laugardagur, 4. október 2008

Komin á leiðarenda

Íslensk þjóð er búinn að fá sig margsadda af leikaraskap stjórnmálamanna. Klisjukenndum ræðuhöldum, glannaskap og rússibanaferðum. Ef ekki verður tekið með sameiginlegum hætti á stöðunni munum við öll tapa enn meiru. Flestir hagfræðingar innlendir sem erlendir sem hafa fjallað um okkar mál segja að ekki verði lengur komist hjá því að taka upp samskonar stjórn og er í Seðlabönkum annarra landa. Einn bankastjóra, fagmann sem nýtur virðingar og traust aðila. Fjarlægja naflastreng stjórnmála við stjórn bankans. Núverandi kerfi er eitt af því sem er helst er gagnrýnt erlendis, eins og svo vel má sjá í öllum fréttamiðlum.

Ríkisstjórnin og sveitarstjórnir verða að taka upp agaða peninga- og efnahagsstjórn. Vextir verða að lækka. Við erum kominn til enda á leið afskiptaleysis og mistaka og höfum alltof lengi farið þá leið. Íslensk efnahagslíf er vaxið upp úr krónunni ber mönnum saman um og trúverðugleiki verður ekki skapaður öðruvísi en með ábyrgri umræðu um Evru og ESB. Henni verður ekki slegið lengur á frest með klisjukenndum upphrópunum og útúrsnúningi. Eins og gert er í Mogganum í morgun með því að stilla því upp að nú sé í gangi einhver pólitísk refskák Samfylkingar.

Sumum sjálfstæðismönnum er algjörlega fyrirmunað að fjalla um nokkurn skapaðan hlut út frá faglegan sjónarmiðum. Umræðunni er ætíð stillt upp sem einhverri aðför að þeirra sjónarmiðum og því þurfi verjast. Koma í veg fyrir að þurfa að viðurkenna mistök. Þetta er helsta ástæða þeirrar stöðu sem við erum í. Ef niðurstaðan í þeirri vinnu við að ná auknum stöðugleika er innganga þá verðum við einfaldlega að fara þá leið og hefja þá göngu strax. Þar skiptir afstaða einhverra sjálfstæðismanna, VG manna eða Samfylkingarmanna nákvæmlega engu, þetta er barátta okkar upp á líf eða dauða um að halda fullveldi, ekki búa við ofurvald einhverra Vogunnarsjóða sem stjórnað er af auðhyggjumönnum.

Nú eru ráðherrar að falast eftir lífeyrissparnaði landsmanna til þess að bjarga þeim óförum sem þeir hafa komið okkur í. Til þess að sýna þjóðinni að þeim sé alvara að taka á vandanum eiga þeir að hefja vinnuna á mánudag með því að afnema eftirlaunalögin fyrir hádegi.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur allt er þettað spurning um aga og hann hefur vantað enn hvort hann komi með því að við tökum upp Evru það veit ég ekki, enn skulum vona það besta. Enn ef við stefnum að því þá er það ferill sem hefst með því að við reynum að ná tökum á efnahgsmálunum því það eru ströng skilyrði um að fá að taka upp Evruna.Einsog með vexti og aðhldi með ríkisútgjöld, þau verða að vera innan ákveðin amarka. Enn ég vona að það náist sátt og vitræn lausn um helgina og að þú og okkar fólk standið föst á ykkar með lífeyrissjóðina að það verði eingöngu trygg bréf einsog t.d ríkisbréf. Ef ekki næst almenleg niðurstaða þá held ég ap við ættum að biðja Danina bara að taka við okkur aftur. Enda höfum við ofta hagað okkur einsog fólk sem flytur að heiman enn getur ekki staðið á eigin fótum. Gangi þér vel í störfum þínum um helgina einsog alltaf . Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Ef Selabankamálin verða áfram pólitísk og með sama liðið innanborðs- þá verða allar aðrar aðgerðir ótrúverðugar og máttlausar.
Auðvitað eiga stjórnvöld að byrja á eftirlaunaósómanum og afnema hann- og allt þetta aðstoðarþingmannalið sem sett var á jötuna í vor- þingmenn hafa ekkert annað að gera en að vinna vinnuna sína sjálfir - hún er ekki meiri en það....
Að ölluleyti sammála innihaldinu í pistlinum

Nafnlaus sagði...

Í pistli þínum gefur þú ekki mikið fyrir frammistöðu stjórnmálamanna. Þar er ég hjartanlega sammála enda hefur þróunin verið sú að æ færra afburðarfólk gefur sig í stjórnmálin sem þýðir að við erum í raun að treysta meira og minna vanhæfu fólki til þess að fara með stjórn landsins.
Varðandi eftirlaunamálin vil ég fara í þveröfuga átt og stórauka þessi réttindi og önnur kjör stjórnmálamanna til þess að gera þessi störf eftirsóknarverðari en þau eru í dag og freista þess þannig að þangað sæki hæfara fólk.

Nafnlaus sagði...

Guð minn góður,Guðmundur, er það virkilega svo að nú sé mál nr. eitt að Alþingi afnemi eftirlaunaruglið.
Á enn einu sinni að einblína á það hvað aðrir fá eða krefjast í laun og gæta þess af öllu afli að berja allt slíkt niður ef það hentar ekki inn í brenglaða mynd verkalýðsforustunnar.
Þessi fornaldar sýn gömlu allaballaverkalýðsforingjanna verður nú að jarðsetja í eitt skipti fyrir öll. Nú má alls ekki semja við ríkisvaldið og peningamennina út frá þeim forsendum að ef ríkisvalið gefur eftir hvað varðar eftirlaunaruglið og peningamennirnir lofa að hætta að greiða sér ofurlaun, þá skuli verkalýðsforustan kokgleypa allt það sem farið er fram á hvað varðar að láta alþýðuna bera þyngstu bagga kreppunnar. Alþýðan á enga sök á þeirri kreppu sem nú stendur yfir, munum það!

Nafnlaus sagði...

Svo ég svari nafnlausum, þá er það þannig að okkar lífeyrisjóðir eru eign okkar launamanna.

Ef það á nota okkar peninga til að bjarga þessum atvinnubröskurum sem kalla sig alþingismenn, þá ættu þeir að sjá sóma sinn í því að minnka skuldbindingar ríkisjóðs, með því að t.d. að eftirlaunasjóður þingmanna sé inní þessum björgunarpakka.

Nafnlaus sagði...

Þú verður að tryggja það Guðmundur að það verði ekki farið að leika sér með lífeyrissjóðina til að redda sér út úr þessari tímabundnu efnahagskreppu. Á meðal starfsævi koma reglulega kreppu þótt þessi sé ívið dýpri en fletar hinar. Því dýpri sem kreppan verður þeim mun mikilvægara er að lífeyrissjóðirnir verði látnir ósnertir. Við treystum á þig!