mánudagur, 20. október 2008

Flón við stjórn

Á hverjum degi kemur fram hversu mikið umræðan á Íslandi einkennist að rakalausum fullyrðingum, klisjum sem tilteknir aðilar klifa á í síbilju. Þetta blasti við öllum þegar Kastljósið birti úrklippur úr fréttum undanfarinna ára fyrir helgi og var endurtekið í virkilega góðum Kompásþætti í kvöld.

Sama má segja um þær fullyrðingar sem settar hafa verið fram um þau skilyrði sem sett verði við aðkomu alþjóða gjaldeyrisvarasjóðsins. Sú umræða hefur einkennst af rakalausum hræðsluáróðri tiltekinna aðila.

Stjórnmálamenn gleymdu sér í gleðilátum með spákaupmönnunum og ollu með því mikilli upptöku á eignum almennings og verða auk þess að skuldsetja þjóðfélagið sem svarar einni árs landsframleiðslu.

Margir hafa glatað öllu sínu sparifé. Lífeyrisjóðirnir tapa miklu og gætu þurft að skerða lífeyri. Og stjórnmálamenn halda áfram á sömu braut með því að nýta eignir almennu lífeyrissjóðanna eins og þeir séu eign ríkisins. Jafnvel að hafa komið fram hugmyndir um að þjóðnýta þetta sparifé launamanna.

Manni er spurn hvernig forseti þessa lands geti litið framan í landsmenn, sama má segja um seðlabankastjóra. Þessir hinir sömu hafa verið virkir þátttakendur í gleðileiknum, en sverja í dag af sér alla vitneskju og haninn hefur ekki enn galað 3x. Á sama tíma settu stjórnmálamenn lög sem tryggja þeim ofureftirlaun sem tekin eru úr ríkissjóð.

Óheft framganga 30 spákaupmanna með fjármuni landsmanna og getuleysi stjórnmálamanna, (flón eins og þeir eru nefndir af virtum erlendum hagfræðingum) hefur leitt til þess að á Íslandi hefur niðursveifla orðið mun heiftarlegri en annarsstaðar. Þúsundir hafa glatað atvinnunni og fyrir liggur að þeim muni fjölga.

Fyrir liggja mikil átök milli sjóðsfélaga almennu lífeyrissjóðanna og stjórnmálamanna. Krafan mun beinast að því að stjórnmálamenn tryggi almennu lífeyrisjóðina með sama hætti og þeir hafa tryggt sinn lífeyrissjóð, auk þess að þeir afnemi lögin um eftirlaunasjóðinn.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ef ekkert verður gert í málunum strax í þessari viku er ég hræddur um að það bresti á fólksflótti frá Íslandi.
Fyrstir fara iðnaðarmenn og margt ungt fólk sem getur auðveldlega fengið vinnu t.d á hinum norðurlöndunum.
þessi flótti brestur á strax eftir áramót þegar fólk áttar sig á að það kemur aldrei til með að geta staðið undir verðtryggðum íbúðalánum á okurvöxtum.
Þökk sé duglausum leikurum í leikhúsinu við austurvöll.

Nafnlaus sagði...

Tek undir með þér, Guðmundur, um að eitt mikilvægasta verkefni ykkar sem veitið samtökum okkar launafólks forstöðu, að koma í veg fyrir misnotkun á lífeyrissjóðunum. Ekki láta skósveina Vilhjálms Egilssonar í stjórnum sjóðanna ná því fram að þeir verði látnir fjárfesta í Kaupþingi eða öðrum fjármálafyrirtækjum. Fyrir það fyrsta er það nú í algjörri andstöðu við núgildandi lög, en þessum flónum væri trúandi til að breyta þeim. Ekki vafi að bæði framsóknarviðundrin og rugludallarnir í xF myndu styðja íhaldið í því.

Nafnlaus sagði...

Krafa almennings er sú að stjórnmálamenn búi við sömu eftirlaunaréttindi og aðrir landsmenn. Ekki sérstök forréttindi.

Hingað til hefur reynst þrautin þyngri að slíta þessi forréttindi úr skoltinum á þeim. Þeir vilja búa við Austur-þýskt lífeyriskerfi, útaf fyrir sig.

Jafnrétti er svo bara froða á vörum þeirra.

Flestir stjórnmálamenn munu reyna að misskilja kröfuna um afnám eftirlaunaósómans þannig að aðeins þurfi að afnema lögin frá 2003 og þeir geti svo búið áfram við forréttindin eins og þau voru fyrir þann tíma.

Rislitlir ræflar.

Rómverji

Guðmundur sagði...

Rétt Rómverji. Það eru ótrúlega margir sem átta sig ekki á því að þingmenn og ráðherrar voru búnir að koma sér upp margfallt betri lífeyrisréttindum en aðrir landsmenn hafa, en tóku svo Eftirlaunaréttindin þar til viðbótar.
Þeir voru og eru með :
Þingmenn með 45% mótframlag í lífeyrissjóð, á meðan við erum með 11.5%
Ráðherrar með 80% mótframlag.

Þar til viðbótar er ekki um að ræða skerðingar eins og verða hjá almennum lífeyrissjóðum, það er sótt í ríkissjóð.

Og svo til viðbótar eru þeir með Eftirlaunaréttindin fyrir ráðherra og æðstu embættismenn sem koma ofan á hin réttindin

Nafnlaus sagði...

Ég get tekið undir með nafnlausum #1.

Ég hef ekki enn heyrt í háskólamenntuðu fólki undir 40 ára sem er ekki að skoða sig um í hinum stóra heimi.

Það eina sem heldur manni á þessu óstjórnarskeri er að maður getur ekki losað sig undan "eignum" sínum án þess að þurfa að þola mjög stórt tap.

Það eina sem stjórnvöld geta gert til að halda unga fólkinu í landinu er að hafa íbúðir þeirra og bíla ósöluhæft.

Ég spái því að ef ekkert er gert munum við sjá ca. 75% þeirra sem eru fæddir eftir 1970 gjaldþrota í vor, og að það verði þúsundir íbúða og húsa á nauðungarsölum - þótt þau seljist vitanlega ekkert.

Öddi

Nafnlaus sagði...

Smá athugasemd, hefur ekkert með efnið að gera, heldur hversu oft haninn galaði (þú sagðir þrisvar)
Jesú sagði við Pétur að áður en haninn hefði galað tvisvar, mundi hann afneita sér þrisvar.

Nafnlaus sagði...

"Þetta eru líklega þær tekjur sem þetta fólk hefur mokað út úr íslenska hagkerfinu inn á leynireikninga erlendis."

Þetta er í sjálfu sér rangt. Þú virðist ekki skilja hvernig þetta fer fram. Sem er í sjálfu sér áhyggjuefni miðað hvað þú tjáir þig mikið.

Þessir peningar hafa einmitt ratað að mestu leyti inn í íslensk hagkerfi, hins vegar hafa menn ekki greitt til samneyslunar af þeim fyrst. Þ.e. þegar hagnaður/tekjur myndaður erlendis er tekin heim fyrir einstakling eru tvær leiðir til þess. A) Greiða arð til Íslands (10% skattur) og B) Greiða sér laun frá erlendu félag(35,75%) skattur. Engin spurning að þessi skattsvik eru alvarleg, en best að fara rétt með.

Þessi kort hafa verið notuð hér á landi, þannig fékk RSK upplýsingarnar. Þessi aðferð, kreditkortaaðferð hefur verið þekkt lengi. Bankarnir hafa boðið hana erlendis, en íslenskir ráðgjafar haft skömm á, bæði ólögmætt og augljóst að upp kæmist um síðir.