Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg og í mörgu einkennst af ótrúlegum þekkingarskorti og skilningsleysi. Einkennilegt því það er búið skrifa einhver ósköp um lífeyriskerfið á undanförnum árum og eins liggja fyrir á netinu ákaflega greinargóðar útskýringar á því eins og t.d. á heimasíðu landssambands lífeyrissjóða.
Það er dáldið einkennilegt að stjórnendur spjallþátta og eins morgunþátta, sem vilja láta taka sig alvarlega, skuli athugasemdalaust taka minnisblað með fullyrðingum um að gjörvalt lífeyriskerfið sé ein ruslahrúga. Sáralítið hlutfall sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði.
Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð. Hluti inngreiðslu kemur beint frá sjóðsfélaga og hluti frá vinnuveitanda hans, en öll upphæðin er eign starfsmannsins, sjóðsfélagans. Hún er hluti lögbundinna launa hans. Lífeyrissjóður á í sjálfu sér engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í. Í dag er það svo að þær innistæður sem eru í sjóðunum duga ekki fyrir skuldbindingum og við blasi að lækka verði örorku- og ellilífeyri. Þetta hefur margítrekað komið fram.
Hlutverk lífeyrissjóðs er að taka á móti iðgjöldum sjóðsfélaga og ávaxta þau með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni og greiða lífeyri til sjóðsfélaga. Kerfið er stillt þannig af að sjóðsfélagi sem greiðir allan sinn starfsaldur, það er frá 25 ára til 67 ára, á þá í sínum sjóð innistæðu fyrir lífeyri sem svarar til um 60% af meðallaunum frá 67 ára aldri til dauðadags. Ef viðkomandi hefur greitt í styttri tíma verður lífeyririnn minni í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar.
Það eru stóru barnasprengjuárgangarnir sem komu í heiminn á árunum eftir seinna stríð fram til ársins 1960, sem eru í dag að safna upp sínum lífeyri. Þeir munu skella á lífeyriskerfinu í hratt vaxandi þunga eftir 2014 og með fullum þunga eftir árið 2031. Fram að þeim tíma fer fram mikil uppsöfnun í sjóðunum. Eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja stóru árgangar sjóðanna að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka lífeyri sinn út.
Stærðfræði sjóðanna byggist í sinni einföldustu mynd á því að sjóðsfélagi greiðir 12% af launum sínum í iðgjald til lífeyrissjóðs í rúm 40 ár. Þá dugar innistæða hans fyrir framangreindum lífeyri til meðalaldurs. En lífeyrissjóður lofar í lífeyrisgreiðslum til dauðadags. Almennu lífeyrissjóðirnir eru sameignarsjóðir og geta staðið við þetta loforð vegna þess að jafnmargir falla frá fyrir meðalaldur og þeir sem lifa lengur.
Í dag eru áberandi nokkrir aðilar sem vilja taka það sparifé sem sjóðsfélagar eiga í lífeyrissjóðunum og nýta það til þess að greiða uppskuldir annarra. Nokkrir þeirra sem hafa haft sig hvað mest í frammi með þetta hafa aldrei greitt krónu í almenna lífeyriskerfið. En þeir vilja sem sagt nýta sparifé annarra til þess að greiða upp sínar skuldir.
Með þessu orðum er ég á engan hátt að gera lítið úr skuldastöðu heimila. Við bíðum eftir að stjórnvöld taki á greiðsluvanda heimilanna, eins og ég haf marga oft fjallað um hér. Vandinn liggur hjá bönkunum og íbúðarlánasjóð eins og svo vel kom fram í Kastljósinu í gærkvöldi, ekki lífeyrissjóðunum.
Skuldastaðan á ekki við alla, sumir hafa skuldsett sig til þess að spila á markaði og verða að taka ábyrgð sjálfir á þeim skuldum.
18 ummæli:
Ef þetta er mín eign eins og þú segir, af hverju er hún þá glötuð ef ég skyldi deyja áður en ég næ rétttum aldri, en fer ekki til nákominna ættingja?
Guðmundur er einn af varðhundum þessa kerfis, kerfis sem vill ekki verðtryggingu burt þótt það bjargi hugsanlega þúsundum heimila frá gjaldþroti. Ástæðan er fyrst og fremst sú að Verkalýðselítan sem Guðmundur tilheyrir vill ekki tapa þeim áhrifum sem hún kaupir sér með hlutabréfabraski og öðru braski með fjármuni almennings í landinu
Eiríkur Thor tilheyrir þeim flokki manna, sem finnst ótækt að endurgreiða þau lán sem hann tekur í jafnvirði. Innihaldslausir frasar populista eins og hans eru einskis virði og halda ekki vatni. Guðmdunur gerði hinsvegar grein fyrir því hvernig samtryggingarsjóður virkar. Það ætti að svara fyrsta kommentinu, en sá sem þar skrifar hefur greinilega ekki skilið orð Guðmundar og þarf sá að lesa aftur. Okkar lífeyriskerfi byggist á þeirri megin hugmynd, að hver kynslóð sjái sjálfri sér fyrir lífeyri eftir að starfsævinni lýkur. Svokallað gegnumstreymiskerfi, sem byggir á því að skattar þeirra, sem eru á vinnumarkaði hverju sinni, standi undir lífeyri aldraðra. Evrópa hefur verið að rekast harkalega á það, að með sífelld hækkandi meðallífaldri fólks, verða stöðugt færri til að standa undir því kerfi og skattbyrði af þeim sökum fyrirsjáanlega óbærileg í næstu framtíð. Okkar kerfi er svokallað "þriggja stoða kerfi", sem byggir í fyrsta lagi á samtryggingarkerfi, í öðru lagi á séreignarsparnaði og í þriðja lagi á öryggisneti, sem fjármagnað er af skattfé fyrir þá, sem eiga þess ekki kost að vinna sér inn lífeyrisrétt, t.d. vegna fötlunar o.s.frv. - Það, sem verkalýðshreyfingin hefur hinsvegar verið að berjast við í sambandi við stjórnkerfi sjóðanna er sú ráðstöfun löggjafans, að atvinnurekendur skuli eiga helmings aðild að stjórnarsætum í lífeyrissjóðunum. Það er helsta og versta óréttlætið í kerfinu. Taka ber fram að lokum, að það sem hér hefur verið sagt á fyrst og fremst við um hina almennu lífeyrissjóði verkalýðshreyfingarinnar. Aðrir sjóðir, svo sem Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Íslenski lífeyrissjóðurinn og fleiri slíkir, eru reknir á öðrum grunni, þ.e. þeir eru gróðafyrirtæki, sem oft eru t.d. rekin af bönkum og öðrum fjármálastofnunum.
Sannleikanum verður hver sárreiðastur...
Eiríkur, mér finnst komment þitt eiga meir við þig sjálfan en okkur félagana, mig og Guðmund. Þú hefur sennilega ekki vit á að skammast því svo það þýðir líklega ekkert að mælast til þess
Einhvernveginn finst mér sem það sé skrýtin mótsögn í þessu hjá þér.
Ef fólk hefur greitt sín 12% inn til sjóðsinns, hvernig má það þá vera að ekki sé hægt að standa skil á því til baka?
Ef sjóðirnir geta ekki skilað til baka því sem greitt er inn, þá hlýtur einhvað mikið að vera að.
Eru Sjóðstjórnirnar, sem hafa verið á mjög góðum launum, vegna mikillar ábyrgðar eins og það heitir, kanski stór hluti af vandanum.
Það skildi þó aldrei vera að umsýslukostnaður vegna sjóðanna sé eitthvað sem þolir illa skoðun.
Eða eru kanski rangar forsendur notaðar fyrir útreikningunum, þarf maður jafnvel að borga meira inn?
Maður skilur bara ekki hvernig Sjóðstjórnir, sem hafa básúnað hve vel þeir hafa ávaxtað pundið okkar, geta komið fram núna og sagt '' við getum ekki staðið við skuldbindingar sjóðanna''.
"" Eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja stóru árgangar sjóðanna að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka lífeyri sinn út."""
Halló varstu ekki að enda við að segja að þetta væri sparnaður viðkomandi, hvernig má búast við öðru en að hann fari aftur út ?
Með félagskveðju Jon Loftss.
Þetta er því miður ekki einföld þríliða. Þetta er það sem kallað er rekstur á heilu samfélagi. Það verður að halda jafnvægi.
Það er dólgastærðfræði að halda því fram að "því miður þurfi þúsundir fjölskyldna að fara á hausinn" til þess að einhver tiltekin kynslóð geti fengið eftirlaun.
Þetta er léleg stjórnun á samfélagi. Allt hangir saman, allir eiga rétt, allir hafa þarfir. Stjórnvöld hafa staðið sig illa. Nú þarf að laga og þá þurfa ALLIR að taka á sig byrðar. Ekki bara einhver ein kynslóð.
mkv
Doddi
Það er ekki við lífeyrissjóðina að sakast að stjórnvöld hafa þráast hér við að vera með ónýtan gjaldmiðil, sem er grunn ástæða fyrir því að hafa þarf verðtryggingu. Svo var það ákvörðun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar á sínum tíma að afnema verðtryggingu á laun, sem þarf auðvitað að vera á móti hinni verðtryggingunni, svo allt gangi upp. Hvorgt þarf ef við værum með alvöru gjaldmiðil. Varðandi kostnað lífeyrissjóðanna, þá þekki ég ekki tölur nema úr rekstri þess sjóðs sem við Guðmundur Gunnarsson greiðum báðir í. Reksturskostnaður hans liggur fyrir í reikningum sjóðsins og stenst allan samanburð. Ég ætla svo ekki að standa frekar í "ritskýringum" við annars glögga grein Guðmundar, ef menn lesa hana vandlega og reyna að vera nokkurn veginn í jafnvægi á meðan, þá eiga menn að skilja hvað samtryggingarsjóður er annarsvegar og séreignarsparnaður hinsvegar.
Get ég kosið fulltrúa í lífeyrissjóðinn til að sjá um peningana mína Guðmundur?
Friðrik Tryggvason
Í dag eru áberandi nokkrir aðilar sem vilja taka það sparifé sem sjóðsfélagar eiga í lífeyrissjóðunum og nýta það til þess að greiða uppskuldir annarra.
Ég hef nú sjálfur aðallega orðið var við vilja fólks til að nota eigin inneign í lífeyrissjóðum til að greiða eigin skuldir; sem eru jafnvel oft á móti sjálfum lífeyrissjóðunum og snarhækka með hverjum mánuði sem líður vegna óðaverðbólgu.
Verðbólgan er böl. Lífeyrissjóðir, sem og aðrar útlánastofnanir taka hins vegar virkan þátt í því að viðhalda verðbólgu með því þrákallast við að bjóða ekki upp á neitt annað en verðtryggð lán.
Helsti kosturinn við verðtryggð lán er jafnframt þeirra stærsti galli. Lánveitandi fær alltaf sitt til baka.
Það að lánveitandi fái alltaf sitt til baka, hvernig sem árar, gerir það að verkum að allar hagsveiflur koma honum hreinlega ekkert við, hann fær jú alltaf sitt. Það er honum því í rauninni ekkert prinsipsmál að stuðla að stöðugu efnahagslífi.
Ef verðtryggingar nyti ekki við þyrftu lánveitendur að taka virkan þátt í að stuðla að stöðugu efnahagslífi því þá fyrst kemur það við budduna í formi minni og minni arðs af lánveitingu.
Kristinn
Ég er einn þeirra sem skrifað hefur um lífeyrissjóð verslunarmanna og tók dæmi um greiðslu 12% launa í séreign með 8% hefðbundnum innlánsvöxtun en ekki raunvöxtum eins og LV telur að ég hafi notað sem meginforsendu í stað þess að greiða í lífeyrissjóð.Ég var fyrst og fremst að vekja athygli á því hve háar upphæðir væru í gangi og gagngrýndi um leið hversu lítið virtist skila sér til baka til lífeyrisþega.Það sem menn halda almennt er að ég hafi kynnt mér málin mjög einhliða en uppsetning greinar minnar snérist líka um það að koma fólki í skilning um hverjir hafa raunveruleg völd yfir sparifé okka, í hvað það væri notað,hversu miklu væri búið tapa og hugmyndir mínar um hvernig betur hefði mátt dreifa áhættunni í fjárfestingum.Ég geri mér fulla grein fyrir hvað samtryggingin stendur fyrir og reyndar tel ég að Guðmundur sé sá eini sem hefur komið þessu annars illskyljanlega hugtaki einna best til skila með grein sinni dags.7 des.2007 þegar hann svarar gagnrýni á sjóðina.Það sem ég hef hinsvegar gagnrýnt er að ég er efins um að kostnaður við samtrygginguna sé eins mikill og menn vilja láta og geri ég athugasemdir við útreikningaforsendur tryggingafræðilegrar úttektar samkvæmt lögum og þykir mér vanta nokkrar forsendur þar inn til viðbótar.Því til stuðnings gæti ég nefnt að LV telur sig ekki þurfa að skerða lífeyrisréttindi þrátt fyrir gríðarlegt tap á fjárfestingum sjóðsins. Ég er sammála Guðmundi í einu og öllu varðandi nauðsyn samtryggingarinnar og tel að lög um lífeyrissjóði séu eingöngu til þess fallin að verja hagsmuni okkar en stóra spurningin er eftir sem áður.Hvað eru samtök atvinnulífsins að gera sem ráðandi afl í sjóðum okkar, ekki reikna ég með að þeir hefðu áhuga á að launafólk hefði ráðandi atkvæðisrétt í stjórnum fyrirtækja.Ég er mjög á móti þessari tengingu sem og fjárfestingastefnu sjóðsins ásamt því að mér finnst glórulaust að SA með þorgeir í farabroddi skuli æetla að seilast í vasa okkar eftir aurum til að fjárfesta í hálf gjaldþrota atvinnulífi.Sérstaklega í ljósi þess sem á undan er gengið. Ég tel það forgangsverk sé að bæta trúverðuleiki stjórnenda og fyrirtækja í landinu áður en við tökum slíkt skref.
Hvað liggur svo á að selja fyrirtækin í því markaðsumhverfi sem nú er. Eru menn að gefa upp á nýtt áður en þeir missa völdin?
Ég vil að lokum bæta því við að í mínum huga er Guðmundur hinn eiginlegi verkalýðsforngi þessa lands og hvet hann til að taka málstað okkar sem eigum svo mjög undir högg að sækja og hjálpi okkur að ná lífeyrissjóðunum úr höndum þessara manna sem fara svo frjálslega með ævisparnað okkar.
Ragnar Þór Ingólfsson
Sá fyrsti virðist nú ekki átta sig á því að ef hann deyr kanski um fimmtugt þá fá ættingajar meira heldur enn hann greiddi í sjóðinn.Þessir sjóðir eru líka samtrygginagrsjóðir.Enn svo á það ekki að þekkjast að atvinnurekendur sé í stjórn sjóðana. Enn svo á að halda fundi í sjóðunum á þeim tíma sem sjóðsfélagar geta mætt á, ekki einsog síðast á mijum vinnudegi, svoleiðis vinnubrögð eru bara verið að hefta aðgang sjóðsfélaga.
Kveðja Simmi
Staðreyndir lífeyrissjóðsins:
Vertu þræll minn meðan þú hefur heilsu til.
Ég er verulega ósáttur við að lífeyrissjóðskerfið sé notað til að neyða okkur til að styðja kúgara okkar tvöfallt með því að fjárfesta í þeim á sama tíma og við þurfum að taka frá þeim lán. Þá vil ég frekar nota laun mín til að greiða niður skuldir og selja svo eigur mínar þegar kemur að því að ég get ekki lengur unnið fyrir mér.
Auk þess tel ég það vafasamt þegar verkalýðforkólfar eru settir í að fara með fjárfestingar. Þegar svo kemur að því að semja um kaup og kjör hefur annar aðilinn bara hagsmuni fyrirtækjanna að leiðarljosi meðan hagsmunir hinns aðilans verður blönduð. Það gefur fólki lélega kjarasamninga.
Héðinn Björnsson
Það vekur athygli að hvorki Guðmundur með nafni, né hinn nafnlausi svara spurningu Friðriks um það hvort hann geti kosið sér fulltrúa í lífeyrissjóðinn sinn. Á því hefur Verkalýðselítan engan áhuga, hún vill hins vegar koma atvinnurekendum burt til að geta setið ein að braskinu. Telja menn í alvöru að það muni bæta hag lífeyrissjóðanna. Á hverju byggja þeir það, kannski framkomu formanns VR undanfarna daga og vikur...
Ég er ekki einn þeirra sem vil taka sparifé annara til að greiða mínar skuldir, ekki frekar en flestir íslendingar en það sama á að gilda um lífeyrissjóðseigendur og mig sem íbúðaeiganda og eða sparifjáreiganda þegar kemur að því að greiða skuldir þjóðarbúsinns eftir að það var sett á rassgatið af skúrkum.
Lífeyrissjóðirnir eru nefnilega hluti af vandamáli heimilana, ekki bara íbúðalánasjóður og bankarnir eins og þú heldur fram, lífeyrissjóðirnir heimta verðtrygginguna eins og íbúðalánasjóður og bankarnir.
Það er verðtryggingin sem er að sliga flest heimilin, sérstaklega núna þegar laun eru lækkandi (hjá þeim sem enn hafa atvinnu) og vöruverð hækkandi, verðbólga 17%.
Það er bara eðlileg krafa að lífeyrissjóðir tapi eins og hinir, hversu miklu er svo eitthvað sem þarf að semja um, en 17% verðbólga vegna gengishruns er nánast hreinn gróði fyrir lífeyrissjóðina og óréttlátt að halda öðru fram.
Verðbólgu má fastsetja í ákveðinni prósentu þar sem allir tapa.
Það er rétt hjá þér að þeir sem skuldsettu sig til að vera í fjárhættuspili á markaði ættu að borga sjálfir en það er bara pínulítill minnihluti fólks, flestir skulda hluta af húsnæði sínu kannski bíl og það er fólkið sem verið er að níðast á með verðtryggingunni.
Í þessa umræðu um skuldir þjóðarinnar sem Seðlabankinn hefur nú stofnað til með stórfelldum lántökum hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum vantar upplýsingar um hverjir eiga að endurgreiða lánið og hvernig. Það liggur fyrir að þessar lántökur voru nauðsynlegar til að hægt væri að bjarga íslenskum bönkum frá gjaldþroti með tilheyrandi tapi fjármagnseigenda og þá sérstaklega lífeyrissjóða sem spiluðu ótæpilega með útrásarvíkinum og notuðu til þess fjármuni launþega rétt eins og bissnesmennirnir frjálsu.
Það er óframkvæmanlegt óréttlæti að ætla nú að þvinga launþega til að endurgreiða erlend lán Seðlabankans með sköttum sínum á sama tíma og fólkið þolir að verðtryggð íslensk lán vaxi þeim yfir höfuð. Það óframkvæmanlegt vegna þess að gjaldþrota fólk greiðir hvorki nauðsynlega skatta né safnar í lífeyrissjóði. Það er óbærilegt óréttlæti vegna þess að fjármagnseigendur og atvinnurekendur munu ekki greiða skatta á næstu árum vegna taprekstar á þeim tíma sem endurgreiðsla hinna erlendu lána fer fram. Launþegar munu því einir endurgreiða þessi erlendu lán Seðlabankans sem sannarlega voru tekin til bjargar bönkum og lífeyrissjóðum sem ætla samt að sitja hjá þegar endurgreiða á lánin. Til þess að endurgreiðsla þessara erlendu lána sé framkvæmanleg verður að aflétta eða endurreikna verðtryggingu af íslenskum lánum svo fólkið sé mótíverað og aflögufært. Með því móti skipta fjármagnseigendur og skuldarar með sér einhverri ábyrgð.
Og núna vilja lífeyrissjóðir eignast hlut í bönkunum. Þeir vilja að skuldir sem þeir eiga þar ógreiddar og hafa rýrnað verulega vegna breytinga á gengi krónunnar verði greiddar út sem hlutafé í bönkunum og að þær haldi sama verðgildi gagnvart erlendum gjaldmiðlum og þær höfðu fyrir bankahrunið. Þannig vilja þeir standa jafnfætis erlendum lánadrottnum sem lánuðu í erlendum gjaldmiðlum. Slík framkvæmd væri í eðli sínu sami gjörningur og að endurreikna eða afnema verðtrygginu á íslenskum lánum. Það er furðulegt að engin fréttastofa hafi gert þetta að umræðuefni eða spurt þessa lífeyrissjóðsjólasveina sem hafa tapað milljarðahundrum í áhættufjárfestungum í skjóli bankaleyndar, hvort þeir sjái engar mótsagnir í skoðunum sínum!
Guðmundur Gunnarsson er heiðarlegur maður.
Hann lærir margt af þessu bloggi sínu.
Rómverji
Skrifa ummæli