þriðjudagur, 28. október 2008

Áfram á sömu braut, sama hvað það kostar

Það er hreint út sagt ömurlegt að þurf að horfa upp á ábyrgðarleysi þeirra sem hafa valdið íslenskum heimilum og fyrirtækjum óbætanlegum skaða. Neita að horfast í augu við staðreyndir. Heimta að ekki sé leitað að sökudólgum. Reyna að hafa áhrif á umfjöllun í fréttum og koma ábyrgð yfir á aðra.

Það blasir við að ríkisstjórnin, seðlabankastjórnin ásamt fjármálaeftirlitinu unnu ekki vinnuna sína. Seðlabankinn hefði þurft að byggja upp varasjóð, sömu upphæð sem við erum þessa dagana að taka dýrum dómum að láni, á annað þúsund milljarða. Það var ekki gert vegna þess að það var alltof dýrt. Með öðrum orðum að það blasti við að það þurfti að gera aðrar ráðstafanir eins og t.d. að sækja um aðild að ESB. Afleiðingarnar hér á landi eru þær að þetta lendir á heimilum og fyrirtækjum, en það sjáum við ekki annarsstaðar. Ef þessir menn hefðu unnið vinnuna sína þá væri staðan hér sú sama og annars á norðurlöndunum.

Öll umhirða bankanna með sparifé landsmanna hvort sem það var í eignastýringu eða þá eignir lífeyrissjóðana í bönkunum ber það með sér að innandyra átti að minnka sem mest tap þeirra og koma því yfir á lífeyrissjóði og einstaklinga. Þetta var gert í skjóli þeirra viðhorfa sem stjórn Seðlabankans hefur og viðheldur.

Forsvarsmenn bankanna ásamt hægri stjórnmálamönnum vönduðu almenning og samtökum þeirra ekki kveðjurnar. Fólk hvatt til þess að ganga úr stéttarfélögum og hætt að greiða til sjúkrasjóða og eins í séreignasjóði lífeyrissjóðanna og þannig mætti áfram telja.

Nú er verið að ráða sama fólkið inn aftur í nýju bankana og þetta fólk virðist halda launum sínum og vill að auki fá greidda bónusa fyrir að það að greiða úr þeim flækjum sem þeir sjálfir settu upp og urðu okkur til skaða. Þetta er gert í skjóli þess að ráðherrar og Seðlabankastjórn neitar því alfarið að axla ábyrgð og forsætisráðherra ásamt Seðlabankastjóra endurtaka í síbilju þá yfirýsingu að þeir ætli að halda áfam á sömu braut og vextir hækkaðir í 18%.

Með öðrum orðum ráðherrar eru í raun að hvetja fólk að flytja erlendis.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

20. okt. síðastliðinn skrifaðir þú: "Sama má segja um þær fullyrðingar sem settar hafa verið fram um þau skilyrði sem sett verði við aðkomu alþjóða gjaldeyrisvarasjóðsins. Sú umræða hefur einkennst af rakalausum hræðsluáróðri tiltekinna aðila."

Þeir sem vöruðu við aðkomu IMF gerðu það meðal annars á þeirri forsendu að sjóðurinn myndi aðhyllast hávaxtastefnu og að búast mætti við stýrivöxtum í hæstu hæðum að kröfu sjóðsins.

Spurning hvort ummæli þín um "rakalausan hræðsluáróður" eigi jafn vel við í ljósi tíðinda dagsins?

Nafnlaus sagði...

Núverandi ríkisstjórn er ekki treystandi. Það þar að efna til kosninga sem fyrst.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir að benda á hvernig bankarnir stóðu að því að komast yfir viðbótarlífeyrissparnað almennings. Allir, sem fluttu hann yfir til bankanna, standa nú frammi fyrir gjörtöpuðum sparnaði. Nú skilst manni að helsta "bjargráðið" eigi að vera að afnema verðtryggingu, sem myndi fyrst og fremst bitna á lífeyrissjóðunum. Þeir eru þegar búnir að tapa 15 - 50% af sínu vörslufé í gegn um hrun verðbréfa. Ef verðtryggingin yrði afnumin, færi afgangurinn af fé þeirra "down the drain". Þá koma ellismellirnir allir á framfæri ríkisins. Þá skattahækkun, sem af því leiddi, er ekki hægt að leggja á þá fáu landsmenn, sem eftir verða til að greiða skatta. Hvað eiga aldraðir þá að hafa sér til framfæris?

Nafnlaus sagði...

Atvinnuleysingjar eru tæknilega séð ríkisstarfsmenn í viðvarandi launalausu leyfi. Nú ætti Alþingi að samþykkja fjárveitingu svo kaupa megi vinnu t.d. iðnaðarmanna í hlutastarfi fyrir mánaðarlega fjárhæð sem nemur eitthvað talsvert meira en atvinnuleysisbætur.

Ávinningurinn væri allra; starfsmanna sjálfra (bæði í launum og sálrænt), almennings sem nyti verkanna og ríkisins sem þarf þá ekki að draga úr hófi úr framkvæmdum.

Til að mæta kostnaði mætti draga úr kostnaði við t.d. styrki við listalíf, kvenna- og kynjafræðirannsóknir, heiðurslaun listamanna (látum Þráin bara sífra áfram) o.s.frv.

Nafnlaus sagði...

Vó. Er þetta framtíðin? Eins og fortíðin? Sami grautur í sömu skál.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, skrifar grein í nýjasta hefti Vísbendingar undir yfirskriftinni: Eigum við að kasta krónunni?

Þar er meðal annars að finna þessa setningu:

Atburðarásin haustið 2008 leiddi hins vegar eitt í ljós:
Með öllum sínum óköstum var íslensk króna fljótvirkasta og friðsamlegasta tækið til að laga hagkerfið að nýjum aðstæðum.

Með gengisfalli krónunnar voru laun snarlækkuð án blóðsúthellinga.
Almenningur fékk skýr skilaboð um það, að hann yrði að spara og beina kaupum sínum frekar að innlendri vöru en innfluttri.

Þessi skilaboð hefðu ekki borist eins greiðlega um hagkerfið, hefðu Íslendingar notað evru í stað krónu.
----------------

Og svo segir fólk að við eigum að vera róleg og einbeita okkur að því að snúa bökum saman (með Birni Bjarna, Dabba, Geir, Hannesi & co)

Nafnlaus sagði...

Málflutningur þinn er algjörlega marklaus og getur ekki flokkast undir neitt annað en populisma.
Mistökin í hagstjórninni eru fyrst og fremst fólgin í því að fylgja leikreglum hnattvæðingarinnar eins og IMF og alþjóðasamfélagið lagði þær niður fyrir okkur. Peningastjórnin í heiminum er í molum. Og í stað þess að hugsa og læra og vernda þjóðina fyrir skaðsemi hennar, hefur þú kosið að snúa vandanum upp í þröngsýna átthagapólitík og bullar um græðgi, valdasýki og værukærð einhverja einstaklinga.
Við þjóðinni blasir ekkert við nema gjaldþrot; hægfara dauðdagi í faðmi IMF. Það var ekki þannig fyrir tveimur vikum, en skammtímahugsun áhrifamanna eins og þín, hefur nú séð til þess að við eigum ekki viðreisnar von.
Niðurstaðan: Áframhaldandi hávaxtastefna og meiri skuldir - hljómar svolítið kunnnuglega. Svona endar það þegar maður biður þann sem orsakar vandræðin að laga þau.

photo sagði...

Ég hafði vit á því að flytja út mánuði fyrir hrunið og þá var ég búin að fá nóg. Get vel skilið að útlitið sé orðið enn svartara núna.

Á meðan ég leita mér að vinnu hér úti, þá settist ég niður í gær og útbjó smá stefnuskrá með nokkrum punktum sem gæti verið vert að skoða nánar hér:

HVERNIG MÁ STÓRAUKA VERÐMÆTI Í ÍSLENSKU HAGKERFI?

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/689386/

Nafnlaus sagði...

Hvenær ætlar eiginlega verklýðshreyfingin að vakna af þyrnirósar-blogg svefn-bulli sínu??
Hætta þessu bloggi og fara að gera eitthvað? 18% vextir!! Er búið að heilaþvo verklýðshreyfinguna með samstöðu- og hvítþvottarbókarþvælunni? Er þetta best fyrir almenning og fyrirtækin í landinu. Og á meðan sitja lúðarnir sem áttu að koma í veg fyrir þetta í sínum stöðum. Og eignir svikamyllumeistarana eru ekki frystar sem gætu komið í stað afarkosta og lána IMF. Verkfall og aðrar skærur til að stoppa þetta bull. VAKNA!!!!!!