þriðjudagur, 6. janúar 2009

Hagsmunasamtök heimilanna opinn fundur 8. jan.

Opinn vinnufundur í Borgartúni 3 - þann 8. janúar 2009 kl. 20.00

Unnið er að stofnun hagsmunasamtaka heimilanna í ljósi þess efnhagsástands sem ríkir og stöðu heimilanna í landinu. Ljóst er að engin samtök hafa tekið að sér að gæta hagsmuna heimilanna í landinu á sama tíma og samtök eru til fyrir ýmsa aðra hagsmunahópa og samtakamáttur þeirra í kröfum til stjórnvalda og fjármálafyrirtækja því til staðar, s.s. eins og fjármagnseigendur, launþega, atvinnurekendur.

Undirbúnings­nefnd samtakanna hefur ákveðið að boða til opins vinnufundar og leitast við að virkja fólk til þátttöku í mótun áherslna og tilgangs þeirra. Tilgangur vinnufundarins er að skilgreina betur þær áherslur sem lagðar verða til grundvallar starfsemi samtakanna, svo sem hlutverk, markmið, nafn, lög og meginkröfur og að ræða stjórnarmyndun samtakanna.

Fyrir lok mánaðarins er áformað að halda stofnfund samtakanna þar sem m.a. verður farið yfir niðurstöður vinnufundarins, þær lagðar fram til samþykktar og stjórn samtakanna kosin. Undirbúnings­nefnd bindur vonir við að stofnfundurinn verði mjög fjölmennur og þátttakendur taki virkan þátt í að móta megináherslur samtakanna og að hann veki verðskuldaða athygli.

Samtökin munu starfa sjálfstætt og án afskipta annara hagsmunaaðila eða stjórnmálaflokka. Öllum er velkomið að leggja málstaðnum lið og eru allir áhugasamir hvattir til að hafa samband eða mæta á fundina.

F.h. undirbúningsnefndar
Ásta Rut Jónasdóttir // astry74@hotmail.com

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þettað lýst mér vel á, og hvet fólk til að mæta og taka þátt í þessu. Kv simmi

Nafnlaus sagði...

Frábært, reyni að mæta.