laugardagur, 6. desember 2008

Háskólabíó á mánudag

Það var haft samband við mig símleiðis í fyrradag og tilkynnt að ég ætti að mæta upp á svið í Háskólabíó á mánudaginn. „Nú jæja“ svaraði ég; “Hver tók þá ákvörðun.“
„Við“
var svarið.
„Hverjir eru þið og hverjir verða þarna?“ spurði ég.
„Við erum borgarar og erum ekki alveg búinn að ákveða hverjir eiga að vera þarna“ og svo voru nokkur nöfn nefnd. Sum þeirra endurspegla ekki íslenska verkalýðshreyfingu að mínu mati.

Ég benti á að mínar skoðanir væri öllum aðgengilegar. T.d. kæmi það glögglega fram í pistlum þessa ársgömlu bloggsíðu, að ég teldi mesta mein íslensks samfélags sú efnahags- og peningastefna sem fylgt hefur verið á undanförnum árum. Hún hefði leitt til meiri verðbólgu, hærra verðlags og hærri vaxta en þekktust annars staðar, alla vega í okkar heimshluta.

Vextir væri svo háir að fólk réði ekki við að greiða þá nema þá með því að dreifa greiðslum þeirra eins og gert væri með verðtryggingu sem Ólafur Jóhannesson þáverandi forsætisráðherra hefði komið á.

„Verður þú í Reykjavík á mánudaginn?“ var spurt.
„Já“ svarði ég.
„Hm, þá kemur þú á fundinn“ var mér tilkynnt í lok samtalsins.

Það er nefnilega það. Á fjölmennum fundi í forystu rafiðnaðarmanna í gær var þetta rætt. Það eru jú þeir sem kjósa mig og gagnvart ég þarf að standa skil á í störfum mínum. Frábært að starfa í þeim hóp. Skelleggur og liggur ekki á skoðunum sínum og fundir líflegir. Allavega hefur stefna og markmið Rafiðnaðarsambandsins alltaf verið skýr og verið komið skilmerkilega á framfæri.

Rafiðnaðarmenn eru á móti hárri verðbólgu, háum vöxtum og verðtryggingu, auk þess að há verðbólga veldur erfiðleikum við að halda kaupmætti. Það hefur legið fyrir um alllangt skeið að við teljum einungis eina leið út úr þessu ástandi, það er að gera það sama og nágrannalönd okkar hafa gert, það er að taka upp Evru og ganga í Evrópusambandið.

Við eigum nefnilega ekki olíusjóð og erum að auki með afspyrnu slaka og spillta stjórnmálamenn. Stjórnmálamenn sem hafa kallað yfir okkur þetta ólán sem við búum við, þrátt fyrir margítrekaðar aðvarnir aðila vinnumarkaðs.

Það sem hefur bjargað okkur og er eina lífsvon okkar eru þeir fjármunir sem íslensk verkalýðshreyfing hefur skapað með samstöðu sinni, lífeyrissjóðirnir.

Með inngöngu í ESB lækka vextir og verðtrygging hverfur, þeir duttu t.d. á 6 mánuðum úr 20% í 5% í löndum sem gengu í ESB þar má t.d. nefna Portúgal, Spán, Ítalíu og Grikkland.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En þorir þú að mæta? á fundin Guðmundur og gera grein fyrir launum þínum og sumarbústaðarstefnu félags þíns. Eða ertu orðin þreyttur og þarft að fara snemma að sofa?.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta nú ekki vera eðlileg kurteisi, það hefur alltaf verið talið að kurteisi kosstaði ekkert. Það hefði verið eðlilegt að bjóða þér og benda á að ef þú mættir þá mundi það vera þér til lofs, jafnvel þó einhverjir mundu lasta þig á fundinum.
Horki fer mönnum alltaf illa, hvort sem þeir sru með eða móti stjórnvöldum.
Ragnar

Nafnlaus sagði...

Auðvita mætirðu á BORGARAFUNDINN, það væri nú bara eins og að kasta enn einni olíutunnuni á eld reiðinnar hjá ALMENNINGI í þessu landi ef að forkálfar Verkalýðshreyfinganna hefðu ekki dug eða sóma til að mæta á þennan BORGARAFUND. Hingað til hafa Verkalýðshreyfingarnar verið skammarlega duglausar í að brýna raust AlMENNINGS í landinu til að knýja fram ábyrgð og að uppræta spillinguna. Sefjun ofurlauna í skjóli hins rotna skinns auðvalds og frjáslhyggju er ekki sæmandi Verkalýðshreyfingu.
Bjarni

Nafnlaus sagði...

Guðmundur ... væri ekki rétt að þú myndir upplýsa um launin þín og þá meina ég öll laun s.s. bílastyrk, nefndarlaun héðan og þaðan s.s. total laun ? Egill Helga er búinn að hreinsa sitt borð. Þú ert næstur!

Bryndis Isfold sagði...

auðvitað mætir þú - kommon! Áhrif verkalýðshreyfingarinnar gætir víðar en bara í kjarasamningum fyrir sérhvert aðildafélag, þér og öðrum forystumönnum er treyst fyrir miklu stærri hlutum t.d. að vera sá hópur sem ríkisstjórnin kallar einna mest til samráða út af fjölmörgum ákvörðunum í samfélaginu. Gleymum svo ekki að þú hefur setið í lífeyrissjóði og í fyrirtæki fyrir lífeyrissjóðinn (Teymi ef ég man rétt) - svo það er ekki rétt að þú þurfir aðeins að standa skil gagnvart félagsmönnum þínum, þó þeir formlega veiti þér umboðið í hvert sinni. Samfélagsleg ábyrgð þín er miklu ríkari og ég trúi því ekki á þig að þú áttir því ekki á því.

Arnþór sagði...

"Það sem hefur bjargað okkur og er eina lífsvon okkar eru þeir fjármunir sem íslensk verkalýðshreyfing hefur skapað með samstöðu sinni, lífeyrissjóðirnir."

Ég er rúmlega 50 ára. Háskólamenntaður og fimm barna faðir. Hef þurft að vinna mikið og hafa þokkalegar tekjur til að framfleyta stórri fjölskyldu. Verkalýðshreyfingin hefur einmitt haft menn eins og mig í sérstakri gjörgæslu ef svo mætti segja. Ég þurfti lengi að greiða sérstakan hátekjuskatt og tekjutengda aukaafborgun af námslánum sem kom alltaf blessunarlega í nóvember. Þannig hef ég greitt meira til baka af námslánum mínum en aðrir sem fengu jafn mikið en töldu ekki jafn samviskulega fram eða unnu minna. Barnabætur þekki ég ekki enda með of há laun. Eftir þessa skattameðferð hafði ég lengst af minni ráðstöfunartekjur en aðrir sem voru mun tekjulægri. Undarlegur andskoti það, enda alveg sérsniðið fyrir verkalýðshreyfinguna. Sjálfsagt réttlætismál samkvæmt þínum skilningi að leggjast svo á fólk og mergsjúga það.

Ég hef samt komið fimm börnum til manns að mestu leyti – núna með eitt í háskóla, þrjú í framhaldsskóla og eitt í grunnskóla. Sem fimma barna faðir mun ég hafa lagt inn í þetta þjóðfélag fullnýta þegna, sem þegar þeirra tími kemur, taka þátt í að halda uppi greiðslugetu lífeyrissjóða fyrir sjálfsánægða dekurkarla eins og þig Guðmundur. Mér finnst það mjög merkilegt að þú skulir halda því fram að verkalýðshreyfingin hafi búið til fjármuni lífeyrissjóða, því auðvitað hafa karlar eins og ég og fleiri búið til þessa fjámuni-launamenn Guðmundur, launamenn! Ekki stofnanir eða félög! Því hefur þú gleymt einhversstaðar í þínum sérhagsmunaleiðangri og heldur nú að þessir fjámunir séu einhvers konar peningar sem púkar uppi á fjósbitum verklýðshreyfinga eigi og geti ráðstafað að vild.

Eins og má nærri geta þarf sjö manna fjölskylda þónokkuð húsnæði. Ég hef tekið verðtryggð húsnæðislán og átti um tíma 50% í húseign. Nú sé ég hvernig verðtryggingin, sem þú hefur svo miklar mætur á sem brjóstvörn lífeyrissjóða, leggst á mig og fólkið mitt sem enn einn aukaskatturinn. Þegar upp verður staðið mun ég á þessu ári og næstu misserum tapa fúlgum fjár vegna þessa aukaskatts, sem hefur þá undarlegu náttúru að hann getur bara hækkað en aldrei lækkað. Þessi skattur étur upp minn raunverulega lífeyrissjóð sem ég hef í 25 ár búið mér til í sveita míns andlits. Hvað viltu segja við mig Guðmundur? Að hér verði að fórna minni hagsmunum fyrir meiri? Er ekki nóg komið skattpíningu?

Nafnlaus sagði...

Guðmundur. Blessaður mættu.
Kveðja
Rómverji

Nafnlaus sagði...

Er ég sá eini sem er sammála Guðmundi um að þetta sé ótrúlegur dónaskapur?

kv. Ólafur

Nafnlaus sagði...

Ég biðst afsökunar ef sá sem talaði við þig á vegum borgarafundar hafi ekki verið nægjanlega kurteis. Það er alveg óþarfi og ekki málstað okkar til framdráttar, en við erum óttarlegir amatörar í þessu og gerum mistök. Vona að þú sjáir þér fært að mæta, enda skeleggur málssvari verkalýðsfélaganna og við þurfum á því að halda að standa saman ef við eigum að verja kjör okkar og þegar kemur að verkföllum í vor.

Héðinn Björnsson