sunnudagur, 19. október 2008

Hvað er í gangi?

Einkennilegur dagur. Jón Baldvin segir í Silfrinu að annað hvort tækjum við upp viðræður við alþjóða gjaldeyrissjóðinn, sem muni leiða til inngöngu í ESB eða það verði stjórnarslit. Nú sé barist við einn mann, Davíð.

Ráðherrar Samfylkingar sögðu á flokksráðsfundi að eina leiðin úr vandanum sé að Ísland fái heilbrigðisvottorð frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Þá muni seðlabankar ESB koma okkur til aðstoðar með leiðir til þess að koma efnahagslífinu í gang. Ekki var hægt að skilja Björn öðruvísi en svo í Mannamáli að hann væri þessu sammála. Ráðherrarnir Árni og Þorgerður snéru af sér fréttamenn og vildu ekki svara spurningum. Fram hafa komið ummæli Þorgerðar, þar sem ekki þarf mikinn vilja til að skilja á þann veg að hún sé í meginatriðum sammála viðhorfum Samfylkingarráðherranna.

En Geir kom í kvöldfréttirnar og sagði þvert á meðráðherra sína, að ekki standi yfir viðræður við IMF og ekkert í þá veru sé í burðarliðnum. Er það rétt hjá Jóni Baldvin að einn maður, sem ekki sé í ríkisstjórn, komist upp með að viðhalda þessu ástandi?

Davíð þjóðnýtti Glitni, það kallaði yfir okkur frjálst fall á lánshæfi þjóðarinnar og krónunni og hinir bankarnir féllu. Til að bjarga því lýsti Davíð því yfir að við værum að frá stórlán frá Rússum, en þeir könnuðust ekki við það. Ráðherrar okkar fóru í fjölmiðla með hinar og þessar yfirlýsingar og engin skildi hvert þeir voru að fara.

Davíð kom í Kastljósið og sagðist vera alsaklaus. Allir aðrir hefðu gengið annan veg en þann sem hann hefði kosið og kallaði þá sem dönsuðu hvað harðast eftir pípum markaðsins óreiðumenn og sagðist ekki myndi greiða erlendar skuldir þeirra. Vitanlega varð allt vitlaust. Fyrirliggja ræður hans á undanförnum árum, þar sem hann lýsir því hvernig markaðurinn leysti sjálfvirkt öll mál og efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins hefur einkennst af afskipta- og aðgerðaleysi. Hann sleppi bönkunum lausum og fagnaði velgengni þeirra. Frjálshyggjan byggir á því að engar reglur séu til. Þar skiptir hið mannlega engu. Þessu höfum við íslendingar heldur betur fengið að kynnast.

Fulltrúar Íslands hafa sýnt nágrannalöndum okkar mikinn hroka á undanförnum árum og aðgerðir þeirra í markaðsmálum lýst miklu vanhæfi, enda nýjir í þessari starfsemi. Fram hafa komið upplýsingar um að Landsbankinn hafi ástundað þá vafasömu iðju að auglýsa eftir innlánum í nágrannalöndum okkar með hærri ávöxtun en aðrir. Tilgangurinn hafi í raun verið að draga til sín fjármuni og flutt þá úr landi til Íslands til þess að geta haldið áfram pókerspilinu. Bankastjórinn var í drottningarviðtali og sagðist vera alsaklaus, eins er aðalinntak Moggans í dag og sama gildi um aðra í fjármálalífinu.

Ríkisstjórn landsins kristallast í Ólafi á Dagvaktinni. Almenningur krefst skýringa, eins og reyndar seðlabankar nágrannalanda okkar. Vitanlega liggur fyrir að ekkert verði gert til þess að hleypa okkur inn í alþjóðlegt efnahagslíf fyrr en við tökum til heima hjá okkur og fáum alvörufólk til þess að stjórna íslensku efnahagslífi.

Þetta er allt almenning að kenna, segja stjórnarþingmenn með Pétur Blöndal í broddi fylkingar. Almenningur keypti sér íbúðir, bíla og flatskjái um efni fram. Ekki nema von að allt efnahagslíf þjóðarinnar fari á hvolf og við séum orðnir óvinir flestra Evrópulanda og eigum bara eina von, Rússa. Við munum nýtum okkur þá þekkingu sem við öðluðumst í þorskastríðinu til þess að leggja seðlabanka Evrópa að velli, segja stjórnarþingmenn.

Ég var í boði í dag þar sem ég hitti nokkurn hóp ungs fólks. Allt háskólamenntað og vann í hönnun, nýsprota rafeindaiðnaði og við uppbyggingu í orkuiðnaði. Fjölskyldufólk nýlega komið heim, skuldum vafið. Allt menntað á norðurlöndunum og þekki þjóðfélögin þar vel. Öllu bar því saman um að næstu mánaðarmót verði brotpuntur. Á vinnustöðum þeirra væri búið tilkynna fjöldauppsagnir verði ekki snúið af þessari óheillabraut. Engin skyldi hvað væri í gangi, upplýsingar ráðherra væru svo ófullnægjandi og ruglingslegar.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er allt að verða að hreinum þjóðarharmleik. Hvað hefur Davíð á alla sína samstarfsmenn í Flokknum. Hefur hann leikið sama leik og Hoover gerði á sínum tíma. Lét njósna um alla og mynda viðkvæmar athafnir þeirra. Af hverju bakkaði KJARTAN út úr öllu saman á eins klaufalegan hátt og hægt er að hugsa sér?
Hvað er eiginlega í gangi. Þaf ekki að kalla á þá í hvítu sloppunum og senda þá upp í Svörtuloft?

??????? sagði...

Það virðist sem mjög margir álíti að Davíð sé sökudólgurinn að bankahruninu hér á landi. Í framhaldi af því spyr ég, er það lögreglunni að kenna að fólk gangi um ruplandi og rænandi? Ég hélt ekki. Ég veit ekki betur en að þetta nýríka lið hafi skuldsett okkur upp fyrir haus og allir eru tilbúnir að fyrirgefa þeim þeas. ef Davíð verði hengdur. Sem betur fer er búið að banna galdrabrennur á Íslandi því annars væri búið að brenna Davíð margoft og það án dóms og laga. Kæru samlandar horfum á heildarmyndina og krefjumst þessa að þeir aðilar sem hafa blóðmjólkað bankana td. eins og Bjarni Ármannsson (sem enginn hefur nefnt til sögunnar í þessu máli) ofl. skili góssinu. Þeir væru menn af meiri. Mín tillaga er sú að ef þessir aðilar skili ekki sem þeir tóku sér að þá verði þeir sviptir íslenskum ríkisborgararétti þannig að þeir verði óvelkomnir hingað til lands um aldur og ævi.

Nafnlaus sagði...

Það eru margir sökudólgar í þessari kreppu sem við stöndum frami fyrir núna. Útrásarvíkingar og allt það dót en afhverju fór þetta á stað? Vegna þess að það var opnað fyrir þetta og hverjir gerðu það? Þeir aðilar sem hafa margtuggið það ofan í okkur að markaðurinn sjái um sig sjálfur og leysi öll vandamál bara svona af sjálfu sér. Hver var potturinn og pannan í þessum áróðri? Davíð Oddson ef einhver skyldi vera búin að gleyma því. Valdamesti maður síðustu þrjátíu ára í íslensku þjóðfélagi. Hvar í veröldinni gæti það gerst nema á Íslandi að maður sem hefur verið forystumaður í valdaflokknum í áratugi boðar til blaðamannafundar og tilkynnir þjóðinni það að hann hafi ákveðið að hætta í pólitík en þess í stað ákveðið að verða seðlabankastjóri, bara si svona. Hefur hann þekkingu á peninga stjórnun, hagfræði, viðskiptum, samræmdri hagstjórn?? nei auðvitað ekki hann er lögfræðingur en aldrei starfað sem slíkur. Það er hægt að halda svona áfram endalaust um vanhæfi þessa manns en auðvitað er hann ekki einn sekur. Það er verkefni okkar Íslendinga núna á nástu mánuðum að ræða gildismat okkar og endurmeta það en fyrst burt með Davíð

Unknown sagði...

Seðlabankastjórinn er hluti af vandamálinu og er helsti þröskuldurinn fyrir lausn þess. Hann verður að víkja nú þegar. Þess vegna var krafan á Austurvelli síðasta laugardag að hann viki. Það verður gert upp við útrásargaurana seinna og á lagalegum vetvangi, það er frekar vafasamt að gera það með öðrum hætti. Því næst gerum upp við þingheim vonandi fljótlega í kosningum. Þangað til þarf að trygga að rannsókn á orsökum og sakhæfi í öllu þessu máli sé ekki pólitískt stjórnað sem mér sýnist því miður að sé í uppsiglingu.

Oddur Ólafsson sagði...

Óstjórn Geirs H Haarde hlýtur að vera fallin.

Ef ekki þá segi ég.
Please Geir, hættu.

Nafnlaus sagði...

Við skulum ekki gleyma því að að við segjumst ver vel mentuð og upplýst þjóð, og við kusum þessa menn. Sumir hafa kosið þá aftur og aftur. Þannig að við höfum alltaf vitað hvað við vorum að gera. Þannig að við getum ekki bara kennt bankamönnum, Davíð og þingmönnum um stöðu okkar við sjálf eigum hlut að máli. Þannig er lýðræðið. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

"Það virðist sem mjög margir álíti að Davíð sé sökudólgurinn að bankahruninu hér á landi. Í framhaldi af því spyr ég, er það lögreglunni að kenna að fólk gangi um ruplandi og rænandi?"

Er þetta ekki svona nokkuð nærri því sem hefur gerst ?
Eftirlitið , aðhaldið og stjórnvöld sinntu ekki sínum lögbundnu ábyrgðum- slepptu öllu lausu í bankakerfinu - sem hefur núna endað í gjaldþroti. Og við, almenningur höfum dansað með kringum "gullkálfinn"

Nafnlaus sagði...

Forysta Alþýðusambands Íslands hefur horft þegjandi upp á bankastjórn Seðlabankans rústa efnahag almennings.

Hvernig væri að rísa undir nafni sem forysta? Að minnsta kosti gæti Alþýðusambandið gengið til liðs við fólk sem mótmælir á Austurvelli.

Standið ekki eins og þvörur. Takið á með okkur næstkomandi laugardag.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, ég endurtek... farðu í framboð.

Nafnlaus sagði...

Nei ekki fara í framboð. Þú ert alltof mikilvægur þar sem þú ert.