fimmtudagur, 11. desember 2008

Endalaus nauðhyggja

Enn einu sinni virðist eiga að nota bygginga- og verktakaiðnaðinn sem yfirfallsventil í lausn efnahagsmála. Forsvarsmenn Noregs, Svíþjóðar og Finnlands sem öll hafa lent í bankakrísum síðan 1990 hafa sagt í umfjöllun sinni að það séu nokkur grundvallaratriði sem verði að varast.

Gera ráðstafanir til þess að lágmarka gjaldþrot heimila. Það hafi kostað ríkið meiri fjármuni þegar upp var staðið, að hafa ekki varist betur á þeim vígstöðvum.

Og ekki síður gera ráðstafanir til þess að lágmarka atvinnuleysi. Finnar segja til dæmis að það sé stærsta glappaskotið sem þeir gerðu og þeir séu enn að glíma við afleiður þess vanda.

Norðmenn lánuðu sveitarfélögunum vaxtalaust til þess að halda uppi byggingarstarfsemi. Hún sé súrefnið sem haldi atvinnulífinu gangandi. Það blasir t.d. við hvort við séum í niðursveiflu eða ekki að þjóðin er að eldast. Það er að segja að á næstu árum fara barnasprengjuárgangarnir stóru að komast á lífeyrisaldurinn.

Íslenska lífeyriskerfið er miðað við að þola það fall með mikilli uppsöfnun fram að þeim tíma. Margir hafa misreiknað sig illilega á þessu þegar þeir eru að sjá ofsjónum yfir þeim miklu fjármunum sem eru að safnast upp í kerfinu, en eins þekkt er þá byrja þeir sópast út eftir árið 2014.

Í síðustu kosningum kom fram að það væri nauðsynlegt að byggja allt að 1.000 íbúðum með félagslegu umhverfi bæði fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega á þessu kjörtímabili og annað eins á því næsta.

Það væri nú aldeilis verðugt verkefni að nýta þá fjármuni sem annars færu beint í tilgangslaust atvinnuleysi til þess að taka á þessu verkefni. Þetta hafa stéttarfélög byggingarmanna reyndar hamrað allt síðasta ár þess að fá nokkrar undirtektir hjá ríkistjórninni.

Nú blasir við að atvinnuleysi er hratt vaxandi og því er spáð að það geti farið allt upp í 50% meðal byggingarmanna á vissum svæðum eftir áramót verði ekkert að gert. Hér ekki einungis um iðnaðarmenn að ræða, einnig arkitekta og verkfræðinga ásamt byggingarverkafólki.

Fjárlagadrögin eru áfall fyrir þetta fólk. Hreint út sagt reiðarslag. Það er lenska hjá íslenskum stjórnvöldum að ráðast aldrei að lausnum vandamála fyrirfram. Það er ætíð unnið aftur fyrir sig og eins og nú er að koma fram þá eru þeir búnir að veltast um með vandamál allt þetta ár, leyna öllum sannleikanum.

Endalaus nauðhyggja einkennir vinnubrögð þessara vonlausu einstaklinga. Sem 30 menn og 3 konur eru búnar að spila með eins og dúkkulísur og nú á að fara setja einhver afturvirk lög til þess að reyna hisja upp um sig.

Reyndar hljóta menn að velta fyrir sér hvert þeir hafa farið milljarðatugirnir sem ríkissjóður hefur hrifsað til sín á undanförnum árum í hratt vaxandi sköttum og óbeinum sköttum. Væri ekki hægt að hreinsa eitthvað til í ríkiskerfinu. Þarf þetta allt að bitna á almenna vinnumarkaðn um?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Byggingaiðnaðurinn ,Já.
Byggingariðnaðurinn kunni fótum sínum ekki nein forráð síðustu árin .Algjörlega glórulaus og stefnulaus ofþensla með stórfelldu innfluttu vinnuafli - ofbyggði fyrir þjóðina svo nemur 3-4 árum fram í tímann. Allar kvartanir frá byggingaiðnaði eru því miður ómarktækar- því miður
Byggingaiðnaður á litla samúð nú á erfiðum tímum. Það eru helst einhver viðhaldaverkefni sem einhverju bjarga.

Nafnlaus sagði...

Það er hárrétt að byggingariðnaðurinn var í glórulausri ofþennslu og margoft var stjórnmálamönnum bent á það.

Hverjar voru lausnirnar til að hægja á ? var hægt á framkvæmdum hjá ríkinu eins og beðið var um ?, nei það var frekar bætt í, jafnvel þó ekki væri til mannskapur, hann skyldi fluttur inn.
Íbúðalánasjóði skyldi veitt aukin heimild til húsnæðislána, 90% af eignum til að halda í við 100% lán banka (til að auðvelda kaup á 1. íbúð !), það vissu allir að það rynni allt í vasa verktaka í formi hækkaðs húsnæðisverðs ?

Hvað í andskotanum gerði ríkið við viðvaranir flestra á byggingarmarkaði, ég segi flestra því að sumir voru að græða, um að ekki væri ráðlegt að auka á þenslu með stóriðjuframkvæmdum ofan í alla þensluna sem fyrir var á markaðnum.

Sveitarfélögin í mismiklu bjartsíniskasti misstu sig líka gjörsamlega og hraðskipulögðu heilu hverfin til að missa nú ekki af öllum gróðanum, þessi hverfi sjáum við nú hálfkláruð upp á hólum í útjaðri borgar og bæja.

Verktakar áttu stóran þátt í þenslunni á byggingamarkaðnum með hjálp banka og ráðamanna.
Pólitíkin í kringum lóðabrask í Reykjavík og nágrannasveitafélögum hefur einkennst af glórulausri spillingu og peningagræðgi, verktakar borga fyrir atkvæði pólitíkusa til að ná lóðum og fá hærra hlutfall byggingarmagns á hverja lóð heldur en búið var að ákveða með skipulagi, bankarnir lána (enda stærri verktakar hlutafar bankanum).

Já spilling án nokkurs vafa, sennilega ekki minni en í bönkunum, þessi mál þarf að rannsaka eins og bankana sérstaklega í ljósi þess að hér kemur bæjarpólitíkin inn í spillinguna.

Samt sem áður eru það aftur nokkrir sem eru að setja blett á marga og byggingariðnaðurinn
og það fólk sem við hann vinnur hefur lítið með þessa spillingu að gera nema að hafa unnið margfalda vinnu síðustu árin og oft án þess að anna eftirspurn.

Það er hinsvegar ekki mikið snjallræði eins og virðist vera stefna stjórnvalda, miðað við drög að fjárlögum, að leggja þennan iðnað nánast niður.
Það kemur illa í bakið á þeim eftir einmitt þessi 3-4 ár sem nafnlaus nefnir að búið sé að ofbyggja yfir okkur og því verður ekki reddað þá með því að smella fingri.

Ef nokkurt vit væri í núverandi stjórnvöldum þá myndu þau reyna að framkvæma eins mikið og mögulegt er (innan skynsemismarka að sjálfsögðu), því að nú er loksins hægt að fá skynsamlegt verð í ýmiskonar framkvæmdir sem áður fengust bara á uppsprengdu góðærisverði.

Samdráttur, já, allir löngu búnir að undirbúa sig undir 20 - 25% samdrátt fyrir hrun hvort eð er (það sáu allir hvert stefndi, nema ráðamenn) en algert hrun þýðir brottfluttningur gífurlegs mannauðs, einhverjir snúa aftur, kannski, einhverntíma.
Ekki snjallt útspil hjá úræðalausum stjórnvöldum að velja þá leiðina.

Núverandi stjórnvöld sönnuðu vanhæfi sína fyrir og í bankahruninu við eigum ekki að leyfa þeim að sanna vanhæfi sína eftir bankahrun, aftur !

Atli

Nafnlaus sagði...

Svo sjá menn ekki svarið sem öskrar framan í þá:

- það eru þúsundir lausra íbúða nýbyggðra, sem eru eign bankanna eða verktaka í andaslitrunum

- það var kosningaloforð að splæsa í 1000 þjónustuíbúðir

- ríkið á bankana

Hvernig væri að taka eitthvað af þessum mannlausu - næstum tilbúnu blokkum og fá mannafla í að standsetja þær í þjónustublokkir... ríkið á þær hvorteðer, það tók/mun taka þær upp í kröfur í gjaldþrotaskiptum sem bíða nær allra sem tengjast byggingariðnaðinum.


Öddi

hmmmmm