fimmtudagur, 16. október 2008

Nú er röðin komin að þeim

Eftir að hafa hlustað á umræður þingmanna undanfarna daga staðfestist trú mín að tilvist þeirra er tilgangslaus. Það eru ráðherrar og handvaldir embættismenn og aðstoðarmenn sem móta öll mál. Að þeirri vinnu koma þingmenn ekki, einu gildir hvort þeir séu stjórnarþingmenn eða í stjórnarandstöðu.

Þegar ráðherrar hafa svo komist að einhverri niðurstöðu þá er hún lögð fyrir þingmenn. Ef embættismenn eða aðstoðarmenn eru þeim ekki auðsveipir í mótun niðurstöðu eru þeir látnir fara. Síðan fara fram sýndarumræður í hæstvirtu Alþingi samansettar af klisjum og innistæðulausum fullyrðingum. Í sjálfu sér skiptir engu hvort einhver niðurstaða næst (sem reyndar gerist aldrei) eða lagðar eru fram breytingartillögur (þær eru alltaf felldar), stjórnarþingmenn þrýsta alltaf á „Já“ takkan í þinginu. "Umræðu lokið og áfram með sýndarveruleikann"; segir hæstvirtur þingforseti.

Þingmenn leggja stundum fram eigin frumvörp eða þingsályktunartillögur. Þær hafna í nefndum sem stjórnarþingmenn stýra. Ráðherrar ráða svo hvaða mál komast í umræðu nefnda og þaðan inn á þing.

Landsmenn og skattgreiðendur spurðu í fyrra ; Hvers vegna fengu þingmenn að setja kosningstjóra sína á launalista sem aðstoðarmenn? Fá stjórnmálaflokkarnir ekki fyllilega nægilega mikla styrki úr ríkissjóð? Af hverju erum við með 63 þingmenn og 34 aðstoðarmenn á glæsilegum launum þegar allt er skoðað. Kostnaðargreiðslur, þingfararkaup og svo ekki sé talað um lífeyrisréttindi.

Það er einfalt að fækka þingmönnum um helming. Við höfum ekki efni á því að halda þessu óbreyttu og halda uppi þessum óþarfa með skattpeningum okkar. Nú er verið að segja upp almennum launamönnum í þúsundavís um allt þjóðfélagið. Röðin er núna kominn að þingmönnum. Þeir eiga að axla sína ábyrgð.

Af hverju erum við með 3 seðlabankastjóra, á meðan aðrar þjóðir, sem eru að spjara sig mörgum sinnum betur en við, eru með einn. Af hverju eru íslenskir seðlabankastjórar með helmingi hærri laun en seðlabankastjórar annarra landa (þegar allt er talið)? Af hverju erum við með einhverja úrelta þingmenn í stjórn Seðlabankans ásamt einhverjum prófessor í sagnfræði sem allir gera grín að? Þessir menn fá góð meðalheildarmánaðarlaun almenns verkafólks á mánuði fyrir fundarsetu. Auk þess eru þeir að eftirlaunum og prófessorinn er að auki á fullum launum í Háskólanum. Þetta lið hefur sýnt fullkomið getuleysi og eru hafðir að spotti í öllum fjármálatímaritum heimsins.

Þingmenn hafa komið því þannig fyrir að ávinnsla í lífeyrisréttinda þeirra er mun hraðari en hjá öðrum landsmönnum. Þeir geta farið á lífeyri þegar þeir eru 55 ára. Við þurfum að vinna til 67 ára aldurs. 12 árum lengur. Mótframlag ríkissjóðs í lífeyrissjóð þingmanna til þess að standa undir þessum kostnaðarauka er 45% á meðan hann er einungis fjórðungur af því hjá almennum starfsmönnum. Lífeyrisréttindi þingmanna eru verðtryggð með framlögum úr ríkissjóð, á meðan við hin verðum að búa við skerðingu réttinda okkar vegna þess að lífeyrissjóðir okkar fá ekki bættan sinn skaða úr ríkissjóð og eru þar að undirstaðar þess að hægt sé að bjarga málunum.

Við hin erum þessa dagana að tapa umtalsverðum lífeyrisréttindum vegna þess að þingmenn sinntu ekki eftirlitsstörfum sínum. Röðin er núna kominn að því að þeir axli ábyrgð og lífeyrisréttindi þeirra verði sett í sama far og hjá almennum launamönnum.

Auk þess verður að afnema Eftirlaunafrumvarpið gjörspillta. En það veitir ráðherrum, seðlabankastjóra, forseta Íslands og æðstu embættis mönnum gríðarlega mikil sértæk réttindi sem kosta skattgreiðendur 600 millj. kr. Hér er um að ræða liðið sem hefur farið um heimsbyggðina með auðmönnunum og hrósað sér fyrir glæsilegan árangur í (ó)stjórn efnahagsmála Íslands. Röðin er núna kominn að því að þeir axli ábyrgð á aðgerðaleysi sínu og óábyrgum athöfnum. Allt í kringum þessa menn liggja í valnum gjaldþrota einstaklingar og heimili.

Með ofangreindum tillögum væri hægt að spara á þriðja milljarð. Ekki veitir af því þá þarf ekki að draga eins mikið saman þjónustu og ekki segja upp sjúkraliðum, kennurum og öðrum ríkisstarfsmönnum.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er einfalt mál.

Endurflytja á frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur frá fyrra þingi. Og samþykkja það:

"Markmiðið með flutningi frumvarpsins er að alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar njóti sömu lífeyriskjara og ríkisstarfsmenn, en búi ekki við sérstök forréttindi."

http://www.althingi.is/altext/135/s/0166.html

Látið nú til ykkar taka - þingmenn sem viljið jafnan rétt manna, jafnréttissinnar!

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Frábært Guðmundur! Alveg frábært! Þú hefur einstaka yfirsýn yfir þessi mál.
Nú þurfum við einmitt að losna við klisjurnar og bullið sem alltof lengi hefur tíðkast í íslenskum stjórnmálum. Í öllum flokkum.
Engin ástæða að fara út í flokkapólitík núna.
Takk.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, ef þú ferð í framboð þá kýs ég þig!

Ef þú tekur með þér Dr. Gunna og Ágúst Ólafsson skal ég ganga landið og miðin til að sannfæra menn um að kjósa ykkur.

Nafnlaus sagði...

Þettað mál kemur ekki flokkum við, allavega finnst mér það ekki. Enn ég hef lengi sagt að það mætti að skaðlausu fækk þeim í 33 og eftirlaunafrumvarpið á að sjálfsögðu að fella úr gildi. Enn þeir eru nú sammála með að gera ekkert í því og ekki heldur að fækka. Ef maður hefur neft það við þingmenn þá fær maður langatölu um hvað sé mikið að gerahjá þeim. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Ögmundur Jónasson hefur barist í ræðu og riti á móti þessu eftirlaunafrumvarpi og á heiður skilið fyrir það.

Ef við gerum ekki greinarmun á mönnum eftir frammistöðu, og segjum sífellt, þeir eru allir eins, þá erum við að segja ósatt.

Nú er tími til að segja satt og hrósa mönnum fyrir það sem vel er gert.

Nafnlaus sagði...

100 % sammála.

Nafnlaus sagði...

Ekki gleyma forsetanum og framboðinu til öryggisráðsins.
Þvílík meðferð á opinberu fé!

Nafnlaus sagði...

Halelúja! Góður pistill.

Nafnlaus sagði...

Frábært.

photo sagði...

Tek undir hvert orð í þessum pistli. Nú þarf bara nýjan samstilltan hóp af algjörlega nýju fólki þar sem þessar hugmyndir væru grunnurinn að nýrri stefnuskrá. Lög hópsins þyrftu síðan að vera þess eðlis að flokkadrættir, misnotkun á valdi og fjármagni væri nánast ómögulegt.

Öll vinna flokksmanna væri fyrir opnum tjöldum, þar sem kjósendur flokksins gætu fylgst nákvæmlega með í rauntíma þeirri vinnu sem verið væri að vinna og framkvæma á hverjum tíma (viðveru-, verk-, vinnu- og kostnaðarbókhald). Hér mætti nýta tölvutæknina og internetið eins og blokkheiminn til að stýra ákvarðanatöku varðandi framsetningu á nýjum reglum (á wikipedia formi). Skipaðir yrðu tillögu- umræðuhópar (forum bb3) og svo væri hægt að vera með lokað kosningakerfi í lokin (1 X 2).
Með þessu væri hægt að vera með opið og mjög skilvirkt kerfi þar sem allt væri á borðinu og sæist hvað hver væri að vinna. Þarna gæti t.d. almenningur hreinlega fengið að kjósa um hvernig það vildi að þeirra eigin greiddir skattar myndu skiptast á milli einstaka liði í ríkisútgjöldum. Barnafjölskyldur myndu þá leggja áherslur á leikskóla og skólamál ... á meðan eldra fólk leggur áherslu á heilbrigðismál, bændur og sjómenn áherslu á sín mál, auðvita allt innan ákveðins ramma og þannig mætti koma með nánast 100% lýðræðislega skiptingu á fjármagninu. Og þá þýddi ekkert að koma á eftir og segja að það var ekki rétt að gera hlutina svona eða hinsegin!
Svona kerfi mætti síðan þróa með ýmsum hætti þannig að kaup, sala, framkvæmdir á vegum ríkisins væri stjórnað af slíku kerfi. Jafnvel væri hægt að framkvæma dóma og leysa smærri mál með slíku kerfi. Möguleikarnir eru nánast endalausir.

Þetta myndi þýða að almenningur kæmi beint að öllum ákvarðanatökum í nánast flestum málum og er þá ekki við neinn að sakast eftir á og með þessu móti væri hægt að eyða nánast milliliðum (þingmönnum) og spara samfélaginu háar upphæðir.

Þetta var bara smá hugmynd :)