fimmtudagur, 1. janúar 2009

Nýtt ár

Í upphafi árs er ástæða til að horfa til framtíðar. Markmið séu öllum skýr og raunsæ. Vinnubrögð stjórnmálamanna hafa einkennst um of af valdabrölti og pólitískum fléttum. En það er skýr krafa almennings að byggt verði upp á ný það samfélag sem við þekktum. Greiðsluvanda heimila og fyrirtækja í landinu er bráðavandi sem verður að leysa á fyrstu mánuðum ársins.

Grunnurinn í endurreisnarstarfi verður að vera byggður á gagnkvæmu trausti almennings og stjórnvalds. Ég er þeirrar skoðunnar að íslenskt efnahags- og atvinnulíf sé komið í þá stöðu að við náum ekki settum markmiðum án þess að að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu, byggðu á réttlátum samningum í auðlindamálum.

Stjórnvöld stóðu í haust frammi fyrir banka- og gjaldmiðilskreppu, sá kostur virtist einn upp að taka há erlend lán. Lán til þess eins að reyna að endurreisa traust á gjaldmiðli sem aðilar vinnumarkaðs hafa undanfarin ár bent á að sé vonlaus og vinni gegn frekari uppbyggingu atvinnu- og viðskiptalífs. Vandinn í þessari glímu eru háir vextir sem notaðir eru gegn gjaldeyriskreppu, á meðan lágir vextir eru nýttir gegn banka- og efnahagskreppu. Það verður að leysa sem allra fyrst gjaldeyriskreppunna, hún kemur í veg fyrir eðlilega upprisu fyrirtækjanna og dregur úr frumkvæði og framkvæmdavilja.

Enn eru til menn sem trúa því að krónan eigi sér framtíð. Það er óskhyggja. Nú er okkur búin sú staða að brjóti menn gjaldeyrislögin eiga þeir á hætti að fara í fangelsi í allt að tvö ár. Það eitt út af fyrir sig lýsir trú seðlabankastjóra, forsætisráðherra og fjármálaráðherra á krónuna.

Á meðan berst atvinnulífið við gífurlegan fjármagnskostnað og skort á lánsfé. Kostnaðurinn og skorturinn er að taka atvinnulífið kverkataki 0g hefur hamlandi áhrif. Því lengur sem lausn á þessu dregst þeim mun meiri verður skaði efnahagslífsins.

Ísland er í bráðum vanda og spurning hvort íslenskt efnahagslíf hafi efni á því að bíða. Stjórnvöldum og embættismönnum ber skylda, að kynna sér fordómalaust þá kosti sem eru í stöðunni. Það gengur ekki að halda viðskipta- og atvinnulífi í fangelsi hafta ef aðrir kostir standa til boða. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er valkosturinn sem verður að huga að. Einhliða upptaka Evru í samvinnu við ESB gæti verið leið frá þeirri haftastefnu sem nú ríkir á gjaldeyrismarkaði.

Alþjóðasamskipti og öflug utanríkisviðskipti eru mikilvæg forsenda þess að börn okkar geti búið við góð lífskjör í framtíðinni. Það er því grundvallaratriði að vera í góðu sambandi við umheiminn og endurreisa ímynd og traust landsins. Hluti af því er að ganga frá skuldamálum gömlu bankanna.

Við erum fámenn og það verða að ná samningum um skuldaniðurfellingu, annars bíða okkur endalausar og kostnaðarsamar lögsóknir frá erlendum aðilum. Þar verða stjórnvöld að sætta sig við alþjóðalög, barnalegar og illa ígrundaðar upphrópanir um kúgun og óvinveittar athafnir gagnvart Íslandi leysa þar engan vanda. Ef það tekst batnar samningsstaða Íslands er kemur að því að íslendingar setjist niður og semji um þau skilyrði sem fylgja aðild að Evrópusambandinu.

Engin ummæli: