Ráðherrar hafa ítrekað sagt að grundvöllur uppbyggingarinnar sé falinn í að tryggja að hjól atvinnulífs stöðvist ekki. Tryggja verði atvinnu og bæta kjör. Margar ræður hafa verið fluttar um hversu mýmörg tækifæri Íslendingar eigi. En ekkert kemur fram af þeirra hálfu og fyrirtækin eru að verslast upp.
Það er borin von að atvinnulíf og heimili geti þrifist við þau vaxtakjör sem hér ríkja. Fyrirtækjunum er lífsnauðsyn að hafa aðgengi að fjármagni. Sama gildir um sprotafyrirtæki þau þurfa aðgengi að þolinmóðu fjármagni og umhverfi sem veitir þeim rými til þess að komast yfir þróunarskeið.
Þrákelkni stjórnvalda undanfarinna ára í að halda í krónuna hefur leitt til mikils vanda meðal sprotafyrirtækjanna. Mörg þeirra munu flytja úr landi verði ekki stefnubreyting hjá stjórnvöldum og þeim mun fylgja velmenntað ungt fólk. Sú efnahagstefnu sem fylgt hefur verið hefur leitt okkur sífellt lengra inn á þá braut að vera hráefnisframleiðandi. Einhverra hluta vegna virðist eiga að halda áfram á þeirri leið.
Lífeyrissjóðirnir hafa síðasta áratug árangurslaust kallað eftir því að stjórnvöld breyti lögum um fjárfestingar sjóðanna. Ef þetta væri gert skapaði það forsendur fyrir virkari aðkomu lífeyrissjóðanna að endurreisn atvinnulífsins. Núverandi lög þvinga fjárfestingarstefnu sjóðanna um of í áhættufjárfestingar. Sýnt hefur verið fram á að töp lífeyrissjóðanna hefðu verið töluvert minni ef stjórnvöld hefðu farið að óskum lífeyrissjóðanna.
Þar má benda fyrst og síðast á lög um forsendur í áhættumati í eignastýringu lífeyrissjóðanna. Gera þarf lífeyrissjóðum kleift að fjárfesta í fasteignum eða fasteignafélögum, t.d. eignum sem leigðar eru einstaklingum og fyrirtækjum eða sveitarfélögum og ríkinu. Það er góður fjárfestingarkostur fyrir langtímafjárfesti eins og lífeyrissjóði að eiga fasteignir.
Í þessu sambandi mætti benda á hversu mörg störf það skapaði ef uppbygging Landspítalans yrði sett á fullt í þessum mánuði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli