þriðjudagur, 30. desember 2008

Eftiráspekingur

Hef verið að kíkja á pistla þessa árs til upprifjunar, eins og svo margir gera um áramótin. Verð að viðurkenna að ég hef stundum verið undrandi á þeim fullyrðingum um að verkalýðsforystan hafa ekkert gert og látið þetta allt renna athugasemdalaust framhjá sér.
Hér er pistill sem ég setti saman og birti hér á síðunni 17. marz síðastliðinn :


Í allmörg ár hafa aðilar atvinnulífsins gagnrýnt þá efnahagsstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett hér á landi. Á sama tíma hafa forsvarsmenn þessarar stefnu hrósað sjálfum sér fyrir mikil afrek, ásamt því að gera lítið úr ábendingum atvinnulífsins. Því hefur verið haldið að okkur að með þeirri efnahagsstefnu sem frjálshyggjuarmur Sjálfstæðisflokksins hefur markvisst byggt upp, sé Ísland að verða að gæðaumhverfi sem fjármálastofnanir vilji komast til. Ekkert er fjær lagi, það er gert gys af íslensku efnahagslífi.

Ekki hafa hinir ofurlaunuðu útrásarpiltar aukið á traust okkar, og þeir eru fáir meðal almennings hér á landi sem það gera. Þeir hafa nýtt sér stöðu sína til þess að hrifsa til sín hluta af þeim arði sem launamenn hafa safnað saman í lífeyrissjóðum frá árinu 1970.

Helstu rök valdhafanna gegn því að ganga til liðs við það efnahagsumhverfi sem nágrannaríki okkar hafa byggt upp með góðum árangri, og við höfum reyndar notið góðs af, hefur verið sú að það sé svo gott að hafa okkar eigin gjaldmiðil því þá getum við varið atvinnulífið fyrir atvinnuleysi.

Það hefur oft komið fram að hlutverk þessa gjaldmiðils er það eitt í augum stjórnenda íslenskra efnahagsmála af hafa af launamönnum umsamdar launahækkanir og halda þeim í ríki ofurvaxta og ofurverðlags fákeppninnar.Sú peningamálastefna sem Sjálfstæðisflokkurinn fylgir, hefur í raun einungis aukið sveiflurnar í efnahagslífinu. Íslenskt efnahagslíf er fyrir allnokkru vaxið langt upp yfir örkrónuna.

Seðlabankastjóri og fylgisveinar hans í stjórn bankans hljóta að víkja, ásamt því að vikið verði af slóð glötunar og tekist á við þann vanda sem röng stefna í efnahagsmálum hefur leitt yfir okkur.
Hefja verður skipulagða hreinsun og gera íslenskt efnahagslíf tækt í það evrópska.

2 ummæli:

Einar sagði...

En hvaða aðgerða greipstu til, utan við að skrifa pistil?

mbk
Einar Ben.

Guðmundur sagði...

Sæll Einar

Ef þú lest pistlana frá því ég hóf að skrifa á Eyjuna fyrir liðlega ári síðan og eins ef þú hefur fylgst með fréttum, þá kemur það margítrekað fram til hvaða ráða var gripið.

Stormað var á fundi ríkisstjórnar og embættismanna og reynt með að fá þá til þess að gríp atil aðgerða. Tillögur um aðgerðir koma einnig fram í pistlunum.

Það eru ráðherrar þeir sem fara með framkvæmdavaldið. Viðbrögð þeirra koma einnig fram í pistlum og komu einnig fram í fréttum, Kastljósum og Silfrum.

Eins og kemur fram í pistlum á undanförnum vikum þá er komið fram að ríkisstjórninni var þegar í apríl mikið betur ljóst í hvað stefndi en öðrum landsmönnum.

Það hefur útskýrt fyrir mér hin kostulegu viðbrögð sem aðila vinnumarkaðs fengu hjá ríkistjórn og embættismönnum og lýst er ítarlega í pistlunum í marz og apríl. Fullkomið úrræðaleysi og uppgjöf.

Í pistlunum kemur glögglega fram til hvaða aðgerða hefði verið gripið síðastliðin vetur ef verkalýðshreyfingin hefði haft framkvæmdavaldið.

Það er komið fram að það hefði ekki komið í veg fyrir bankahrunið, en dífan hefði kannski ekki orðið eins djúp.

Í þessu smabandi má einnig benda á ályktanir ASÍ og kröfur sem beint var til framkvæmdavaldsins fyrir tveim árum síðan um að efla gjaldeyrissjóði frekar en að setja það í eyðslu og skattalækkanir hjá hinum efnameiri og spenna Þennsluna enn frekar upp.

Allt er þetta til í pistlum, greinum, sendiferðum á vit ráðherra og embættismanna.

Góðar áramótakv. GG