Þinmenn ákváðu að jólagjöf ríkisjóðs til stjórnmálasamtaka með því að framlög til "viðurkenndra" flokka hækka úr 310 millj. kr. á síðasta ári í 371,5 millj. kr. fyrir árið 2009. Auk þessa fá þeir flokkar sem ná inn manni á Alþingi framlög úr ríkissjóði. Einnig samþykktu þingflokkarnir heimild til þess að ráða aðstoðarmenn og það kostar um 600 millj. kr. Séu borinn saman þau verkefni sem voru tiltalinn við samþykkt þessara laga þá eru þau hin sömu og borinn voru sem ástæða styrkja til þingflokkanna.
Þarna eru þeir að verja lendur sínar fyrir öðrum verði þeir svo ósvífnir að vilja stofna til nýrra stjórnmálasamtaka.
Einnig samþykktu þingmenn að þeir ættu rétt á 100% hærri ávinnslurétt í lífeyrissjóð en almennir launamenn og áskildu sér rétt til þess að hækka laun sín enn frekar vegna þess að þeir væru með svo slöpp lífeyrisréttindi eftir að hafa þurft að lækka ávinnslurétt sinn úr 150% betri en almennir launamenn hafa. Á sama tíma samþykktu sömu þingmenn að skerða réttindi öryrkja og ellilífeyrisþega. Ásamt því að taka upp margskonar sjúkraskatta.
Peningar blinda oft og verða að kjarna lífsins, jafnvel þó Jesú hafi varað okkur við og sagt að það væri auðveldara troða úlfalda í gegnum auga stoppunálar en fyrir auðugan mann að komast til himnaríkis. Þingmenn feta markvisst í spor bóndasonarins, þegar hann hafði eignast hanann, ásældist hann alikálfinn.
Allt frá því að þingmenn samþykktu sín sérréttindi þá hafa samtök launamanna bent á að þetta muni leiða til ófarnaðar og leiðinda. Það hefur sannanlega ræst, en þingmenn hafa samt ekki leiðrétt stöðuna. Þeir eru í sporum þeirra sem telja sig vera eigendur fjármagnsins og hafi forgang að þeim arði sem hin vinnandi hönd skapar.
Í þessu liggur orsök þess ófriðar sem ætíð mun ríkja á vinnumarkaði. Peningar eru til lítils ef ekki er til staðar þekking til þess að nýta þá. Ágirnd leiðir eilífrar fátæktar, hin blinda auðhyggja að nýta sára fátækt til þess að ná arði. Ef hinn bláfátæki sættir sig ekki við það sem að honum er rétt, þá er honum umsvifalaust hent á dyr í atvinnuleysið og örbirgðina.
Öfgakenndir hægri menn hafa leitt efnahagsstefnuna, málsvarar auðhyggjunnar. Hámörkun arðs á kostnað launamanna. Launamenn berjast fyrir sjálfsvirðingu og atvinnuöryggi þannig að þeir geti horfst í augu við vinnuveitanda sinn ekki á skó hans.
Einn af sjóliðsforingjum Napóleons sagði honum þegar hann kom heim frá Loocho eyju að þar væru engin vopn. Napóleon furðu lostinn; “Hvernig í ósköpunum fara þeir að því að berjast?” Svarið sem Napóleon fékk var; “Þeir berjast aldrei, þeir eiga nefnilega enga peninga.”
5 ummæli:
Er ekki komin tími á aðgerðir? Þetta er sem blaut tuska framan í almenning.
Nú spyr ég þig ágæti Guðmundur. Er ekki komin tími á að verkalýðshreyfingin fari að kreppa hnefana? Er ekki komin tími á að taka í taumana? Verkalýðshreyfingin er besta vopnið gegn spillingunni.
Það er sjálfsögð krafa að þetta vopn verði notað við þessar hrikalegu aðstæður.
Endilega svaraðu mér. :)
Það er samt líka ágætt að benda á hvaða þingmenn voru hér á verki, ekki voru það allir þó meirihluti væri fyrir þessum gjörningi sem er til háborinnar skammar
Kominn tími til að senda Sjálftökuflokkinn og Samtrygginguna í mjög langt frí.
Kominn tími á aðgerðir og fá fólk með smá vit í kollinum inn á þing
Sæll Teitur
Takk fyrir innlitið. Jú svo sannarlega er kominn tími að launamenn segi hingað og ekki lengra. Á það má benda að nokkrar tilraunir hafa verið gerðar á þessu ári til þess að ná sambandi við stjórnvöld eins og ég hef lýst hér á þessari síðu.
En til þess að ganga lengra þarf samstöðu allra og það er nú eins og það er, að verkalýðsfélögin eru þverpólitísk og menn koma úr sitthverri áttinni og frá mismunandi hagsmunahópum.
Mínar skoðanir eru öllum kunnar, þær hafa verið birtar hér á þessari síðu, reyndar eru nokkrir sem hafa látið þær fara í taugarnar á sér eins og sést á aths.
Þetta væri vitanlega auðveldara ef maður fengi að ráða öllu. Hmm kannski ekki allveg svona einfalt. Og mikil einföldun að tala um alla verkalýðsforystuna í einni hendingu.
Gleðileg jól og vonandi gefst okkur öllum tækifæri til þess að upplifa farsælt komandi ár.
Gleðilega jól, Guðmundur.
Baráttan gegn eftirlaunaóþverranum heldur áfram. Það þarf greinilega að slíta forréttindin út úr skoltinum á þessu liði.
Jafnaðarmannaflokkur Íslands! ha ha ha.
Rómverji
Skrifa ummæli