fimmtudagur, 9. október 2008

Ómálefnanlegt óefni

Ríkisstjórnin fór þess á leit í síðustu viku við launamenn að þeir flyttu hingað heim helming erlends sparifjár síns, eða um 200 milljarða. Því var svarað að það kæmi ekki til greina nema að tekið væri til í efnahagslífi og lögð plön um hvert menn ætluðu að stefna. Þetta fór í taugarnar á ráðherrum og sagt að nú væru launamenn að fara út fyrir valdsvið sitt og því varð ekkert úr þessu.

Ekki virtist vera farið fram á það sama við auðmennina sem hafa tröllriðið íslensku fjármálalífi undir lofræðum seðlabankastjóra og fylgisveina hans. "Þá hafa þeir með góðum árangri sótt á erlenda lánamarkaði..........Bankarnir hafa farið mikinn í útrás sinni á undanförnum árum. Seðlabankinn telur að flest bendi til að vel hafi til tekist í fjárfestingum þeirra í útlöndum"; Davíð Oddsson á ársfundi lífeyrissjóða maí 2006.

Óþarfi er að rekja aðferðir þeirra, það hefur verið gert á svo mörgum stöðum á undanförnum vikum. Nú er svo komið að allmargir milljarðar af sparifé launamanna í lífeyrissjóðunum eru horfnir sakir þess að sjóðunum hefur verið gert með lögum frá Alþingi að fjárfesta fyrir ákveðið hlutfall hér heima. Ekki hefur verið hægt að uppfylla það hlutfall öðruvísi en að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum auðmannanna.

Nú er komið í ljós að mörg þessara bréfa eru lítils virði. Áður öflug fyrirtæki eins og Eimskip og Flugleiðir standa eftir í rústum einum. En auðmennirnir komu sparifé sínu fyrir erlendis. Lífeyrissjóðir almennra launamanna verða sumir hverjir líklega að fella eitthvað réttindi á næsta ári, því samkæmt lögum sem Alþingi setti verða þeir að eiga fyrir skuldbindingum. Sömu alþingismenn settu líka lög um að lífeyrissjóður tiltekinna opinberra starfsmanna fái bætur úr ríkissjóð um áramótin eigi hann ekki fyrir skuldbindingum.

Af framangreindum ástæðum er ekki langsótt hvers vegna að vaxandi fjöldi launamanna er farinn að krefjast þess að mun stærri hluti sparifé í lífeyrissjóðunum verði geymt á Evrusvæðinu, jafnvel allt, nema þá að alþingismenn setji samskonar ríkisstryggingu á lífeyrissjóði almennra launamanna og þeir hafa sjálfir samkvæmt lögum hafa sett á sjóði sem eru þeim þóknanlegir.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Ríkisstjórnin fór þess á leit í síðustu viku við launamenn að þeir flyttu hingað heim helming erlends sparifjár síns, eða um 200 milljarða. Því var svarað að það kæmi ekki til greina nema að tekið væri til í efnahagslífi og lögð plön um hvert menn ætluðu að stefna. Þetta fór í taugarnar á ráðherrum og sagt að nú væru launamenn að fara út fyrir valdsvið sitt og því varð ekkert úr þessu".

M.ö.o þú og þínir félagar tókuð lífeyrissparnaðinn minn og reynduð að nota hann sem vogarafl til þess að koma ykkar pólitík í framkvæmd.

Mínir kjörnu fulltrúar samþyktu það ekki og þér þykir þeir hafa sýnt einhverskonar hroka.

Líttu þér nær!

Nafnlaus sagði...

Hans. Ríkið hefur ekki yfir lífeyri okkar að ráða, Guði sé lof. Lífeyrissjóðirnir eiga að tryggja okkur, eigendum þeirra, lífeyri. Þeir eiga ekki að hlaupa undir bagga með áhættufjárfestum sem eru að fara á hausinn, jafnvel þótt Geir Haarde biðji um það. Við getum bara þakkað fyrir það að lífeyrissjóðirnir eiga einhverjar eignir í útlöndum. Trúlega eru 25% af eignum þeirra brunnar í hruninu og þjóðnýtingunni hér heima og hefði getað farið verr ef Geir hefði tekist að láta sjóðina dæla peningum inn í landið, til þess eins að brenna.

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist, Guðmundur, að okkar sjóður hafi tapað 19% af heildareign miðað við verðmat um síðustu áramót, og þá er bara verið að tala um hlutabréfin. Svo á eftir að koma í ljós með önnur verðbréf, svo sem skuldabréf fyrirtækja. Þau eru mörg hver vonarpeningur. Svo er verið að hneykslast á því að lífeyrissjóðirnir vilji fá leyfi til meiri áhættudreifingar? Ég held þessi blessaður Hans Haraldsson ætti að reyna að hugsa svolítið áður en hann skrifar komment.

Nafnlaus sagði...

Hans, Þetta er nákvæmlega rétt hjá þér ef við lítum okkur nær þá gerðu verkalýðsfélög kröfur til ríkisins að uppfylla ströng skilyrði til þess að tryggja að ekki færi á versta veg, ríkið gat sem sagt ekki staðið undir slíkum kröfum að bæta efnahagsstjórnina! Sem betur fer standa verkalýðsfélög og lífeyrissjóðir á bak við okkur launamenn og eyða ekki sparifé okkar í vitleysu! En af hverju stöndum við í þessum sporum sem við erum núna, er það ekki að stórum hluta vegna þinna kjörnu fulltrúa (eins og þú dásamar þá) hafa ekki sinnt skildu sinni við rekstur ríkisins! Hefði ekki verið betra að reka það betur og komast hugsanlega hjá svona stöðu?

Nafnlaus sagði...

Beint í mark, Guðmundur.

Rómverji

Guðmundur sagði...

Bara benda Hans Haraldssyni á að það hefði verið vitfyrring að samþykkja að koma heim með fjármagnið án þess að ræða breytta efnhags- og peningamálastjórn. Ef það hefði verið gert þá og sú áætlun hefði tekist þá hefði hagsmunum lífeyrisþega verið betur borgið en ella. Það segja atburði síðustu dag án frekari skýringa.
En dramb tiltekinna stjórnmálamanna og fylgisveina þeirra hefur leitt yfir okkur þetta óáran. Þannig er það nú.