þriðjudagur, 7. október 2008

Alið á óvissu

Óvissa er versta ástand sem hægt er að bjóða upp á. Það veldur vanlíðan. Seðlabankastjóri ásamt forsætisráðherra hafa að undanförnu ítrekað sent rangar upplýsingar til almennings og út í heiminn. Vakið væntingar sem verða svo að engu skömmu síðar. Loðin viljayfirlýsing verður að risalánasamning er það nýjasta. Samtímis lýsa norrænir ráðherrar því yfir að ekki hafi verið rætt við þá um aðstoð. Forsætisráðherra hefur haldið hinu gagnstæða fram undanfarið. Stjórnendur íslensks efnahagslífs hafa rúið sjálfa sig og um leið okkur hin öllu trausti.

Hannes Hólmsteinn sagði í viðtali við Moggann á laugardaginn að kapítalisminn hefði ekki brugðist. Það væru einstaklingar sem gæfu sig út fyrir að vera kapítalistar sem hefðu valdið svona miklum skaða. Hannes fullyrðir setja verði þá kapítalista sem ekki eru honum þóknanlegir út fyrir sviga og handvelja þá sem mega vera kapítalistar. Stofnað verði Gróðapungaeftirlit Ríkisins sem velji nothæfa kapítalista (hér er vitnað í texta Péturs Tyrfingssonar).

Karl Marx setti fram á sínum tíma kenningar um jöfnuð. Norðurlandamódelið byggir að hluta til á því sem þar stendur. Aðeins austar völdu nokkrir sjálfa sig til þess að sjá um útfærsluna, sem endaði með slíkum ósköpum að þeir urðu að grípa til þess að taka allnokkrar milljónir manna úr umferð sem neituðu að trúa á Sovétið með slátrun og/eða fangabúðum. Svo kom að Sovétið lagðist á hliðina sem betur fer.

Frjálshyggjumenn hafa óhikað í umræðum sett samasem merki milli Sovétsins og norðurlandajafnaðarmennsku. Á grundvelli þessa er því haldið fram að frjálshyggjan hafi unnið umræðuna! Þetta upplýsir okkur um hvernig háskólaprófessor vinnur að gagnasöfnum og úrvinslu staðreynda. Haldnar voru miklar ráðstefnur fyrir ári þangað sem helstu boðberum frjálshyggjunnar var stefnt. Eitt helsta innleggið var að lofsyngja ameríska módelið og gera lítið úr því norræna.

Hannes hefur ásamt skoðanabræðrum sínum á undanförnum áratug verið í þeirri stöðu að halda uppi „gróðapungaeftirliti“ fyrir hönd okkar hinna sem hér búum. Reyndar fór í taugarnar á þeim að hagfræðingar Þjóðhagstofnunar væru þeim ekki sammála. Þá voru tekinn upp vinnubrögð Sovétsins og Þjóðhagstofnunarmenn reknir í útlegð, stofnunin lögð niður, húsið selt og kaffikanna starfsmanna send á notað og nýtt markaðinn.

Við sjáum í dag hvernig til hefur tekist. Íslendingar sem fylgjast með umræðunni muna vel lofgreinar frjálshyggjumana um gróðapungana. Þar vísa ég til innihalds lofræðanna um gróðapungana sem fluttar voru í síðustu kosningarbaráttu og hvernig var tekið á ábendingum um að þær væru rangar. Hausnum barið við hólmsteininn og því hafnað að taka upp á borðið umræður um gjaldmiðilinn, einungis því haldið fram að við værum best í heimi. Líka stórust.

3 ummæli:

Einar Jón sagði...

Við erum sko langstórustu dvergar í heimi.

Er það ekki einhvers virði?

Nafnlaus sagði...

Er þetta brandari dagsins ?

,,Össur Skarphéðinsson sagði rétt í þessu, í Síðdegisútvarpinu, að ekki sé rétt á þessum tíma að kalla menn til ábyrgðar.

Lítur svo á að hörmuleg mistök fjölda manna verði gerð upp í skólaverkefnum og doktorsritgerðum.

Þar höfum við það.

Í öðrum löndum bera óhæfir einstaklingar ábyrgð; er sagt upp eða settir í fangelsi.

Á Íslandi birtast þeir í ritgerðum."


Á ofurlaunum með ofurábyrgð, höfum við misst af einhverju ?

Nafnlaus sagði...

Já, þeir hafa brugðist.

Og nú gengur um netið undirskriftalisti fyrir breytingum.

http://www.petitiononline.com/mod_perl/signed.cgi?fab423