föstudagur, 31. október 2008

Ótengdur forsætisráðherra

Alltaf er Geir eins og út á þekju. Hann er að láta hratt vaxandi atvinnuleysi koma sér á óvart. Samtök launamanna eru búin að hamra á því allt frá því vor að ríkisstjórnin verði að grípa til mannaflsfrekra aðgerða þegar líði á haustið. Gert var grín af þessu af stuttbuxnaliðinu í Sjálfstæðisflokknum með margskonar útúrsnúning og fleira og Geir neitaði að halda samráðsfundi eins svo margoft hefur komið fram í fréttum.

Nýjustu tölur varðandi atvinnuleysið eru uggvekjandi, segir Geir H. Haarde forsætisráðherra í morgun mjög undrandi á stöðunni og ætlar að taka atvinnumálin til umræðu á ríkisstjórnarfundi og telur mjög mikilvægt að atvinnureksturinn í landinu geti gengið svo fólk geti haldið störfum sínum.

Bíddu aðeins; hver var það sem sló stórum verkefnum út af borðinu um daginn. Er nema von að allt gangi hér á afturfótunum með svona fólk við völd?

Undanfarna daga er búið að segja upp 10% þeirra rafiðnaðarmanna sem vinna á almenna markaðnum, þetta er til viðbótar þeim sem hafa horfið af landi brott og hins mikla fjölda sem fór inn í verknáms- og háskólana í haust. Það hefur orðið um það bil 25% fækkun á störfum innan rafiðnaðargeirans á almennum markaði í haust.

Þessi til viðbótar eru fyrirtækin markvist að keyra niður laun í landinu um 10%, auk þess að fella niður yfirvinnu.



Það er að bresta á fjöldaflótti úr landinu :

Hér er auglýsing sem okkur barst áðan
Námskeið um flutning til Norðurlandanna
Norræna félagið vekur athygli á námskeiðum ætluðum fólki sem hyggur á flutning til Norðurlandanna. Um er að ræða tvö stutt námskeið þar sem farið verður yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga við flutning, til að mynda varðandi skráningu, atvinnu og húsnæði auk þess sem þátttakendum gefst færi á að bera fram spurningar. Þjónusta Halló Norðurlanda og heimasíða verður einnig kynnt.

Þriðjudaginn 4. nóvember kl. 19:30 – Flutningur til Noregs og Svíþjóðar
Þriðjudaginn 18. nóvember – Flutningur til Danmerkur

Námskeiðin eru ókeypis og öllum opin og henta þeim sem hyggja á atvinnu í þessum löndum, halda þangað til náms eða annarra erindagjörða.. Hafa ber í huga að nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðin en nánari upplýsingar um skráningu fást hjá Ölmu Sigurðardóttur á skrifstofu

Norræna félagsins og á http://www.norden.is/.

Heimasíða: http://www.hallonorden.org/

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég ætla að biðja um námskeið norður á Akureyri.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.

Ég er með tillögu að titli bloggsins.
Staurblindur er sá er þykist sjá annað en það sem ER.