almenningur. „Ekki spyrja okkur óþægilegra spurninga“, voru svör ráðherranna. „Þið leggið okkur í eintelti“, voru úrill viðbrögð forsætisráðherra.

Svo kom mótvindur og öll spilaborgin hrundi í fyrstu vindhviðu. Nú er komið fram að ráðherrar vinaþjóða okkar hafa varað íslenska ráðherra við um alllangt skeið. Hingað hafa komið erlendir sérfræðingar skrifað skýrslur og bent ráðherrum á að það stefndi í óefni, en þeim var stungið í skúffur. Gætu skapað neikvæða umræðu. En ekkert var gert, og hraðinn aukinn ennfrekar og haldið áfram á sömu braut. Settur enn meiri kraftur í að fá almenning til þess að færa fjármuni sína inn í bankana og áróður aukinn í Englandi og Hollandi.

Seðlabankar norðurlandanna lýstu sig tilbúna til þess að koma okkur til hjálpar en það yrði ekki gert nema að tekið væri til á Íslandi. En íslenskir ráðherrar þráuðust við. Svo fór að öll vinaríki okkar tóku sig saman og sögðust ekki lána okkur krónu nema í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

„En þá verðum við að taka á móti ráðleggingum og ganga að kröfum um að taka til hjá okkur“ svöruðu íslensku ráðherrarnir óttaslegnir.
„Það er einmitt lóðið“ sögðu norrænu ráðherrarnir, „Við treystum ykkur ekki til þess að gera það sjálfviljugir.“

Þannig er staðan búin að vera undanfarnar vikur. Þar kom að því að ráðherrar okkar urðu að láta undan. Í valnum liggja gjaldþrota heimili og atvinnulaust fólk. Milljarðar af sparifé landsmanna er gufað upp. Sama er upp á tengingnum í lífeyrissjóðunum þar hafa glatast hundruð milljarða af inneignum lífeyrisþega. Allt vegna þess að íslenskir ráðherrar vildu ekki hlusta á aðvaranir.

Þeim var um megn sakir þess að þá hefðu þeir orðið að viðurkenna fyrri mistök og hætta á að einn stjórnmálaflokkur myndi klofna. Það stóð ofar hagsmunun almennings. Ráðamenn mæta í hvert viðtalið á fætur öðru og láta eins og þeir hafi ekkert vitað um stöðuna. Þetta er einhverjum út í heimi að kenna. Staðreyndirnar flæða upp á borðið hver á fætur annarri. Sífellt dökknar myndin.

Ráherrarnir hlaupa nú með veggjum og reyna að telja okkur í trú um að nú sé ekki tími til þess að leita uppi sökudólga. Í gærkvöldi boðaði forstætisráðherra óbreytta stefnu og neitar að taka til á stjórnarheimilinu og í Seðlabankanum. Honum var svarað í dag af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að þá fengjum við ekki frekari aðstoð. Íslensk ríkisstjórn hefur rúið okkur öllu trausti. Íslensk þjóð fær einungis lán í skömmtum eftir að hafa uppfyllt skilyrði hvers áfanga í betrunarbótinni.

Við almenning blasir sviðin jörð. Sterk og öflug fyrirtæki riða nú til falls, varasjóðir eru horfnir. Íslensk þjóð er orðin sú skuldsettasta í heimi. Fjármálasnillingar sem ríkisstjórnin hefur hampað svo mikið skilja ekki eftir eitt einasta nýtt fyrirtæki. Í stað þess blasa við gjaldþrota bankar og íslenskt atvinnulíf riðar til falls. Atvinnuleysi vex og við blasa dökkir tímar.

Við hljótum að krefjast þess að þeir ráðherrar sem hafa verið svo virkir þátttakendur í hrunadansinum víki. Sama gildir um Seðlabankastjórana og stjórn bankans. Traust verður ekki byggt upp án þess að þeir víkji, hvorki inná við eða útá við. Ráðherrar geta ekki ætlast til þess að við látum meir af mörkum fyrr en eftir að sú endurnýjun hefur átt sér stað.

föstudagur, 24. október 2008

Við erum saklaus

Jæja þá er stundin runnin upp, íslenskir stjórnmálamenn hafa byrjað hvítþvott sinn.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er búinn að fallast á að koma ríkisstjórn Íslands til hjálpar. Ráðherrar sem að mati allra viðurkenndra hagfræðinga eru búnir að leggja efnahag landsins í rúst með kolrangri stefnu.

Fram hafa komið upplýsingar um að seðlabankar nágrannaríkja okkar hafa allt frá því í vor bent íslenskum stjórnvöldum að þau séu á rangri leið og það blasi við Íslandi miklar ófarir. Þær láni okkur ekki pening fyrr en einhverjar ráðstafnir verði gerðar til þess að hreinsa til.

Um leið og alþjóðasjóðurinn fellst á að koma hingað til hjálpar, sameinast ráðherrar í Kastljósinu og Íslandi í dag um að hafna allri ábyrgð.

„Samfélagið ber ábyrgð á þessu“ segja þeir. Launamenn sem hafa glatað umtalsverðu að lífeyrisparnaði sínum, jafnvel öllu sparifé sínu.

Heimili þeirra eru komin á uppboð og þeir eru búnir að missa atvinnuna sína. Þá segja ráðherrarnir; „Skammist ykkar“, segja ráðherrar við almenning Íslands.

En þeir halda starfi sínu og fullum launum, fullum lífeyrisréttindum ásamt auka eftirlaunaréttindum. „Við erum saklausir, þetta er ykkur að kenna. Við gerðum ekkert rangt.“

Ef manni hefur einhvern tíma orðið orðvant. Þvílíkt hyski.

Óhemjan tamin

Það hefur verið áberandi hversu mikið leiðandi stjórnmálamenn og eins leiðandi embættismenn vara við því að leitað verði að sökudólgum. Það er eins og þeir séu hræddir við eitthvað.

Hvers vegna virðist ekki standa til að leita uppi þær eignir sem hinir 30 spákaupmenn og yfirmenn bankanna hafa rakað til sín á undanförnum árum með allskonar brellum og launað svo sjálfa sig með aukabónusum hafi þær heppnast. Þessar brellur eru nú hver á fætur annarri að falla, en það virðist ekki standa til að þeir endurgreiði bónusana.

Það verður engin sátt í þjóðfélaginu nema gripið verði til aðgerða um að ná til eigna þeirra manna sem hafa dregið sér margföld árslaun venjulegs fólks. Þær á að nýta til þess að greiða þær skuldir sem þessir hinir sömu eru að koma yfir á íslenskan almenning. Það blasir einnig við okkur aðgerðleysi og meðvituð þátttaka þeirra stjórnmálamanna sem hafa verið við völd og skópu aðstöðu með því að opna lög og reglugerðir og til að ástunda þessi viðskipti.

Margir spyrja hvers vegna stjórnmálaflokkarnir þá sérstaklega einn, sem hefur verið við stjórnvölinn á efnahagslífinu um árabil, eru svona tregir til þess að upplýsa um fjárhagsleg tengsl flokkanna við þessa auðmenn. Því er haldið fram að sumir stjórnmálamenn og æðstu embættismenn hafi hagnast umtalsvert á þessu brambolti auðmannanna. Þetta þarf að draga fram í dagljósið

Forsætisráherra hefur margendurtekið að hann ætli sér að halda áfram á sömu braut. Við getum þar af leiðandi átt von á að auðmennirnir birtist með hina földu peningana og kaupa eignir almennings á slikk og endurtaki leikinn.

Einnig má minna að það kom margoft fram hversu mikinn hag auðmennirnir höfðu af því að við værum með krónuna. Þeir nýttu sjóðina, sem þeir fengu að láni í bönkunum, til þess að taka stöðu gegn krónunni og högnuðust um milljarða á því, á meðan blæddi almenning vegna hækkandi vaxta og verðlags. Hvers vegna var aldrei gerð könnun á þessum leik? Er það runnið undan sömu rifjum og hræðslan við nornaveiðarnar?

Almenningur krefst þess að nú þegar verði menn dregnir til ábyrgðar, það gæti einmitt slegið á það að reiðin magnist og verði að skrímsli sem engin hafi stjórn á.

fimmtudagur, 23. október 2008

Hvar ósköpunum endar þetta?

Maður hefur verið að vona að einhvern tíma komi að því að Geir og félagar segji okkur rétt frá. T.d. var ég að vona að ummæli þeirra fyrr í vikunni væru rétt um að ástandið væri að skýrast og ekki eins slæmt og sumir hefðu haldið. Ég vonaði það líka í síðustu viku. Líka þegar Geir tilkynnti á sunnudagskvöldið að hann væri búinn að leysa þetta og þyrfti ekki að fá peninga lífeyrissjóðanna heim. Líka þegar Geir tilkynnti það í apríl síðastliðinum að botninum væri náð.

Hvað núna, eftir að búið er upplýsa samtal Árna við Darling. Þar kom t.d. fram að þeir hefðu vitað þetta um svikult ástand IceSave í nokkurn tíma, en samt sögðu þeir okkur og Englendingunum að þetta væri öruggt og héldu áfram að taka við peningum.

Og Geir var svo ósvífinn að biðja lífeyrissjóðina og koma heim með alla inneignir sjóðsfélaga. Svífast þessir menn einskis? Finnst þeim allt í lagi að spila með sparifé almennings?

Fer þetta svo að það sé ekki nóg að skuldsetja þjóðina sem svari eins árs landsframleiðslu, heldur að það stefni í að það verði a.m.k tveggja ára.

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að Geir og meðreiðarsveinar hans hafa verið að segja þjóðinni ósatt um allnokkurt skeið. Sama gildir um bankastjórana.

Ástæða þess að það dregst sífellt lengur að þeir ná ekki niðurstöðu við Alþjóðagjaldeyrissins verður alltaf ljósari.

Uppsagnir dynja yfir okkur. Fyrirtækin eru á síðasta benzíndropanum og það eru mánaðarmót eftir viku.

Reiðin kraumar og vex. Hvar verður útrás hennar? Hvar í ósköpunum endar þetta?

Ársfundur ASÍ

Ársfundur ASÍ hefst á morgun fimmtudag og stendur fram á föstudag. Fundinn sitja um 300 fulltrúar launamanna af öllu landinu. Víst er að staðan í íslensku þjóðfélagi verður efst á baugi. Jafnvel ofar en kosning nýs forseta. Fjölda manns er sagt upp á hverjum degi og það virðist stefna í enn fleiri uppsagnir. Umtalsverðir fjármunir úr lífeyrissjóðum launamanna og mikið sparifé hefur glatast og fyrir liggur að skuldsetja verður þjóðina sem svari rúmlega einni landsframleiðslu.

Sigmar sýndi flotta takta í Kastljósinu í kvöld. Honum tókst að draga fram áætlanir Geirs. Forsætisráðherra sendi almenning tóninn og sagðist ekki axla neina ábyrgð þó svo hann sé búinn að vera í forystu þess flokks sem hefur mótað þessa stöðu. Hann segist ætla halda áfram á sömu braut og hafnar alfarið að víkja seðlabankastjórn.

Stærsta vandamál íslenskrar þjóðar er fyrirhyggjuleysi. Stjórnmálamenn hafa borið í spákaupmennina veizluföng með stefnu sinni svo Þórðargleðin hafi getað haldið áfram. Skortur hefur verið á skipulagi og festu og vandamál leyst án þess að horfa fram á veginn. Lausn Geirs og hans flokks er að halda áfram með sama gjaldmiðil og bjóða landsmönnum í reglulegar rússíbanaferðir. Reisa 2 ný álver og stækka Ísal á næstu árum, sem kallar á allmargar virkjanir bæði sunnan og norðanlands.

Þetta mun leiða til þess að sama spenna myndaðist fljótlega aftur í efnahagslífinu með enn harklegri lendingu eftir 5 – 6 ár. Þetta er leiðin sem helstu hagfræðingar landsins hafa varað við, eins og t.d. Jónas Haralds gerði í Silfrinu fyrir skömmu.

Á ársfundi ASÍ verður væntanlega tekist á um hvert eigi að stefna. Stórir hópar bæði meðal launamanna og fyrirtækja hafa lýst því yfir að komið sé á leiðarenda þeirra efnahagstefnu sem stjórnvöld hafa valið. Breyta verði stjórn efnahafslífs og móta stefnu til lengri tíma og stefna á sambærilegan stöðugleika og er í nágrannalöndum okkar. Hreinsa verði til og byggja upp traust og auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs með vandaðri stjórn en hingað til hafi viðgengist. Því fer fjarri að það verði gert með þeim sem hafa verið við stjórnvölinn undanfarin ár.

Gríðarleg óánægja er meðal launamanna (sjóðsfélaga) hvernig stjórnvöld umgangast lífeyrissjóðina (sparifé) sjóðsfélaga. Það er eins og stjórnvöld telji að þetta fé sé til ráðstöfunar fyrir þjóðarheildina, þó svo fyrir liggi að einungis hluti þjóðarinnar eigi í lífeyrissjóðina. Verði tekinn upp ábyrgari peningstefna verður hægt að ná verðbólgu niður í 2 – 3 % og vöxtum á sömu slóðir. Hægt að afnema verðtryggingu og bjóða fólki lán á sömu kjörum og frændur okkar fá á hinum norðurlandanna.

Forysta allra launþegasamtakanna og atvinnulífs hafa lýst því yfir að þau séu tilbúinn til þátttöku í mótun stefnu fallist stjórnvöld á að taka til í efnhagslífinu. Annars sé það tilgangslaust, það vill svo til að launamenn, sjóðsfélagar lífeyrissjóða og félagsmenn stéttarfélaga er allt sama fólkið og það er líka kjósendur.

þriðjudagur, 21. október 2008

Skattsvik ofan á allt hitt

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Ríkisskattstjóra hefur hópur efnafólks skotið tekjum undan skatti. Þetta eru líklega þær tekjur sem þetta fólk hefur mokað út úr íslenska hagkerfinu inn á leynireikninga erlendis. Slóðin eftir útrásarvíkingana er skelfileg og Davíð hópaði ferfallt húrra fyrir þeim og hélt þeim ásamt forsetanum langar lofræður.

Nú sver hann þetta allt af sér og kallar þá sem vöruðu við stefnu hans eftiráspekinga og gerir gys af þeim. Sama gildir um helstu forsvarsmenn efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins, sem hafa mótað þessa stefnu og skapað henni rými. Þessir menn hafa mörg rústuð heimili á samviskunni ásamt því að vera valdir af því að margir hafi glatað lífeyrissparnaði sínum.

All mörgum var sagt upp í sumar og er uppsagnarfrestur þeirra að renna út núna um næstu mánaðarmót, þetta kom fram þegar forsvarsmenn verkalýðsfélaga bentu á að atvinnuástand væri ekki eins gott og forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins héldu fram fyrr í haust. Allmörgum hefur verið sagt upp í þessum mánuði og líkur benda til að enn fleiri verði sagt upp um næstu mánaðarmót.

Hingað til hafa stöður lífeyrissjóða og eignastýringasjóða bankanna verið óljósar, en það fer að skýrast. Það er hæðst af efnahagsstjórn Íslands um gjörvalla Evrópu og nafn Íslands beðið verulegan skaða. Hætt er við að reiðialdan meðal íslendinga muni vaxa hratt á næstunni og margir muni hverfa af landi brott. Hún hefur verið hroðvirkningsleg umfjöllun og andstaða Sjálfstæðisflokksins gagnvart endurskoðun efnhagsstefnunnar og afstöðu til ESB og Evrunnar. Það er því ekki að undra þótt margir Sjálfstæðismenn óttist og flokkurinn muni gjalda afhroð í kosningum, sem hljóta að verða haldnar áður en um langt líður.

mánudagur, 20. október 2008

Flón við stjórn

Á hverjum degi kemur fram hversu mikið umræðan á Íslandi einkennist að rakalausum fullyrðingum, klisjum sem tilteknir aðilar klifa á í síbilju. Þetta blasti við öllum þegar Kastljósið birti úrklippur úr fréttum undanfarinna ára fyrir helgi og var endurtekið í virkilega góðum Kompásþætti í kvöld.

Sama má segja um þær fullyrðingar sem settar hafa verið fram um þau skilyrði sem sett verði við aðkomu alþjóða gjaldeyrisvarasjóðsins. Sú umræða hefur einkennst af rakalausum hræðsluáróðri tiltekinna aðila.

Stjórnmálamenn gleymdu sér í gleðilátum með spákaupmönnunum og ollu með því mikilli upptöku á eignum almennings og verða auk þess að skuldsetja þjóðfélagið sem svarar einni árs landsframleiðslu.

Margir hafa glatað öllu sínu sparifé. Lífeyrisjóðirnir tapa miklu og gætu þurft að skerða lífeyri. Og stjórnmálamenn halda áfram á sömu braut með því að nýta eignir almennu lífeyrissjóðanna eins og þeir séu eign ríkisins. Jafnvel að hafa komið fram hugmyndir um að þjóðnýta þetta sparifé launamanna.

Manni er spurn hvernig forseti þessa lands geti litið framan í landsmenn, sama má segja um seðlabankastjóra. Þessir hinir sömu hafa verið virkir þátttakendur í gleðileiknum, en sverja í dag af sér alla vitneskju og haninn hefur ekki enn galað 3x. Á sama tíma settu stjórnmálamenn lög sem tryggja þeim ofureftirlaun sem tekin eru úr ríkissjóð.

Óheft framganga 30 spákaupmanna með fjármuni landsmanna og getuleysi stjórnmálamanna, (flón eins og þeir eru nefndir af virtum erlendum hagfræðingum) hefur leitt til þess að á Íslandi hefur niðursveifla orðið mun heiftarlegri en annarsstaðar. Þúsundir hafa glatað atvinnunni og fyrir liggur að þeim muni fjölga.

Fyrir liggja mikil átök milli sjóðsfélaga almennu lífeyrissjóðanna og stjórnmálamanna. Krafan mun beinast að því að stjórnmálamenn tryggi almennu lífeyrisjóðina með sama hætti og þeir hafa tryggt sinn lífeyrissjóð, auk þess að þeir afnemi lögin um eftirlaunasjóðinn.

sunnudagur, 19. október 2008

Hvað er í gangi?

Einkennilegur dagur. Jón Baldvin segir í Silfrinu að annað hvort tækjum við upp viðræður við alþjóða gjaldeyrissjóðinn, sem muni leiða til inngöngu í ESB eða það verði stjórnarslit. Nú sé barist við einn mann, Davíð.

Ráðherrar Samfylkingar sögðu á flokksráðsfundi að eina leiðin úr vandanum sé að Ísland fái heilbrigðisvottorð frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Þá muni seðlabankar ESB koma okkur til aðstoðar með leiðir til þess að koma efnahagslífinu í gang. Ekki var hægt að skilja Björn öðruvísi en svo í Mannamáli að hann væri þessu sammála. Ráðherrarnir Árni og Þorgerður snéru af sér fréttamenn og vildu ekki svara spurningum. Fram hafa komið ummæli Þorgerðar, þar sem ekki þarf mikinn vilja til að skilja á þann veg að hún sé í meginatriðum sammála viðhorfum Samfylkingarráðherranna.

En Geir kom í kvöldfréttirnar og sagði þvert á meðráðherra sína, að ekki standi yfir viðræður við IMF og ekkert í þá veru sé í burðarliðnum. Er það rétt hjá Jóni Baldvin að einn maður, sem ekki sé í ríkisstjórn, komist upp með að viðhalda þessu ástandi?

Davíð þjóðnýtti Glitni, það kallaði yfir okkur frjálst fall á lánshæfi þjóðarinnar og krónunni og hinir bankarnir féllu. Til að bjarga því lýsti Davíð því yfir að við værum að frá stórlán frá Rússum, en þeir könnuðust ekki við það. Ráðherrar okkar fóru í fjölmiðla með hinar og þessar yfirlýsingar og engin skildi hvert þeir voru að fara.

Davíð kom í Kastljósið og sagðist vera alsaklaus. Allir aðrir hefðu gengið annan veg en þann sem hann hefði kosið og kallaði þá sem dönsuðu hvað harðast eftir pípum markaðsins óreiðumenn og sagðist ekki myndi greiða erlendar skuldir þeirra. Vitanlega varð allt vitlaust. Fyrirliggja ræður hans á undanförnum árum, þar sem hann lýsir því hvernig markaðurinn leysti sjálfvirkt öll mál og efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins hefur einkennst af afskipta- og aðgerðaleysi. Hann sleppi bönkunum lausum og fagnaði velgengni þeirra. Frjálshyggjan byggir á því að engar reglur séu til. Þar skiptir hið mannlega engu. Þessu höfum við íslendingar heldur betur fengið að kynnast.

Fulltrúar Íslands hafa sýnt nágrannalöndum okkar mikinn hroka á undanförnum árum og aðgerðir þeirra í markaðsmálum lýst miklu vanhæfi, enda nýjir í þessari starfsemi. Fram hafa komið upplýsingar um að Landsbankinn hafi ástundað þá vafasömu iðju að auglýsa eftir innlánum í nágrannalöndum okkar með hærri ávöxtun en aðrir. Tilgangurinn hafi í raun verið að draga til sín fjármuni og flutt þá úr landi til Íslands til þess að geta haldið áfram pókerspilinu. Bankastjórinn var í drottningarviðtali og sagðist vera alsaklaus, eins er aðalinntak Moggans í dag og sama gildi um aðra í fjármálalífinu.

Ríkisstjórn landsins kristallast í Ólafi á Dagvaktinni. Almenningur krefst skýringa, eins og reyndar seðlabankar nágrannalanda okkar. Vitanlega liggur fyrir að ekkert verði gert til þess að hleypa okkur inn í alþjóðlegt efnahagslíf fyrr en við tökum til heima hjá okkur og fáum alvörufólk til þess að stjórna íslensku efnahagslífi.

Þetta er allt almenning að kenna, segja stjórnarþingmenn með Pétur Blöndal í broddi fylkingar. Almenningur keypti sér íbúðir, bíla og flatskjái um efni fram. Ekki nema von að allt efnahagslíf þjóðarinnar fari á hvolf og við séum orðnir óvinir flestra Evrópulanda og eigum bara eina von, Rússa. Við munum nýtum okkur þá þekkingu sem við öðluðumst í þorskastríðinu til þess að leggja seðlabanka Evrópa að velli, segja stjórnarþingmenn.

Ég var í boði í dag þar sem ég hitti nokkurn hóp ungs fólks. Allt háskólamenntað og vann í hönnun, nýsprota rafeindaiðnaði og við uppbyggingu í orkuiðnaði. Fjölskyldufólk nýlega komið heim, skuldum vafið. Allt menntað á norðurlöndunum og þekki þjóðfélögin þar vel. Öllu bar því saman um að næstu mánaðarmót verði brotpuntur. Á vinnustöðum þeirra væri búið tilkynna fjöldauppsagnir verði ekki snúið af þessari óheillabraut. Engin skyldi hvað væri í gangi, upplýsingar ráðherra væru svo ófullnægjandi og ruglingslegar.

laugardagur, 18. október 2008

Áfram á sömu braut!?

Það er í sjálfu sér ekki hægt að lesa annað úr þróuninni undanfarnar vikur, en að frjálshyggjumenn beiti öllum bröðgum til þess að halda völdum sínum á þjóðfélaginu. Reynt hefur verið að koma í veg fyrir aðkomu IMF og halda aftur af umræðu um ESB. Staðin er vörður um Davíð og hans kostulegu stjórn í Seðlabankanum, þrátt fyrir að það blasi við að þeir hafi valdið íslensku þjóðinni óbætanlegan skaða og lagt líf fjölda einstaklinga og heimila í rúst.

Í skjóli bakherbergja er unnið að því að að tryggja réttum vinum aðkomu og til að tryggja áframhaldandi völd með handröðun í stjórnir nýrra ríkisbanka og útvali hverjir fái að gæða sér á leifum bankanna. Þetta staðfestist svo glögglega þegar því var algjörlega hafnað að ræða við forstöðumenn lífeyrissjóðanna um að almenningur gæti fengið aðkomu að stjórn Kaupþings og skýrt sem svo að viðræður hefðu slitnað, þær fóru aldrei fram.

Dráttur á alvörutökum á stöðunni veldur almenning og fyrirtækjum gríðarlegum skaða. Fyrirtækin að verzlast upp og í hverri viku missa fleiri vinnuna. Það stefnir í algjört hrun um næstu mánaðarmót. Á sama tíma halda þingmenn einkennilegar ræður, sem staðfesta hversu lítið þeir vita um hina raunverulegu stöðu. Sett er umræðu á um að setja hvorn annan það verkefni að skrifa hvíta bók. Engin mun taka mark á þeirri bók komi einhver af stjórnmála- og bankamaður að því verkefni, svo maður tali nú ekki um þá Fjármálaeftirlitsmenn.

Hún var forvitnileg upprifjunin hjá Kastljósinu á Þórðargleðinni. Forseti, forsætisráðherra ásamt menntamálaráðherra böðuðu sig í skyni fjármálaguttanna, skelfileg niðurlæging fyrir þetta fólk. Verst fór Þórður Friðjónsson úr þessu og við blasir að í venjulegu þjóðfélagi væri starfsferli hans lokið fyrir nokkru. Búið er að rifja upp lofræður núverandi Seðlabankastjóra um afrek guttanna, svo maður tali nú ekki um ræður og greinar stjórnarmanna hans.

Ekki virðist standa annað til en að halda eigi áfram á sömu feigðarbraut, engu eigi að breyta. Frjálshyggjan sleppir ekki þeim völdum sem hún hefur náð á þjóðfélaginu og vill viðhalda kúgun sinni á launamönnum.

Hún er að verða einkennileg staða Samfylkingarmanna, orðnir samábyrgir því að stinga undan skýrslum þar sem sagt er fyrir um hvert stefni. Eins má benda á viðbrögð gagnvart umfjöllun Danske bank og fleiri aðila.

Dáldið einkennilegt en það eins VG menn haldi aftur af sér í von um að XD kippi þeim upp í og hendi Samfylkingunni út á næsta horni. Það er sama hvert komið er, fólk er búið að fá sig svo óendanlega fullsatt á stjórnmálamönnum dagsins í dag. Virðist ekki skipta neinu hvaðan þeir koma. Tiltrú á Alþingi íslendinga hvarf með bönkunum.

Útifundur í dag

Það verður útifundur á Austuvelli kl. 15.00 í dag þar sem forsvara peninga- og efnahagsstjórnarinnar verður mótmæli. Sjá hér

föstudagur, 17. október 2008

Hrun á byggingamarkaði

Nú fara svokölluð Dómínó áhrif um byggingamarkaðinn. Fyrirtæki sem töldu sig vera með prýðilega verkefnastöðu fyrir skömmu standa nú verkefnalaus.

Fyrirtæki og einstaklingar hætta við nýbyggingar, eða endurbætur á húsnæði. Hvert byggingarfyrirtækið á öðru þarf að segja sínu starfsfólki að það blasi ekki annað við að en uppsagnir.

Óvissa um stöðu banka. Lánaörðugleikar, jafnvel frost á lánamarkaði. Fólk eða fyrirtæki sem töldu sig vera með þokkalega eignastöðu hafa skyndilega tapað umtalsverðu af innistæðum sínum í eignastýringasjóðum og hlutabréfum.

Búið er að stöðva úttektir byggingarfyrirtækja hjá byrgjum nema gegn staðgreiðslu. Stöðugt minnkar vörumagn í byggingarverzlunum.

Allt er þetta afleiðing yfirspennu fjármálakerfis og skefjalausri græðgi útrásarvíkinga. Nú sitja þeir í villum sínum í London og snekkjumí New York. Hér heima er sviðin jörð eftir þá.

fimmtudagur, 16. október 2008

Nú er röðin komin að þeim

Eftir að hafa hlustað á umræður þingmanna undanfarna daga staðfestist trú mín að tilvist þeirra er tilgangslaus. Það eru ráðherrar og handvaldir embættismenn og aðstoðarmenn sem móta öll mál. Að þeirri vinnu koma þingmenn ekki, einu gildir hvort þeir séu stjórnarþingmenn eða í stjórnarandstöðu.

Þegar ráðherrar hafa svo komist að einhverri niðurstöðu þá er hún lögð fyrir þingmenn. Ef embættismenn eða aðstoðarmenn eru þeim ekki auðsveipir í mótun niðurstöðu eru þeir látnir fara. Síðan fara fram sýndarumræður í hæstvirtu Alþingi samansettar af klisjum og innistæðulausum fullyrðingum. Í sjálfu sér skiptir engu hvort einhver niðurstaða næst (sem reyndar gerist aldrei) eða lagðar eru fram breytingartillögur (þær eru alltaf felldar), stjórnarþingmenn þrýsta alltaf á „Já“ takkan í þinginu. "Umræðu lokið og áfram með sýndarveruleikann"; segir hæstvirtur þingforseti.

Þingmenn leggja stundum fram eigin frumvörp eða þingsályktunartillögur. Þær hafna í nefndum sem stjórnarþingmenn stýra. Ráðherrar ráða svo hvaða mál komast í umræðu nefnda og þaðan inn á þing.

Landsmenn og skattgreiðendur spurðu í fyrra ; Hvers vegna fengu þingmenn að setja kosningstjóra sína á launalista sem aðstoðarmenn? Fá stjórnmálaflokkarnir ekki fyllilega nægilega mikla styrki úr ríkissjóð? Af hverju erum við með 63 þingmenn og 34 aðstoðarmenn á glæsilegum launum þegar allt er skoðað. Kostnaðargreiðslur, þingfararkaup og svo ekki sé talað um lífeyrisréttindi.

Það er einfalt að fækka þingmönnum um helming. Við höfum ekki efni á því að halda þessu óbreyttu og halda uppi þessum óþarfa með skattpeningum okkar. Nú er verið að segja upp almennum launamönnum í þúsundavís um allt þjóðfélagið. Röðin er núna kominn að þingmönnum. Þeir eiga að axla sína ábyrgð.

Af hverju erum við með 3 seðlabankastjóra, á meðan aðrar þjóðir, sem eru að spjara sig mörgum sinnum betur en við, eru með einn. Af hverju eru íslenskir seðlabankastjórar með helmingi hærri laun en seðlabankastjórar annarra landa (þegar allt er talið)? Af hverju erum við með einhverja úrelta þingmenn í stjórn Seðlabankans ásamt einhverjum prófessor í sagnfræði sem allir gera grín að? Þessir menn fá góð meðalheildarmánaðarlaun almenns verkafólks á mánuði fyrir fundarsetu. Auk þess eru þeir að eftirlaunum og prófessorinn er að auki á fullum launum í Háskólanum. Þetta lið hefur sýnt fullkomið getuleysi og eru hafðir að spotti í öllum fjármálatímaritum heimsins.

Þingmenn hafa komið því þannig fyrir að ávinnsla í lífeyrisréttinda þeirra er mun hraðari en hjá öðrum landsmönnum. Þeir geta farið á lífeyri þegar þeir eru 55 ára. Við þurfum að vinna til 67 ára aldurs. 12 árum lengur. Mótframlag ríkissjóðs í lífeyrissjóð þingmanna til þess að standa undir þessum kostnaðarauka er 45% á meðan hann er einungis fjórðungur af því hjá almennum starfsmönnum. Lífeyrisréttindi þingmanna eru verðtryggð með framlögum úr ríkissjóð, á meðan við hin verðum að búa við skerðingu réttinda okkar vegna þess að lífeyrissjóðir okkar fá ekki bættan sinn skaða úr ríkissjóð og eru þar að undirstaðar þess að hægt sé að bjarga málunum.

Við hin erum þessa dagana að tapa umtalsverðum lífeyrisréttindum vegna þess að þingmenn sinntu ekki eftirlitsstörfum sínum. Röðin er núna kominn að því að þeir axli ábyrgð og lífeyrisréttindi þeirra verði sett í sama far og hjá almennum launamönnum.

Auk þess verður að afnema Eftirlaunafrumvarpið gjörspillta. En það veitir ráðherrum, seðlabankastjóra, forseta Íslands og æðstu embættis mönnum gríðarlega mikil sértæk réttindi sem kosta skattgreiðendur 600 millj. kr. Hér er um að ræða liðið sem hefur farið um heimsbyggðina með auðmönnunum og hrósað sér fyrir glæsilegan árangur í (ó)stjórn efnahagsmála Íslands. Röðin er núna kominn að því að þeir axli ábyrgð á aðgerðaleysi sínu og óábyrgum athöfnum. Allt í kringum þessa menn liggja í valnum gjaldþrota einstaklingar og heimili.

Með ofangreindum tillögum væri hægt að spara á þriðja milljarð. Ekki veitir af því þá þarf ekki að draga eins mikið saman þjónustu og ekki segja upp sjúkraliðum, kennurum og öðrum ríkisstarfsmönnum.

þriðjudagur, 14. október 2008

Hvað gerist með inngöngu í ESB?

Hef setið nýlega tvær ráðstefnur um Evrópusambandið með þekktum hagfræðingum og háskólakennurum. Þar hefur komið m.a. fram hvað gerist ef við göngum í ESB :

Vextir munu lækka í sama vaxtastig og þeir eru á evrusvæðinu, eða á um 4% og 5% óverðtryggt á húsnæðislánum. Þetta þýðir að vaxtagreiðslur af 20 milljóna húsnæðisláni lækka um 700.000 krónur á ári. Til þess að vinna sér inn fyrir þeirri upphæð þarftu að afla um 1.3 millj. kr., eða 3ja mánaða meðallauna launamanna.

Íslenskir bankar munu fá traustan lánveitanda til þrautavara í Seðlabanka Evrópu.

Viðskipti við evrusvæðið munu aukast um 60% og landsframleiðsla um 6% til 8%.

Matvælaverð mun lækka 25%, skór og föt um 35% og almennt verðlag um 15%.

Gengissveiflur gagnvart evru munu hverfa og viðskipakostnaður mun þurrkast út.

Í daga fara um 70% utanríkisviðskipta við ESB svæðið og þar af um 50% við evrusvæðið.

Við höfum sett í íslensk lög um 75% af reglum ESB auk alls sem viðkemur vöruviðskiptum, fjármálaviðskiptum, þjónustuviðskiptum og frjálsri för starfsmanna.

Komið verður í veg fyrir kvótahopp, a.m.k. helmingur landanna í heimahöfn. Helmingur sjómanna með varanlega búsetu. Raunveruleg efnahagsleg tengsl. Fullkomið tollfrelsi þegar við inngöngu fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Fyrir liggur að traust erlendis á Íslandi er í núlli, en samt sem áður lýsir hver ráðherra Sjálfstæðisflokksins á fætur öðrum því yfir að ekki standi til að breyta efnahags- og peningastefnunni. Þeir lýsa yfir stuðning við Davíð Oddsson og hans stefnu auk þess að þeir vilji ekkert hafa með ESB að gera og minnka þar ennfrekar á álit og traust okkar meðal Evrópulanda.

sunnudagur, 12. október 2008

Verðum við öflugri þjóð?

Kjartan kveður Davíð og hallar sér að Geir. Nú er barist af miklu afli bak við tjöldin hvaða fyrirtæki fá að lifa og hverjum verði slátrað. Gammarnnir eru komnir á kreik og nýta sér öll brögðin í bókinni til þess að skapa sér stöðu í þessum hremmingum.

Gamblað er með fjármuni almennings í formi væntanlegra skatta og sparifénu í lífeyrissjóðunum. Valdastéttin er að skipa nefndir sem eiga að ákveða hvaða fyrirtæki fá að kaupa niðurfærsluheimildir á skuldum sínum. Þessar nefndir fá gríðarleg völd í hendur og eiga að standan utan ákvæði gildandi laga um gjaldþrot og jafnræði kröfuhafa.

Mogginn fagnar og boðar í dag að við verðum öflugri þjóð og nú séu mikil tækifæri. Er að endurfæðast sú staða þegar spilling stóð sem hæst á Íslandi og Mogginn var alvaldur umræðunnar? Handvaldir einstaklingar sem njóti velþóknunar valdahafanna fái að velja hverjir fá áheyrn hjá nefndunum og á hvaða gengi skuldaviðurkenningin verður keypt.

Ráðgjöfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er haldið utan dyranna, því óttast er að þeir muni koma í veg fyrir áformin. Í stað þess að við gætum séð fram á að hér skapist tækifæri til að leggja grunn að alvörusamfélagi er uppi sú hætta að horfið verði aftur til spillingartímabils ofurvaldastéttanna.

Verður ekkert gert í því að lagfæra siðgæði í viðskiptum og athöfnum stjórnvalda?

laugardagur, 11. október 2008

Afvegaleitt siðferði

Hér áður fyrr smöluðu stjórnvöld saman bændum og búaliði og sendu þá í hernað til þess eins að stækka þau svæði sem þeir gætu skattlagt. Stjórnvöld skiptu engu hversu margir féllu, einungis að markmiðum þeirra væri náð. Flest lönd utan BNA hafa lagt af þetta hátterni sem þáverandi forsætisráðherra lýsti velþóknun sinni á fyrir okkar hönd.

Það er markaðshyggjan sem hefur komið í staðinn. Siðferði markaðshyggjunnar boðar að allt sé heimilt svo framarlega að það leiði til hagnaðar. Þeir sem voru stjórnvöldum frjálshyggjunnar þóknanlegir fengu að kaupa eignir almennings. Þessi hin sömu stjórnvöld ráðskast þessa dagana með lífeyrissjóði almennings eins og hann sé þeirra eign. Þeir nýttir til þess að lágmarka tap stjórnvalda og fyrirtækja. Spilað er með ráðdeild launamanna sem lagt hafa fyrir 12 – 15% af launum sínum til þess að geta varið síðustu æviárunum í áhyggjuleysi.

Eins og áður er það almenningur sem liggur í valnum og mörg heimili í rúst. Það blasir við að vöruverð mun hækka vegna stöðu krónunnar og skattar verði hækkaðir umtalsvert á komandi árum til þess að greiða upp þær skuldir sem ríkissjóður verður að steypa sér í til þess að græða upp sviðna slóð frjálshyggjumanna og stjórnmálamanna þeirra. Ekki hefur borið á ætlan stjórnvalda til þess að afnema sértækan eftirlaunasjóð sinn og heldur ekki ríkissábyrgð af þeirra eigin lífeyrissjóð.

Þessi sömu stjórnvöld hafa hafnað ábendingum um að krónan standist ekki og við þyrftum að tryggja okkur betur í samfélagi þjóða. Þessu höfnuðu stjórnvöld sakir þess að þau sáu fram á að völd þeirra myndu takmarkast. Sama er núna upp á teningnum í afstöðu þeirra til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Tap íslenks almennings er af þessum sökum margfalt meiri en gerist í nágrannalöndum okkar. Nú leita íslensk stjórnvöld á náðir þessa samfélags sem þeir hafa úthúðað og eru svo fáránlega blindir að vera hissa á því að þeim sé ekki tekið með opnum örmum.

Nú eru þau fyrirtæki sem almenningur átti áður komnar aftur í hendur ríkissjóðs. Og þingmenn frjálshyggjunnar eru strax farnir að boða endursölu þeirra. Þessi fyrirtæki eru eign almennings. Hann hefur lagt út fyrir þeim með þeim fjármunum sem stjórnvöld eru að hirða úr almennu lífeyrissjóðunum.

Það er sannarlega kominn tími til þess að íslendingar taki sig til og losi sig við þá stjórnmálamenn sem við höfum haft og búi til alvöruþjóðfélag. Við þurfum að losna við þau síldarævintýrissjónarmið sem marka gerviveröld stjórnmálamanna. Losna við það siðferði sem markað hefur ráðandi stjórnmálamenn okkar daga, sem snýst um það eitt að selja og græða. Losna við þá stjórnmálamenn sem hafa nýtt hvert tækifæri til þess að úthúða samtökum launamanna og það sem þau hafa staðið fyrir.

Þessa dagana eru þessir hinir sömu stjórnmálamenn að nýta það sem samtök launamanna hafa byggt upp til þess að bjarga sér úr þeirri glötun sem þeirra eigin stefna hefur kallað yfir okkur.

föstudagur, 10. október 2008

Hvar eru aurarnir?



Jón Ásgeir ætlar að koma í Silfrið. Þar fáum við vonandi að vita hvers vegna Brown er svona vondur við okkur og hvar aurarnir eru.

Er það rétt að í kjölfar viðtals Seðlabankastjóra við sjálfan sig í 45 mín. í Kastljósinu um að hann væru fórnarlamd og hefði ekki ráðið við eitt eða neitt. Engin hafi farið eftir hans ráðleggingum.

En það væri fínt ástand að geta þurrkað út erlendar skuldir og hann hafi svo látið flytja inneignir af breskum bankareikningum heim. Þá hafi Brown vitanlega ofboðið.

Verðtrygging

Verðtrygging er oft í umræðunni vegna mikillar verðbólgu, sem veldur því að Seðlabankann hækkar sífellt stýrivexti, sem veldur svo vaxandi greiðslubyrði verðtryggðra lána.

Með óverðtryggðu láni greiðir lántakandi jafnar afborganir ásamt vöxtum. Vextir gætu verið fastir yfir allt lánstímabilið, sem leiddi til þess að lántakandi greiddi sömu krónutölu á hverjum gjalddaga. Í sveiflukenndu efnahagslífi eins og það er á Íslandi með sína krónu og venjubundnum sveiflum, yrðu vextir að vera breytlegir sem fylgja vöxtum Seðlabankans og afborganir myndu sveilfast gríðarlega.

Ef tekið er verðtryggt lán er samið um í stað þess að greiða þá háu vexti sem eru á óverðtryggðu lánunum greiði lántakandinn mun lægri vexti. Í í stað þess hækkar lánið sem nemur verðlagi í landinu. Lántakandinn fær í raun nýtt lán um hver mánaðarmót fyrri helming lánstímans. Sá hluti er nefndur verðbætur.

Ef lántakandi tekur verðtryggt húsnæðislán þarf hann t.d. að greiða 5% vexti ásamt verðtryggingu sem fylgir verðlagi. Ef hann tæki óverðtryggt lán væru vextir nú yfir 18%. Verðtrygging er mun heppilegra fyrir lántakandann, þar sem greiðslubyrði verður vex þegar hann hefur meira á milli handanna.

Lántakandinn hefur mun jafnari greiðslubyrði ef hann tekur verðtryggða lánið. Auk þess veitir verðtryggingin bönkunum meira öryggi á láninu. Almennt eru verðtryggð lán hagstæðari en óverðtryggð.

Ef banna á lánastofnunum að veita verðtryggð lán mynda það valda því að valið yrði tekið af lántakandanum og hann sæti uppi með óverðtryggða lánið á mun hærri vöxtum og ójafnari greiðslubyrði. Verðtrygging á núverandi lánum yrði óbreytt. Þessi leið væri gerleg, en engum til hagsbóta. Bankar þurfa að fá lánaða þá peningar sem þeir lána út og greiða vexti af því. Hagstæðustu lán sem bankar fá eru á stýrivöxtum Seðlabankans.

Ef breyta á þessu verðum við að losna við hina sveiflukenndu krónu og komast í tryggt efnahagslíf eins og er t.d. í Evrulöndum.

fimmtudagur, 9. október 2008

Ómálefnanlegt óefni

Ríkisstjórnin fór þess á leit í síðustu viku við launamenn að þeir flyttu hingað heim helming erlends sparifjár síns, eða um 200 milljarða. Því var svarað að það kæmi ekki til greina nema að tekið væri til í efnahagslífi og lögð plön um hvert menn ætluðu að stefna. Þetta fór í taugarnar á ráðherrum og sagt að nú væru launamenn að fara út fyrir valdsvið sitt og því varð ekkert úr þessu.

Ekki virtist vera farið fram á það sama við auðmennina sem hafa tröllriðið íslensku fjármálalífi undir lofræðum seðlabankastjóra og fylgisveina hans. "Þá hafa þeir með góðum árangri sótt á erlenda lánamarkaði..........Bankarnir hafa farið mikinn í útrás sinni á undanförnum árum. Seðlabankinn telur að flest bendi til að vel hafi til tekist í fjárfestingum þeirra í útlöndum"; Davíð Oddsson á ársfundi lífeyrissjóða maí 2006.

Óþarfi er að rekja aðferðir þeirra, það hefur verið gert á svo mörgum stöðum á undanförnum vikum. Nú er svo komið að allmargir milljarðar af sparifé launamanna í lífeyrissjóðunum eru horfnir sakir þess að sjóðunum hefur verið gert með lögum frá Alþingi að fjárfesta fyrir ákveðið hlutfall hér heima. Ekki hefur verið hægt að uppfylla það hlutfall öðruvísi en að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum auðmannanna.

Nú er komið í ljós að mörg þessara bréfa eru lítils virði. Áður öflug fyrirtæki eins og Eimskip og Flugleiðir standa eftir í rústum einum. En auðmennirnir komu sparifé sínu fyrir erlendis. Lífeyrissjóðir almennra launamanna verða sumir hverjir líklega að fella eitthvað réttindi á næsta ári, því samkæmt lögum sem Alþingi setti verða þeir að eiga fyrir skuldbindingum. Sömu alþingismenn settu líka lög um að lífeyrissjóður tiltekinna opinberra starfsmanna fái bætur úr ríkissjóð um áramótin eigi hann ekki fyrir skuldbindingum.

Af framangreindum ástæðum er ekki langsótt hvers vegna að vaxandi fjöldi launamanna er farinn að krefjast þess að mun stærri hluti sparifé í lífeyrissjóðunum verði geymt á Evrusvæðinu, jafnvel allt, nema þá að alþingismenn setji samskonar ríkisstryggingu á lífeyrissjóði almennra launamanna og þeir hafa sjálfir samkvæmt lögum hafa sett á sjóði sem eru þeim þóknanlegir.

Breytingar strax

Nú duga ekki lengur „lambið leikur sér í haganum og sólin skín í heiði“ ræðurnar hjá stjórnmálamönnunum. Stjórnarþingmenn fara út og suður og þeir sem hafa hrópað hvað hæst um að ekki megi benda á sökudólga þegar rætt er um afdrifaríkt aðgerðaleysi í efnahags- og peningamálstjórninni, beina spjótum sínum að eyðslu almennings undanfarin ár.

Þeir hinir sömu hafa hrósað sér af því að hafa fimmfaldað gjaldeyrisvarasjóðinn staðið sig svo vel. Í dag segja þeir í fjölmiðlum að það sé Seðlabankanum að kenna að gjaldeyrisvarasjóðurinn hafi ekki verið stækkaður nægjanlega.

Ágæt yfirferð er um lofræður Seðlabankastjóra um útrásarvíkingana og sjálfhælni hans í Fréttablaðinu í dag.

Stjórn Seðlabanka verður að víkja, strax.

Vextir verða að fara niður í 8% fyrir helgi.

Sækja verður um inngöngu í ESB.

Fá verður fjárhagslega aðstoð frá Norðurlöndunum og jafnvel tæknilega aðstoð frá fleiri aðilum ef það verður til þess að ró komist á. Frændur okkar hafa gengið í gegnum einkavæðingu bankakerfisins og þurftu að taka við því aftur og fara í gegnum mikla hreinsun. Á þetta hlustuðu stjórnendur íslensks efnahagslífs ekki og héldu út á þessa braut hugsunarlaust og án þess að búa sig undir hugsanleg áföll.

Nú þurfa allir að taka höndum saman og hefja uppbyggingu. Það verður ekki gert nema til staðar sé traust á þeim sem eru við stjórnvölinn. Það traust er ekki til staðar í dag. Sjálfstæðismenn segja að þetta sé ekki hægt vegna þess að þá klofni flokkurinn. Almenning er slétt sama um einn stjórnmálaflokk. Hann vill alvöruþjóðfélag með stöðugleika og samskonar efnahagslífi og þekkist í nágrannalöndum okkar. Það er nóg komið af sjálfhælni og heimatilbúinni gerviveröld þeirra stjórnmálamanna sem hafa verið við völd hér undanfarna tvo áratugi.

miðvikudagur, 8. október 2008

Ekki tala um sökudólga

Nú er ekki tími til þess að leita uppi sökudólga“ hafa nokkrir þingmenn klifað í á hverju einasta samtali undanfarið. Svo kemur í Kastljósið fyrrverandi forsætisráðherra og nú seðlabankastjóri og beinir spjótum sínum að öllum öðrum en sjálfum sér í drottingarviðtali. Hann fékk meir að segja allt Kastljósið.

„Ég var alltaf á móti þessu“ endurtók hann í hvert skipti sem eitthvað bar á góma. En svo vildi til að þá var alltaf um að ræða eitthvað sem hann hefði sjálfur átt sem forsætisráðherra eða seðlabankastjóri að sjá um að tekið yrði á. "Þetta er allt götustrákum, brennuvörgum eða þá undirmönnum mínum að kenna. En ef ég fæ að halda áfram á minni braut reddast þetta mjög fljótlega". Ef einhver hefur skrifað uppsagnarbréfið sitt í beinni útsendingu þá var það Davíð í gærkvöldi.

Við skulum frekar tala um þá miklu möguleika sem við höfum“, segja stjórnarþingmenn. „Við getum selt Kárahnjúka strax á morgun“ hefur Pétur Blöndal margendurtekið. Við eigum ekki krónu í Kárahnjúkum, hún er skuldsett upp í topp. Meir að segja eru þar enn að störfum við uppbyggingu vel á fjórða hundrað manna og verða næstu mánuði.

Það væri mikið betra ef stjórnmálamenn vendu sig á vandaðri málflutning og betur ígrunaðan. Ekki klisjur. Óvissan sem fer verst með fólk. Mjög mörgum líður ákaflega illa bæði vegna þess að lánin hafa hækkað ofboðslega og ekki síður ef litið er til atvinnuöryggis.

Ég neita því ekki að ég var dáldið hræddur við útifund Bubba, en hann stjórnaði þessu vel. Ég var hræddur um að fundurinn myndi snúast upp í stjórnlaust reiðikast fjöldans gegn stjórnmálamönnum. Sú reiði kraumar víða í samfélaginu. Alls ekkert síður en til fjárfestingaguttanna. Hvar eru þeir annars? Spyrja margir, eru þeir allir í felum erlendis?

Sú stefnumörkun sem unnið er að verður að vera snörp, markviss og öflug. Hún verður ekki unnin í bakherbergjum af stjórnmálamönnum. Ekki síst hversu takmarkaða þekkingu þeir hafa á því hvernig atvinnulífið virkar, eins og var svo áberandi í svörum þeirra fram á sunnudagskvöld. En við fengum öll ískalda gusuna framan í okkur á mánudagsm0rgun. Það eru engir hæfari til þess að byggja atvinnulífið upp en þeir sem þar starfa. Þegar það kemst á fullt verður stóra ryksugan tekinn fram og hreingerningar hefjast.

þriðjudagur, 7. október 2008

Einn á móti öllum

Einkennilegt. Einn maður berst við alla hagfræðinga landsins, alla hagfræðinga heimsins, alla stjórnmálamenn landsins, alla bankastjóra landsins. Allir hafa rangt fyrir sér, nema hann.

Hann vildi ekki leyfa bönkunum að stækka, en samt gerðu þeir það á meðan han sat í sæti Seðlabankastjóra.

Hann vildi ekki sleppa bönkunum lausum, en samt var bindiskylda afnumin meðan hann sat sem forsætisráðherra þegar það var gert.

Hann vildi stækka gjaldeyrisvarasjóðinn en samt var frekar ákveðið að lækka skatta.

Við höfum það svo gott að hans mati. Það kemur reyndar ekki fram fyrr eftir tvær þrjár vikur. Bara ef verkalýðshreyfingin sætti sig ástandið þó að kaupmáttur hafi hrapað um 10%, gengið fallið um 90% og launamenn semji við hann og Seðlabankann að gera engar kröfur um úrbætur.

Hverjum á að vorkenna; þessum eina manni eða öllum landsmönnum?

Alið á óvissu

Óvissa er versta ástand sem hægt er að bjóða upp á. Það veldur vanlíðan. Seðlabankastjóri ásamt forsætisráðherra hafa að undanförnu ítrekað sent rangar upplýsingar til almennings og út í heiminn. Vakið væntingar sem verða svo að engu skömmu síðar. Loðin viljayfirlýsing verður að risalánasamning er það nýjasta. Samtímis lýsa norrænir ráðherrar því yfir að ekki hafi verið rætt við þá um aðstoð. Forsætisráðherra hefur haldið hinu gagnstæða fram undanfarið. Stjórnendur íslensks efnahagslífs hafa rúið sjálfa sig og um leið okkur hin öllu trausti.

Hannes Hólmsteinn sagði í viðtali við Moggann á laugardaginn að kapítalisminn hefði ekki brugðist. Það væru einstaklingar sem gæfu sig út fyrir að vera kapítalistar sem hefðu valdið svona miklum skaða. Hannes fullyrðir setja verði þá kapítalista sem ekki eru honum þóknanlegir út fyrir sviga og handvelja þá sem mega vera kapítalistar. Stofnað verði Gróðapungaeftirlit Ríkisins sem velji nothæfa kapítalista (hér er vitnað í texta Péturs Tyrfingssonar).

Karl Marx setti fram á sínum tíma kenningar um jöfnuð. Norðurlandamódelið byggir að hluta til á því sem þar stendur. Aðeins austar völdu nokkrir sjálfa sig til þess að sjá um útfærsluna, sem endaði með slíkum ósköpum að þeir urðu að grípa til þess að taka allnokkrar milljónir manna úr umferð sem neituðu að trúa á Sovétið með slátrun og/eða fangabúðum. Svo kom að Sovétið lagðist á hliðina sem betur fer.

Frjálshyggjumenn hafa óhikað í umræðum sett samasem merki milli Sovétsins og norðurlandajafnaðarmennsku. Á grundvelli þessa er því haldið fram að frjálshyggjan hafi unnið umræðuna! Þetta upplýsir okkur um hvernig háskólaprófessor vinnur að gagnasöfnum og úrvinslu staðreynda. Haldnar voru miklar ráðstefnur fyrir ári þangað sem helstu boðberum frjálshyggjunnar var stefnt. Eitt helsta innleggið var að lofsyngja ameríska módelið og gera lítið úr því norræna.

Hannes hefur ásamt skoðanabræðrum sínum á undanförnum áratug verið í þeirri stöðu að halda uppi „gróðapungaeftirliti“ fyrir hönd okkar hinna sem hér búum. Reyndar fór í taugarnar á þeim að hagfræðingar Þjóðhagstofnunar væru þeim ekki sammála. Þá voru tekinn upp vinnubrögð Sovétsins og Þjóðhagstofnunarmenn reknir í útlegð, stofnunin lögð niður, húsið selt og kaffikanna starfsmanna send á notað og nýtt markaðinn.

Við sjáum í dag hvernig til hefur tekist. Íslendingar sem fylgjast með umræðunni muna vel lofgreinar frjálshyggjumana um gróðapungana. Þar vísa ég til innihalds lofræðanna um gróðapungana sem fluttar voru í síðustu kosningarbaráttu og hvernig var tekið á ábendingum um að þær væru rangar. Hausnum barið við hólmsteininn og því hafnað að taka upp á borðið umræður um gjaldmiðilinn, einungis því haldið fram að við værum best í heimi. Líka stórust.

Pólitískt uppgjör blasir við

Nú liggur fyrir að ameríkanasering Íslands mistókst herfilega. Misskipting hefur vaxið gríðarlega og almenning blæðir. Bankaguttarnir högðuðu sér eins og við var að búast, gengu út í teygjuna eins og hægt var, en því verður ekki breytt að það voru pólitískt kjörnir fulltrúar sem stjórnuðu og settu línurnar.

Fyrir liggur að halla sér aftur að norðurlandamódelinu. Þau þjóðfélög eru að takast á við afleiðingar bankakreppu, en vandamálin eru fjarri því að vera í grend við það sem er hér gengur á. Ísland hefur glatað áliti í nágrannalöndum eins og ég hef rakið oft hér á þessari síðu. Það þurfum við að endurvinna.

Ekki komu „vinir“ okkar í vestrinu til hjálpar.

Það liggur fyrir pólitískt uppgjör hér á landi við þá sem hafa farið með efnahagsstjórnina síðan 1994 innan ekki mjög langs tíma.

mánudagur, 6. október 2008

Allir eiga að vera vinir

Maður verður var við mikla reiði meðal fólks hvernig komið sé. Reiðin beinist gegn stjórnmálamönnum sem lifi í eigin veröld, án tengsla við þjóðfélagið. Þess er krafist að stjórnmálamenn og embættismenn verði látnir bera ábyrgð.

Sjálfumglaðir og getulausir stjórnmálamenn af hægri kantinum böðuðu sig upp úr þeim ljóma sem var í kringum fjármálaguttana. Þeir sem hafa verið við stjórn efnahagsmála undanfarin tæp 20 ár lögðu sérstaklega upp úr þessum ljóma í síðustu kosningum og sendu þeim tóninn sem bentu á að spilað væri of hátt og gengið væri rangt skráð.

Spilað var með þá sem áttu að gæta hagsmuna almennings og þeir hugðu ekki að sér. Nú hlaupa þeir í skjól og vilja ekki bera ábyrgð. Það er hætt við að reiði almennings vaxi enn frekar ef svo fer að almennu lífeyrissjóðirnir tapi miklu og lækka verði réttindi í þeim sjóðum, á meðan lífeyrissjóðir ráðherra, þingmanna og tiltekinna opinberra starfsmanna sækja tap sinna lífeyrissjóða í ríkissjóð og þurfi ekki að lækka réttindi. Ásamt því að hafnað verði að afnema eftirlaunafrumvarpið.

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna var að ganga frá verksamningum við erlent byggingarfyrirtæki upp á liðlega 2 milljarða á meðan innlend fyrirtæki fara á hausinn. Og þeir skrifa greinar um að allir eigi að vera vinir og ekki eigi að leita að sökudólgum.

Gjaldþrot efnahagsstjórnar

Öll könnumst við þá klisju stjórnarþingmanna og ráðherra um að nú verði almenningur að sýna ábyrgð og axla byrðar. En ef almenningur svarar með því að það geti gengið, en þá verði stjórnmálamenn að taka sinn þátt í því og axla ábyrgð á eigin mistökum. Þá súpa ráðherrar og stjórnarþingmenn hveljur, og hrópa í vandlætingu að nú ætli almenningur að taka sér völd sem hann hafi ekki.

Undanfarna hefur forsætisráðherra messað yfir þjóðinni um að nú sé allt að fara endanlega á hausinn og hann geti ekki bjargað eigin mistökum og félaga síns í Seðlabankanum, nema hann fái að höndla 200 milljarða af sparifé landsmanna. Honum var svarað af yfirvegarðri ábyrgð stjórnarmanna sjóðsfélaga, ef það bjargaði málinu þá væri þá væru þeir tilbúnir að skoða málið, en þá yrði hann að uppfylla ákveðin skilyrði.

Peningarnir verði settir til Seðlabanka gegn góðri ríkistryggingu og tryggri ávöxtun, ekki í bankahítina. Bankarnir komi með umtalsverðar fjárhæðir til landsins og selji eignir erlendis, ásamt því að settar voru fram kröfur um bann við skortsölu og stöðutöku gegn krónunni. Auk þessa var sett fram sú krafa að ríkisstjórn endurskoði ýmislegt hvað varðar efnahagskerfið. Seðlabankanum hafi orðið á mikil og endurtekin mistök, sem hefðu leitt yfir þjóðina miklar ófarir.
Á meðan nágrannaþjóðir okkar búa við að verðbólga hækki úr 4% í tæp 6% og full stjórn er á efnhagskerfinu, þá geysar fárviðri hér og Seðlabanki verður að leita í sparifé launamanna til þess að setja í nauðvarnir. Upp til hópa hefur nú um helgina komið fram sú krafa að stjórn Seðlabanka verði vikið frá strax og nú þegar hafin endurskoðun á stjórn efnahags- og peningamála. Ef það leiði til þess að skipta þurfi um gjaldmiðil, þá verði þegar að hefja vinnu við það. Okkur hefur verið svarað með daufum viðbrögðum ríkisstjórnar og í viðtölum við forsætisráðherra hefur komið fram ráðaleysi og tregða við óskum lífeyrissjóða og sjónarmiðum sjóðsfélaga.

En ASÍ kallaði saman um 200 þeirra um helgina og fundaði með þeim. Mjög margir sjóðsfélagar hafa haft samband við stjórnarmenn lífeyrissjóðanna og sett sig á móti þess og krafist þess að gætt verði ítrustu varúðar ef til kæmi að flytja heim eignir lífeyrissjóða og kaupa ríkisskuldabréf. Sparifé launamanna eigi ekki að komast í hendur ríkisstjórnar og stjórnarþingmanna, sem algjörlega hafi brugðist skyldum sínum.

Þjóðinni er á hverjum sunnudegi boðið upp á það í Silfri Egils að stjórnarþingmenn afhjúpa sig og reyna að víkja sér undan ábyrgð gjörða sinna með ósannfærandi og misvísandi fullyrðingum og rakalausum klisjum. „Við höfum fimmfaldað gjaldeyrisvarasjóðinn“ Ekki er svarað hvers vegna það var ekki gert þegar það átti að gera það, í stað þess var milljörðum sóað í ábyrgðarlaus kosningaloforð um skattalækkanir sem síðan juku á þennsluna um allan helming. Ekki er svarað hvers vegna við erum með 50% skuldatryggingaálag, 16% verðbólgu, hátt verðlag og hæstu vexti í heimi.

Við þjóðinni blasir gjaldþrot efnhagsstefnu og ráðþrota stjórnarþingmenn með allt niðrum sig. Takk fyrir Egill að afhjúpa þá. Haltu því áfram.

sunnudagur, 5. október 2008

Af hverju?

Það sést vel í dag hver munurinn er á Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Í Fréttablaðinu er fagleg umfjöllun um stöðu mála og hvað aðilar eru að fjalla um og hvers vegna. Á meðan Morgunblaðið stillir málinu upp á sinn venjubundna hátt í flokkspólískt hanaat og berar sig á forsíðu enn einu sinni sem ómerkilegt málgagn tiltekinna sjónarmiða innan úr Sjálfstæðisflokknum. Það er langt síðan ég hef séð jafnómerkilega uppstillingu og það á svona tímum.

Erlend fjárfesting lífeyrissjóðanna er hugsuð sem áhættudreifing, einmitt ef allt fer í kalda kol hér á Íslandi. Þá hafi launamenn ákveðinn varasjóð á öðrum efnahagssvæðum. Það er ekki áhættulaust að koma með þessa fjármuni heim, þó svo að ríkistrygging sé sett á móti. Á þessum forsendum var ríkisstjórninni gerð strax grein fyrir því að það væri ekki svo einfalt að fara bara fram á heimflutning erlendra eigna lífeyrissjóðanna eins og hún gerði í upphafi. Það þyrfti að koma fleira til. T.d. að aðrir leggðu líka eitthvað til.

Gerð er krafa um að þessir fjármunir fari ekki þráðbeint í hítina sem Seðlabankinn setti okkur í með því að kvitta upp á að íslendingar gengu í ábyrgð fyrir öllum skuldum Glitnis. Við það féll vitanlega tryggingarálag okkar í 5000 punkta!! Um er að ræða sparnað launþega og stjórnvöld geta ekki spilað með hann eins einhverja skiptimynt og einhverjum skyndilausnum líðandi stundar.

Af hverju gerði ríkisstjórnin ekki líka kröfu um að þeir sem hafa fengið gjaldeyririnn okkar að láni komi með þá til baka og endurgreiði erlendu lánin, og séu neyddir til að taka íslenskt lán eins og eigendur lífeyrissjóðanna? Hefur Seðlabankinn kannað hvar arðurinn er niðurkominn, sem eigendur stórra fyrirtækja hafa sér greitt út? Er búið að koma honum fyrir í áhættulausri höfn erlendis? Af hverju eru stærstu eigendur bankanna ekki látnir koma heim með komi inn með peninga, sem þeir eru búnir að færa frá landinu í formi framvirkra samninga á móti krónunni. Þ.e. veðjað á að hún myndi veikjast? Af hverju hefur Seðlabankinn ekki kannað hvort eitthvað sé hæft í því að það séu sjóðir íslendinga sem eru nýttir til þess að taka stöðu gegn krónunni?

Af hverju er það svo óeðlilegt að forsvarsmenn ASÍ vilji stilla málinu upp þannig að nú verði ekki gengið lengur eftir þeirri efnahagsbraut sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin hefur sett upp? Af hverju er það eitthvað óhreint að krefjast þess að þessi stefna verði endurskoðuð og ef það þýði að skipta þurfi um gjaldmiðil þá verði það gert? Það myndi auka trúverðugleika íslendinga út á við. Það gerðist alla vega þegar Svíar og Finnar tóku þessa ákvörðun og voru þá í svipaðri stöðu og við.

Ríkisstjórnin umgengst valkostina eins og konfektkassa og velja einungis bestu bitana. Forsætisráðherra hefur marghrósað sjálfum af því hvernig hann hafi aukið gjaldeyrisforðann, t.d. með samning við norrænu seðlabanka. Hann var spurður strax af hverju hann tæki ekki upp símann og hringdi til kollega sinna?

laugardagur, 4. október 2008

Komin á leiðarenda

Íslensk þjóð er búinn að fá sig margsadda af leikaraskap stjórnmálamanna. Klisjukenndum ræðuhöldum, glannaskap og rússibanaferðum. Ef ekki verður tekið með sameiginlegum hætti á stöðunni munum við öll tapa enn meiru. Flestir hagfræðingar innlendir sem erlendir sem hafa fjallað um okkar mál segja að ekki verði lengur komist hjá því að taka upp samskonar stjórn og er í Seðlabönkum annarra landa. Einn bankastjóra, fagmann sem nýtur virðingar og traust aðila. Fjarlægja naflastreng stjórnmála við stjórn bankans. Núverandi kerfi er eitt af því sem er helst er gagnrýnt erlendis, eins og svo vel má sjá í öllum fréttamiðlum.

Ríkisstjórnin og sveitarstjórnir verða að taka upp agaða peninga- og efnahagsstjórn. Vextir verða að lækka. Við erum kominn til enda á leið afskiptaleysis og mistaka og höfum alltof lengi farið þá leið. Íslensk efnahagslíf er vaxið upp úr krónunni ber mönnum saman um og trúverðugleiki verður ekki skapaður öðruvísi en með ábyrgri umræðu um Evru og ESB. Henni verður ekki slegið lengur á frest með klisjukenndum upphrópunum og útúrsnúningi. Eins og gert er í Mogganum í morgun með því að stilla því upp að nú sé í gangi einhver pólitísk refskák Samfylkingar.

Sumum sjálfstæðismönnum er algjörlega fyrirmunað að fjalla um nokkurn skapaðan hlut út frá faglegan sjónarmiðum. Umræðunni er ætíð stillt upp sem einhverri aðför að þeirra sjónarmiðum og því þurfi verjast. Koma í veg fyrir að þurfa að viðurkenna mistök. Þetta er helsta ástæða þeirrar stöðu sem við erum í. Ef niðurstaðan í þeirri vinnu við að ná auknum stöðugleika er innganga þá verðum við einfaldlega að fara þá leið og hefja þá göngu strax. Þar skiptir afstaða einhverra sjálfstæðismanna, VG manna eða Samfylkingarmanna nákvæmlega engu, þetta er barátta okkar upp á líf eða dauða um að halda fullveldi, ekki búa við ofurvald einhverra Vogunnarsjóða sem stjórnað er af auðhyggjumönnum.

Nú eru ráðherrar að falast eftir lífeyrissparnaði landsmanna til þess að bjarga þeim óförum sem þeir hafa komið okkur í. Til þess að sýna þjóðinni að þeim sé alvara að taka á vandanum eiga þeir að hefja vinnuna á mánudag með því að afnema eftirlaunalögin fyrir hádegi.

föstudagur, 3. október 2008

Góður mánudagur?

Ég hef verið ákaflega gagnrýnin á ríkisstjórnina og bent á að hún ætti að vera í meira sambandi við atvinnulífið og launamenn. Launamenn eru nefnilega kjósendur, eigendur lífeyrissjóða og um leið almenningur. Einn og sami hópurinn, en einhverra hluta vegna virðast sumir stjórnmálamenn ekki átta sig á þessu.

Full ástæða er til þess að við tökum höndum saman og finnum sameiginlega leiðir til þess að þjóðfélag okkar bjóði áfram upp á góða vaxtarmöguleika og vaxandi kaupmátt.

Það gerðist í dag að ráðherrar gengu til víðtæks samstarfs víðtæks við aðila vinnumarkaðs, lífeyrissjóði og banka. Það er af hinu besta og full ástæða að þakka það. Nú er svo komið að það er sparifé (lífeyrissjóðir) almennings sem einn getur bjargað efnahagslífinu. Starf samtaka launamanna til bjargar frjálshyggjunni.

Það er ástæða til þess að byggja upp traust á Íslandi og ekki síst meðal okkar sjálfra. Helgin fer í það og vonandi skilar það okkur góðum mánudegi.

fimmtudagur, 2. október 2008

Ekkert gerðist

Maður átti von á einhverju útspili ríkisstjórnar í kvöld, en ekkert kom fram. Bestu ræðu kvöldsins flutti Steingrímur. Stjórnarþingmönnum og ráðherrum var tíðrætt um samráð og samstarf og nefndu oft aðila vinnumarkaðs. Aðilar atvinnulífs hafa margoft farið fram á þetta samstarf, en ekkert hefur gerst af hálfu ríkisstjórnar.

Forysta ASÍ hefur í dag fundað um stöðuna og kynnt sér málið á fundum með starfsmönnum lífeyrissjóða og banka og á morgun eru fyrirhugaðir fundir með forsvarsmönnum samtaka atvinnulífs. Fyrir liggur sú skoðun aðila vinnumarkaðs að aðilar verði að taka höndum saman um lausnir sem stefni að lausn vandans til framtíðar. Ekkert bólar á viðbrögðum ráðherra nema einhverjar upphrópanir og endurteknar klisjur í ræðustól Alþingis, eins og í kvöld.

Ríkisstjórnin talar ekki við aðila og er það líklega ástæða þess að hún virðist ekki átta sig á umfangi vandans. Á meðan við borðum morgunkornið þurfum við að skoða hver sé staða krónunnar og hvort dagurinn dugi til þess að við eigum fyrir afborgunum og framfærslu, eða hversu mikið við þurfum að lengja vinnudaginn. Á meðan standa yfir hamfarir í uppsögnum og forsetinn leggur til að við tökum okkur frí 1. des.

Alvöruaðgerðir strax

Undanfarna mánuði hafa aðilar vinnumarkaðs spáð að ef ekki verði neitt að gert muni ástand á vinnumakaði í alvöru fara að vaxa um mánaðarmótin sept./okt. Þetta hefur margítrekað komið fram á þessari síðu. Við höfum flutt út atvinnuleysið hingað til í gegnum það að erlendir launamenn hafa verið að flytja heim. Eins hafa margir horfið af vinnumarkaði inn í skólana.

Nú standa yfir hópuppsagnir íslendinga og stefnir í enn meiri uppsagnir vegna verkefnaskorts. Afleiðingar tortímingarstefnunnar með svimandi vöxtum og hárri verðbógu er að koma fram. Þeim fyrirtækjum fækkar óðum sem eiga fyrir útborgun launa. Úr því menn völdu þá leið að halda krónunni áttu þeir að gera viðeigandi ráðstafnir en gerðu það ekki.

Þá kemur seðlabankastjóri fram á sjónarsviðið með venjubundnar upphrópanir og reyksprengjur stjórnmálamanns úr stærsta flokknum og fer að skipta sér að stjórnmálum; vill fá Þjóðstjórn. Sjá menn efnhagsspekinga í stjórnarandstöðunni sem muni hafa úrslitaáhrif? Það er við völd í landinu ríkisstjórn með mikinn meirihluta. Aftur á móti eru við völd menn í Seðlabankanum sem mótuðu þá efnahagsstjórn sem við búum við.

Það sem við þurfum er erlent fjármagn inn í íslenskt efnahagslíf, á því þarf að taka strax. Eina leiðin er að ná sambandi við Evrópusambandið, skapa með því tiltrú og fá aðstoð þaðan í gegnum myntbandalagið. Það verður ekki gert nema að sækja um aðild. Svo einföld er sú staðreynd og hefur verið alllengi.

En það hafa ráðið ferðinni menn sem er ómögulegt að viðurkenna fyrri mistök og móta viðhorf sín á öðru fólki á blindu hatri. Mönnum sem var slakað úr stjórmálum í Seðlabankann og áttu þar með að hverfa af hinu pólitíska sviði. En það hafa þeir ekki gert og valda sífellt meiri skaða.

Nú þarf ríkisstjórnin að taka þau völd sem hún var kosinn til og taka til við að stjórna landinu, líka efnahagslífinu. Alvöruaðgerðir strax, annars fer enn verr.

miðvikudagur, 1. október 2008

Hvað svo?

Hvað á maður að gera? Gengisvísitalan kominn upp fyrir 207. Danska krónan að nálgast 21 kr., evran 154 kr. Á maður að segja;“Þetta sagði ég alltaf að myndi gerast vegna þess að við erum ekki búinn að taka upp traustari gjaldmiðil?“

Forsætisráðherra staðinn af því að segja ekki satt. Seðlabankastjóri borinn þungum sökum af umfangsmestu umsvifamönnum í atvinnulífinu. Viðskiptaráðjherra virðist út á þekju og ekkert vita. Samtök atvinnulífsins búinn að krefjast þess mánuðum saman að stefna Seðlabankans verði aflögð.

Spyrlarnir í Kastljósinu gripu ítrekað fram í fyrir Glitnismenn með hönnuðum upphrópunum frá Flokknum, það virkaði eins og verið væri að koma í veg fyrir að þeir gætu komið á framfæri sínum skoðunum.

Mér finnst það blasa við að stjórnvöld verði að viðurkenna að einkavæðing bankanna hefur mistekist og ríkið verður að leysa þá til sín. Þetta gerðist í Noregi 1991 og norska ríkið sleppir ekki bönkunum aftur.

Það að Landsbankinn sé að selja erlenda starfsemi sína til Straums virðist þýða að það sé verið að undirbúa sameiningu Landsbankans við Glitni með ríkið sem kjölfestufjárfesti. Það gengur ekki nema að gengi hlutabréfa í Landsbankanum verði einnig færð niður. Þá höfum við einn öflugan ríkisbanka og Kaupþing fær sín tækifæri.

Og svo eigum við að ganga til kjarasamninga. Um hvað? Eigum við að taka upp t.d. ákveðin fjölda lítra af benzíni og tiltekin fjölda af kg. af ýsu? Við blasir gjaldþrot heimila og fyrirtækja.

Hvað með álagsprófin? Fram hefur komið að evrópskir bankar voru að kaupa vafninga sem merkir voru A+. Þar voru innan um strákofar í á Bermundaeyjum. Hvað með siðferði ráðgjafa bankanna?