laugardagur, 24. janúar 2009

Þorgerður Katrín á villigötum

Nú þarf hluti ríkisstjórnarinnar að víkja og við þurfum nýtt fólk inn. Það er rangt sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir að stjórnarskipti tefji efnahagsbata. Hið réttar er að forysta Sjálfstæðisflokksins hefur beitt afli sínu núna í rúmt ár til þess að standa í vegi fyrir því að endurreisnarstarf geti hafist. Hann hefur sópað út af borðinu ábendingum um nauðsynlegar endurbætur.

Við þurfum að fá inn í ríkisstjórnina fólk sem þekkir sitt þjóðfélag og er ekki tengt einhverjum valdaklíkunum og bundið í báða fætur við að vernda hagsmuni tiltekinna aðila. Ný stjórn á að nýta tímann fram að kosningum til þess að hreinsa til. Reka Seðlabankastjóra og hans stjórn, sama kústinn á að fara með yfir Fjármálaeftirlit. Fyrsta verk þeirrar stjórnar á að vera lækkun vaxta og afnám gjaldeyrishafta. Samfara því á að skapa umhverfi sem gerir fólki kleift að halda heimilum sínum. Verk tvö á vera að taka upp samstarf við aðila vinnumarkaðs um uppbyggingu atvinnulífs.

Ríkisstjórnin á að biðja almenning þessa lands afsökunar á því sem stjórnmálamenn hafa leitt yfir þessa þjóð. Það var ekki erlend kreppa sem hefur farið verst með þessa þjóð. Það eru íslenskir stjórnmálamenn, sem gleymdu sér við að skapa paradís fyrir fjárglæframenn og nutu molana sem hrutu af alnægtarborðum þeirra. Stjórnmálamenn sem hafa haldið að almenning rakalausum klisjum og pólitískum ráðningum. Hyglingum til útvalina.

Það gengur einfaldlega ekki að endurreisa traust á gjaldmiðli sem er vonlaus og vinnur gegn uppbyggingu atvinnu- og viðskiptalífs. Það er óskhyggja. Það er rangt að nota háa vexti gegn gjaldeyriskreppu, lágir vextir eru nýttir gegn banka- og efnahagskreppu. Það verður að leysa sem allra fyrst gjaldeyriskreppunna, hún kemur í veg fyrir eðlilega upprisu fyrirtækjanna og dregur úr frumkvæði og framkvæmdavilja. Atvinnulífið og heimilin berjast við gífurlegan fjármagnskostnað og skort á lánsfé. Kostnaðurinn og skorturinn er að taka atvinnulífið kverkataki 0g hefur hamlandi áhrif. Því lengur sem lausn á þessu dregst þeim mun meiri verður skaði efnahagslífsins.

Íslenskt efnahagslíf hefur ekki efni á því að bíða eftir því að valdaklíkur innan stjórnarflokkanna leysi sín mál. Þorgerður verður einfaldlega að leggja til hliðar hagsmuni flokksins og setja hagsmuni fólksins framar. Það gengur ekki að halda viðskipta- og atvinnulífi í fangelsi hafta ef aðrir kostir standa til boða.

Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er valkosturinn sem verður að huga að. Einhliða upptaka Evru í samvinnu við ESB er sú leið sem leggja á stða með núna eftir helgi og er leið frá þeirri haftastefnu sem nú ríkir á gjaldeyrismarkaði.

Á meðan höldum við áfram að mæta á Austurvöll, það er okkar eina leið til þess að veita stjórnmálamönnum bráðnauðsynlegt aðhald. Þeir þurfa að læra það að það sé rangt að þeir þurfi einungis að vera til viðtals kosningavikuna. Þeir eiga að hlusta á þjóðina alla daga ársins og skila sama vinnudegi og aðrir þjóðfélagsþegnar.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En hverjar verða afleiðingarnar af því að lækka vexti og afnema gjaldeyrishöft við þessar aðstæður í einum grænum? Er ekki þörf á að trappa þetta niður í þrepum og því miður gerist það á mánuðum jafnvel 1-2 ár, eða hvað?
Annars er ég ósammála Þorgerði varðandi kosningar og tafir á bata efnahagslífsins vegna þess. Virkar sem hræðsluáróður.

Nafnlaus sagði...

Ég styð þig til þingframboðs.

Björn Jónasson sagði...

Ef þú vilt lækkun vaxta, þarftu þá ekki að fá leyfi hjá AGS? Sama gildir ef þú vilt hjálpa heimilunum á kostnað eignamanna.

Nafnlaus sagði...

Já, gott hjá þér. Og við þurfum fólk á þing sem þekkir atvinnulífið.