sunnudagur, 14. desember 2008

Fram fram gegn þeim sem minnst mega sín

Enn liggur frumvarp Valgerðar um afnám eftirlaunasómans undir stól Birgis Ármannssonar að skipan Geirs og Valhallar. En á föstudaginn var á einum degi rúllað í gegnum Alþingi frumvarpi þar sem lífeyrir þeirra sem minnst mega sín var skertur um 4 Mia.

Mörg okkar héldu á sínum tíma að það hefði verið Davíð og Halldór sem ruddu þessu í gegnum þingið á sínum tíma, en nú er ljóst að það eru fleiri. Davíð hélt því fram að frumvarpið kostaði ekki nema 6 millj. kr. Þekktir hagfræðingar sögðu að kosntaðurinn myndi nema nokkrum hundruðum milljónum kr. Síðar kom í ljós að það var rétt, kostnaðurinn við eftirlaunaósómann var nálægt 600 millj. kr.

Samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins má leggja umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegnir embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi vel á annað hundrað milljóna króna starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör forsætisráðherra sem situr í tvö kjörtímabil eru ígildi tæplega 200 milljóna kr. starfslokagreiðslu eða 122% launauppbótar.

Ef við skoðum þetta frá öðru sjónarhorni, það er ávinnsluhraðanum. Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna ákveðnir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%. Það er 20% hærri réttindi en sjóðfélagar í almennu lífeyrissjóðanna afla sér.

Réttindastuðull þingmanna er í dag 3%, það er 120% hærri ávinnsla en almennir launamenn hafa og þeir ætla að lækka hann í 2,4% af launum í þeim kattarþvotti sem lagður var fram um daginn. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%.

Réttindastuðull ráðherra er í dag 6% það er 240% hærra en almennir launamenn hafa. Í kattarþvottinum er lagt til að hann verði 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennnu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.

Þegar samið er um laun á almennum markaði er ætið tekið mið að heildarlaunakostnaði fyrirtækjanna, en þegar þingmenn fjalla aftur á móti um sín launakjör fjalla þeir ætíð einungis um lágmarkslaunataxta, þ.e.a.s. þingfararkaup um hálfa milljón kr. Í raun eru laun þingmanna helmingi hærri eða vel á aðra millj. kr. á mán. að jafnaði og laun ráðherra liðlega 2 millj. kr.

Það er gífurlegt ósamræmi á milli þeirra lífeyriskjara sem lögfest hafa verið hér fyrir almenning í landinu og fyrir opinbera starfsmenn í A-deild lífeyrissjóða og hins vegar þess sem alþingismenn og ráðherrar hafa lögfest fyrir sjálfa sig. Hér er um að ræða stærstu og dýrustu starfslokasamninga sem um getur hér á landi og eru gríðarlega dýrir fyrir skattborgara landsins.

Í fjárlögum hvers árs er veitt háum fjárhæðum til að greiða niður þessar skuldbindingar sem þar hafa hrannast upp, en það dugar það hvergi nærri til að halda í horfinu. Þessar skuldbindingar eru á annað hundrað milljarðar króna þrátt fyrir að B-deildinni hafi verið lokað 1997, en þetta er svo enn í gangi í svokölluðum lífeyrissjóði alþingismanna og ráðherra.

Almenningur gerir þá kröfu að þingmenn fari fyrir öðrum frekar en að setja sjálfum sér einhver forréttindi. Á meðan þetta er ekki leiðrétt eru á Alþingi samankominn spilltasti hópur þessa lands.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er nú ekki rétt að halda því til haga að lágmarkslífeyrir - sem nýverið var hækkaður í 150 þús krónur á mánuði fær fullar verðbætur og verður 180 þús krónur á mánuði skv. fjárlagafrumvarpinu. Það eru lífeyrisgreiðslur sem eru hærri en þetta mánaðarlega sem fá 10% hækkun - sem þú kallar skerðingu. Sem sagt ekki þeir sem minnst mega sín - eða hvað?

Nafnlaus sagði...

Já eina fólkið í landinu sem fær hátekjuskatt eru eftirlaunaþegar sem hafa hærri tekjur en 150 þúndund ísl. kr. á mánuði sá skattur er 10% af tekjum en það kemur til viðbótar þessum 1 % viðauka á tekjuskatt ásamt hækkun útsvars. Þannig að hin breiðubök í þjóðfelaginu er fólkið sem fær eftirlaun frá almennum lífeyrissjóði.
Það er nú ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann ber hæst. Hef grun um að þessu ráði Sjálfstæðisflokkur- hann er málsvari hinna hæst launuðu- í skattamálum.

Nafnlaus sagði...

Heyrðu hömrum á því sem fólki blæðir út af! Vonandi sástu Silfrið Magnús sá frábæri lagahöfundur lýsti vandamáli verðtryggingar í hnotskurn!
Ég bið þig að berjast fyrir mig á þeim vettvangi án þess að koma með frasa um að ESB leysi þetta vandamál! Gerðu eitthvað fyrir mig og þjóðina! Lagaðu Óréttlætið!
Kveðja,
Elísabet

Arnþór sagði...

Eftirlaunaósóminn er smámál. Verðtrygging er stórmál. Það er háttur þeirra sem eru í afneitun að einbeita sér að smámálum svo ekki þurfi að fjalla um sjálft vandamálið.

Aðgerðir sem ríkisstjórn getur beitt til að ná í fjármuni til að endurgreiða erlend lán Seðlabanka eru hækkaðar álögur og skattheimta. Að auki greiðir launafólk alltaf aukaskatt sem við köllum verðtryggingu sem leggst á fólk samkvæmt sérstakri reikningskúnst sem eingöngu getur hækkað aukaskattinn. Þegar ríkisstjórnin hækkar skatta getur hún ekki sjálf reiknað með þessum aukaskatti eða verðtryggingu, enda rennur afrakstur hans ekki í ríkissjóð heldur til lífeyrissjóða og annarra fjármagnseigenda ef einhverjir eru. Til þessa verks nýtur hún í raun fulls stuðnings verkalýðsfélaga þó nú sé reynt að malda í móinn í nafni sýndarmennsku og lýðskrums. Menn eins og þú Guðmundur vita mætavel að allar nauðsynlegar aðgerðir ríkisins í kreppunni munu hækka þennan aukaskatt. Þess vegna er um að gera að tala sem mest um aukaatriðin eða hvað?

Fljótlega mun þessi aukaskattur eða verðtrygging renna í sjóði sem erlendir aðilar eiga þegar þeir eru orðnir eigendur íslenskra banka og húsnæðis í stórum stíl. Verðtryggingin eða aukaskatturinn verður seldur þeim sem trygging á endurgreiðslu vegna skulda sem eigendur bankanna stofnuðu til og stungu undan. Bráðum verður of seint að vera á móti þessum aukaskatti Guðmundur en eftirlaunaósómann er hægt að afnema hvenær sem er.

Nafnlaus sagði...

Er það bara verkalýðsforingi af Skaganum sem þorir að lýsa verðtryggingunni stríði á hendur?
Kveðja,
Elísabet

Nafnlaus sagði...

Eftirlaunaóþverrinn er stórmál.

Ef hér vex enn og dafnar nómenklatúra að hætti Austur-þýskra, þá skulu menn ekki gera ráð fyrir öðru en að verðbótavísitala og eignaupptaka í skjóli hennar muni liggja ráðamönnum í léttu rúmi.

Ef réttlæti og sanngirni verður undir í samfélaginu - ef almenningi tekst ekki að slíta forréttindin útúr skoltinum eftirlaunaskrílnum á Alþingi - þá má sá sami almenningur fara að biðja fyrir sér.

Þá mun eignaupptaka í krafti verðtryggingar blífa og standa án þess að nokkur róti sér.

Eftirlaunaóþverrann þarf burt !!

Verðtrygginguna þarf burt !!

Rómverji.