miðvikudagur, 28. janúar 2009

Morfískeppnin hafin

Sjálfstæðisflokkurinn fór í gegnum síðustu kosningar á upphrópunum um hversu vel hann hefði stjórnað efnahagslífi og allt væri hér í blóma. Þessu var mótmælt af mörgum virtum hagfræðingum innlendum og erlendum, auk hagdeilda vinnumarkaðsins. Þar var m.a. bent á að krónan væri skráð 30% of há, m.a. á grunni mikilla fjármuna, sem hefðu verið fluttir til landsins. Þessu mótmæltu þingmenn Sjálfstæðisflokksins með miklum látum, og töluðu um íslenska efnahagsundrið og hæddust af þeim sem gerðu aths. við skilgreiningar flokksins á stöðu efnahagslífsins.

Þar var framarlega í flokki sú þingkona sem var í Kastljósinu í gær. Hún hélt því hiklaust fram að flokkurinn hefði verið að vinna frábært starf við endurreisn hrunsins, en það væri kynningarfulltrúum að kenna að þjóðin hefði ekki orðið vör við uppbygginguna!! Hún sleppti því að tala um hver hefðu mótað þá stefnu sem olli hruninu og hverjir það voru sem skipuðu þá eftirlitsmenn sem áttu að gæta að hagsmunum almennings. Það var ríkið sem brást, sagði Páll Skúlason háskólaprófessor og heimspekingur, í einni af bestu skilgreiningunni á því gerst hafði.

Enn eru til þingmenn sem halda því fram að það sé afleiðingar erlendra atvika sem flokkurinn hafi ekki komið nálægt.

Undanfarnar vikur hafa þingmenn VG haldið því fram að erlendum lánum hafi verið troðið upp á okkur af Alþjóðasjóðnum með afar kjörum. Fyrir liggja yfirlýsingar ráðherra og seðlabankastjóra allra nágrannalanda okkar að íslendingum stóð ekki til boða ein evra að láni, ef við tækjum ekki til hjá okkur og samþykktum þær aðgerðir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti fram.

Það tók ríkisstjórnina allan október og nóvember að fallast á hversu umfangsmikil vandræðin væru hér á landi. Í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum er flett ofan af ástandinu. Það hefur komið fram að ráðherrum var þetta ljóst síðasta vor, en vildu ekki horfast í augu við vandann og þaðan af síður að takast á við hann.

Stóru mistök Samfylkingarinnar voru að fallast ekki strax í október á tillögu Geir um að sameina Fjármálaeftirlit og Seðlabanka og losa Sjálfstæðismenn við það að þurfa að segja Davíð upp. Það breytti engu um að við blasti getuleysi sjálfstæðismanna, en þá hefði verið hægt að takast á við vandann í alvöru.

Þá hefðum við allt eins getað handstýrt verðbólgu og vöxtum, við vorum þá hvort sem er með allt bankakerfið í höndunum og allt í steik. Við hefðum þá getað horfið af þeirri braut að gæta einvörðungu hagsmuna auðkýfinganna með háum innlánvöxtum og gætt hagsmuna heimila og íslenskra fyrirtækja.

Þessi vinnubrögð ríkistjórnarinnar hafa valdið því að þjóðin fékk miklar ranghugmyndir um hvað væri í gangi, sem hefur í raun valdið mun meiri óróa og óvissu en efni voru til og þá um leið aukið vandann enn frekar. Þetta er undirstaða þeirra mótmæla sem hafa átt sér stað undanfarnar vikur og þau hafa verið að harðna eftir því sem almenningur hefur verið að átta sig á hvaða sjónarspil stjórnmálamenn léku.

Þetta er ótrúlegt ábyrgðarleysi og sýnir enn einu sinni að stjórnmálamenn setja völd framar hagsmunum almennings. Nú virðist það vera svo að stjórnmálmenn hafi ekkert lært og ætla að bjóða okkur enn einu sinni upp á sandkassasjónleik með Morfískeppni í útúrsnúningum.

Við vildum strax skipta út fjármála- og viðskiptaráðherrum ásamt stjórnum Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Þessu sinnti ríkistjórnin ekki, sem var ábyrgðarleysi og lítilsvirðing gagnvart almenning. Þess vegna féll ríkisstjórnin. Það sem er gerast núna virðist ætla að leiða til þess að ný ríkisstjórn fæðist andvana og þingmenn Sjálfstæðisflokksins dansi af gleði.

Stendur til að gera þann einstakling að fjármálaráðherra, sem hefur fordæmt þær aðgerðir sem hafa verið í gangi og skila öllu. Byrja upp á nýtt og fara þá í gegnum sömu asnastrikin og Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir í október og nóvember.

Stendur til að gera þann sem hefur verið í margskonar vafasömu fjármálabraski að dómsmálaráðherra?

Ætla stjórnmálamenn þá sérstaklega Sjálfstæðismenn ekki að biðja þjóðina afsökunar á gjörðum sínum?

Getum við ekki fengið utanþingstjórn og gefið þessu liði frí fram á haust?

Það blasir við að nú fara þingmenn í vinsældakeppni, sjá hér. Þetta er nú líklega ósvífnasti útúrsnúingur sem settur hefur verið fram hér á landi, erum við þó ýmsu vön.

Á meðan blæðir þjóðinni út.

9 ummæli:

Unknown sagði...

Það er ótrúlegt að stjórnmálamenn skuli ekki vera búnir að fatta hvað hefur átt sér stað. Almenningur hefur sýnt svo ekki verður um villst að hann er búinn að fá nóg af þessu rugli sem hefur einkennt íslensk stjórnmál svo lengi sem ég man eftir mér. Forseti Íslands virðist vera að átta sig, en þetta lið sem hefur dregið virðingu og traust Alþingis á eitthvert Jerry Springer plan ætlar ekki að skilja að fólk hefur fyrirlitningu á þessum hægri-vinstri hártogunum og langflestir vilja að nú fari hagur þjóðarinnar að vega meir en flokksþjónkun.
Og ég kvíði því að nú muni hefjast kosningabarátta sem mun einkennast af innantómum bjánafrösum og öll fyrri kosningaslagorð hljóma nú eins og lélegir brandarar miðaða við hvernig nú er komið fyrir þessari örmu þjóð.

Edvald sagði...

Guðmundur,
Ég er næstum aldrei á sama máli og þú og sjálfsagt eru okkar viðhorf til hlutana ólík. Mig langar þó til að fá að hrósa þér fyrir þennan pistil sem ég er sammála. Það er bara eins og það sé skipt um stýrikerfi í fólki þegar það fer á þing. Af hverju þurfum við að horfa á þetta endalausa raup um vinstri og hægri og málfundaræfingar því tengt. Ég vonaðist til að einhverjir hefðu t.d. heyrt ræðu Obama " The question we ask today is not whether our government is too big or too small, but whether it works...." Það er ótrúlegt að' enginn hafi kynnt til sögunar skynsemisstjórnmál sem snúast um hvernig við getum lifað hér í sæmilegri sátt, án öfga og spillingar og með hagsmuni allra að leiðarljósi. Svo geta hinir kjörnu fulltrúar þjóðarinnar ekki einu sinni talað saman af kurteisi. Þau eru öll eins og menntaskólakrakkar í morfís eins og þú réttilegar kemur inn á.

Nafnlaus sagði...

Já það e rþað sem fólk óttast er að það fara nú allt í vitleysu núna, enda vilja sumir kosningar strax til að ná sem bestu fylgi, áður enn fylgishrun verður þegar menn sjá nýju föt keisarans Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

hvernig er það, er ekki til neinn viðskiftafræði/hagfræði - menntaður einstaklingur í landinu...

LÁTA JARÐFRÆÐING TAKA VIÐ AF DÝRALÆKNINUM... sýnir bara að þetta breytist ekkert

svipað og r-listin vs. sjálfstæðisflokkur... same thing, different people

sorglegt

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki hvort það hafi áhrif hvort sá sem stýri fjármálaráðaneyti sé með mentun sem dýralæknir eða jarðfræðingur. Var ekki verið að auka kvót þó svo að fræðingar væru búnir að mæla með öðru. Það þíðir ekki að heimta fræðinga í öll störf og fara svo ekki eftir því sem þeir segja. Við vorum með og erum með fræðinga í ýmsum stöfum enn hlustum ekki á þá. Enn við hlaupum eftir sem viðskiftaráð segir um að fækka reglum og auka frelsi, þvert á það sem sérfræðingar sögðu, enn þá fengu þeir stimpilinn nöldur skjóður, vinstrimenn eða fortölu fólk. Kv Simmi.

Nafnlaus sagði...

Ég hætti ekki að furða mig á því hversu gagnrýnislaus þú ert á samning þann sem fráfarandi ríkisstjórn gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Guðmundur! (Milli þess reyndar að þú kvartar yfir vaxtastefnu Seðlabankans, sem þó er hluti af lánsskilyrðunum.)

Nú síðast má lesa hér á Eyjunni frétt af því að Nóbelsverðlaunahafinn Stiglitz hefur látið falla um samkomulagið. Sjá: http://eyjan.is/blog/2009/01/28/nobelsverdlaunahafi-gagnrynir-stefnu-althjodagjaldeyrissjodsins-gagnvart-islandi/

Er Stiglitz kannski bara að keppa í Morfís?

Reynir Sigurbjörnsson sagði...

Þetta er það sem gerist þegar stjórnendur setja of lengi við völd.
þeir fara að líta á kjósendur sem sína eign, og samfélagi sé til fyrir þá, að þeir geti deilt og drotnað eins og þeim sýnit
Með öðrum orðum þeir verða spiltir.
//reynir

Nafnlaus sagði...

Guðmundur , þarft þú ekki að útskýra fyrir mönnum hvað þú átt við með margvíslegu fjármálabraski? Það gengu lengi vel hér á blogginu upplognar sögur um væntanlegann dómsmálaráðherra og meintar eignir hans m. a. í Eykt. Ég trúi því tæpast að þú sért að vísa til þeirra.

Guðmundur sagði...

Sæll Stefán.
Ég hef fjallað nokkrum sinnum um afstöðu mína gagnvart AGS, það er að segja þá stöðu sem búið var að koma okkur í og hvaða skilyrði nágrannalönd settu okkur. Það var einfaldlega ekkert annað val og populismi að ræða málið frá þvísjónarhorni.

Ertu viss um að vaxtastefnan sé hluti af dílnum? Ég hef heyrt annað og það hefur komið fram á nokkrum stöðum.