fimmtudagur, 23. október 2008

Ársfundur ASÍ

Ársfundur ASÍ hefst á morgun fimmtudag og stendur fram á föstudag. Fundinn sitja um 300 fulltrúar launamanna af öllu landinu. Víst er að staðan í íslensku þjóðfélagi verður efst á baugi. Jafnvel ofar en kosning nýs forseta. Fjölda manns er sagt upp á hverjum degi og það virðist stefna í enn fleiri uppsagnir. Umtalsverðir fjármunir úr lífeyrissjóðum launamanna og mikið sparifé hefur glatast og fyrir liggur að skuldsetja verður þjóðina sem svari rúmlega einni landsframleiðslu.

Sigmar sýndi flotta takta í Kastljósinu í kvöld. Honum tókst að draga fram áætlanir Geirs. Forsætisráðherra sendi almenning tóninn og sagðist ekki axla neina ábyrgð þó svo hann sé búinn að vera í forystu þess flokks sem hefur mótað þessa stöðu. Hann segist ætla halda áfram á sömu braut og hafnar alfarið að víkja seðlabankastjórn.

Stærsta vandamál íslenskrar þjóðar er fyrirhyggjuleysi. Stjórnmálamenn hafa borið í spákaupmennina veizluföng með stefnu sinni svo Þórðargleðin hafi getað haldið áfram. Skortur hefur verið á skipulagi og festu og vandamál leyst án þess að horfa fram á veginn. Lausn Geirs og hans flokks er að halda áfram með sama gjaldmiðil og bjóða landsmönnum í reglulegar rússíbanaferðir. Reisa 2 ný álver og stækka Ísal á næstu árum, sem kallar á allmargar virkjanir bæði sunnan og norðanlands.

Þetta mun leiða til þess að sama spenna myndaðist fljótlega aftur í efnahagslífinu með enn harklegri lendingu eftir 5 – 6 ár. Þetta er leiðin sem helstu hagfræðingar landsins hafa varað við, eins og t.d. Jónas Haralds gerði í Silfrinu fyrir skömmu.

Á ársfundi ASÍ verður væntanlega tekist á um hvert eigi að stefna. Stórir hópar bæði meðal launamanna og fyrirtækja hafa lýst því yfir að komið sé á leiðarenda þeirra efnahagstefnu sem stjórnvöld hafa valið. Breyta verði stjórn efnahafslífs og móta stefnu til lengri tíma og stefna á sambærilegan stöðugleika og er í nágrannalöndum okkar. Hreinsa verði til og byggja upp traust og auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs með vandaðri stjórn en hingað til hafi viðgengist. Því fer fjarri að það verði gert með þeim sem hafa verið við stjórnvölinn undanfarin ár.

Gríðarleg óánægja er meðal launamanna (sjóðsfélaga) hvernig stjórnvöld umgangast lífeyrissjóðina (sparifé) sjóðsfélaga. Það er eins og stjórnvöld telji að þetta fé sé til ráðstöfunar fyrir þjóðarheildina, þó svo fyrir liggi að einungis hluti þjóðarinnar eigi í lífeyrissjóðina. Verði tekinn upp ábyrgari peningstefna verður hægt að ná verðbólgu niður í 2 – 3 % og vöxtum á sömu slóðir. Hægt að afnema verðtryggingu og bjóða fólki lán á sömu kjörum og frændur okkar fá á hinum norðurlandanna.

Forysta allra launþegasamtakanna og atvinnulífs hafa lýst því yfir að þau séu tilbúinn til þátttöku í mótun stefnu fallist stjórnvöld á að taka til í efnhagslífinu. Annars sé það tilgangslaust, það vill svo til að launamenn, sjóðsfélagar lífeyrissjóða og félagsmenn stéttarfélaga er allt sama fólkið og það er líka kjósendur.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ertu búin að skipta um skoðun varðandi verðtrygginguna?

http://gudmundur.eyjan.is/2008/10/vertrygging.html

Það er alltaf gott þegar menn sjá að sér. Batnandi mönnum er best að lifa.

Það er fyrirsjáanlegt verðbólguskot uppá 30-50 % vegna hruns ísl. krónunar.

Þúsundir ef ekki tugþúsundir heimila í landinu munu verða gjaldþrota.

Fasteignamarkaðurinn sem er frosinn í dag (2 kaupsamningar á dag síðustu þrjá mánuði) Mun endanlega deyja. Bankarnir munu sitja uppi með gríðarlegt magn af óseljanlegum fasteigum miðað við fyrri veð. Þetta mun endanlega fella hagkerfið í landinu.

Nú þarf lausnir. Afnám verðtryggingar gæti bjargað miklu á þessum síðustu og verstu.

p.s. slakaðu svo aðeins á í pólítíkinni það vita allir að Geir Haarde og sjálfstæðisflokkurinn eru búnir að vera. Þótt fólkið í landinu sé oft með óttalegt gullfiskaminna þá mun það aldrei gleyma þessum október árið 2008. Þessir menn fá aldrei aftur umboð.

Guðmundur sagði...

Ég hef ekki skipt um skoðun hvað varðar verðtryggingu. Sú umræða sem fer fram um verðtyggingu byggir á miklu þekkingarleysi á því hvað verðtrygging er. Það fer fram verðtygging í öllum lánaviðskiptum, hún er einfaldlega framkvæmd með mismunandi hætti. Í þeim pistli sem bent er á er gerð tilraun til þess að útskýra verðtryggingu. Þar sem verðlag er stöðugt og verðbólga lág, er verðtrygging innifalin í vöxtunum, svo einfalt er það nú. Ég bendi nafnlausum á að lesa pristilinn aftur.

Nafnlaus sagði...

Breytt efnahagsstefna kallar á aðra stjórnendur.
Vanhæfni núverandi og fyrrverandi efnahagsráðherra (forsætisráðherra) og núverandi og fyrrverandi viðskiptaráðherra kom okkur í þessa stöðu, með hjálp stofnanna sinna.
Ef Samfó og Sjálfstæðisflokkurinn eiga að koma að nýrri efnahagsstjórn þurfa þessir einstaklingar að víkja og raunar úr öllum opinberum embættum sem tengjast fjármálum. Seta á alþingi meðtalin.
Einnig er nauðsynlegt að stjórnir og stjórnendur Seðlabanka og FME víki.

Þakka góða pistla.
Neisti.

Nafnlaus sagði...

þekkingarleysi

Lestu skrif Gunnars Tómassonar á eyjan.is

http://eyjan.is/silfuregils/2008/10/22/skuldir-heimilanna-lykilspurningin/#comments

Gunnar Tómasson
22. október, 2008 kl. 19.11

Segir allt sem segja þarf um þessa ókind sem verðtrygginginn er í raun.

Ég veit ekki betur en Gunnar sé einn af fáum hagfræðingum hérlendis sem varaði við því ástandi sem nú er staðreynd. Hann er því ákaflega trúverðugur um þessar mundir.

Miðað við afstöðu hjá verkalýðshreyfinguna gagnvart verðtryggingu þá er virðist henni skítsama um heimilinn í landinu.