fimmtudagur, 8. janúar 2009

Grillum almenning - meira um steikingu skulda

Útgerðarmenn seldu tekjur framvirkt á tilteknu gengi og spiluðu þar með á krónuna. Þegar aðilar í útflutningi gera þetta einhliða á tekjuhliðinni en láta lánahliðina standa óvarða, er verið að taka einhliða stöðu í skiptasamningi til að græða á því sérstaklega umfram framlegðina af rekstrinum, og þar með er verið að rjúfa þá náttúrulegu vörn sem er í fjárhagslegri uppbyggingu fyrirtækisins.

Sjávarútvegsfyrirtæki þurfa í sjálfu sér ekki gengisvarnir – þær eru til staðar í rekstrar- og efnahagsreikningi fyrirtækjanna. Ef krónan fellur hækka lánin en tekjurnar hækka líka.

Afleiðusamningurinn setur þak á hversu mikið tekjurnar geta hækkað (líka lækkað) en útgerðarmenn hugðu ekki að því að verja lánahliðina, sem samkvæmt planinu átti að lækka en því miður hækkaði bara.

Ef þeir hefðu t.d. tekið sömu ,,varnir‘‘ á lánahliðinni og þeir voru með á tekjuhliðinni (og þar með í raun nettað hvor aðra út) hefðu þeir haft hagnað á skuldahlið á móti tapi á tekjuhliðinni. Afleiðingin af þessari stöðutöku þeirra er að þeir tapa á þessu – tapa á braskinu.

Það er hægt að hafa skilning á því að fyrirtæki sem var með erlend langtímalán sé ,,tæknilega‘‘ gjaldþrota þar sem lánin reiknast núna mjög há og þurrka þar af leiðandi út eigið fé, en fyrirtækið engu að síður greiðsluhæft þar sem það hefur jákvætt sjóðsstreymi og getur staðið við allar sínar skuldbindingar, eigi að sigla í gegnum þennan ólgu sjó.

Hvorki bankar né aðrir munu tapa á slíkri ákvörðun. Það að ,,redda‘‘ þeim fyrirtækjum sem voru að braska með eigið fé fyrirtækjanna með einhliða stöðutökum og jafnvel rjúfa innbyggða áhættuvörn eru að sönnu gjaldþrota – bæði fjárhagslega og siðferðilega.

Ég stend sem sagt að fullu við það sem ég sagði.

Jafnræði á meðal skuldara er einfaldlega stjórnarskrárvarin krafa. Ef einn aðili fær niðurfellingu á kröfum þá munu aðrir vitanlega óska eftir því sama. Ef forsendan er vitlaust gengi, eins og Einar ráðherra talaði um, þá gildir það vitanlega um öll viðskipti sem byggja á gengisskráningu ISK. Nema að hann hafi verið að meina (eða túlka með pólitískum gleraugum) að þetta gengi útvegsmanna sé sérstaklega vitlaust.

Stór neikvæð staða vegna afleiðuviðskipti útgerðamanna bendir til þess að framvirku viðskiptin hafi verið (Sala EUR – Kaup ISK). Þegar krónan byrjar að veikjast verður að gera upp slíka samninga með mjög miklu tapi. Þetta er svipað og hjá lífeyrissjóðunum sem eru með stórar neikvæðar stöður á slíkum samningum.

Útgerðarmenn voru að gambla með krónuna (efnahagsreikninginn) og töpuðu einfaldlega á því og þar með tapað fyrirtækinu!

Ég ætla mér ekki að borga þann reikning og ég veit að ég mæli einnig fyrir munn barna minna, sem sum hver eru að drukkna í afborgunum af lánum sem þau tóku þegar þau komu heim úr háskólanámi og eru að reyna að koma sér fyrir í íslensku samfélagi.

En það eru fírar sem vilja strika út sínar skuldir og bæta þeim við skuldir almennings. Það er nóg komið af þannig þjóðfélagi. Þjóðfélagi frjálshyggjunnar með ótakmörkuðu frelsi valdhafanna til að skuldsetja almenning og hrifsa til sín auðlindir samfélagsins og þá um leið arðinn af þeim. Hingað til hefur það verið gert með því að valdhafarnir hafa haft frelsi til þess að fella krónuna og þá um leið lækka kaupmátt og og bæta í verðbólguna. Þeir berjast nú um hæl og hnakka til þess að viðhalda því kerfi. Það sést svo vel í ESB umræðunni

Takk fyrir aths. en það er nóg komið af þessu. Við venjulega fólkið sem borgum okkar venjulegu skuldir sem við sjálf setjum okkur í til þess að byggja upp venjulegt heimili með venjulegum tekjum viljum nefnilega líka komast af. Ekki vera þrælar frjálshyggjuliðsins.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll,

jafnræði milli skuldara var afnumið með "neyðarlögunum" Þar eru rétthæfi krafna endurraðað með ýmsum hætti og því ekkert stjórnarskrávarið við það. Gott samt að þú hafir áttað þig á að sjávarútvegurinn var ekki að veikja krónuna. Batnandi mönnum er best að lifa
Skál

Nafnlaus sagði...

Heyr Heyr, tek innilega undir hvert orð hjá þér Guðmundur. Frábær pistill, anskoti verður maður samt reiður!

Nafnlaus sagði...

Það verður gaman að fylgjast með þessu hvernig sjávarútvegurinn nær sínu fram. Hann mun nefnilega gera það, bara spurning um aðferð. Það virðist allt vera leifilegt í dag og sumt gert með stuðningi nýju bankana. Var að heyra það að bankin sem stendur á bak við nýju eigendur R. Sigmunson sé Kauþing, það eru þessir sem láta skattborgarna borga fólkinu uppsagnarfrestinn, og tilkynntu það fólkinu sínu það með einu símtali. Nei gott það er engin munur á gamla eða nýja Íslandi.
Kv simmi