Í dag kl. 15.00 var haldin útifundur á Austuvelli. Ræðumenn voru undirritaður ásamt Einari Má Guðmundssyni. Einar fór á kostum eins og honum er einum lagið og dró upp hverja myndina á fætur annari um afkárleg og grátleg vinnubrögð ríkisstjórna Ísland og þær hörmungar sem þær hafa leitt yfir íslenskan almenning.
Töluverður fólksfjöldi var á fundinum og mikill samhugur í fólki. En í kjölfar hans var boðuð önnur uppákoma þar sem átti að fara í blysför. Virtist vera að þetta ylli miskilning. Það er vatn á myllu ríkisstjórnar og ekki síður Moggamanna sem hafa dregið upp háðskar myndir af þessum fundum í aðferðum sínum við að hreinsa eigendur sína og ekki síður ríkisstjórnarflokkinn sem hefur mótað efnahagsstefnuna á undaförnum árum . Í Mogganum var því haldið fram að einungis hefðu verið um 500 manns á fundinum fyrir viku, en þar voru á þriðja þúsund manns.
Læt hér fylgja ræðu mína :
Ráðamenn þjóðarinnar hafa undanfarið hamrað á því að almenningur eigi ekki að eyða tíma í leit af sökudólgum. Hvers vegna leggja þeir svona mikla áherslu á þetta? Óttast þeir að almenning verði þá betur ljóst hvað hafi í raun orðið til þess að við komum mun verr út í hinu mikla efnahagsóverðri en önnur lönd?
Er þeim um megn að horfast í augu við það fólk sem er að missa heimili sín og allan sparnað? Eða þá sem standa núna uppi atvinnulausir? Ráðherrarnir mæta í hvern fréttaþáttinn á fætur öðrum þar sem þeir víkja sér undan að svara spurningum um ástandið og hvað standi til að gera til úrbóta.
Aftur og aftur hafa þeir verið staðnir af því að hafa látið okkur fá rangar upplýsingar, eða þá að þær hafa verið misvísandi og stangast á við það sem þeir sögðu okkur í gær. Undanfarin ár hafa margir innlendir og erlendir hagfræðingar bent á að íslenska hagkerfið gæti ekki haldið áfram á þeirri efnahagsbraut sem ríkisstjórnir undanfarinna ára hafi markað, það gæti ekki leitt til annars er ófarnaðar. Ítrekað var bent á að hagsældin sem ráðherrar okkar stærðu sig svo af, væri í raun byggð á sandi og við blasti harkaleg lending.
Ráðamenn svöruðu með því að þar færu úrtölu- og öfundarmenn. Í stað þess að endurskoða stefnuna og koma stjórn á hið ofsafengnu græðgi sem var á útrásarvíkingunum, var hrunadansinn efldur með því að lækka skatta á þeim hæst launuðu. Jafnframt fóru ráðamenn um heiminn með auðmönnunum og böðuðu sig í skyni alnægtarsólarinnar. Ekki var lagt í varasjóði eins og hagfræðingar lögðu til, en fjármunum sóað á báða bóga.
Til þess að ná í enn meira fjármagn til þess að spila úr voru opnaðir innlagnadeildir í nágrannalöndum okkar og boðið upp á hærri vexti til þess að fá almenning þeirra landa til þess að leggja fram sparnað sinn. Hér heima var almenningur hvattur til þess að flytja alla sína peninga af tryggum bankabókum og setja á eignastýringareikninga.
Lagt var að launamönnum að ganga úr stéttarfélögunum og láta iðgjöld sjúkrasjóða og séreignasjóða renna inn á eignastýringareikningana. Boðið var upp á hærri vexti og hagkvæmari lán. „Byrjaðu að græða og taktu yfirdráttarlán hjá okkur á 24% vöxtum“.
Svikamyllan snérist sífellt hraðar. Auðmennirnir lánuðu sjálfum sér peningana og inneignir erlendu reikningana voru fluttir hingað heim svo þeir hefðu úr enn meiru að spila. Öflug og velrekin fyrirtæki lentu í klónum á spilafíklunum. Þau voru síðan bútuð niður og búin til ný. Sjóðir fyrirtækjanna tæmdir, eignir þeirra veðsettar og öll verðmæti flutt á spilaborðið.
Brosin breikkuðu á íslenskum ráðamönnum. Davíð hrópaði ferfallt húrra og íslenskir ráðherrar og forsetinn fluttu lofræður um hina snjöllu fjármálaspekinga, sem við hefðum verið svo lánsöm að eignast. Lög og reglur eru eitur í beinum frjálshyggjunnar og ríkisstjórnir Íslands afnámu lög og rýmkuðu heimildir svo dansgólfið yrði enn stærra. Þrátt fyrir aðvaranir þekktra hagfræðinga var hver hæðin á fætur annarri var byggð ofaná spilaborgina.
„Hvers vegna búum við við hærri verðbólgu, hærri vexti og hærra verðlag hér á landi“ spurði almenningur. „Ekki spyrja okkur óþægilegra spurninga“, voru svör ráðherranna. „Þið leggið okkur í eintelti“, voru úrill viðbrögð forsætisráðherra.
Svo kom mótvindur og öll spilaborgin hrundi í fyrstu vindhviðu. Nú er komið fram að ráðherrar vinaþjóða okkar hafa varað íslenska ráðherra við um alllangt skeið. Hingað hafa komið erlendir sérfræðingar skrifað skýrslur og bent ráðherrum á að það stefndi í óefni, en þeim var stungið í skúffur. Gætu skapað neikvæða umræðu. En ekkert var gert, og hraðinn aukinn ennfrekar og haldið áfram á sömu braut. Settur enn meiri kraftur í að fá almenning til þess að færa fjármuni sína inn í bankana og áróður aukinn í Englandi og Hollandi.
Seðlabankar norðurlandanna lýstu sig tilbúna til þess að koma okkur til hjálpar en það yrði ekki gert nema að tekið væri til á Íslandi. En íslenskir ráðherrar þráuðust við. Svo fór að öll vinaríki okkar tóku sig saman og sögðust ekki lána okkur krónu nema í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
„En þá verðum við að taka á móti ráðleggingum og ganga að kröfum um að taka til hjá okkur“ svöruðu íslensku ráðherrarnir óttaslegnir.
„Það er einmitt lóðið“ sögðu norrænu ráðherrarnir, „Við treystum ykkur ekki til þess að gera það sjálfviljugir.“
Þannig er staðan búin að vera undanfarnar vikur. Þar kom að því að ráðherrar okkar urðu að láta undan. Í valnum liggja gjaldþrota heimili og atvinnulaust fólk. Milljarðar af sparifé landsmanna er gufað upp. Sama er upp á tengingnum í lífeyrissjóðunum þar hafa glatast hundruð milljarða af inneignum lífeyrisþega. Allt vegna þess að íslenskir ráðherrar vildu ekki hlusta á aðvaranir.
Þeim var um megn sakir þess að þá hefðu þeir orðið að viðurkenna fyrri mistök og hætta á að einn stjórnmálaflokkur myndi klofna. Það stóð ofar hagsmunun almennings. Ráðamenn mæta í hvert viðtalið á fætur öðru og láta eins og þeir hafi ekkert vitað um stöðuna. Þetta er einhverjum út í heimi að kenna. Staðreyndirnar flæða upp á borðið hver á fætur annarri. Sífellt dökknar myndin.
Ráherrarnir hlaupa nú með veggjum og reyna að telja okkur í trú um að nú sé ekki tími til þess að leita uppi sökudólga. Í gærkvöldi boðaði forstætisráðherra óbreytta stefnu og neitar að taka til á stjórnarheimilinu og í Seðlabankanum. Honum var svarað í dag af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að þá fengjum við ekki frekari aðstoð. Íslensk ríkisstjórn hefur rúið okkur öllu trausti. Íslensk þjóð fær einungis lán í skömmtum eftir að hafa uppfyllt skilyrði hvers áfanga í betrunarbótinni.
Við almenning blasir sviðin jörð. Sterk og öflug fyrirtæki riða nú til falls, varasjóðir eru horfnir. Íslensk þjóð er orðin sú skuldsettasta í heimi. Fjármálasnillingar sem ríkisstjórnin hefur hampað svo mikið skilja ekki eftir eitt einasta nýtt fyrirtæki. Í stað þess blasa við gjaldþrota bankar og íslenskt atvinnulíf riðar til falls. Atvinnuleysi vex og við blasa dökkir tímar.
Við hljótum að krefjast þess að þeir ráðherrar sem hafa verið svo virkir þátttakendur í hrunadansinum víki. Sama gildir um Seðlabankastjórana og stjórn bankans. Traust verður ekki byggt upp án þess að þeir víkji, hvorki inná við eða útá við. Ráðherrar geta ekki ætlast til þess að við látum meir af mörkum fyrr en eftir að sú endurnýjun hefur átt sér stað.
17 ummæli:
Takk fyrir frábæra ræðu á fundinum í dag og ekki síður fyrir bloggið þitt sem ég les af áfergju. Það er með fullkomnum ólíkindum hvernig allir firra sig ábyrgð og virðast ætla að komast upp með. Það má ekki gerast. Takk fyrir að standa vaktina. Baráttukveðjur, Lilja
takk fyrir kærlega , gott að vita að sumir íslendingar eru til í að standa upp , takk fyrir!
skil ekki þetta rugl, að vera með tvo fundi.... hér vantar bæði stefnu og skipulag.
Frábær ræða og blogg! Þetta með hræðslu við klofning er svo alvarlegt og svo rétt að ég fyllist ótrúlegri reiði þegar ég hugsa út í þetta. Efnahagnum var fórnað fyrir Flokkinn, og þeir þora ekki einusinni að takast á við afleiðingar gjörða sinna því enn má ekki styggja Davíð né aðra þá sem leggjast gegn Evrópusambandsaðild.
Moggin telur 1 2 3 4 5 ...500
þú telur 6 12 18 24 32 ... 3000
á útifundin mættu
Arnþrúður Karlsdóttir Bryndís Schram Daníel Ágúst Haraldsson Díana Ósk Óskarsdóttir Edda Björgvinsdóttir Elísabet Jökulsdóttir Ellen Kristjánsdóttir Helga Braga Jónsdóttir Helga Thorberg Jón Baldvin Hannibalsson Karl Baggalútur Kolbrún Björgólfsdóttir Ólafur Gunnarsson rithöfundur Ómar Ragnarsson Páll Óskar Hjálmtýsson Snorri Ásmundsson listamaður Sólveig Dagmar Þórisdóttir Stefán Jónsson leikari Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Þorvaldur Gylfason Þráinn Bertelsson Guðrún Ásmundsdóttir rithöfundur Sigrún Edda Björnsdóttir leikkona Ragnar Kjartansson listamaður
og 550 aðrir...
Allir hrópuðu Davíð Burt!! Davíð BURT!! er þetta ekk að verða svoldið vandræðalegt!!
Annað Anþrúður var kosinn maður vikunnar af hlustendum útvarps Sögu með 10 athvæðum - í beinni útsendingu þakkaði hún þennan heiður frábæru starfsfólki og sagði að þessi heiður væri ekki aðeins sinn !!!
er þetta ekki að verða svoldið fyndið
:=) :=) :=) :=)
Hvað var Þorvaldur Gylfason að gera í þessum hópi???
Hann er maður sem mark er á takandi en aðrir þarna ósköp venjulegir "jólasveinar" og tækifærissinnar með Jón Baldvin í fararbroddi!! What a laugh!!!
Virðingarvert að krefjast þess að einhver axli ábyrgð. Mundi taka þátt ef ég væri á Íslandi.
Finnst persónulega að Ríkisstjórnin, seðlabankastjórar og stjórnendur fjármálaeftirlitsins eigi að taka pokann sinn. Spurningin er samt hvort þeir neyðist ekki til að taka svolítið til áður til að tryggja að ekki verði meiri glundroði en ella.
Stjórnendur og eigendur bankanna sem rúlluðu skulda íslensku þjóðinni líka afsökunarbeiðni.
Þetta er of stórt til að einginn axli ábyrgð.
Ert þú ekki að kasta grjóti í glerhúsi? Þú ert stjórnarmaður í lífeyrissjóði og þú hlustaðir á allar aðvaranir en þú seldir ekki hlutabréf í Íslensku bönkunum og sjóðfélagar tapa! Vorum við öll frekar ölvuð???
Takk fyrir Guðmundur. Var á fundinum. Góð stemming og ég fann að það er mikill baráttuhugur í fólki og er ég sannfærður um að við munum bara verða fleiri og fleiri eftir því sem tíminn líður.
Mjög jákvætt að gamlar hækjur Flokksins og þeir athyglissjúku skulu nú reyna að brjóta á bak aftur samstöðuna meðal fólksins. Gott að þetta skuli gerast nú þegar fjöldahreyfiningin er í mótun. Nú vita allir hvar við höfum þetta pakk og hvaða aðferðum það reynir að viðhafa.
Það hneikslast enginn yfir viðbrögðum Hönnu Birnu, hún er bara að sinna sínu starfi fyrir Flokkinn og fær sín laun fyrir. Hún þarf ekkert að fela fyrir hvern hún starfar.
Takk fyrir góða ræðu en fyrst og fremst fyrir að mæta á réttum forsendum. Einar Már var frábær því maður fann að hann er maður fólksins rétt eins og þú. Við þurfum að halda áfram mæta á laugardögum klukkan þrjú, vegna þess að við verðum að gera það, fyrir hvort annað, vegna þess að það gerir það engin annar.
Guðmundur þegar ég frétti að þú og gamla klíkan ætluð að stjórna og tala á fundinum ákvað ég að sitja heima. Þið eruð ekki traustsins verð.
Væntanlega fínn fundur er að vísu ekki staddur á Íslandi en hefði mætt, það sem vakti athygli mína var að þetta var ekki nema 5 eð 6 frétt hjá RUV, þegar Geir H Haarde heldur blaðamannafund eftir blaðamannafund til þess að segja fólki að ekkert megi segja þá eru beinar útsendingar og allt fer á annan endan, þegar fólkið lætur óánægju sína í ljós er þetta minna mikilvægt heldur en fellihýsi sem springur og ólæti í danmörku?????
HVAÐ ER AÐ ÞESSUM FJÖLMIÐLUM
Þetta er rétti andin 2 fundir það er ekki hægt að koma sér saman um 1 fund .En burtséð frá því hver hefur trú á að maður eins Guðmundur Gunnars sem er búin sitja sem formaður í verkalýðfélagi eins lengi og elstu menn muna hafi eitthvað að gera á svona fundi .
Mig langar að fá upplýsingar um laun , nefndalaun og stjórnalaun og í hvaða stjórnum Guðmundur Gunnars hefur verið undanfarin 4 ár .Og er ekki komin tími til að verkalýðsleiðtogar sitji bara í 8 ár sem formenn verkalýðsfélags .
Takk fyrir fundin og ræðuna,spurning hvort á ekki að mótmæla fyrir utan stjórnarráðið í miðri viku og Seðlabankann AFTUR! og með flautur og flauta hátt!!! Ég hef mætt á alla fundina og hef ekki áhyggjur hversu margir hafa mætt á fundina hingað til,því með sívaxandi atvinnuleysi þá bætast fleiri við, verst er hversu fólk virðst seint átta sig á þessu, þótt eignir okkar almennings séu að brenna meir og meir með degi hverjum sem líður.ég mæti aftur með blóðbragð í munni.
Góð ræða, en eitt stingur mig þó alltaf er þið erum að tala um ferðalög og risnu auðmanna og banka til handa stjórnvalda,þá veit ég ekki betur en stjórnendur Lífeyrissjóða hafa verið manna ötulastir í boðsferðum bankanna á sl. árum. Það væri fróðlega að sjá samantekt á bara á utanlandsferðum forstöðumanna lífeysj. á sl. 10 árum. Tel ekki ósennilegt að mörgum launamanninum brigði við að sjá herlegheitinn.
Þakka fyrir góðan pistil.
Fréttir í íslenskum fjölmiðlum eru takmarkaðar og fólkinu er haldið óvitandi um ástandið.
Seðlabankinn er í raun gjaldþrota og krónan er ekki lengur til.
Þær krónur sem eru í umferð á Íslandi eru ekki meira virði en matardorpeningar.
Mótmæli gegn valdaklíkunni sem orsakaði þetta hrun eru höfð að háði og spotti af ríkisfjölmiðlunum.
Mafíuforinginn í Seðlabankanum situr sem fastast í brunarústunum og gefur út tilskipanir gegnum leppstjórn sína að þegnarnir eigi að snúa bökum saman og halda kjafti.
Margir íslenskir gáfumenn kyssa svipu mafíuforingjans til að tryggja sér salt í grautinn.
Þeir vitna í gríð og erg um að hrunið sé öllum eða engum að kenna og enginn sé sekur um neitt nema þá illmennin Gordon Brown og Darling.
Hinn mikli "Foringi" er óskeikull og hann "varaði við hættunni" en enginn hlustaði á hann.
Íslendingar verða núna að heyja nýja sjálfstæðisbaráttu og endurreisa lýðveldið.
Ef þessi spillta klíka fer ekki frá með góðu, verður að setja á stofn útlagastjórn í einhverju nágrannalandi Íslands og fá aðstoð vinveittra þjóða til að frelsa landið.
Á næstu mánuðum munu þúsundir Íslendinga verða að flýja land vegna efnahagsþrenginga.
Það mun þannig verða nægur liðsafli til að leggja sjálfstæðisbaráttunni lið frá erlendri grund.
Orð Jóns Sigurðssonar á þjóðfundi þann 9. ágúst árið 1851 eiga að vera okkur að leiðarljósi!
"Vér mótmælum allir“
þjóðfundur þann 9. ágúst árið 1851
Sjá slóð; http://is.wikipedia.org/w/index.php?title=V%C3%A9r_m%C3%B3tm%C3%A6lum_allir&oldid=528826
Skrifa ummæli