laugardagur, 11. október 2008

Afvegaleitt siðferði

Hér áður fyrr smöluðu stjórnvöld saman bændum og búaliði og sendu þá í hernað til þess eins að stækka þau svæði sem þeir gætu skattlagt. Stjórnvöld skiptu engu hversu margir féllu, einungis að markmiðum þeirra væri náð. Flest lönd utan BNA hafa lagt af þetta hátterni sem þáverandi forsætisráðherra lýsti velþóknun sinni á fyrir okkar hönd.

Það er markaðshyggjan sem hefur komið í staðinn. Siðferði markaðshyggjunnar boðar að allt sé heimilt svo framarlega að það leiði til hagnaðar. Þeir sem voru stjórnvöldum frjálshyggjunnar þóknanlegir fengu að kaupa eignir almennings. Þessi hin sömu stjórnvöld ráðskast þessa dagana með lífeyrissjóði almennings eins og hann sé þeirra eign. Þeir nýttir til þess að lágmarka tap stjórnvalda og fyrirtækja. Spilað er með ráðdeild launamanna sem lagt hafa fyrir 12 – 15% af launum sínum til þess að geta varið síðustu æviárunum í áhyggjuleysi.

Eins og áður er það almenningur sem liggur í valnum og mörg heimili í rúst. Það blasir við að vöruverð mun hækka vegna stöðu krónunnar og skattar verði hækkaðir umtalsvert á komandi árum til þess að greiða upp þær skuldir sem ríkissjóður verður að steypa sér í til þess að græða upp sviðna slóð frjálshyggjumanna og stjórnmálamanna þeirra. Ekki hefur borið á ætlan stjórnvalda til þess að afnema sértækan eftirlaunasjóð sinn og heldur ekki ríkissábyrgð af þeirra eigin lífeyrissjóð.

Þessi sömu stjórnvöld hafa hafnað ábendingum um að krónan standist ekki og við þyrftum að tryggja okkur betur í samfélagi þjóða. Þessu höfnuðu stjórnvöld sakir þess að þau sáu fram á að völd þeirra myndu takmarkast. Sama er núna upp á teningnum í afstöðu þeirra til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Tap íslenks almennings er af þessum sökum margfalt meiri en gerist í nágrannalöndum okkar. Nú leita íslensk stjórnvöld á náðir þessa samfélags sem þeir hafa úthúðað og eru svo fáránlega blindir að vera hissa á því að þeim sé ekki tekið með opnum örmum.

Nú eru þau fyrirtæki sem almenningur átti áður komnar aftur í hendur ríkissjóðs. Og þingmenn frjálshyggjunnar eru strax farnir að boða endursölu þeirra. Þessi fyrirtæki eru eign almennings. Hann hefur lagt út fyrir þeim með þeim fjármunum sem stjórnvöld eru að hirða úr almennu lífeyrissjóðunum.

Það er sannarlega kominn tími til þess að íslendingar taki sig til og losi sig við þá stjórnmálamenn sem við höfum haft og búi til alvöruþjóðfélag. Við þurfum að losna við þau síldarævintýrissjónarmið sem marka gerviveröld stjórnmálamanna. Losna við það siðferði sem markað hefur ráðandi stjórnmálamenn okkar daga, sem snýst um það eitt að selja og græða. Losna við þá stjórnmálamenn sem hafa nýtt hvert tækifæri til þess að úthúða samtökum launamanna og það sem þau hafa staðið fyrir.

Þessa dagana eru þessir hinir sömu stjórnmálamenn að nýta það sem samtök launamanna hafa byggt upp til þess að bjarga sér úr þeirri glötun sem þeirra eigin stefna hefur kallað yfir okkur.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála þér, Guðmundur, eins og svo oft áður. Það vekur athygli, að IMF skuli koma hér og byrja á að setja það skilyrði, að samið verði við Breta og Hollendinga áður en þeir komi til skjalanna. Þarna eru þeir að segja, þegar búið er að skafa diplomatiska kjaftæðið utan af, að samið verði á forsendum þessara landa, en okkar ekki. Niðurstaðan er sumsé ákveðin fyrirfram. Þegar IMF tekur yfir, munu þeir taka yfir fjárlagagerð og yfirstjórn hagsýslu með einum eða öðrum hætti. Þeir munu EKKI fallast á að ríkið "tryggi" innstæður almennings og lífeyrissjóðina. Þeir munu krefjast þess að þau verðmæti, sem hægt er að gera úr þessum þáttum, verði tekin upp í "skuld" þjóðarinnar við nágrannaþjóðirnar, en skatttekjur ríkisins nýttar til að greiða á sem skemmstum tíma það, sem upp á kann að vanta. IMF hefur ALSTAÐAR sett það að skilyrði, að nánast öll þjónusta á vegum ríkis viðkomandi lands, verði einkavædd og velferðarkerfi skorin niður við trog. Allt úr hugmyndasmiðju Miltons Friedmans, og nú verður HHG líklega glaður. Enn og aftur fá íslensku fjárglæframennirnir þau litlu verðmæti, sem alþýðan hefur skrapað saman gefins, til fullnægja fjárhættuspilafíkn sinni. Er ekki kominn tími á blóðuga byltingu?

Nafnlaus sagði...

Hvað er það á milli Daviðs og áhngenda, ég er að reyna að skilja hvað gengur á í huga þessa fólks núna.Það er alveg innistæðulaust bull sem frá honum kemur.Kannski skil ég það einhverntíma, hann skiptir svo sem engu þegar hann fer úr seðlabankanu.Ef það þarf þá ekki bara blóbað til að koma honum frá eða þetta verður eins og nýja Rússland þar sem mafían fær hlut af skattpeningum fólksins,þar tíðkast ekki lengur að mafían handrukki nú er allt borgað í gegnum skattinn.

Nafnlaus sagði...

Tek undir hvert orð, Guðmundur.

Nafnlaus sagði...

Alvarlegasta málið af þessu öllu saman finnst mér vera þessir innlánsreikningar sem íslenskur banki stofnaði og rak hjá milljóna þjóðum á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda. Það var sópað sama stórfé ,lífeyrisparnaði fólks sem fjármunum frá ýmsum félagsmálaaðilum og sveitafélögum t.d í Bretlandi og síðan veit enginn hvar þetta fé er niður komið. Það virðist enginn hér á landi hafa gefið til þessa leyfis né nokkurt eftirlit haft með málum. Málið uppgötvast bara í hruni bankanna. Síðan eru orð látin falla á viðkvæmu augnabliki og vandinn fer í æðraveldi --- Hvernig hefðum við brugðist við ef þetta hefði gerst hér á landi og af t.d Bretum...

Nafnlaus sagði...

Mæl þú manna heilastur Guðmundur. Sjálfstæðisflokkurinn er eins og íllkynja æxli á þjóðinni og það þarf að skera það burt og það strax. Hvers vegna setur Geir ekki Davíð af, er hann hræddur við klofning í flokknum. Þessir delar setja hagsmuni flokksins hærra en þjóðarinnar og mín vegna má kalla þá hryðjuverkamenn.