fimmtudagur, 2. október 2008

Alvöruaðgerðir strax

Undanfarna mánuði hafa aðilar vinnumarkaðs spáð að ef ekki verði neitt að gert muni ástand á vinnumakaði í alvöru fara að vaxa um mánaðarmótin sept./okt. Þetta hefur margítrekað komið fram á þessari síðu. Við höfum flutt út atvinnuleysið hingað til í gegnum það að erlendir launamenn hafa verið að flytja heim. Eins hafa margir horfið af vinnumarkaði inn í skólana.

Nú standa yfir hópuppsagnir íslendinga og stefnir í enn meiri uppsagnir vegna verkefnaskorts. Afleiðingar tortímingarstefnunnar með svimandi vöxtum og hárri verðbógu er að koma fram. Þeim fyrirtækjum fækkar óðum sem eiga fyrir útborgun launa. Úr því menn völdu þá leið að halda krónunni áttu þeir að gera viðeigandi ráðstafnir en gerðu það ekki.

Þá kemur seðlabankastjóri fram á sjónarsviðið með venjubundnar upphrópanir og reyksprengjur stjórnmálamanns úr stærsta flokknum og fer að skipta sér að stjórnmálum; vill fá Þjóðstjórn. Sjá menn efnhagsspekinga í stjórnarandstöðunni sem muni hafa úrslitaáhrif? Það er við völd í landinu ríkisstjórn með mikinn meirihluta. Aftur á móti eru við völd menn í Seðlabankanum sem mótuðu þá efnahagsstjórn sem við búum við.

Það sem við þurfum er erlent fjármagn inn í íslenskt efnahagslíf, á því þarf að taka strax. Eina leiðin er að ná sambandi við Evrópusambandið, skapa með því tiltrú og fá aðstoð þaðan í gegnum myntbandalagið. Það verður ekki gert nema að sækja um aðild. Svo einföld er sú staðreynd og hefur verið alllengi.

En það hafa ráðið ferðinni menn sem er ómögulegt að viðurkenna fyrri mistök og móta viðhorf sín á öðru fólki á blindu hatri. Mönnum sem var slakað úr stjórmálum í Seðlabankann og áttu þar með að hverfa af hinu pólitíska sviði. En það hafa þeir ekki gert og valda sífellt meiri skaða.

Nú þarf ríkisstjórnin að taka þau völd sem hún var kosinn til og taka til við að stjórna landinu, líka efnahagslífinu. Alvöruaðgerðir strax, annars fer enn verr.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er ekki næsta stop Alþjóðagjaleyrissjóðurinn! Við erum þessa stundina að horfa upp á algjört gjaldþrot efnhagasstefnu Sjálfstæðisflokksins (Samfylking hefur ekkert haft um þetta að segja). Það er rosalega sárt að segja að Glitnismennhöfðu rétt fyrir sér. Alla biðstofur í bönkum landsins eru yfirfullar af fólki sem er að biðja um greiðslufrest á afborgun lána. Um næsu mánaðarmót verður nóg að gera hjá héraðsdómurum þegar fyrir tæki fara í hrönnum að biðja greiðslustöðvun! Þetta er lífið á Íslandi í dag.

Unknown sagði...

Það má ljóst vera hverjum þeim er á horfir að þær vinnuaðferðir sem hér voru iðkaðar samræmast ekki góðri viðskiptavenju. Það sem hinsvegar er forkastanalegt er að Davíð Oddson skuli fara með ósannsögli og bera upp á Þorstein Má ósönn orð og hagræða atburðum þannig að hans verknaður komi betur út gagnvart þjóð. Davíð á að sjá manndóm hjá sér í að segja af sér og skammast sín. Það er deginum ljósara orðið að stjórn Seðlabankans hefur ekki nægjanlegt viðskiptavit til að stýrja peningamálum þjóðarinnar, enda eru þetta bara pólitíkusar sem hugsa um hag sinn og sinna.

Nafnlaus sagði...

Sæll nafni,

Af hverju boðar verkalýðshreyfingin ekki til fjöldamótmæla, með öðrum fjöldahreyfingum í landinu?

Nafnlaus sagði...

Það er ekki langt síðan að Geir Haarde gortaði sig yfir að það haf borgað sig "að gera ekki neitt stefnan" hefði skilað góðum árangri.
Forstjóri greiningadeildar Kaupþings lýsti því yfir í apríl að botninum væri náð.
Lausafjárskortur hefur verið á fjármálamörkuðum í rúmlega eitt ár núna. Stjórnvöld og Seðlabanki kusu að gera ekki neitt, til þess að fyrirbyggja tjón sem kynni að hljótast af mestu fjármálakrísu síðan 1930.
Það er alveg ljóst að við erum ekki búin að ná botninum ennþá. Ef menn horfa blákalt á veruleikan þá eru meiri líkur á að gengisvísitalan fari yfir 250, jafnvel í 300 á næstu 6 mánuðum.

Því miður hefur ríkisstjórnin og seðlabankinn ekki unnið heimavinnu sína nægjanlega vel. Þjóðin þarf að gjalda fyrir alltof langlíft samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðiflokk sem gerði mörg stór efnahagsmistök, sérstaklega á sínu síðasta kjörtímabili.
Það er bara staðreynd ef Ísland væri í ESB í dag þá stæðum við ekki svona hrikalegum aðstæðum.
Vissulega væri erfiðleikar hjá okkur en við stæðum ekki frammi fyrir að fólk væri að missa húsin sín, fyrirtæki að sligast undan háum vöxtum, bankar ættu greiðari aðgang fjármagni o.s.frv.
Skref í rétta átt væri að ríkisstjórnin Íslands myndi lýsa því yfir að hún hyggðist taka um aðildarviðræður við ESB. Bara það myndi auka tiltrú á íslenskt hagkerfi enda flest allir erlendir bankar búnir að loka á krónuviðskipti.
Það er kominn tími til að fólk láti heyra í sér...ekki á netinu, heldur komi saman og krefjist aðgerða. Það hefur aldrei verið meiri þörf á samtöðu almennings og nú enda hagsmunir allra heimila á landinu undir.

Nafnlaus sagði...

Sjálfsagt er að ítreka spurningu Guðmundar hér að ofan: "Af hverju boðar verkalýðshreyfingin ekki til fjöldamótmæla, með öðrum fjöldahreyfingum í landinu?"

Nafnlaus sagði...

Það þarf að koma Davíð utan
svo út komi ei aftur. ég mæli
sterklega með að hann verði
gerður launalaus sendiherra á
Suðurpólnum og já hvernig væri
að skella sér svo á mótmælin hans
Bubba öreiga í næstu viku.

Nafnlaus sagði...

Það þarf ekkert fjármagn inn í landið. Það þarf að stöðva bankana. Þeir sjúga til sín allan gjaldeyri til að greiða af skuldum sínum erlendis. Ef þeir eru settir á hausinn, lagast ástandið þegar í stað. Þá verða það erlendir lánardrottnar bankanna sem tapa, ekki íslenskt launafólk.

Nafnlaus sagði...

Er ekki tími til að massera Guðmundur.

Ef einhverntíma hefur verið tími til að ganga og sína samstöðu er það núna.

Kíldu á það. Við mætum