Það sést vel í dag hver munurinn er á Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Í Fréttablaðinu er fagleg umfjöllun um stöðu mála og hvað aðilar eru að fjalla um og hvers vegna. Á meðan Morgunblaðið stillir málinu upp á sinn venjubundna hátt í flokkspólískt hanaat og berar sig á forsíðu enn einu sinni sem ómerkilegt málgagn tiltekinna sjónarmiða innan úr Sjálfstæðisflokknum. Það er langt síðan ég hef séð jafnómerkilega uppstillingu og það á svona tímum.
Erlend fjárfesting lífeyrissjóðanna er hugsuð sem áhættudreifing, einmitt ef allt fer í kalda kol hér á Íslandi. Þá hafi launamenn ákveðinn varasjóð á öðrum efnahagssvæðum. Það er ekki áhættulaust að koma með þessa fjármuni heim, þó svo að ríkistrygging sé sett á móti. Á þessum forsendum var ríkisstjórninni gerð strax grein fyrir því að það væri ekki svo einfalt að fara bara fram á heimflutning erlendra eigna lífeyrissjóðanna eins og hún gerði í upphafi. Það þyrfti að koma fleira til. T.d. að aðrir leggðu líka eitthvað til.
Gerð er krafa um að þessir fjármunir fari ekki þráðbeint í hítina sem Seðlabankinn setti okkur í með því að kvitta upp á að íslendingar gengu í ábyrgð fyrir öllum skuldum Glitnis. Við það féll vitanlega tryggingarálag okkar í 5000 punkta!! Um er að ræða sparnað launþega og stjórnvöld geta ekki spilað með hann eins einhverja skiptimynt og einhverjum skyndilausnum líðandi stundar.
Af hverju gerði ríkisstjórnin ekki líka kröfu um að þeir sem hafa fengið gjaldeyririnn okkar að láni komi með þá til baka og endurgreiði erlendu lánin, og séu neyddir til að taka íslenskt lán eins og eigendur lífeyrissjóðanna? Hefur Seðlabankinn kannað hvar arðurinn er niðurkominn, sem eigendur stórra fyrirtækja hafa sér greitt út? Er búið að koma honum fyrir í áhættulausri höfn erlendis? Af hverju eru stærstu eigendur bankanna ekki látnir koma heim með komi inn með peninga, sem þeir eru búnir að færa frá landinu í formi framvirkra samninga á móti krónunni. Þ.e. veðjað á að hún myndi veikjast? Af hverju hefur Seðlabankinn ekki kannað hvort eitthvað sé hæft í því að það séu sjóðir íslendinga sem eru nýttir til þess að taka stöðu gegn krónunni?
Af hverju er það svo óeðlilegt að forsvarsmenn ASÍ vilji stilla málinu upp þannig að nú verði ekki gengið lengur eftir þeirri efnahagsbraut sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin hefur sett upp? Af hverju er það eitthvað óhreint að krefjast þess að þessi stefna verði endurskoðuð og ef það þýði að skipta þurfi um gjaldmiðil þá verði það gert? Það myndi auka trúverðugleika íslendinga út á við. Það gerðist alla vega þegar Svíar og Finnar tóku þessa ákvörðun og voru þá í svipaðri stöðu og við.
Ríkisstjórnin umgengst valkostina eins og konfektkassa og velja einungis bestu bitana. Forsætisráðherra hefur marghrósað sjálfum af því hvernig hann hafi aukið gjaldeyrisforðann, t.d. með samning við norrænu seðlabanka. Hann var spurður strax af hverju hann tæki ekki upp símann og hringdi til kollega sinna?
6 ummæli:
Það sem mér finnst einna skuggalegast í þessum hamförum öllum er sú hugmynd að nýta eignir lífeyrissjóðanna til björgunar með einhverjum hætti. Í fáfræði minni er ég hræddur við þetta. Lífeyrissjóðirnir eru í mínum huga nánast helgur dómur sem ætti að vera ósnertanlegur í þessu Matadorspili.
Ef menn ahveða ekki nuna að skipta um gir i hagstjorninni við þessar aðstæður, hvenær þa?
En það er ekki nog, það þarf lika að skipta ut þeim sem her hafa stjornað undan farinn ar og hunsað allar aðvaranir, liklega vegna þess að her a landi eru menn alltaf að hugsa um eigin hag og stöðu. Vita alltaf best sjalfir.
Skoðið menntun þeirra sem her stjorna og hvort hun se eitthvað i takt við það sem þeir eru að sysla með.
Haldiði að Seðlabankastjori yrði raðinn einhvers staðar i vinnu hja banka i Evropu?
Gott er að þið verkalýðsforingjarnir leyfið okkur að fylgjast með því sem er að gerast í þessum málum.
En eru verkalýðsfélögin að athuga hvort hægt er að breyta húsnæðiskerfinu þannig að fólk
þurfi ekki að vinna svona mikið sem verður til vanrækslu fjölskyldunnar? Byggja upp öruggan leigumarkað á viðráðanlegu verði?
Eða slátra verðtryggingunni?
Það á að draga bankana til ábyrgðar- skipta þeim upp í erlenda og innlenda og láta þá sjálfa greiða skuldir sínar með eignasölum.
Alls ekki að draga lífeyrirsjóði allra landsmanna inní þessa óráðsíuhít og færa fé á silfurfati til þessara fjárglæframanna .
Ef lífeyrissjóðirnir gufa upp í þessu fjárglæfrabrjálæði -- hvað er þá eftir hjá fólkinu í landinu--nákvæmlega ekkert.Ábyrgð ykkar vörslumanna sjóðanna er mikil...
Maður er svolítið uggandi út af þeim skilyrðum, sem t.d. norðmenn muni setja fyrir norrænni aðstoð.Flökkustofnar í norðurhöfum, Barentshafskvótar, Smugan? Ellegar Drekasvæðið?
Réttast að bankarnir fari á hausinn og þá taka lánardrottnarnir bara yfir lán sem endurlánuð hafa verið innlendis.Þá situr tapið uppi hjá eigendum bankanna og lánardrottnum þeirra.Ekki almenningi eða framtíðarpensjónistum.Þetta skaðar íslensk fyrirtæki í einhvern tíma en sá skaði er þegar orðin.Ef eigendur bankanna vilja hinsvegar bjarga þeim með því að færa fé í þá
frá skattaskjólseyjum og hingað, þá er það líka í lagi.En að láta þá sitja uppi með milljarða í útlendum eignum en framtíðarlífeyrinn borgi rekstaróráðsíuna er siðblinda.
Skrifa ummæli