miðvikudagur, 21. janúar 2009

Ríkisstjórnin víki strax


Staða þjóðfélagsins kallar á að allir aðilar taki höndum saman við það að byggja upp nýtt Ísland. Á hverjum degi koma fram upplýsingar sem sýna fram á hversu gjörspillt þjóðfélagið Ísland er. Þetta minnir mann á síendurteknar og einkennilegar ræður Sjálfstæðismanna um að Ísland sé minnst spillta land í heimi.

Hingað til hefur ríkisstjórnin í engu sinnt köllun aðila vinnumarkaðs um samstarf um að tekið verði á þessum þáttum. Má þar minna á viðbrögð ríkisstjórnar við gerð samninga í febrúar 2008. Sama gerðist í haust.

Á undanförnum vikum hafa aðilar vinnumarkaðs unnið að undirbúningi að því að takast á við endurskoðunarákvæði kjarasamninga. Viðbrögð stjórnavalda hefa verið með sama hætti og áður (engin). Ríkisstjórnin virðist hafa það markmið eitt að koma því til leiðar að ekki verði komist að niðurstöðu í rannsókn bankakerfisins. Háværar raddir segja að það sóðalegasta sé enn ekki komið uppá yfirborðið.

Núverandi ríkisstjórn nýtur sannarlega ekki traust þjóðarinnar. En staðan kallar á 2ja til 3ja ára áætlun sem allir taki þátt í að mynda til uppbyggingar þjóðfélagsins úr þeim rústum sem núverandi ríkistjórn stendur yfir.

Ef gengið væri til endurskoðunar núverandi kjarasamnings við núverandi aðstæður er vart hægt að túlka það öðruvísi en svo að aðilar vinnumarkaðs ætli sér að vinna áfram með núverandi ríkisstjórn. Fyrir því er ákaflega takmarkaður vilja innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar er sagt hingað og ekki lengra.

Krafa félagsmanna er að ríkistjórnina víki strax og Alþingi sæki sér nýtt umboð til þjóðarinnar. Á meðan gæti starfsstjórn tekið við og klárað skoðunina á spillingunni og lagt vitræn plön með aðilum vinnumarkaðs um hvernig staðið verði að endurreisn atvinnulífs í landinu. Það er ljóst að núverandi ríkisstjórn er það um megn.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Framsókn hélt því fram að það hefði farið fram uppgjör vegna undirskriftar Halldórs vegna Íraksstríðið?
Ég bara spyr - hvar og hvernig fór þetta uppgjör fram?
Getur einhver upplýst mig um það, takk fyrir.

Unknown sagði...

já, tek undir það. Kosningar sem fyrst og FRIÐ Í LANDIÐ!
SBR...mjög svo óvenjulega fortíð, þegar Ljósvetningagoði (sem ekki var í þjóðkirkjunni) laggðist undir feld!
Núverandi Íslendingar hafa alls ekki sömu, háu greindarvísitölu?

kær kveðja
Anna Benkovic M.

Nafnlaus sagði...

Af hverju er verkalýðsforustan ekki fremst í flokki í þessu, hafið þið eitthvað að fela líka?

kv.
Jóhann

Arnþór sagði...

Það er hægt að komst út úr kreppunni á 12 mánuðum með einföldum neyðarlögum. Skattalögum verði breytt þannig að allar tekjur (fjármagns og launa) beri sama skattahlutfall fyrir utan tekjur yfir 500þúsund pr. mánuð sem beri 90% skatt. Launalækkanir verða óþarfar auk þess sem niðurskurður í opinberri þjónustu verður óþarfur.

Guðmundur sagði...

Sæll Jóhann
Ég er búinn að svara þessari spurningu nokkrum sinnum hér á þessari síðu

Nafnlaus sagði...

Kæri Arnþór.

Þótt efnið sé soldið annað en efni pistilsins langar mig að svara þér.

Sá hátekjuskattur sem þú bendir á er við lýði í t.d. Danmörku.

Ég leyfi mér að fullyrða að Danir tapa stórum fjárhæðum á þessu, þar sem svartur atvinnumarkaður blómstrar þar.

Þetta sést best á iðnaðarmönnum þar í landi, sem vinna 6-7 tíma á dag (opinberlega), en eru langflestir með svo aðra 6-7 tíma svart. Stjórnendur og sérfræðingar eru annað dæmi, en þeir gefa upp ca. 350.000 kr (á gamla genginu) og taka rest út í fríðindum; bíl, húsi, sjónvarpi, síma, bátum og lengi má telja.

Það liggur í eðli fyrirbærisins prósentu að hátekjuskattur er óþarfur. Þú sérð t.d. að ef það er 50% skattur, og aðili A er með 1.000.000 kr. á mánuði borgar hann 500.000 kr. í skatt. Ef aðili B er svo með 100.000 kr. á mánuði, borgar hann 50.000 í skatt. Þarna sérðu að það munar 450.000 kr. á skattabyrði þessa tveggja aðila. Í stað hátekjuskatts væri gáfulegra að hækka skattaprósentu, og að hækka frítekjumörk/persónuafslátt. Ef við bætum við dæmið hér að ofan að persónuafsláttur væri 50.000, þá borgar aðili A 450.000 í skatt, og aðili B 0 kr. í skatt. Þetta er í mínum augum miklu sanngjarnara en að setja á allar tekjur yfir 500.000 90% skatt, því þá myndu allir (sem þurfa) gefa upp 499.999 kr. í laun og taka rest út í fríðindum. Þetta yrði afleiðing þess að fyrir hvern 1.000 kall sem hátekjumenn fá í launahækkun, skila 10 kr. sér í vasann þeirra.

Ég er sannfærður að þorri þjóðarinnar myndi sætta sig við hærri skattaprósentu að því gefnu að verðlag hér yrði stöðugt og viðráðanlegt, þ.e.a.s. að með hækkandi skatti myndi venjulegi borgarinn ennþá eiga í sig og á og þak yfir höfuðið.

Þetta markmið sýnist mér vera aðeins mögulegt með aðild að ESB. Og svona áður en söngurinn um að það sé líka kreppa í ESB ríkjum, vil ég benda á að þótt það sé kreppa í ESB, þá er verðlag ekki að hækka (á öllu) í sömu ævintýralegu upphæðum og hér. Þ.e.a.s. að þótt það sé kreppa, er almenningur ekki að missa hús, eignir og getur ennþá borðað.

Þessi rök hér að ofan finnst mér ýta á þá niðurstöðu að við eigum að kjósa strax, og hafa ESB atkvæðagreiðslu í leiðinni.

Með virðingu,
Öddi

Arnþór sagði...

Öddi!
Það má vera að þetta sé rétt hjá þér. Ég sé samt ekkert í þínum útreikningum sem kemur í veg fyrir sömu skattsvik og þú varar við í mínum tillögum. Þannig að ef þú slærð enga aðra varnagla þá fellur þetta um sjálf sig.

Sú hugmynd að hafa þolanlegar álögur á lægri launin en 90% á laun sem eru umfram brýnustu þarfir gerir öllum jafnt undir höfði. Það má einnig, ef menn vilja, færa rök fyrir því að fólk með mjög há laun beri meiri ábyrgð á því ástandi sem þolum núna. Nú þarf að greiða til baka. Í eitt eða tvö ár. Hækkun á álögum jafnt yfir alla mun setja þann hóp á hausinn sem rétt gæti skrimt núna (og sá hópur er stór), en með því að búa til viðmið sem talið er næga til brýnustu þarfa (kannski 500 þúsund) og skattleggja sem það sem er sannarlega ofrausn, setur engan á hausinn.

Þar fyrir utan eru engin haldbær rök fyrir því af hverju læknar eða bankastjórar eigi að hafa hærri laun en t.d. þroskaþjálfar eða götusóparar. Séu þau rök til má spyrja hvort þau gildi í hvaða ástandi sem er?

Nafnlaus sagði...

Arnþór.

Ég sé sensið í tillögum þínum. Ég leyfi mér þó að halda minni skoðun. Ég reyni að rökstyðja hana aðeins meira núna, þó ekki til að angra þig.

Varnaglinn fyrir skattsvikum í yfirborðskenndum reikningum mínum er sú að þegar maður þénar meira, skilar bróðurpartur aukinna tekna sér í vasann. Þá sér fólk ástæðu til að leggja meira á sig, til að reyna að bera meira úr býtum. Skattsvik er eitthvað sem samfélag losnar aldrei við, en samfélag verður að velja þá leið sem er líklegust til að lágmarka líkur skattsvika.

Sú skýring á því að sumir hafa hærri laun en hinir tengist hvatningu, þeirri von að fá hæfasta fólkið til starfa í hverjum geira fyrir sig (gamla sagan um framboð og eftirspurn).

Af hverju ætti læknir að fara í 6 ára nám og svo 2-5 ára sérnám (sem er mjög dýr pakki), til að þéna það sama og götusópari ???? Þarna kemur haldbæra skýringin (í mínum augum a.m.k.). Ég er ekki að setja út á götusóparastéttina, ég er að benda á að menn hafa gulrót fyrir framan sig þegar þeir fara í nám og klífa metorðastigann. Þetta rak mig a.m.k. áfram í 6 ára háskólanámi....

Aftur tek ég þó fram að þetta er aðeins mín skoðun og ég áskil mér rétt á að halda henni.

Öddi

Arnþór sagði...

Öddi!

Það er aðeins ein leið til að afnema skattsvik. Það er að afnema alla tekjuskatta og taka upp neyslu- og umhverfisskatta. Skatttekjur ríkisins myndu þá vaxa og greiðsla væri ævinlega í réttu hlutfalli við greiðslugetu. Það þýðir að efnameiri borga meira en hinir minna. Í núverandi kerfi er þetta ein alsherjar öfugmælavísa.

Varðandi hvatningu til náms þá er sú röksemd alveg ógild og auk þess með öllu ósönnað að námsfólk sjái í hillinum fúlgur fár og kjósi því nám frekar en að hætta í skóla. Það er ekkert sem bendir til þess að fólk hætti að mennta sig í einhvers konar réttu eða öfugu hlutfalli við launajöfnuð og réttlæti. Þvert á móti bendir allt til þess að þjóðfélög hafi því hærra menntunarstig sem jöfnuður er meiri. Kreppan sem við upplifum núna er vegna ójafnvægis og ójöfnuðar.