þriðjudagur, 20. janúar 2009

Mótmælin í dag


Var á mótmælunum í dag. Það var álíka hópur fyrir framan Alþingishúsið á Austurvelli og fyrir aftan húsið. Ekki ólíklegt að það hafi verið samtals um fjögur þúsund. Á Austurvelli var mikill meiri hluti fólk á miðjum aldri og upp úr. Það mótmælti á friðsamlegan hátt. En bak við húsið var meðalaldur fólks lægri og meiri læti.

Eins og áður á þessum fundum hitti maður fólk víða úr þjóðfélaginu. Þverskurð. Margir starfsmanna stéttarfélaganna eru þarna meðal fólksins. Hörður hefur ásamt sínum samstarfmönnum kynnt að þeir vilji ekki tengja mótmælin ekki við nein hagsmunasamtök. Það er næsta víst að sum stéttarfélaganna vilja koma að þeim og hafa gert það með óbeinum hætti.

Lögreglan er vægt sagt í erfiðu hlutverki þarna. Það sem ég sá til fyrir framan húsið þá tóku þeir skynsamlega á öllu. En þegar ég kíkti bak við þá var allt í háalofti inn í garðinum.

Það er blaut tuska framan í almenning að setja á dagskrá við þessar aðstæður sérstakt áhugamál frjálshyggjuþingmanna að fá að selja vín í matvöruverslunum. Vitanlega ætti þingforseti að segja af sér, þvílíkur fingurbrjótur.

Skilaboðin eru ákaflega skýr og hafa reyndar verið um alllangt skeið. En viðbrögð þingmanna og ráðherra einkennast úrræða- og getuleysi og ekki síður ótta við að kosningar.

Á meðan kemur fram mikil undrun á forsíðum stórblaða um víða veröld að þrátt fyrir mesta efnahagslegt hrun þjóðar, sjá engir Íslenskir ráðherrar, seðlabankastjórar eða fjármálaeftirlitsmenn ástæðu til þess að axla ábyrgð.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvernig er hægt að losna við þetta fólk?

Nafnlaus sagði...

Var að koma af mótmælunum og ætla að fara aftur.
Drífum okkur á staðin og mótmælum friðsamlega í allt kvöld ef með þarf.
Pottar og pönnur er góð hugmynd.
Allir með þetta er ekki búið, sjáumst :)
Toni

Nafnlaus sagði...

Þetta er ekki búið, mættum aftur með potta og pönnur.
Sýnum hug okkar og myndum samstöðu.
Toni

Geirinn sagði...

Það er eins og að þeir hafi ætlað sér að núna yrði bara haldið áfram eins ekkert hefði gerst. Sem minnst talað um hrunið og venjuleg gælufrumvörp afgreidd.

Þetta er svolítið merki um þá algjöru gjá sem myndast hefur á undanförnum árum á milli almennings og Alþingis. Þingmenn og ráðherrar hegða sér eins og algjörar Pollýönur og þykjast enga ábyrgð bera þó svo að þeir hafi búið til það lagaverk og reglugerðir sem leyfðu þetta sukk og svínarí.

Ótrúlegt...

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, hvar er verkalýðshreifingin? Hvar eru "foringjarnir" sem segja fólki að leggja niður vinnu og mæta fyrir utan Alþingishúsið. Það þarf ekki að vera með læti. Bara mæta til að sýna að okkur er bara ekki sama...

Ágúst Guðbjartsson sagði...

Ég fór í langan hádegismat og kíkti á Austurvöll, það var mjög gaman sjá hvað margir voru þar.

En mörg stéttarfélög eru rúin trausti og þurfa að taka til hjá sér áður en þau reyna að standa með almenning.

Sérstaklega tel ég þetta eiga við mitt stéttarfélag VR eins og komið er fyrir því í dag.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.

Getur þú sagt mér og öðrum hvaða stórblöð þú ert að vísa í út í heimi þar sem þetta kemur fram?

Kveðja,
Jón Svan Sigurðsson

Guðmundur sagði...

Sæll Jón
Það hefur komið glögglega fram í fréttum í vetur, auk þess að á áberandi bloggsíðum, í umfjöllum Morgunblaðisins, í tilvitunum í spjallþáttum. Þar hefur helst verið vísað í greinar heimsþekktra hagfræðinga. Um er að ræða norsk, sænsk, dönsk, finnsk, færeysk, þýsk, hollensk, belgísk, frönsk, ensk og bandarísk blöð.

Nafnlaus sagði...

Ég spyr líkt og ein/n nafnlaus, hvar er verkalýðshreyfingin eiginlega? Fyrir okkur sem (enn) erum vinnandi fólk, þrælandi okkur út, gerandi okkar besta til að láta enda ná saman viljum vera með niðri á Austurvelli á virkum degi. Það VERÐUR að koma (sameiginlegt) frumkvæði og samþykki af hálfu forystumanna verkalýðsfélaga og vinnuveitenda að boða samstöðu- og allsherjarverkfall einhvern ákveðinn dag og það sem allra, allra fyrst. Slík aðgerð yrði að sjálfsögðu afturkölluð ef stjórnvöld verða við kröfum almennings um að víkja.
Allar grunnstoðir verða að starfa eðlilega (sjúkrahús, ummönnun og allt slíkt) en allir sem vettlingi geta valdið og barið pottlok með sleif ættu að fá tækifæri til að tjá sig í mótmælum a.m.k. heilan sólarhring.

Ef það þyrfti að jafna út vinnutímann þá má t.d. alveg fórna fríi á 2. í Hvítasunnu eða eitthvað álíka á móti "frídegi hins almenna kúgaða Íslendings". Það að bíða lengur getur orðið þjóðinni miklu dýrara en nú þegar er orðið.