fimmtudagur, 22. janúar 2009

Það sem launamenn verða að taka afstöðu til

Nú hafa samtök launamanna reynt í heilt ár að ná saman um þríhlið samstarf um að byggja þetta samfélag upp. Reynar aðeins lengur því að í undirbúningsviðræðum á haustmánuðum 2007 koma fram hugmyndir frá aðilum vinnumarkaðs um þríhliða aðgerðir til þess að verja atvinnustig og verja kaupmátt. Þetta var svo betur útfært í viðræðum vegna kjarasamninga í febrúar 2008.

Ríkisstjórnin hefur á öllum stigum haldið sig í stöðu bókmenntagagnrýnandans, þ.e.a.s. að vera ekki þátttakandi í mótun tillagna, en taka við þeim, gera ekkert með þær annað en setja út á þær. Hér má minna á umfjöllun í fréttum allan síðasta vetur.

Sama var upp á teningunum síðastliðið haust. Þar voru háværar kröfur um að ríkisstjórnin lagfærði trúverðugleika með því að víkja nokkrum einstaklingum úr sætum í Seðlabanka, Fjármálaeftirliti og eins ráðherrum sem stjórnuðu þessum stofnunum. Fyrr myndi almenningur ekki sætta við stöðuna. Annars myndi ekki skapast nauðsynlegt traust á milli stjórnvalda og annar í þjóðfélaginu. Þessu var í engu sinnt og ríkisstjórnin er að uppskera þessa dagana.

Við upphaf viðræðna í síðustu viku um endurskoðunarákvæði kjarasamninga kom fram af hálfu forsvarsmanna SA og samninganefnda sveitarstjórna og fjármálaráðuneytisins að það væri ekki grundvöllur að hækka laun eins og gert væri ráð fyrir í endurskoðunar ákvæðinu og til þess að segja samningnum upp. Það myndi leiða til þess að allir samningar í landinu væru lausir. Leiða má líkur til þess að lítið næðist út úr samningaviðræðum og ef einhverjir ætluðu að þvinga fram niðurstöður myndu koma lög sem frystu laun og kjör í landinu um tiltekinn tíma.

Á fundi aðila vinnumarkaðs í byrjun þessarar viku voru aðilar sammála um nauðsyn þess að leggja upp með áætlun til tiltekins tíma um uppbyggingu íslensks þjóðfélags með nauðsynlegir þátttöku ríkisstjórnar. Ef það næðist niðurstaða um sveigjanleika og frestun væri hugsanlega hægt að og ná einhverri niðurstöðu. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru nákvæmlega þau sömu og áður. Vera áfram í hlutverki bókmenntagagnrýnandans. Engar tillögur um aðgerðir, engar tillögur um hvernig bregðast eigi við um uppbyggingu atvinnulífs og svo hótanir um að ef þvingaðar verði fram einhverja launabætur muni það þýða enn frekari uppsagnir starfsfólks.

Á fundi miðstjórnar ASÍ í gær kom mjög glögglega fram að þolinmæði manna væri á þrotum. Búið væri að þreyja þorrann í 100 daga von um að ríkisstjórnin gerði eitthvað og hreinsaði til. Ekkert gerðist og ríkisstjórnin vildi halda áfram á sömu braut. Stjórnir stéttarfélaganna hafa setið undir hratt vaxandi óánægju félagsmanna og kröfum um aðgerðir.

Það eina sem hefst upp úr samskiptum við þessa ríkisstjórn í dag virðist vera að reyna að framlengja líf með því að gera 2ja ára samning við hana, sem væri í fullkominni þversögn við vilja félagsmanna. Einnig lægi fyrir sé litið til fyrri reynslu að ríkisstjórnin hefði enga burði og engan vilja til þess að efna samkomulag.

Það var mat miðstjórnar ASÍ í gær að ákvörðun um framhald þyrfti að fara fram í stærri hóp og ákveðið að boða til formannafundar á morgun.

6 ummæli:

Þorgerður sagði...

Ég held að þú þurfir að kynna þér hvað bókmenntagagnrýni gengur út á.

Guðmundur sagði...

Sæl Þorgerður
Þetta orð er notað í þeim geira sem ég starfa til þess að lýsa því þessu ferli. Klaufalegt, en samt er það svo. Einhver leggur mikla vinnu í að móta stefnu um efni sem hann þekkir vel, lítur yfir sviðið skoðar ferla og kemur fram með tillögur.

Og stjórnmálamaður líta einungis yfir textan, án þess að skoða hvað liggi á baki og gefur síðan út einhverja yfirlýsingu um textan og gerir svo ekkert með tillögurnar.

Ragnar sagði...

Sæll Guðmundur

Þessi skrif þín eiga fullkomnlega rétt á sér á Eyjunni og lýsa ágætlega skoðun þinni.

En þessi skrif þín eru líka birt á vef rafiðnaðarsambandsins. Ekki í fyrsta skiptið þar sem persónulegar skoðanir skoðanir starfsmanns (þín) eru settar upp sem skoðun rafiðnaðarsambandsins. Ég ásamt þúsundum annara félagsmanna kunnum að vera þér ósammála.
Á rafis.is eru greinar birtar á forsíðu vefsins,ásamt tilkynningunum um ýmislegt sem við kemur félagsmönnum, og þar er ekki hægt að andmæla eða vera leiðrétta villur í þessum skrifum eins og hér er hægt, og ómögulegt að sjá hvort fundir sambandsins hafi ályktað, eða hvort um sé að ræða skoðun eins manns.

Eins fynnst mér bjánalegt að hvetja landsmenn að mæta á útifundi og krefjast þess að ríkistjórnin seigi af sér, í NAFNI RAFÍS. Ég sem félagsmaður man ekki eftir því að Rafiðnaðarsambandið hafi stjórnmála skoðanir.

Guðmundur sagði...

Það er einfaldlega ekki rétt hjá þér Ragnar að pistlar mínir hér á þessari síðu séu birtir á rafis.is.
Það sem þar er birt eru ályktanir stjórna félaga og miðstjórnarsambandsins og eins upplýsingar um stöðu kjarasamninga og hvað samningamenn sambandsins eru að velta fyrir sér eins og t.d. þessi pistill hér sem talið var að ætti erindi til fleiri en félagsmanna.

Hvað varðar útifundi þá er það rétt hjá þér að það geysilega skiptar skoðanir meðal félagsmanna stéttarfélaganna hvort stéttarfélögin eigi að vera þátttakendur í útifundunum á Austurvelli. Hörður og félagar hafa við upphaf hvers fundar tilkynnt að þeir vilji ekki aðkomu stéttarfélaga að þeim. Hörður er heiðarlegur í þessum efnum

En t.d. Gunnar í Háskólabíó og margir aðrir nota hvert tækifæri til þess að úthúða stéttarfélögunum fyrir að gera það ekki, en aldrei hefur hann farið fram á stéttarfélögin komi að fundunum. Enda er hann oft ákaflega óheiðarlegur í málflutning og þekkir reyndar greinilega ekkert til margra af þeim málum sem hann fjallar um.

Þekktur fréttamaður RÚV sagði nýlega í fréttatíma að íslensk stéttarfélög væru liðónýt vegna þess að þau stilltu ekki upp samskonar uppákomum og voru fyrir skömmu í Grikklandi.
ER til mikils ætlast að fréttamenn kynni sér þann gríðarlega mun á lögum verkföll á Íslandi og svo annars staðar.

Hér á landi og á norðurlöndunum eru mjög strangar reglur um verkföll og hvernig að þeim sé staðið og þau bundin við samþykktir stéttarfélaga.

Í suður Evrópu er það aftur á móti einstaklingsbundin réttur.

Nafnlaus sagði...

Ég er fylgjandi því að laun verði fryst og um leið verður vístalan fryst við það sem hún stóð í sumarið 2008. Þettað rugl gengur ekki lengur að allt sé á fullu í hækkunum nema laun. Kveðja Simmi

Nafnlaus sagði...

Sammála Simma !

Það er óþolandi að tekjur standa í stað eða minnka, á meðan lán, matur, og allt hækkar.

Unga (skuldsetta) fólkið er á leið í kaf núna, það er aðeins tímaspursmál áður en hinir fara í kaf.

Það þarf að tækla þann vanda STRAX, helst fyrir a.m.k. 107 dögum síðan.

lifið heil.
Öddi