sunnudagur, 21. desember 2008

Græn uppbygging

Það er ánægjulegt að heyra hugmyndir um uppbyggingu kísilflöguverksmiðju í Hvalfirði. Sólarrafhlöður eru einn þeirra þátta sem munu leiða til minni losunnar gróðurhúsaloftegunda í andrúmsloftið. Við eigum að róa á þau mið.

Það eru nánast óendanlegir möguleikar á hinu svokallaða græna sviði sem á sér ört vaxandi stuðning í heiminum í dag. Það eru gríðarlegir möguleikar á sviði lífefnaiðnaðar og mikill áhugi að koma til Íslands. Það er þegar uppgangur á þessu sviði hér á landi en gæti verið töluvert meiri. Einnig liggur fyrir að það sé hagkvæmt að framleiða ákveðnar tegundir af grænmeti hér á landi með vistvænni raforku.

Við fráhvarf Bush og stefnu hans fylgisveina mun á næstu árum valda byltingu á sjónarmiðum gagnvart umhverfinu. Þessum viðhofum hefur verið haldið að íslendingum af hönnuðum þess efnahagskerfis sem hrundi til grunna í október síðastliðnum. Þeir gáfu sig út fyrir að vera sérstakir vinir Bush og þeirra ömurlegu sjónarmiða sem hann og skoðanabræður hafa troðið inn á veröldina síðasta áratug.

Það hefur ekki reynst vel að setja öll eggin í eina körfu. Fiskurinn var ráðandi á sínum tíma og það kostaði okkur margskonar rússíbanaferðir með efnahagslífið. Síðan lögðum við alltof mörg egg í bankakörfuna og slepptum frjálshyggjunni lausri og erum enn eina ferðina að upplifa rússibanaferð, þá svakalegustu allra.

Íslensk orka mun ekki falla í verði, þvert á móti munu verðmæti hennar margfaldast á komandi árum. Það væri því mikill fingurbrjótur ef núverandi stjórnvöld næðu því fram að selja enn stærri hluta af orku okkar í 40 ára samningi til álvera.

Mörg fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að koma hingað með framleiðslu á borði við grunn sólarrafhlaðna og aflþynna eins og á að fara framleiða á Akureyri. Koltrefjaverksmiðja er einn af þeim áhugaverðu kostum sem okkur stendur til boða.

Það er er hröð þróun í rafgeymum og rafbílar munu taka við. Það er ekki ólíklegt að eftir 10 ár verði raforka a.m.k. helmingur þeirrar orku sem íslenskur bílafloti nýtir. Ekið verður inn á hleðslustöð og skipt um rafgeyma. Það kallar á orku úr raforkukerfinu sem samsvarar framleiðslu Kárahnjúkavirkjunnar. Þá værum við í mun lakari stöðu að þurfa að ef við værum búinn að selja mikinn hluta hagkvæmustu orkuframleiðslumöguleikan okkar í framvirkum samningum til erlendra auðhringa til margra áratuga.

Miklir möguleikar eru fyrir minni orkuframleiðendur en Landsvirkjun eins og t.d. bændur sem eru að byrja að virkja minni ár í eigin landi. Við getum með þeim hætti framleitt mikla orku vítt og dreift um landið og með því reist vistvænar verksmiðjur af heppilegri stærð, með mannaflaþörf á bilinu 50 – 200 manns.

Með góðri skipulagningu væri ekki um að ræða kollsteypuuppbyggingu eins og ríkisstjórnir okkar hafa tíðkað hingað til. Jafn stígandi mun leiða til stöðugleika, lægri verðbólgu og vöxtum sem gerir verðtryggingu óþarfa.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér eru tækifærin óþrjótandi, lítil og stór. Það sem er að ske núna er það að það eru fleiri að verða virkari í umræðunni og sýnir það best að fólki er ekki sama um hver staðan er eða hvert stefnir.

En það sem á eftir að ske er það að það verður að brjóta upp það kerfi sem er við líði í dag; það kerfi einginhagsmunapots og spillingar sem er búið að setja Ísland á hausinn nú þegar. Við höfum ekki meira svigrúm fyrir rugl örfárra einstaklinga.

Það er ekki hægt að fara neðar og leiðin er aðeins uppávið úr þessu. Hluti af því er að spila vel úr þeim auðlindum sem við höfum.

Stundum er sagt að það er best að vera í því sem viðkomandi er góður. Hér höfum við góðan grunn og orkumikið fólk; farvegurinn verður þó að vera heilbrigður og hann þarf að skapa núna.