föstudagur, 24. október 2008

Óhemjan tamin

Það hefur verið áberandi hversu mikið leiðandi stjórnmálamenn og eins leiðandi embættismenn vara við því að leitað verði að sökudólgum. Það er eins og þeir séu hræddir við eitthvað.

Hvers vegna virðist ekki standa til að leita uppi þær eignir sem hinir 30 spákaupmenn og yfirmenn bankanna hafa rakað til sín á undanförnum árum með allskonar brellum og launað svo sjálfa sig með aukabónusum hafi þær heppnast. Þessar brellur eru nú hver á fætur annarri að falla, en það virðist ekki standa til að þeir endurgreiði bónusana.

Það verður engin sátt í þjóðfélaginu nema gripið verði til aðgerða um að ná til eigna þeirra manna sem hafa dregið sér margföld árslaun venjulegs fólks. Þær á að nýta til þess að greiða þær skuldir sem þessir hinir sömu eru að koma yfir á íslenskan almenning. Það blasir einnig við okkur aðgerðleysi og meðvituð þátttaka þeirra stjórnmálamanna sem hafa verið við völd og skópu aðstöðu með því að opna lög og reglugerðir og til að ástunda þessi viðskipti.

Margir spyrja hvers vegna stjórnmálaflokkarnir þá sérstaklega einn, sem hefur verið við stjórnvölinn á efnahagslífinu um árabil, eru svona tregir til þess að upplýsa um fjárhagsleg tengsl flokkanna við þessa auðmenn. Því er haldið fram að sumir stjórnmálamenn og æðstu embættismenn hafi hagnast umtalsvert á þessu brambolti auðmannanna. Þetta þarf að draga fram í dagljósið

Forsætisráherra hefur margendurtekið að hann ætli sér að halda áfram á sömu braut. Við getum þar af leiðandi átt von á að auðmennirnir birtist með hina földu peningana og kaupa eignir almennings á slikk og endurtaki leikinn.

Einnig má minna að það kom margoft fram hversu mikinn hag auðmennirnir höfðu af því að við værum með krónuna. Þeir nýttu sjóðina, sem þeir fengu að láni í bönkunum, til þess að taka stöðu gegn krónunni og högnuðust um milljarða á því, á meðan blæddi almenning vegna hækkandi vaxta og verðlags. Hvers vegna var aldrei gerð könnun á þessum leik? Er það runnið undan sömu rifjum og hræðslan við nornaveiðarnar?

Almenningur krefst þess að nú þegar verði menn dregnir til ábyrgðar, það gæti einmitt slegið á það að reiðin magnist og verði að skrímsli sem engin hafi stjórn á.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er ekki alveg komið að því að verkalýðshreyfingin sameinist með þjóðinni og efni til aðgerða sem duga ? Því fyrr því betra.

Nafnlaus sagði...

Er nóg að rannsaka fjármagnsfíklana ?
Er ekki vanhæfni innan ríkisstjórnarinnar, seðlabanka og FME glæpsamleg líka ?
Er þessum fulltrúum okkar, sem steinsváfu þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir, treystandi til að leiða okkur inn í Nýja Ísland ?
Neisti

Nafnlaus sagði...

Guðmundur !

Það er margt að rannsaka og margir sem þarf að rannsaka !
Allir alþingismenn frá 1991 eru þar líka undir, eða frá því ,,leikkerfið" var búið til fyrir útvalda !
Lífeyrissjóðir okkar landsmanna hafa verið stórir fjárfestar. Það þarf líka skoða aðkomu lífeyrissjóðanna að þessu ,,sukki" !

Nafnlaus sagði...

það þarf að skoða alla sem að málum koma. Það er alveg ljóst að sumir leikmenn eru stærri en aðrir í þessarri fléttu.

Lífeyrissjóðir, bankar, glaumgosar, verkalýðshreyfing, stjórnvöld, FME, seðlabanki og jafnvel forseti vor hafa komið að máli.....

kannski eru sumir saklausari en aðrir, en það er engin spurning að það þarf að rannsaka ALLT.
það mun taka óratíma, og því ekki að byrja strax ?
öddi

Nafnlaus sagði...

Já það þarf að ranska tengsl lífeyrissjóðana og verðbréfaguttana, þau eru mun meir enn menn hafa gefið í skyn. Og svo tengsl bankana og stjórnmálaflokkana og ekki má gleyma þingmönnum. Það verða allir að fá vottorð um sekt eða sakleysi. Ég hef ekkert heyrt um að ASÍ hafi ályktað um rannsókn á lífeyrissjóðum okkar, hversvegna er það? eru stjórnamenn sjóðana eitthvað að fela? Hvað segir þú um það Guðmundur? Þú ert bæði í stjórn sjóðs og á ASÍ fundi? Við þurfum svör við þessu öllu. Kveðja Simmi