mánudagur, 6. október 2008

Allir eiga að vera vinir

Maður verður var við mikla reiði meðal fólks hvernig komið sé. Reiðin beinist gegn stjórnmálamönnum sem lifi í eigin veröld, án tengsla við þjóðfélagið. Þess er krafist að stjórnmálamenn og embættismenn verði látnir bera ábyrgð.

Sjálfumglaðir og getulausir stjórnmálamenn af hægri kantinum böðuðu sig upp úr þeim ljóma sem var í kringum fjármálaguttana. Þeir sem hafa verið við stjórn efnahagsmála undanfarin tæp 20 ár lögðu sérstaklega upp úr þessum ljóma í síðustu kosningum og sendu þeim tóninn sem bentu á að spilað væri of hátt og gengið væri rangt skráð.

Spilað var með þá sem áttu að gæta hagsmuna almennings og þeir hugðu ekki að sér. Nú hlaupa þeir í skjól og vilja ekki bera ábyrgð. Það er hætt við að reiði almennings vaxi enn frekar ef svo fer að almennu lífeyrissjóðirnir tapi miklu og lækka verði réttindi í þeim sjóðum, á meðan lífeyrissjóðir ráðherra, þingmanna og tiltekinna opinberra starfsmanna sækja tap sinna lífeyrissjóða í ríkissjóð og þurfi ekki að lækka réttindi. Ásamt því að hafnað verði að afnema eftirlaunafrumvarpið.

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna var að ganga frá verksamningum við erlent byggingarfyrirtæki upp á liðlega 2 milljarða á meðan innlend fyrirtæki fara á hausinn. Og þeir skrifa greinar um að allir eigi að vera vinir og ekki eigi að leita að sökudólgum.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Úr DAVÍÐSSÁLMI 62. 8-13.

Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd,
minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.
Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn,
úthellið hjörtum yðar fyrir honum,
Guð er vort hæli.

Hégóminn einn eru mennirnir,
tál eru mannanna börn,
á metaskálunum lyftast þeir upp,
einber hégómi eru þeir allir saman.
Treystið eigi ránfeng
og alið eigi fánýta von til rændra muna,
þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.

Eitt sinn hefir Guð talað,
tvisvar hefi ég heyrt það:
„Hjá Guði er styrkleikur.“
Já, hjá þér, Drottinn, er miskunnm
því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.

Nafnlaus sagði...

Nauðsynlegt er að þess sé gætt að valdheimildir sem verið er að samþykkja á Alþingi í kvöld verði m.a. nýttar til að sjálftaka himinhárra launa sé stöðvuð í fjármálastofnunum.

Alþingismenn þurfa jafnframt að stöðva eftirlaunaósómann og færa lífeyriskjör sín til samræmis við almenning í landinu.

Davíð Oddsson þarf að víkja strax, þar sem þorri þjóðarinnar er búinn að fá upp í kok af honum auk þess sem hann er rúinn trausti í fjármálaheiminum!

Nafnlaus sagði...

Hvar verður hægt að nálgast matarmiða í næstu viku?

Nafnlaus sagði...

"Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna var að ganga frá verksamningum við erlent byggingarfyrirtæki upp á liðlega 2 milljarða á meðan innlend fyrirtæki fara á hausinn. Og þeir skrifa greinar um að allir eigi að vera vinir og ekki eigi að leita að sökudólgum".

Já, endilega, Guðmundur. Okkar fyrsta viðbragð við kreppunni á að vera að leiða þróunina í átt að einangrunnarstefnu. Það er fátt sem passar jafn vel við hagsmuni þjóðar sem byggir efnahagslíf sitt á fáum, sérhæfðum útflutningsgreinum. Næst skulum við segja upp EES!

Nafnlaus sagði...

Því miður er ekki hægt lengur að búa á Íslandi. Vextir og verðtrygging setja allan almenning á hausinn, en ríkisstjórnin stendur hlægjandiog horfir á.
Hvernig væri að láta ofurlaunahaukana endurgreiða hluta launanna og starfslokasaminganna og ná í peningana sem þeir hafa komið undan til skattaparadísa. Hækka þarf eftirlaun almennings til jafns við ráðherra o.þ.h. liðs.
Þangað til þetta verður er ég farinn burt frá Íslandi þangað sem hægt er að lifa af venjulegum dagvinnulaunum og fólk eignast eitthvað í húsunum sem það er skráð fyrir.
Með þökk fyrir samstarfið:
Þrællinn.

Nafnlaus sagði...

"Drengir, sjáiði ekki veisluna?" (Árni M. Mathiesen)