Það var alltaf mikil upplifun að taka leið 14 innan úr Vogunum niður á torg og fara í Gamla bíó. Þar lögðu margir grunn að viðskiptaferli með þátttöku í margslungnum skiptimarkaði teiknimyndablaða. Öll höfðu þau ákveðið gengi og var gengi Dell blaðanna hæst. Kvikmyndir og blöð Lone Rangers á hestinum Silver með félaganum Tonto voru mitt uppáhald. Þeir tóku vondu gæjana í bakaríið og þeystu svo út í sólarlagið og kvöddu með “Hæ-jó Silver, away.”
Gamla bíó hefur í gegnum tíðina eignast ákveðin sess í hugum margra. Ég er einn þeirra sem fer í ákveðnar hugræna stellingu þegar ferðinni er heitið þangað. Í gærkvöldi var tilefnið ein af mínum uppáhaldssöngkonum Ellen. Hún var mætt þar með Eyþór manninum sínum og þrem dætrum þerim Elínu, Sigríði og Elísabetu. Auk þeirra voru á sviðinu bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir, Pétur Ben og Magnús Tryggvason á trommur. Allt toppfólk hvert á sínu sviði, enda var ekki ein einasta feilnóta slegin.
Uppistaðan í prógraminu voru vitanlega lögin hans Magga Eiríks. Hann mætti á sviðið og tók eitt lag, einnig kom KK bróðir Ellenar upp á svið og tók eitt lag. Auk þess voru nokkur ný lög og vitanlega sálmur. Ellen er ákaflega örugg söngkona og veit upp á hár hvernig hún á að beita röddinni. Hún hefur áður verið með þetta band með sér og þau sýndu öll að þar fór fólk í efstu deild.
Mér fannst stundum að þau hefðu hægt á taktinum einum um of í nýjum útsetningum, en annars voru þetta frábærir tónleikar í frábæru húsi. Húsið fer vel með tónlistarfólkið og ekki síður áheyrendur. Öllum leið vel og ófarir efnahagslífsins gleymdust í tvo frábæta klukkutíma. Alveg verið til í að sitja aðeins lengur og draga það að hoppa út í fáránleikann.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli