Íslendingar hafa valið sér það hlutskipti að búa við eigin gjaldmiðil. Þrátt fyrir að aðilar vinnumarkaðs hafi á undanförnum misserum krafist þess að tekinn verði upp annar gjaldmiðill, þá hafa þeir sem fara með stjórn efnahagsmála alfarið hafnað því. Rök forsætisráðherra, fjármálaráðherra og seðlabankastjóra hafa verið þau að gott sé að vera með einangraðan gjaldmiðil sem þeir geti fellt að eigin vild m.a. skapi það svigrúm til þess að halda launum í landinu niðri, leiðrétta „óskynsamlega“ kjarasamninga, eins og fram hefur komið í svörum m.a. Péturs Blöndal og Hannesar Hólmsteins. Það kallar reyndar á hækkun verðbólgu.
Krónan er veik og þeir sem hafa haft möguleika til hafa flutt fjármuni sína yfir í aðra gjaldmiðla. Bankar og fjárfestar hafa nýtt sér veikleika krónunnar til þess að taka stöðu gegn henni og hafa hagnast verulega á því. Allt þetta hefur kallað yfir okkur háa verðbólgu með háum vöxtum sem síðan veldur hækkun verðtryggingar.
Langlundargeð íslendinga gagnvart mistökum stjórnvalda er með ólíkindum, þrátt fyrir margítrekaðar aðvaranir samtaka vinnumarkaðs og virtra hagfræðinga hættu krónunnar, þá hefur meirihluti íslendinga hingað til tekið undir með stjórnvöldum og ekki viljað skipta. Seðlabanki hækkaði stýrivexti upp úr öllu valdi, þrátt fyrir hávær mótmæli aðila vinnumarkaðs, sem bentu á að þetta tryggði enn hærri verðbólgu og vaxta og enn hærri verðtryggingar. Þrátt fyrir það hafa íslendingar ekki viljað skipta um gjaldmiðil.
Verkalýðsfélögin hafa á undanförnum misserum ítrekað sett fram kröfur um að tekið yrði á þessum vanda. Tekið yrði á efnahagsvandanum með því að skipta um gjaldmiðil, sem myndi leiða til stöðugleika. Krafan var studd með því að setja inn í kjarasamninga heimildir til þess að fá laun greidd í öðrum gjaldmiðlum og fyrirtæki vildu fá að gera upp í erlendum gjaldmiðlum. En stjórnendur efnahagsmála skelltu skollaeyrum við þessum kröfum. Seðlabankastjóri ásamt fjármálaráðherra og forsætisráðherra komu ítrekað fram í fjölmiðlum og sögðu að krónan væri ekki vandinn. Nú hefur krónan fallið um tæp 100% og verðlag er farið að hækka ótæpilega, verðbólga kominn að 20% og skuldir heimila hækka.
Þetta ástand hefur leitt til mikillar spillingar og ósiðlegra stjórnarhátta. Verðskyn hefur brenglast og stjórnendur komist upp með að kaupa eignir hver af öðrum á yfirverði og hagnast umtalsvert á því. Greitt sér há laun og margskonar bónusa í kjölfar þessara viðskipta sem skiluðu miklum „verðmætum“.
Það eru sannarlega runnir upp tímar mikilla breytinga og uppstokkunar og þó fyrr hefði verið. Stjórnvöld hafa sannarlega ekki verið að gæta hagsmuna launamanna og þaðan af síður fyrirtækja. Bankamálaráðherra, fjármálaeftirlit og seðlabanki látið alla spillingu afskiptalausa.
Kröfur verkalýðshreyfingarinnar og samtaka fyrirtækja um stöðugleika, lága verðbólgu, lága vexti og enga verðtryggingu hafa hingað til ekki náð upp á borð forsætisráðherra, seðlabankastjóra og fjármálaráðherra. Nú hefur almenningur loks vaknað og tekið þessar kröfur upp og halda kröftuga mótmælafundi. Íslenskt viðskiptaumhverfi er fársjúkt og læknarnir (bankamálaráðherra, fjármálaeftirlit og seðlabanki) steinsofandi. Nú er að sjá hvort valdhafa fáist til þess að hlusta á þjóð sína, eða ætla þeir enn að ganga leið sérhagsmuna valdhafa sem sífellt skara eld að eigin köku með skipulagðri eignaupptöku.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli