miðvikudagur, 10. desember 2008

Hverju breytir ESB aðild fyrir íslenska neytendur?

Ég hlusta óneitanlega dáldið undrandi á ræður þeirra sem hafna því að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), auk þess að því er hafnað að skipta um gjaldmiðil og því er hafnað að ganga í ESB.

Staðreyndin er nú sú að allir sem voru tilbúnir að lána okkur fjármuni settu það sem skilyrði að það færi í gegnum AGS, annars fengjum við ekkert. Þetta átti m.a. við öll Norðurlöndin. Þar var m.a. átt við að taka yrði á þeirri spillingu sem væri hér í fjármálum og þeirri „hyglingu“ sem ráðandi stjórnmálamenn nýttu sér.

Ljóst er að ef við fengjum engin lán þá var þjóðargjaldþrot og allur innflutningur legðist af, lyf, matvara, eldsneyti og fl. Allir erlendir bankar settu sömu skilyrði.

Íslenska krónan hefur verið nýtt af fjármálamönnum til þess að hagnast á óförum hennar og hún er svo lítil að þeir geta auðveldlega skapað sveiflur sem eru þeim hagstæðar en bitna á íslenskum heimilum í formi falls krónunnar, hækkandi verðbólgu og vaxta.

Í nágrannalöndum okkar sem eru innan ESB er verðlag lægra, verðbólga 2 – 4%, vextir 4 – 6%. Þar ríkir stöðugleiki og þar er getur fólk gert langtímaáætlanir um uppbyggingu heimila sinna sem standast.

Fyrirtækin segjast ekki geta rekið sín viðskipti með krónunni og utan ESB, störfum hér fækkar.

Á þessu skoðuðu bíð ég eftir að menn útskýri fyrir mér hvað menn ætli þá að gera annað.


Hverju myndi ESB aðild breyta fyrir íslenska neytendur?
Evrópufræðasetrið við Háskólann við Bifröst hefur unnið skýrslu fyrir Neytendasamtökin „Hverju myndi ESB aðild breyta fyrir íslenska neytendur?“ Í skýrslunni eru skoðaðir kostar og gallar og þeir metnir út frá hagsmunum íslenskra neytenda.

Helstu niðurstöður eru:
· Með aðild að ESB yrði Ísland um leið aðili að tollabandalagi ESB. Því myndu þeir tollar sem enn eru milli Íslands og ESB landanna falla niður og munar þar mestu um landbúnaðarvörur. Þetta myndi skila sér í lægra verði á þessum vörum. Tollar gagnvart ríkjum utan ESB gætu í sumum tilvikum hækkað.

· Með aðild að tollabandalaginu myndu netviðskipti við fyrirtæki innan ESB verða ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum.

· Ljóst er að samhliða aðild þyrfti að endurskipuleggja íslenskan landbúnað á sama hátt og Svíar og Finnar gerðu áður en þessi lönd gengu í ESB. Draga þyrfti úr stuðningi við íslenskan landbúnað en nú er sá stuðningur með því hæsta sem gerist. Það er hins vegar ljóst að við eigum góða möguleika að ná samningum varðandi stuðning við innlendan landbúnað miðað við þá samninga sem Finnar náðu fram, þar sem allt Ísland fellur undir skilgreiningu um landbúnað á harðbýlu svæði eða heimsskautalandbúnað. Vegna þessa eru möguleikar á að fá meiri styrki til íslensks landbúnaðar frá ESB en lönd sunnar í álfunni fá. Einnig er mögulegt að íslensk stjórnvöld fengju heimild til að styrkja landbúnað sinn meira en gildir um önnur lönd innan ESB.

· Talið er að matvælaverð geti lækkað um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB.

· Með aðild að myntbandalagi ESB má gera ráð fyrir að vextir á íbúðarlánum myndu lækka töluvert. Erfitt er hins vegar að segja til um hve mikil sú lækkun yrði. Minnt er á að hvert prósentustig hefur mikla þýðingu fyrir heimilin.

· Með aðild að ESB og myntbandalaginu myndi viðskiptakostnaður lækka og ætti slíkt að leiða til lægra vöruverðs.

· Ætla má að með aðild myndu viðskipti og fjárfestingar erlendra aðila aukast hér á landi og þar með yrði samkeppnin meiri.

· Með aðild að ESB myndu Íslendingar geta sótt í ýmsa sjóði sem ekki er mögulegt í dag. Þar má nefna styrki til landbúnaðar og til byggðamála. Einnig yrði samstarf við lönd ESB öflugra á ýmsum sviðum eins og í mennta- og menningarmálum, rannsóknum og félagsmálum.

Rétt er að taka fram að Neytendasamtökin eru ekki með þessari skýrslu að taka afstöðu hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Neytendasamtökin vilja hins vegar leggja sitt að mörkum til að fram fari opinská og málefnaleg umræða um kosti og galla slíkrar aðildar og er skýrslan framlag samtakanna til þeirrar umræðu.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er einn þeirra sem er verulega hræddur við lánin frá AGS. Ég hef nefnilega enn ekki séð neitt plan fyrir það hvernig við eigum að geta greitt þetta tilbaka. Hefur þú séð einhverja slíka áætlun? Ég get ekki stutt lántöku sem ég hef enga hugmynd um hvort við getum staðið undir afborgunum af. Þá hef ég heldur ekki séð neina áætlun fyrir hvað við eigum að nota peningana í. Þegar ofan á er bætt að ég treysti ekki stjórnvöldum þeim sem eiga að fara með peningana verður niðurstaða mín að ég er á móti þessarri lántöku. Mér finnst allt benda til að verið sé að reyna að gera allt sem í valdi stjórnkerfisins stendur til að endurstarta partýinu í stað þess að kenna þjóðinni að neyta eftir tekjum.

Hvað varðar ESB að þá held ég að það sé svosem allt í lagi að skoða þann möguleika en ég hef litla trú á að við getum fengið aðildarferli sem gæfi okkur nothæfa mynt. Ég sé ekki að við munum nokkurn tíman uppfylla Maastrict skilyrðin og ég sé ekki að við eigum stjórnsýslu sem getur séð við Brussel og því hætt við að við munum verða undir í samningaviðræðum.

Nafnlaus sagði...

Ef ESB aðildin snérist aðeins um neytendur, í þessum þrönga skilningi, værum við eflaust löngu komin í klúbbinn. En þar sem þetta snýst líka um stjórnkerfið, atvinnuvegina og fleira þarf að vanda til verksins.

Það eru hin stóru EF. Ekki er ástæða til svartsýni á að Ísland geti samið vel um atvinnuvegina; bæði sérstöðu Íslands í útgerð og um landbúnað sem er allur norðan 62. breiddargráðu. Þær reglur verða að vera inni í aðildarsamningnum sjálfum, þá má ekki skilja eftir nein EF þar.

Sem dæmi um ágæti Evrópusambandsins hefur verið bent á lækkun vaxta í Grikklandi og aukan velmegun og minnkað atvinnuleysi á Írlandi og Spáni. Við ættum að fylgjast náið með einmitt þessum þremur ríkjum á komandi misserum, á meðan við vegum og metum stöðu okkar. Sjá hvort ávinningur þeirra er raunverulegur og hvernig ESB og evera reynast þeim í kreppunni. Útlitið er ekki gott í augnablikinu, en sjáum hvað setur.

Evran mun ekki nema land á Íslandi næsta áratuginn, allt hjal um það eru tómir draumórar.

jon sagði...

Framámenn ESB hafa marg oft sagt að ekki komi til greina að við fáum undanþágu frá fiskveiðistefnu þeirra. Viljum við fá breska togara upp að 12 mílum og láta þá eyðileggja okkat fiskimið líka??
Ég held ekki,það er nóg komið.

Nafnlaus sagði...

Sæll
Gott að fá þessa kosti í lista eins og þessum. Það er mjög gott fyrir umræðuna. Sjálfur er ég skeptískur fyrir inngöngu en ætla ekki að færa rök fyrir því hér því það yrði of langt mál. Hvet þig til að halda áfram á þessari braut og þegar þú hefur úttalað þig um kostina, væri gott að fá þínar hugmyndir um galla. Ég hef enga trú á að þú sjáir ekki einhverja galla.
Hafðu þökk fyrir.
Kv.
Sveinbjörn

Nafnlaus sagði...

Danir eru í klípu þessa dagana.
Folketinget ætlaði að breyta innflytjendalögum en fær það ekki.
Tilgangurinn var að fækka heiðursmorðum.

Torfi Stefán sagði...

Ég fagna umræðunni um ESB og vill að hún sé á málefnalegum nótum. Enn fremur fagna ég því þegar stjórnmálaflokkar gefa það út trafalalaust að þjóðin fái að kjósa um málið.
Það verður að stilla þessu upp á málefnalegan hátt og það má ekki fara í þann farveg að þeir sem eru fylgjandi ESB vilji eyðileggja fiskimiðinn, landráðarmenn og þar fram eftir götunum. Að sama skapi á ekki að segja um þá sem eru á móti ESB að þeir vilji fara í torfkofana, borða fjallagrös og ekki hafa samskipti við útlönd. Sú umræða gengur ekki upp.
Það þarf að vega og meta stöðuna. Ég er ekki fylgjandi ESB, tel fyrir því þjóðernisleg rök að við missum ákvörðunarvald í ýmsum málum, fiskinn og fleira. Ég get þó ekki staðfest rök mín þar sem ekki fyrirliggur samningur þar að lútandi. Hef bara það sem heyrist frá ráðamönnum Evrópu.
Ef opnað verður fyrir erlendar landbúnaðarvörur mun það hafa áhrif á íslenskan landbúnað. Styrkir gætu tímabundið verið hærri en ESB er að fara í gegnum endurskoðun á landbúnaðarstyrkjum sínum og það mun fara í gegn á næstu árum, þeir ætla að lækka þá, finnst kerfið of dýrt.

Nafnlaus sagði...

Hver segir að ekki verði áfram vísitölu binding á lánum? það er frjálst hverju landi að hafa lánaform einsog menn vilja.Enn er sammála að það verður spennandi að fylgjast með smærii ríkjum hvernig þeim reiðir af í þessum fjármálaþrenginum sem nú ganga yfir heiminn. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Það á að byrja ESB aðildarumræðum, til að fá allt upp á borð.

Þá fyrst getum við tekið ákvörðun um hvað skal gera, því þá fyrst sjáum við hvað er í boði.

ESB aðildin er svo stór kostur fyrir neytendur (sem við öll erum) að við verðum að skoða hana !!

Öddi

Nafnlaus sagði...

Verðtryggð langtímalán munu deyja drottni sínum með inngöngu í ESB og upptöku evru. Ástæðan er einfaldlega sú að með evruupptökunni yrðu hagstæð óverðtryggð lán á borð við myntkörfulánin alræmdu aðgengileg öllum almenningi með þeim regin mun að engin gengisáhætta yrði til staðar.

kv.
Barton

Nafnlaus sagði...

Matvöruverð átti líka að lækka með virðisaukaskattslækkuninni í mars 2007. En hvergi varð lækkunin sú sem stefnt var að. Einhverjir stungu hluta hennar í vasann.


Og hvernig var þetta við myntbreytinguna 1980/81? Allt hækkaði!


Nákvæmlega sama mun gerast með upptöku Evru.

Nafnlaus sagði...

Það þykir mér ólíklegt að það verði hækkun hér við upptöku Evru.

Því þá munu evrópskir aðilar sjá hag sinn í að opna útibú hérna og keyra Baug og þess háttar skítaplebba í kaf.

Verði þeim að góðu.

Öddi