sunnudagur, 11. janúar 2009

Tengslasamfélagið

Carsten Valgreen fyrrum yfirhagfræðingur Danske Bank skrifar mjög athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag. Hann segir að rót kreppunnar á Íslandi liggi í miklum og þéttum innbyrðis tengslum í okkar litla þjóðfélagi. Þjóðin hegði sér á ýmsan hátt eins og fjölskylda. Í því geti falist styrkleiki á erfiðleikatímum eins og nú en hættulegur veikleiki við aðrar aðstæður eins og á góðæristímanum.

Valgreen varð þjóðkunnur á Íslandi snemma árs 2006 þegar hann sagði umbúðalaust sannleikann um að íslenskt viðskiptalíf og efnahagur stæði á brauðfótum. Davíð og félagar áttu vart orð til þess að lýsa vanþóknnun sinni á yfirlýsingum Valgreen.

Í grein Valgreen í gær kemur í raun ekkert nýtt fram. Allt það sem hann segir hefur komið fram íí hverjum pistlinum á fætur öðrum frá hagfræðingum og áhugamálum um þessi mál. Ég vill t.d. benda enn einu sinni á aðvaranir hagdeilda aðila vinnumarkaðs allt síðasta ár og svo fyrri hluta þessa árs og kröfur til stjórnvalda um fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að lækka flug hagkerfisins og taka á stærð bankanna og ofurlaunum. Það var gríðarlegur þungi í þessum aðvörunum og ekki síður ásökunum á stjórnvöld um aðgerðarleysi fyrstu mánuði þessa árs.

Öll viðbrögð stjórnvalda voru á sama veg og viðbrögð Davíðs við ummælum danskra efnahagsfræðinga. Sama gilti um fylgisveina þeirra, hæðst var að þeim sem settu fram þessar aðvaranir. Á vissan hátt spilaði stór hluti þjóðarinnar með. Hún herti á hrundansinum og hún tók í engu mark á þessuma aðvörunum.

Nú má spyrja hvort það sé sama fólkið sem hvað harðast gengur fram í að gagnrýna þá okkar innan ASÍ sem gengum hvað harðast fram í að gagnrýna stefnu og viðbragðaleysi stjórnvalda. Ég minnis t.d. ekki viðbragða með okkur frá þeim sem hvað harðast skjóta í daqg á okkur í verkalýðshreyfingunni, ég minnist frekar hins gagnstæða. Við værum öfundsjúkt úrtölufólk og stæðum í vegi fyrir þróuninni. Það var svo sem ekki tekið undir þetta í öllum samtökum launamanna. En það breytir ekki þeirri staðreynd að umtalsverður meiri hluti hreyfingarinnar gerði það.

Ég fjallaði t.d. í nóvember 2007 um ráðstefnu sem skipulögð var af heimastjórnarklíkunni þar sem sjálfur "Houdini hagfræðinnar" Arthur Laffer var fengin til þess að koma. Hann er heimsþekktur fyrir "Voodoo Economics", sem fjalla um hvernig við græðum öll á því að skattar á fyrirtæki og fjárfesta verði lækkaðir. Laffer heldur því fram að ef skattprósenta á tekjur einstaklinga væri 0% fengi ríkissjóður engar tekjur. Ef skattprósentan væri 100% af tekjum, þ.e. ef launþeginn fengi ekkert fyrir vinnu sína, hverfa tekjur ríkissjóðs.

Þessari stefnu var beitt í Bandaríkjunum eftir 1980 og leiddi til þess að allur afrakstur hagvaxtarins rann til tekjuhæsta hópsins og fjárfesta. Verkafólk sat uppi með kauplækkun og lengdi vinnutíma sinn í kjölfarið til að vinna gegn kjaraskerðingunni. Nýlega var sýnd kraftmikil kvikmynd um hvernig kerfið virkar í draumalandinu, varla vilja íslendingar komast þangað með sitt heilbrigðiskerfi.

En frjálshyggjan er klók og fljót að sjá út leiðir til þess að nappa góðum bitum og sérréttindum og leggur töluvert á sig að verja sína stöðu. Á undanförnum áratug nálguðumst við íslendingar þá stöðu sem tókst að skapa í Bandaríkjunum með Houdini hagfræðinni og fjarlægðumst norræna velfrðamódelið. Fámennur hópur hrifsaði til sín stærri hluta af þjóðarkökunni á meðan fátækum fjölgaði. Þetta var falið í meðaltölum stjórnvaldsins. Skattalækkanir náðu ekki til þeirra sem fátækastir eru en skilað sér ríkulega til þeirra sem mest hafa.

Ég minnist þess ekki að tekið hafi verið undir þessi orð mín af forsvarsmönnum mótmæla. Nú er ég ekki að draga úr gildi mótmælanna og hef ítrekað lýst yfir fullum stuðning við þau hér á síðunni ásamt því að vera ræðumaður þar. En mér finnst fólk verði að vanda sig betur til þess að missa ekki marks og glata tiltrúnni.

Það er nefnilega það sem er farið að bera á og vinur minn Hörður Torfa hefur þurft að grípa inn í þróunina og eins hafa fleiri og fleiri lýst yfir andúð á sumu af því sem fram kemur í nafnlausum athugasemdum og eins og athöfnum grímuklæddra manna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

eftir því sem skattprósentan er hærri verða minni heimtur á skattpening. Þetta er sannað með tölum. Eftir því sem hærri skattur er tekinn af fólki býður það upp á svindl og einnig það að fólk leggur minna á sig í vinnu, vegna þess að meira framlag þýðir meira tekið af. Borga iðnaðarmenn allir skatt af sinni vinnu ?? eða hvað er stórt hlutfall vinnu þeirra svart og sykurlaust. Það má sjá að ef skattur á þá er lækkaður eru líkur á að þeir borgi frekar , taki ekki sénsinn.

Eða er ég kannski að rugla borga iðnaðarmenn alla sína vinnu í skatt og önnur gjöld til þess að að þjóðinn eigi fyrir útgjöldunum.?

Nafnlaus sagði...

Það er skemmtileg mýta að þetta þjóðfélag sem við Nb bjuggum í hafi verið þjóðfélag uppfullt af óbeislaðri frjálshyggju þar sem ríkið létt allt og alla afskiptalausa og lét markaðinn hlaupa með sig í gönurnar. Þegar samneysla þjóðarinnar (þ.e. hlutur ríkisins í landsframleiðslunni) er á svipuðum slóðum og á Norðurlöndunum og lög/reglugerðir um allt og ekkert flæða út um allt er varla hægt að tala um frjálshyggju.
Við höfum frá því við náðum að hrynda af okkur hlekkjum hafta á seinnihluta síðustu aldar reynt að sameina einhvers konar norrænan sósíalisma við frelsishagkerfi með þessum stórgóður niðurstöðu.