sunnudagur, 25. janúar 2009

Tökum bara lífeyrissjóðina

Hvað er lífeyrissjóður? Hann er safn sparifjár þeirra sem greiða 12% af launum í viðkomnandi sjóð.

Hvað á að gera við alla þessa peninga? Það á að greiða þeim sem borga í sjóðinn mánaðarlega upphæð sem samsvarar a.m.k. 57% af þeim launum (verðtryggðum), sem viðkomandi hefur greitt til sjóðsins, frá því að viðkomandi nær 67 ára aldri þar til að hann deyr. Eða ef hann er svo ólánsamur að verða öryrki, að greiða honum sömu upphæð á mánuði þangað til hann verður 67 ára og svo áfram þar til hann deyr.

Hvernig að það hægt, því það hlýtur oft að vera margfalt meira en viðkomandi hefur greitt til sjóðsins? Það er hægt vegna þess að lífeyrissjóður er samtryggingarsjóður, sumir fá minna en þeir greiða og jafnmargir fá meira.

Hvar eru peningar lífeyrssjóða geymdir? Það eru í gildi lög sem setja starfsmönnum lífeyrissjóða mjög ákveðnar skorður við því hvar þeir mega fjárfesta. En þeir verða að ávaxta peningana með að meðaltali 3.5% svo sjóðirinir geti staðið við framangreindar skuldbindingar.

Er hægt að taka lífeyrissjóðina og greiða t.d. upp skuldir þjóðfélagsins, eins og sumir tala hiklaust um? Það jafngildir upptöku á eignun tiltekins hóps einstaklinga, sjóðsfélaga viðkomnandi sjóðs. Í sjálfu sér hljóta þeir hinir sömu að vera að leggja til að það eigi jafnt um sparifé sem geymt er á bankabókum, annars gildir ekki hið margumtalaða jafnræði með landsmönnum.

Ef taka á það fjármagn sem geymt er í lífeyrissjóðum og nota það í annað t.d. eins og greiða upp skuldir samfélagsins, þá verður þá ekki að byrja á því að losa um eignir sjóðanna? Jú það er rétt það þyrfti að selja öll ríkisstryggðu skuldabréfin sem ríkissjóður og sveitarfélögin hafa gefið út. Selja öll hlutabréfin og aðrar eignir sem sjóðirnir eiga. Það myndi þýða að það þyrfti að finna einhvern sem væri tilbúinn að kaupa þessar eignir og svo er þá spurning á hvaða verði þær myndi seljast ef þær væru allar settar á markað.

Myndi það ekki þýða endanlegt gjaldþrot margra íslenskra fyrirtækja og ekki síður hins opinbera? Jú það er rétt hið opinbera þyrfti þá að taka að sér að greiða allar örorkubætur og allan ellilífeyri. Þetta blasir við nokkrum þjóðfélögum eins og t.d. Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Ítalíu og þegar stóru barnasprengju árgangarnir verða 67 ára, það er á árunum eftir 2014 og nær hámarki 2020, þá verða þessi þjófélög gjaldþrota því það sem þau þurfa að greiða í örorku og ellilífeyri verður meira en allar skattekjur þessara ríkja.

Með öðrum orðum ef menn vilja láta taka mark á því sem þeir skrifa í blöð og á bloggsíður, væri þá ekki ágætt að þeir hugsuðu það til enda sem þeir eru að segja? Jú eiginlega væri yfirleitt ágætt að menn temdu sér þau vinnubrögð.

21 comments:

Nafnlaus sagði...

Það er fásinna að taka lífeyrissjóðina.

Hins vegar verða lífeyrissjóðirnar að taka þátt í hinu nýja Íslandi eins og aðrir. Það er óþolandi að verkalýðsforkólfar séu að víla og díla með peninga fólksins, það er óþolandi að lífeyrissjóðir séu að gera tugmilljónkróna starfsloka samninga við yfirmenn sjóðanna og það þarf að hleypa að fólki á opin og skilvirkan hátt að í stjórnir sjóðanna.

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill. Nú verða menn að fara tala um hlutina að alvöru ekki bara upphrópanir.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.

Ef lífeyrissjóðirnir eru teknir og notaðir af ríkinu þá er einfaldlega verið að taka þá og breyta þeim í SKATTGREIÐSLUR.

Það er þá afturvirk skattlagning. Sem yrði enn ein skattarósin hjá Sjálfstæðisflokknum.

Lífeyrissjóðirnir eru uppbyggðir með LÖGBUNDNUM greiðslum upp á heil 12% af launum landsmanna. Að taka þá til ríkisafnota er skattasleggja af versta tagi og ég vil meina að sjálfsagt væru ráðamenn að undirrita sinn eiginn dauðadóm (þá á ekki við pólitískan) ef farið yrði út í slíkt brjálæði.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur og þakka þér kjarnyrta vörn og sókn fyrir lífeyirssjóðina og launafólk hér og gegnum tíðina; ég er yfirleitt sammála þér - nema um verðtryggingu sem ég hef aðeins skrifað um á blogginu og leyft mér að efast um f.h. neytenda.

Hér er færsla þar sem ég rökstuddi lagalega að ekki væri hægt að þjóðnýta lífeyrissjóði:
http://neytendatalsmadur.blog.is/blog/neytendatalsmadur/entry/771308/

Nafnlaus sagði...

Hárrétt... þetta er nú talsmáti kommúnistanna sem dreymir um Steingrím Joð sem forsætisráðherra. Við verðum fyrst gjaldþrota ef það verður hróflað við lífeyriskerfinu, fyrir utan það að það er enginn kaupandi til fyir þessum verðbréfum sem þeir eiga.

Nafnlaus sagði...

Ofurlaun forstjóra sjóðana eru ekki til að auka sátt um lífeyrissjóði fyrir utan hvað þeir eru búnir að standa sig ílla.
Einn sjóð sömu réttindi fyrir alla.
Betra er að ríkið taki sjóðina en þeir séu reknir svona, engin hefur ennþá sagt af sér þrátt fyrir alla miljarðana sem hafa tapast.

Guðmundur sagði...

Ég hef ekki orðið var við í mínu starfi að það hafi komið á mitt borð eða annarra í forystu Rafiðnaðarsambandsins að víla og díla með fjármuni þess lífeyrissjóðs sem rafiðnaðarmenn eru í langflestir.

Það er aftur á mót mikil umræða á fundum okkar um rekstur og ávöxtun sjóðsins og fylgst vel með því.

Hvað varðar verðtryggingu þá er það nú svo að áður enn henni var komið á af Ólafi Jóhannessyni þáv. forsætissráðh. þá gufuðu lífeyrissjóðir og annað spari fé upp. T.d. byrjaði ég að greiða í lífeyrissjóð 1970 þegar ég kom út á vinnumarkaðinn. Þar verðtyrgging var tekinn upp 12 árum síðar samsvaraði inneign mín verði eins lambalæris.

Nafnlaus sagði...

Það á að sameina alla lífeyrissjóðina í einn stóran sjóð með mjög skýrar reglur um fjárfestingar og upplýsingarskyldu.

stjórn með ábyrgð og skýrt afmarkað umboð
framkvæmdastjóra sem vinnur í umboði og á ábyrgð stjórnar

heimasíðu þar sem í rauntíma væri hægt að fylgjast með ákvörðunum stjórnar og framkvæmdastjóra varðandi lán til fyrirtækja og stofnana, þeim lánum yrðu settar skorður hvað varðar rekstur og tengingar fyrirtækjanna og forsvarsmanna þeirra

bann við fjárfestingum(eignaraðild) nema í opinberum og viðurkenndum félögum og með raunverulegri þátttöku í stjórnum þeirra, með eftirliti og byrtingu upplýsinga

ep

Guðmundur sagði...

Í sambandi við sameiningu sjóðanna má benda á að réttindi innan þeirra eru mismunandi og þeir standa ákaflega misvel. Þetta hefur reyndar komið fram hér allnokkrum sinnum.

Nafnlaus sagði...

Kæri Guðmundur
Það er löngu vitað mál hvaða hug þú berð til lífeyrissjóðanna. Ég er líklega sá sem hef gagnrýnt þá hvað mest. Þú telur að allir sem gagnrýna lífeyrissjóðina hafi ekki hugmynd um hlutverk þeirra og geri sér enga grein fyrir því að þeir gegna samtryggingarhlutverki.
Ég vil benda á nokkrar staðreyndir.
1.Ástæða þess að lífeyrisréttindi þín rýrnuðu niður í lambaketsbita er sú að allt frá stofnun sjóðanna til ársins 1998 þegar lög voru samþykkt um lágm. tryggingavernd lífeyrisréttinda, þá gátu sjóðirnir nær eftirlitslaust sólundað uppsöfnuðum sjóðum sínum í allskyns ævintýramennsku og skert lífeyrisréttindi að vild eftir því hvernig þeim gekk.Vissulega hafði verðtryggingin áhrif en þau voru minniháttar miðað við braskið sem þá var við lýði.
2.Samtryggingin. Það kemur fram í flestum ársreikningum lífeyrissjóða innan LL að samanreiknaðar framtíðar skuldbindingar vegna almannatryggingarinnar þ.e.Maka-örorku og barnalífeyri ásamt rekstrarkostnaði sjóðanna er um 20% af heildarskuldbindingum og framtíðarskuldbindingum greiðsla lífeyris 80%. Þetta er uppreiknað af tryggingastærðfræðingum sjóðanna og eru staðfestar tölur í ársreikningum. Þess vegna fannst mér merkilegt þegar ASÍ og SA ákváðu á kostnað launahækkana að auka framlög til lífeyrissjóða um 20% af öllum launum þ.e. úr 10 í 12%.Skýringin var aukin kostnaður við almannatryggingakerfið.
3.Sameining lífeyrissjóða.Vissulega er það rétt Guðmundur og því miður eru lífeyrisréttindi launþega mismunandi eftir sjóðum og þess vegna sérlega mikilvægt að jafna þennan mun eins og kostur er eins og þú sjálfur hefur barist fyrir,en því miður bara deilt á ríkistryggðu sjóðina. Með aukinni hagræðingu má nota þann gríðarlega rekstrarkostnað sem sparast til leiðréttingar þeirra bágu réttinda sem konur verða fyrir við makamissi þá sér í lagi ef þær eru heimavinnandi með börn á framfærslu. Þar sem ég hef kynnst þessu frá fyrstu hendi og séð hversu skammarlega er komið fram við þennan hóp. Fólk er eitt fyrir guði og mönnum,samskattað,skrifa bæði upp á lífeyrissjóðslán og þurfa að borga hvernig sem fer. En lífeyrisréttindin fær konan skert að helming og aðeins í nokkur ár, en eins og þú sagðir réttilega, sjóðirnir eru misgóðir.
4.óráðsía og spilling.
Ég hef lagt til að ríkið beiti ákveðna lífeyrissjóði 46gr. laga og leysi þá til sín tímabundið enda glóruleysið í fjárfestingum þeirra og rekstrarkostnaður algjörlega úr sambandi við allan raunvöruleika. Tapið á þeim er þvílíkt að þeir geta aldrei staðið við þær grunnskuldbindingar samkv.lögum sem þeim ber. Einnig hef ég kynnt mér fjárfestingastefnur nokkurra stærstu sjóðanna og með ólíkindum hversu keimlíkar fjárfestingar sumra þeirra eru. þ.e. ég fékk sundurliðun á 20 stærstu fjárfestingum 20 stærstu sjóðanna á 12 mánaða tímabili fyrir bankahrunið og voru nokkrir sjóðir mjög áberandi þ.e. hreyfing á hlutabréfum og hlutfall verðbréfaeigna var nákvæmlega eins á milli mánað yfir þetta tímabil. Þá hljóta menn að spyrja sig hvað það kosti í raun og veru að reka 10-15 lífeyrissjóði sem fjárfesta nánast nákvæmlega eins,með 15 forstjóra á forstjóralaunum sem keyra um a 15 forstjórajeppum með 15 starflokasamninga og vinna fyrir 15 sérhagsmunaaðila "ekki launþega".

Kæri Guðmundur
Þessi gagnrýni á fullkomlega rétt á sér. það kann að vera rétt að einhverjir tali af vanþekkingu um þessi mál. Mér finnst sú megin óánægja sem ég hef heyrt og lesið eiga fullkomlega rétt á sér. Mín tillaga er sú að sameina þessa sjóði og breyta fjárfestingastefnu þeirra til muna. Ég vil t.d. frekar að sjóðirnir styðji við bakið á starfsfólki þeirra "góðu" fyrirtækja sem standa nú illa vegna óráðsíu fyrri eigenda og stjórnenda,til að eignast þau og reka í stað þess að henda þeim fangið á sama drullulýðnum með skuldaaflausn. Einnig þarf að setja Siðferðis fjárfestingastefnu "sem er að vísu til staðar en hefur ekki verið notuð ennþá" og setja í "lög" þar yrði t.d. ekki fjárfest í fyrirtækjum sem stiðja ofurlaunastefnur og kaupréttarsamninga. Fjárfestingarkrafa sjóðanna þarf að vera í besta falli meðal sanngjörn.Einnig þarf að beina fjárfestingum til hvata fyrir fyrirtækin en ekki til valda eins og þekkt er í dag.

Þakka annars góð skrif Guðmundur, hef alltaf gagn og gaman af pistlum þínum.

Kær Kveðja
Ragnar Þór Ingólfsson
ragnar73.blog.is

Guðmundur sagði...

Sæll Ragnar
Það er leiðinlegt að þurfa að endurtaka sig oft. Staða lífeyrissjóða er ákaflega misjöfn. Réttindakerfi þeirra er misjöfn.

T.d. er makalífeyrir misjafn og langhæstur hjá þeim lífeyrissjóði sem rafiðnaðarmenn eru í. Samt þurfti sá sjóður ekki á þessum 2% að halda til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar og var farið fram á setja þessi 2% í séreign viðkomandi sjóðsfélaga en stjórnvaldið féllst ekki á það.

Þannig að alhæfingar þínar standast ekki og meginábendingar mínar hvað varðar lífeyrisumræðunu er einmitt að það er sífellt alhæft.

Ég ætla ekki að leggja mat á umsvif stjórnenda allra sjóðanna þar sem ég þekki það ekki, en þekki starfsreglur okkar sjóðs.

Nafnlaus sagði...

Sæll aftur
þetta er nákvæmlega það sem ég var að benda á.Sjóðirnir eru misgóðir.Ég tel að á bak við þessi auka 2% hafi verið annar tilgangur en að koma til móts við aukin kostnað við almannatryggingakerfið.

Varðandi alhæfingar skal ég vera sammála þér að margt er alhæft og þekki ég ekki réttindi rafiðnaðarmanna sérstaklega enda sjóðirnar með mjög mismunandi sjóðsfélagatryggingar ásamt því að standa misilla og misvel eins og þú réttilega bendir á.
Við hljótum að vera sammála um það að fólk á að njóta sömu grunntryggingaverndar hvort sem þú ert ríkisstarfsmaður,rafvirki,ráðherra eða kassadama. Mér finnst öll mismunun í þessu af hinu slæma.
Góð hugmynd væri að greiða hluta af 12% iðgjaldinu í séreign. það er heimild fyrir því í lögum.
Læt þetta svo gott heita.
Kveðja
Ragnar

Nafnlaus sagði...

Guðmundur

Hvað finnst þér um laun forstjóra lífeyrissjóðana og eru þeir að axla ábyrið miðað við þau.
Forstjóri Stafa með 20miljónir á ári og ekki er hann einn í stjórn.

Guðmundur sagði...

Það hefur verið fjallað um stjórnarlaun og eins laun forsvarsmanns sjóðsins á sjóðsfélagafundum, síðast núna fyrir nokkrum vikum. Á þeim hefur verið tekið.

Nafnlaus sagði...

Ein af meginástæðum sameiningar ætti fyrir utan hagræði og gegnsæi að vera misjöfn réttindi, eða vilt þú verja sérréttindi þingmanna og ráðherra, ríkisstarfsmanna ofl.

hitt er svo að tæpir illa reknir sjóðir munu tapa félögum yfir í séreignasjóðina

ep

Nafnlaus sagði...

"..Það jafngildir upptöku á eignun tiltekins hóps einstaklinga, sjóðsfélaga viðkomnandi sjóðs.."

Þetta viðgengst nú í dag þegar fólk deyr þá hirðir sjóðurinn bróðurpartinn af því sem viðkomandi hefur lagt til hliðar. Einhverju smotteríi er hent í eftirlifandi maka í 2-3 ár til málamynda...

Guðmundur sagði...

Líklega hafa fáir, jafnvel engin gagnrýnt jafnmikið þau sérréttindi sem þingmenn hafa tekið sér. Auk þess óréttis sem við í almennu sjóðunum búum við að þurfa að skerða á meðan ríkissjóðurinn sækir sitt í ríkissjóð.

Það sem ég er að benda á að það err mikið meir en að segja að sameina sjóðina, einmitt sakir þess hversu ólíkir þeir eru.

Einnig er næsta víst að það muni rennda tvær grímur á þá sem eru í illa reknum sjóðum hversu mikið þurfi að fella réttindi verði hann sameinaður velreknum sjóð.

Það hefur allavega verið stóri vandinn þegar menn hafa verið að sameina sjóði undanfarin ár.

Þetta er ekki einfalt mál, er það sem ég er að benda á

Arnþór sagði...

Í 17 ár hefur fyrst og fremst og í nær eingöngu verið hugsað um hag fyrirtækja. Það var hugsað svo vel um fyrirtækin og svigrúm þeirra, að þjóðin er tæknilega gjaldþrota. En núna þegar búið er þurausa allt eigið fé útúr bönkum og lánastofnunum ætla atviunnurekendur og verkalýðsforysta í sameiningu að fara gambla með restina af eigum lífeyrissjóðanna. Samkvæmt nýjum lögum eiga lífeyrissjóðir “..að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru fjárhagslega illa sett…”.

Guðmundur! Hvernig kemur þessi veruleiki heim og saman við "lög sem setja starfsmönnum lífeyrissjóða mjög ákveðnar skorður við því hvar þeir mega fjárfesta". Hvaða ákveðnu skorður ertu að tala um?

Guðmundur sagði...

Sæll Arnþór
Endurtekningar eru alltaf leiðinlegar en þetta hefur margoft komið fram hér í umfjöllun um lífeyrissjóði;

Það eru skýr lög um hvernig lífeyrissjóðir mega fjárfesta.

Eins að þeir verði að ávaxta.

Val á fjárfestingarkostum hefur svo sem ekki verið upp á marga fiska að undanförnu og lífeyrissjóðir hafa árangurslaust kvartað við Alþingi og vilja fá þessum lögum breytt t.d. að geta fjárfest í fasteignum og eins fjárfest meir erlendis.

Þar sem þessu hefur ekki verið sinnt hafa þeir orðið fjárfesta í bönkunum og sjóðum þeirra og allir vita hvert það fór.

Margir velta því fyrir þar sem í ljós hefur komið að stjórnmálamenn hafa tekið eftirlitsstofnanir úr sambandi hvort það tengist eitthvað þeirra hagsmunum, allavega eru nokkir og eins makar stjórnmálamanna sem tengjast nokkrum af þessum ævintýrum.

Um þetta hef ég skrifað hvern pistilinn á fætur öðrum hér.

Venjubundnar aðdróttanir Arnþórs í garð starfsmanna stéttarfélaga eru ekki svaraverðar

Ragnar Þór Ingólfsson sagði...

Sé að þetta er funheitt umræðuefni.

Langaði að bæta því við varðandi fjárfestingastefnu sjóðanna.

Það er heimild í lögum um lífeyrissjóði að þeir mega fjárfesta og eiga ótakmarkað í félögum sem eingöngu sinna þjónustu við sjóðsfélaga. Það hefur því ekkert verið því til fyrirstöðu að fjárfesta í félögum sem reka þjónustuíbúðir fyrir aldraða félagsmenn. Þ.e. fjárfest í steypu sem fylgir verðlagi og þykir með traustari langtímafjárfestingum, sanngjarnar leigutekjur koma í kassan frá fyrsta degi. Í stað þess að aldraðir sjóðsfélagar þurfa að selja undan sér eignir sínar til að komast framar á biðlistum eftir kústaskápum á yfirfullum en annars ágætum elliheimilum. Það eru mörg fjárfestingarúrræðin sem hafa verið möguleg fyrir sjóðina en ekki verið stjórnendum þeirra að skapi enda gefa slíkar fjárfestingar ekki völd út í samfélagið né þjóna sérhagsmunum fyrirtækja sem eiga aðild að sjóðunum eða eru þeim "hliðhollir". Enda hef ég lengi talið Samtök Atvinnulífsins sem ráðandi afl yfir ævisparnað okkar verið hina mestu meinsemd. Ég er hinsvegar fylgjandi aðkomu sjóðanna i atvinnulífinu en ekki með þeim hætti sem nú er.

Arnþór sagði...

Þetta eru engar dylgur í mér heldur tilvísun í ný lög frá des 2008, sem sett hafa verið um lífeyrissjóði. Nú eiga lífeyrissjóðir að fjárfesta í fyrirtækjum sem standa illa.

Í framhaldi af því er lærdómsríkt að benda á myndskeið á youtube með HHG, þar sem hann talar um þrjár ástæður fyrir hinu íslenska efnahagsundri, sem sagt kvótaframsal, einkavæðing ríkisfyrirtækja og peningar lífeyrissjóða. Hannes segir orðrétt og útrásarvíkingarnir hafi farið með þetta fjármagn til útlanda, sjá http://www.youtube.com/watch?v=AoD8umlAOFs

Það er ljóst að Hannes veit hvað hann er að tala um þó hann hafi ekki vitað að þessir peningar myndu að lokum tapast og kerfið hrynja til grunna. Lífeyrissjóðirnir eru hluti af því kerfi sem hrundi. Þar verður að kalla menn til ábyrgðar eins og annarsstaðar.