Fór í vikunni að sjá Changeling nýjustu mynd Eastwoods. Það rífur virkilega í að horfa á baráttu móður gegn gjörspilltu yfirvaldi og maður fyllist reiði. Reiði sem fær enga útrás, þú situr bara og bíður eftir næsta atriði.
Myndin lýsir í raun afskaplega því sem við höfum mátt búa við hér á landi undanfarin ár. Hvernig íslenskir stjórnmálamenn haga sér sem hafa haldið um valdataumana. Margir hvort sem það eru þingmenn eða hagsmunasamtök hafa kvartað yfir því að hafa einungis mætt yfirlætislegum hroka þegar bent hefur verið á að þjóðfélagið hafi verið að þróast í aðra átt en almenningur vildi.
Fyrir liggja mýmörg atvik þar sem sitjandi ráðherrar ásamt næstu embættismönnum hafa framkvæmt ámælisverðar athafnir. Jafnvel svo alvarlegar að umboðsmaður Alþingis hefur gert alvarlegar athugasemdir. En svo er komið fyrir íslensku lýðræði að ráðherrar virða það einskis. Fjármálaeftirlit og Seðlabankastjórn unnu eftir reglum frjálshyggjunnar, markaðurinn ætti að setja sér sjálfur reglur.
Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir aðdáun sinni á Thacherismanum og töldi það sér til ávinnings að vera vinir Bush. Ráðherrar tóku sjálfa sig fram yfir fólkið í landinu. Mönnum sem voru þeim handgengnir fengu afhenta milljarða gjafir á kostnað almennings. Athugasemdalaust og undir ferföldum húrrahrópum seðlabankastjóra og forsetans uxu bankarnir landinu yfir höfuð þjóðarinnnar. Seðlabankinn, ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið höfðust ekki að.
Þrátt fyrir aðvaranir vanrækti Seðlabankinn að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð til að vega á móti skuldasöfnun bankanna. Þrákelkni ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans í efnhags- og peningstefnu hefur nú í raun teflt fjárhagslegu sjálfstæði landsins í tvísýnu.
Þeir sem halda um valdataumana ætla sér að halda þeim áfram. Það er búið að skuldsetja okkur um tvær þjóðarframleiðslur. Sé litið til áætlana um tekjur ríkissjóðs næstu tvö árin liggur fyrir að við munum vart eiga fyrir vöxtum af ofurlánunum, hvað þá afborgunum. Samt mætir fjármálaráðherra og segist ætla að greiða niður skuldirnar um helming á þeim tíma. Hann hafnar því að að sýna á spilin þegar menn spyrja í forundran hvernig hann ætli að fara að því.
Það á að láta þá sem ollu vandandum um rannsóknir. Það er vegna ótta ráðamanna vegna eigin lánamálum og öllum einkahlutafélögunum. Sem voru færð í sktyndi í hendur annarra og skuldir afskrifaðar. Þetta gæti orðið ráðherrum og embættismönnum skeinuhætt. Mótmælum almennings er gefið langt nef og þau brotin á bak aftur með lögreglukylfum og gasi.
Nú er að hefjast vinna við endurskoðun kjarasamninga. Allir aðilar vinnumarkaðs báðum megin borðs hafa lýst því yfir að allir verði að taka höndum saman um að endurbyggja atvinnulífið. Verði það ekki gert, mun þjóðin búa við vaxandi og langvinnt atvinnuleysi. Eigi þetta að takast verða allir aða taka höndum saman, ekki bara aðilar vinnumarkaðs, heldur einnig ríkisstjórnin og bankarnir. Hingað til hefur ríkisstjórnin ekki virt óskir um ábendingar og viðræður eins og margoft hefur komið fram.
Þetta verður ekki framkvæmanlegt án þess að settar verði nýjar leikreglum með endurnýjun í röðum stjórnmálamanna.
1 ummæli:
Sá umræddu mynd í gærkvöldi og mikil ósköp var ég að hugsa það sama og þú. kv. SMS
Skrifa ummæli