miðvikudagur, 8. október 2008

Ekki tala um sökudólga

Nú er ekki tími til þess að leita uppi sökudólga“ hafa nokkrir þingmenn klifað í á hverju einasta samtali undanfarið. Svo kemur í Kastljósið fyrrverandi forsætisráðherra og nú seðlabankastjóri og beinir spjótum sínum að öllum öðrum en sjálfum sér í drottingarviðtali. Hann fékk meir að segja allt Kastljósið.

„Ég var alltaf á móti þessu“ endurtók hann í hvert skipti sem eitthvað bar á góma. En svo vildi til að þá var alltaf um að ræða eitthvað sem hann hefði sjálfur átt sem forsætisráðherra eða seðlabankastjóri að sjá um að tekið yrði á. "Þetta er allt götustrákum, brennuvörgum eða þá undirmönnum mínum að kenna. En ef ég fæ að halda áfram á minni braut reddast þetta mjög fljótlega". Ef einhver hefur skrifað uppsagnarbréfið sitt í beinni útsendingu þá var það Davíð í gærkvöldi.

Við skulum frekar tala um þá miklu möguleika sem við höfum“, segja stjórnarþingmenn. „Við getum selt Kárahnjúka strax á morgun“ hefur Pétur Blöndal margendurtekið. Við eigum ekki krónu í Kárahnjúkum, hún er skuldsett upp í topp. Meir að segja eru þar enn að störfum við uppbyggingu vel á fjórða hundrað manna og verða næstu mánuði.

Það væri mikið betra ef stjórnmálamenn vendu sig á vandaðri málflutning og betur ígrunaðan. Ekki klisjur. Óvissan sem fer verst með fólk. Mjög mörgum líður ákaflega illa bæði vegna þess að lánin hafa hækkað ofboðslega og ekki síður ef litið er til atvinnuöryggis.

Ég neita því ekki að ég var dáldið hræddur við útifund Bubba, en hann stjórnaði þessu vel. Ég var hræddur um að fundurinn myndi snúast upp í stjórnlaust reiðikast fjöldans gegn stjórnmálamönnum. Sú reiði kraumar víða í samfélaginu. Alls ekkert síður en til fjárfestingaguttanna. Hvar eru þeir annars? Spyrja margir, eru þeir allir í felum erlendis?

Sú stefnumörkun sem unnið er að verður að vera snörp, markviss og öflug. Hún verður ekki unnin í bakherbergjum af stjórnmálamönnum. Ekki síst hversu takmarkaða þekkingu þeir hafa á því hvernig atvinnulífið virkar, eins og var svo áberandi í svörum þeirra fram á sunnudagskvöld. En við fengum öll ískalda gusuna framan í okkur á mánudagsm0rgun. Það eru engir hæfari til þess að byggja atvinnulífið upp en þeir sem þar starfa. Þegar það kemst á fullt verður stóra ryksugan tekinn fram og hreingerningar hefjast.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, fjárfestingaguttarnir eru enn við völd og það að beiðni stjórnvalda. Pældi í því.
kv, ari

Nafnlaus sagði...

Bóndi einn sem aðhylltist hugmyndafræði frjálshyggju í búskap sínum vildi lifa eftir hugsjón sinni og sleppti búsmala sínum frjálsum út í náttúruna. Þetta gekk nokkuð vel nema minkarnir átu hænurnar og misnotuðu þar með frelsið. Fjandans græðgin í minkunum olli því að bóndinn fór á hausinn og svo áttu óreiðuhænsnin ekki að láta éta sig.
Það er mörg búmannsraunin.
Viðar á Kaldbak

Nafnlaus sagði...

Ríkissjóður á umsvifalaust að taka egnarnámi
allar eigur eftirtalda manna, Hannes Smárason, Jón Ásgeir Jóhannesson,
Pálmi Haraldsson, Hannes Smárason, Sigurður Einarsson, Hreiðar Már
Sigurðsson, Ólafur Ólafsson, Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor og Bjarnj Ármansson,gefa þeim síðan upp sakir of kostnaðarsamt að draga þá fyrir dómstóla,getum heldur ekki lagt það á fangana á hrauninu að þurfa að umgangast þennan ÓÞVERA lýð,refsing þeirra er næg fyrir.

Nafnlaus sagði...

Halda menn virkilega að Davíð sé ástæðan fyrir þessu ástandi?? átti seðlabankinn að lána endalausa peninga til bankanna og haga vöxtum eftir þeirra stakk og lánum eftir þeirra höfði, hverjum dettur í hug að það sé eðlilegt? gott að geta bara skroppið í seðlabankann og fengið lán eftir hentisemi...svona þegar búið er að eyða vel um efni fram, gambla soldið og borga sér súper laun og sérð fram á að geta ekki haldið veislunni áfram, þá að ætlast til að seðlabankinn hlaupi undir bagga, og það með almanna fé til að viðhalda herlegheitunum, þetta er ekki normalt...og hvað ef það hefði ekki dugað til?? jú þá færi þjóðin á hausinn út af illa ígrunduðum fjárfestingum og súper skuldsetningum fjárfestinga "blókanna". þær aðgerðir sem hafa verið gerðar að undanförnu eru að mínu mati hárréttar...og þó svo margt fari illa þá er þetta skásti kosturinn, ég held að ef bankarnir hefðu fengið lán hjá SÍ þá væri það peningar sem yrðu að engi og islenska þjóðin færi þá í kjölfarið á hausinn, með skelfilegum afleiðingum, þessir blókar í banka-bisnessnum er allir með tölu búnir að fóðra sig vel innan lands sem utan og þurfa því ekki að kvíða mögru áranna, eins og margur landinn!! svo eru þeir að væla!!

kveðja,

Valur G