þriðjudagur, 9. desember 2008

Hlutdrægur fundarstjóri

Mér var stillt upp á svið í Háskólabíó í gærkvöldi ásamt 12 öðrum. Forsetar ASÍ, ásamt VR formanni, formanni Eflinga, og svo vorum við þarna tveir iðnaðarmannaformenn. Auk þess voru formenn BSRB, BHM, kennara og sjúkraliða. Hrafn og Árni frá lífeyrissjóðunum og svo Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur.

Og svo voru tvær þingkonur úr VG búnar að stilla sér upp á sviðinu og Steingrímur J. á fyrsta bekk!?

Bíóið var vel liðlega hálfsetið og fjöldi fréttamanna. Fundurinn var í mörgu ágætur. Oft ágætar fyrirspurnir utan úr sal, en sumar þeirra voru reyndar frekar fullyrðingar án þess að vera rökstuddar. En það gerist oft á fjöldafundum. Sum svör mátti gagnrýna. En ég velti fyrir mér hvers vegna verið var að bjóða öllum þessum fjölda upp á svið.

Það hefði verið líklegra til árangurs að fá lífeyrissjóðsspekingana og stærðfræðinga sér og einbeita sér að umræða um þau mál, ásamt viðskiptaráðherra. Hvers vegna er verðtrygging? Hvað er hún? Er eitthvað annað betra til? Af hverju lagfærir Alþingi ekki lögin um starfsemi lífeyrissjóðanna? Á sviðinu voru eins og sagði fyrr voru menn sem hafa mjög mikla þekkingu á þessum málum og hafa skrifað mikið um þau eins og t.d. Benedikt og Árni, en þeir fengu ekki eina einustu spurningu.

Taka svo innri mál verkalýðshreyfingarinnar fyrir á öðrum fundi. Það að hræra saman mörgum málum slátrar svona fundum. Það liggur fyrir að ekki er hægt að tala um verkalýðshreyfinguna í heilu lagi í mörgum atriðum eins og Gunnar fundarstjóri vísvitandi gerði. Þau eru ákaflega misjöfn stéttarfélögin og heildarsamtök þeirra. Fundurinn snérist um upphrópanir eins og Gunnar fundarstjóra stefndi að. Hann var fádæma lélegur. Greinilega frekar að hugsa um eigin ímynd en málefni fundarins.

Gunnar spilaði fundinn upp og kom oft vísvitandi í veg fyrir að fram kæmu svör við spurningum. Mér er kunnugt um að honum höfðu fyrir fundinn verið gerð grein fyrir sumum svaranna, en það þjónaði ekki tilgangi hans að fá þau fram. Það kom glögglega fram í hvert hann beindi spurningum og vísvitandi skellti jafnvel 3 spurningum samtímis á þá sem honum augljóslega var í nöp við. Og gaf þeim tvær mínútur til þess að svara 3 flóknum spurningum. Gunnar sniðgekk markvisst þá sem höfðu svörin á, milli þess að kynna reglulega þingmenn VG og klappa fyrir þeim. Gunnar er búinn að slátra þessu fundarformi.

Á leiðinni heim hlustaði ég svo á Steingrím J. í þætti hjá Bubba. Ja hérna og ég skipti yfir á rás 1.

Eitt í lokin, ég hef verið ræðumaður á fundum Harða Torfa og ég hef séð á þessum fundum marga úr verkalýðsforystunni. Hörður og Borgarsamtökin hafa ítrekað tekið það fram að það mætti ekki undir neinum kringumstæðum tengja þessa grasrót við samtök af einhverju tagi.

Hvers vegna Gunnar og fleiri tuða svo á því hvers vegna verkalýðshreyfingin sniðgengið þessa fundi er furðulegt. Svarið er einfalt þau voru beðin um að koma ekki að fundunum og verkalýðsfélögin hafa þess vegna staðið fyrir tugum funda á undanförnum vikum og mánuðum á eigin vegum.

40 ummæli:

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...

Ljóst má vera að á svona Borgarafundum verður aldrei hægt að fá tæmandi svör. En fyrir okkur sem vorum í hlutverki áhorfenda og spyrjenda brennandi spurning hvers og eins- þá var fundurinn að mínu mati alveg ágætlega heppnaður. Skipuleggendur Borgarafundanna hafa að mínu mati komist vel frá sínu krefjandi verki- hafi þeir þakkir fyrir framtakið...

Nafnlaus sagði...

Danskur

Guðmundur þarna er ég sammála þér. Gunnar kann ekki að stjórna fundi. Maður kom með hugmynd um að almenningur ætti fulltrúa inni á ríkisstjórnarfundum. Hann er náttúrulega ekki í lagi. Borgarafundur=vg
Hörður Torfa=vg

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála því að Gunnar fundarstjóri er ekkert sérstaklega góður fundarstjóri. Hann er örugglega ágætis maður, en fundarstjóri er hann ekki.

Á svona fundum þegar koma fram lítt skilgreindar spurningar sem hægt er að svara með mjög óljósu svari á fundarstjóri að umorða spurninguna, eða fylgja henni á eftir með annarri spurningu sem þrengir efnið og krefjast skýrs svars af þeim sem spurður var.

Sjáið bara hvernig menn gera þetta í kappræðum í USA fyrir kosningar þar. Þegar fólk fær að spurja, þá fylgir stjórnandinn yfirleitt með annarri spurningu ef svarið er of vítt eða óljóst.

Svo finnst mér líka að það ætti bara að spurja einnar spurningar í einu, 3-4 spurningar eru of mikið.

Nafnlaus sagði...

nafnlaus #1: Góður.....

Spyrjum Rafvirkja hvað Vélsmiður hefur í laun.

bakari + smiður, anyone ?

Nafnlaus sagði...

Ég gæti ekki veið meira sammála. Gunnar er ótrúlega ómálefnalegur og ófagmannlegur.
Ef það á að vera eitthvað vit í þessum fundum þá VERÐUR að fá betri fundarstjóra!!!

Maðurinn er bullari.

Nafnlaus sagði...

Þetta er borgarafundur, mér finnst að fólk eigi að segja hlutina akkurat eins og þau vilja koma þeim frá sér, ég er sammála að þeir sem voru á sviði hefðu átt að fá meiri tíma fyrir margar spurningar en thats it. Þær voru búnar að stilla sér upp því að þinginu var boðið, þær voru þær einu sem mættu. Það er ekki gunnar sem stjórnar því hver á að svara því að fólkið í salnum segir hvern þau eru að spurja, ef einhver annar hefði eitthvað annað en blablabla að segja þá hefði sú manneskja bara átt að segja það. Ég persónulega fékk ekki einni spurningu svarað heldur bara endalaust pólitískt kjaftæði aftur og aftur eins og alltaf.

Nafnlaus sagði...

Alveg er ég þér hjartanlega sammála um fundarstjórann og fundarstjórnina. Það sama var upp á teningnum á síðasta fundi þegar ríkisstjórn sat fyrir svörum. Dónaskapur og egótripp fundarstjóra eyðilögðu fundinn.

Nafnlaus sagði...

Við erum öll bara amatörar sem stöndum að þessum borgarafundum og hvorki Gunanr né aðrir sem þar að koma erum neitt þjálfuð í þessu verki. Það er engin ástæða tilað ætla að við séum að reyna að klekkja á neinum þó ekki fari allt 100% prósent eins og best væri á kosið. Við erum bara að reyna að komast á samræðum milli valdhafa og þegna í þessu landi og á sama tíma að reyna að komast að því hvar við eigum bandamenn og hverjir ætla að flykkja sér um spillingaröflin. Við höfum fengið talsvert af uppbyggilegum kommentum sem við höfum reynt að taka til okkar í skipulagningu okkar en þar sem það liggur í hlutarins eðli að það verður aldrei á allt kosið. Við erum að reyna að hleypa eins miklu af fólki að án þess að koma í veg fyrir að fólk á palli nái að svara án þess að fundurinn standi til miðnættis. Kannski á að taka spurningartíman niður í eina mínútu og síðan beint eina mínútu í svör. Það er alveg möguleiki sem við verðum að skoða.

Mér sýndist verkalýðshreyfingin sem heild koma ágætleg út úr þessum fundi og á ég mun fleiri fleti á að vinna með henni eftir þennan fund en fyrir. Það er gott enda skortir mig bandamenn ef mitt litla heimili á að lifa þessi ósköp öll af. Mér fannst kannski vera of mikill fókus á launaspurningarnar en þær brenna nú einu sinni mikið á fólki og ekki getur það verið í okkar valdi að ritstýra spurningum fólks. Það er ekki þannig sem svona fundir eiga að vera. Það eru nóg af vetvangum með ritstýrðum spurningum. Hvað varðar spurninguna um hvar verkalýðshreyfingin hefur verið í mótmælum undanfarinna mánaða að þá fannst mér hún eiga fullan rétt á sér. Þetta er eitthvað sem fólk hefur mikið vellt fyrir sér og því gott að það kom fram að þið hefðuð verið beðin um að halda ykkur til hlés en að það ætti ekki að skilja sem svo að verkalýðshreyfingin styddi ekki þessi mótmæli.

Hlakka til að vinna með ykkur í verkalýðshreyfingunni áfram og vona að þið sjáið tækifæri í að vinna með okkur.

Héðinn Björnsson

Nafnlaus sagði...

Mér hefur þótt fundarstjórinn fáránlega sjálfhverfur á þeim fundum sem ég hef farið á og séð í sjónvarpi.

Þetta er ekki alveg það sem þörf er á við þessar aðstæður held ég.

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...

Hjartanlega sammála. Gjörsamlega óhæfur fundarstjóri, sem hefur einungis gjaldfellt þessa fundi. Slíkir fundir skila engu með slíkri fundarstjórn. Gunnar þessi virðist hafa það að markmiði að fundirnir snúist um hann miklu fremur en málefni sem til umræðu er.

Nafnlaus sagði...

Manni ofbauð eftir fyrri fundinn í Háskólabíó og maðurinn (leikari) missti sig í frægðarljóma og endalausum kommentum og athugasemdum til ráðherrana. Þetta form er handónýtt sem og Gunnar Sigurðsson.

Teitur Atlason sagði...

Ég bloggaði um frammistöðu Gunnars fundar og -leikstjóra þann 27. nóv

http://www.eimreidin.is/2008/11/borgarafundurinn-hsklabi.html

Nafnlaus sagði...

Aðstandendur Borgarafundanna ættu að sjá sér leik á borði og losa sig við Gunnar Sigurðsson, maðurinn er gjörsamlega óhæfur til að gegna fundarstjórn og framganga hans er venjulega fyrir neðan allar hellur.

Ég horfði á beina sjónvarpsútsendingu borgarafundarins þar sem ríkisstjórnin sat fyrir svörum. Mér fannst það líkara gömlum Sovétréttarhöldum heldur en opnum og lýðræðislegum borgarafundi. Aðalsökudólgurinn í því máli er Gunnar Sigurðsson. Maðurinn er hættulegur popúlisti og hneysa að hann fái að stjórna einu né neinu.

Nafnlaus sagði...

Samtökin auglýsa sig sem ópólitísk og opin öllum sem áhuga hafa. Nú er hinsvegar komið í ljós að Opinn Borgarafundur er leikstýrð uppákoma sem á ekkert skylt við lýðræðislega umræðu. Áhugavert er að hlusta á þennan pistil frá Útvarpi Sögu þar sem vitni lýsir atburðinum sem gerðist hjá Opnum borgarfundi þegar þeir vörpuðu lýðræðinu á dyr.
http://www.soundlantern.com/UpdatedSoundPage.do?ToId=23746&Path=7100312072008044444.mp3

Nafnlaus sagði...

Er innilega sammála athugasemdunum. Var ekki á fundinum í gær og hafði ekki áhuga eftir að horfa upp á mikla misbeitingu á hugtakinu fundarstjóri á fyrri fundi.

Fundarstjóra er ætlað að vera óhlutdrægur, slíkt er eðlileg kurteysi. Hlutverk fundarstjóra er vel þekkt, þó illu heilli ekki nefndum Gunnari.

Frammistaða Gunnars hefur dregið mjög úr trúverðugleika fundanna og má segja mér að það spili einhverja rullu í því hve fækkaði funda á milli.

kv.

Freyr

Nafnlaus sagði...

http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/738691/#comments

Um Vélsmiði.

Nafnlaus sagði...

hslló

Nafnlaus sagði...

Er sammála þessu með Gunnar, ég set ekki mína upphafsstafi við þessa fundi né laugardagsmótmælin.

Og svo smá off-topic (þar sem ég rekst nú sjaldan á þig:).

Þó þykir mér rétt að verkalýðsforustan yrði rasskellt opinberlega fyrir illa unnin störf.

Þú, Gylfi og Gunnar Páll ættuð að hugsa ykkar mál vandlega. Nú vantar okkur menn með bein í nefinu og óhrædda við að berjast fyrir fólkið í landinu, þið gerið það ekki á svona rugludallafundum, þið gerið það í ykkar daglegu störfum þar sem VERKIN eru látin tala.

Það að réttlæta verðtrygginu er ekki siðlegt, þú átt að berjast fyrir peningamálaskipan sem veldur ekki slíkri þenslu að svona ástand komi upp. Með afnámi verðtryggingar tvöfaldar þú hóp þeirra manna sem krefst ábyrgrar peningamálaskipan í landinu, lánadrottnar og skuldunautar í sama liði. Jafnræði milli allra... er of mikils ætlast að verkalýðshreyfingunni?

Hví eru lægstu vextir á verðtryggð lán ca 4.15%? Sagði ekki mætur maður að 2% ofan á verðbólgu væri meira en nóg, eru 2% raunvextir eitthvað sem einungis er ásættanlegt í Evrópu?

Er verkalýðshreyfingin að berjast með eða á móti okursamfélaginu, þú afsakar en ég er ekki viss í hvaða liði þið skipið ykkur.

Nafnlaus sagði...

Gagnrýni Guðmundar Gunnarssonar á Gunnar Sigurðsson er alltof harkaleg. Það er ekki eins og mikla hefð sé að styðjast við í sambandi við fjölmenna borgarafundi á Íslandi. Og sumt er mjög fagmannlega skipulagt á fundunum.

Hef verið á öllum borgarafundunum. Fundarstjórn Gunnars Sigurðssonar hefur verið mjög góð, nema í Háskólabíói. Þar fataðist honum nokkuð flugið.

Held það sé rétt hjá Guðmundi að sérfundur hefði átt að vera um lífeyrismál annars vegar og verkalýðshreyfinguna hins vegar.

Á fundinum í gær fór of mikill tími aðstoðarfundarstjóra í að ræða framíköllin. Framíköll á að stoppa ekki orðlengja. Þau eru óhjákæmileg en líka ómissandi á slíkum fundum.

Borgarafundirnir og mótmælin á Austurvelli eru að breyta samfélaginu.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Ég legg til að Hanna Birna borgarstjóri verði næsti fundarstjóri. Hún hefur sýnt það og sannað að það kann hún!

Nafnlaus sagði...

Hanna Birna?

Af hverju ekki Hannes Hólmsteinn Gissurarson eða Kjartan Gunnarsson?

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Guðmundur er nú Gunnar vandamál Íslensks almennings,
ojbara ojbara.
Hvaða andsskotans fyrring er í ykkur stéttafélagsforkólfum og helstu gæslumönnum lífeyris okkar.
EKKI BENDA Á EITTHVAÐ ANNAÐ!
Dabbi

Nafnlaus sagði...

Sæll,

Ég er partur af þeim hópi sem stendur að fundunum og er nú ekki vinstri Grænn eins og látið er liggja að að við séum öll. Reyndar komum við úr öllum kimum hins pólitíska litrófs. Gunnar er ekki fullkominn fundarstjóri og langur vegur það frá. Hann er örugglega hlutdrægur enda dregur hann að mínu viti enga fjöður yfir það. Honum hefur hins vegar tekist eitthvað sem ykkur blessuðum tekst ekki einu sinni á 1.Maí sem er að ná fleiri en 10 sálum saman á fund. en hins vegar fannst mér komment Gylfa frekar spaugileg, sérstaklega þar sem hann fékk framsögu á fundinum og talaði frjálst í upphafi fundar í 10 mínútur. Þú hefur kannski tekið eftir því að fólk var reitt í salnum og miklu reiðara en fyrir 2.vikum og var fólki þó heitt í hamsi þá. Kannski ærin ástæða til? Og hvar hafið þið eiginlega verið?

Hélduð þið að þetta yrði einhver halelúja fundur?

Þar sem þið gætuð rambað í gegn um þetta með frítt spil eins og á 10 manna verkalýðsfundi í einhverju mötuneytinu?

Það sem stóð upp úr fyrir mér á fundinum var dáðleysið sem einkennir þennan hóp manna. Látum vera þann siðblinda mann Gunnar Pál, það þarf nú lítið að ræða hann og það að Gylfi Arnbjörnsson talar eins og ráðherra í Samfylkingunni. Og tekur þátt í þeim hræðsluáróðri sem rekinn er af þeim ónýta flokki(sem ég hef reyndar kosið undanfarnar tvennar kosningar) um að við getum ekki tekið upp aðra gjaldmiðla nema með inngöngu í ESB. Þegar ég spurði hann eftir fundinn hvers vegna hann héldi því fram að það væri ekki hægt, þá svaraði hann til að það væri bara svoleiðis. Hvaða svör eru þetta? Heldur maðurinn að við séum hálfvitar? Engin rök bara ESB eins og það sé einhver töfralausn, jú og venjulegi söngurinn um lengingu í lánum og frysting.

Svo talar hann eins og hann tilheyri einhverjum grasrótarsamtökum. Hvaða spaug er það eiginlega? 110þús manns? Hvar var þetta fólk á yfirauglýsta fundinum um daginn? Mættu ekki 150manns? Heilsíður í öllum blöðum.

Svo eru lífeyrissjóðirnir einn kapítulinn. Stór hluti almennings telur hverju sem þið kunnið að halda fram, að öfl í samfélaginu stjórni lífeyrissjóðum okkar og noti þá leynt og ljóst í sína eigin þágu til að halda völdum og séu að semja við sjálfan sig um yfirtöku á eignum okkar fyrir slikk. Ég heyrði því miður ekkert á fundinum sem hrakti þá skoðun mína.

Því er haldið fram af málsmetandi mönnum að lífeyrissjóðirnir hafi tapað 400 milljörðum á árinu.

Ég held Guðmundur að verkalýðsforystan ætti að verja minni tíma í að gagnrýna fundarstjórn en hefja heldur leit að umbjóðendum sínum sem verkalýðshreyfingin hefur löngu siðan týnt nema þegar úthluta þarf sumarbústað, með örfáum undantekningum þó.

En niðurstaða fundarins var fyrir mér sorgleg.

Engin Sýn
Engar Lausnir
Enginn vilji til að breyta neinu

já og ekkert að hjá Lífeyrissjóðunum.


Kveðja
Jón Þorvarðarson

Andri sagði...

##########################################

Guðmundur sem ætlaði ekki að mæta á fundinn (Heyrði nú ekki betur en mest hafi verið klappað fyrir honum í byrjun fundarins) ræðst nú á fólkið sem hefur verið að vinna þetta góða starf.

"Fundurinn snérist um upphrópanir eins og Gunnar fundarstjóra stefndi að. Hann var fádæma lélegur. Greinilega frekar að hugsa um eigin ímynd en málefni fundarins."

Ég var nú þarna í gær og þetta er ekki mín upplifun af fundinum. Afhverju þessi niðurrifsstarfsemi Guðmundur? Hvað gengur þér til?

Ætlum við Íslendingar að drepa það eina góða sem hefur komið úr kreppunni hingað til? Ætlum við að drepa þessa fundi og mótmælin á Austurvelli vegna þess að fundarstjórinn er ekki nægilega góður? erum við ekki að missa sjónar af því sem skiptir máli?

Mig langar til þess að benda á eitt annað sem þú Guðmundur hefur kannski ekki tekið eftir. Borgarafundurinn hefur nefnilega tekið ábendingum og breytt fyrirkomulaginu, formælendum var fækkað til að koma að fleiri spurningum og Gunnar var ekki eins ´berandi eins og síðast. Ef þú hefðir beint þín tilmælum og hugmyndum til þeirra sem starfa við fundina, í stað þess að ráðast á þau á blogginu þínu, þá er ég ekki í vafa um að þau myndu hlusta á þig.

Þessir fundir eru fyrir okkur, og þeir eru góðir og þarfir.

#######################################

Nafnlaus sagði...

Gunnar Sigurðsson hefur með frumkvæði sínu að borgarafundum í Iðnó og Háskólabíói gert þjóðinni ómetanlegt gagn. Hann er mjög líflegur, röggsamur og réttsýnn fundarstjóri. Þegar hann brá sér af sviðinu smástund í gærkvöldi, tók við maður sem ekki réð nógu vel við þetta fundarform, enda ekki öllum lagið. Fundurinn komst svo aftur á skrið þegar Gunnar birtist á ný. Einu sinni dundu þó fullmargar spurningar samtímis á forseta ASÍ, enda hefur hann margt að svara fyrir.
Verkalýðsforystan hefur að miklu leyti sofið á verðinum að undanförnu. Guðmundur Gunnarsson hefur þó haldið úti góðri bloggsíðu með öflugum málflutningi, en lítið sem ekkert heyrst frá öðrum. Guðmundur virðist þó því miður hafa komið með neikvæðu hugarfari á fundinn í gærkvöldi eins og lesa má úr færslu hans 6. des., Gylfi Arnbjörnsson hefur talað eins og ASÍ væri eitthvað lítilfjörlegt kontór úti í bæ, en ekki öflugustu samtök launafólks í landinu. Krafa hans um afsögn tveggja ráðherra og þá yrði bara allt í lagi, er auðvitað ekkert annað en máttleysislegt hálfkák. Krafa meirihluta þjóðarinnar er að öll ríkistjórnin víki og undir þá ófrávíkjanlegu kröfu á ASÍ auðvitað að taka af fullum þunga. ASÍ hefði einnig átt að hvetja sitt fólk til að fjölmenna á fundina á Austurvelli.
Þeir kraftmiklu fundir hafa haft mikil áhrif, en nú virðast virkari aðgerðir ætla að taka við þeim kyndli sem þar hefur verið tendraður.

Nafnlaus sagði...

Oh...greyin! Var Gunnar ekki eins og þið vilduð hafa hann?

En leiðinlegt!

Ég er viss um að það gerir samt minna til þó hann sé ekki alveg eins og þið viljið vs því að þið eruð með nánast alla launþega landsins sem skjólstæðinga og svo sannarlega ekki í stíl við það á þessum fundi!!!

Nafnlaus sagði...

hahaha...

búið að kalla út slökkviliðið...

Miðað við varnarræðurnar hér á undan...

En hvað má ekki gagnrýna alla, án þess að allir dissi alla...

já.. Þetta er Ísland í dag...

Nafnlaus sagði...

Ég var nú á þessum fundi og já mér finnst VG vægið nokkuð hátt.
Þessir fundir eru ekki fulkomnir en fyrir mann eins og mig sem er ekki tengdur neinum flokki eða með fótinn inn í verkalýðsfélagi þá eru þessir borgarafundir ágætis byrjun.

Ég er í VR og gæti ég ekki farið á baráttu fund sem Gunnar Páll eða Ingibjörg myndu stjórna og það þykir mér miður.
Ég kom með spurningunna um laun og Gunnar I Birgisson.

Nafnlaus sagði...

Gunnar er hræðilega lélegur fundarstjóri. Það er eins og hann sé alltaf að reyna að vera í aðalhlutverki og gera lítið úr öðrum, furðulegt.

Nafnlaus sagði...

Þrátt fyrir að margt í fari Gunnars fundarstjóra fari í mínar fínustu má hann þó eiga það að hann er að gera eitthvað í stað þess að sitja á rassinum og blogga um ástandið.

Þú hefur átt marga ágæta pistla hér, Guðmundur, en þessi var með þeim daprari.

Nafnlaus sagði...

Þessir fundarstjóri var gjörsamlega fáránlegur. Grípandi frammí og dónalegur.

Oddur Ólafsson sagði...

Ja hérna.
Mikið ertu önugur og þú nenntir ekki einu sinni að hlusta á frænda (SJS) á rás 2.

Það vantaði bara að þú segðir í pistlinum að salurinn hefði verið fullur af hyski sem ekki talaði í umboðið þjóðarinnar, þá mætti kippa þér beint inn í ríkisstjórnina.

Þú gætir setið þar við hægri hönd Geirs almáttugs......

Unknown sagði...

Gagnrýni er eitthvað sem ekki er komist hjá þegar fólk verður áberandi.
Það sem mér þykir þó skrítið er að persónugera allan fundinn á einn mann. Við erum mörg sem stöndum að þessum fundum og kunnum lítið fyrir okkur að halda svona fundi. Við höfum lært og breytt og bætt eftir hvern fund þeim hlutum sem fólk hefur sagt okkur að séu ekki að virka. Enn nýðingsháttur eins og þessi er eitthvað sem ekki er hægt að taka til sín. Hvað ert þú að gera Guðmundur til þess að reyna að fá svör og koma til botns í þessu ástandi?
Við fórum fjögur af stað með hugmynd um þessa fundi og höfðum enga hugmynd hvernig við ættum að hrinda þessu í framkvæmd. Fjórum vikum seinna vorum við komin með 2000 manna fund í Háskólabíó!
Færð þú svona marga á fund til þín?
Að gagnrýna er gott og það að geta tekið gagnrýni og lært af henni er gott. Þessi bloggfærsla er ekki gagnrýni. Hún er nýðingsháttur frá manni sem hefur augljóslega fundist sér ógnað á fundinum!
Finnist þér þetta form ekki virka? Ertu þá með betri hugmynd af milliliðalausum samskiptum almennings og ráðamanna?
Kristín Ýr Gunnarsdóttir

Nafnlaus sagði...

Gunnar á ekki að vera fundarstjóri

það vantar mann sem hefur skipulag og stjórnar þessu eins og hlutlaus maður.

það á einnig að gefa mönnum lengri tíma til að svara og vera ekki að koma með 3-4 spurningar sem á að svara á 2 mínútum. hvaða bull er það eiginlega?

Gunnar, hættu þessu leikaralátum sem þú hefur viðhaft á 2 síðustu fundum, það er algjör óþarfi að æsa fólkið meira upp það er nógu æst fyrir margir hverjir,

og já...hann er ALLTOF HLUTDRÆGUR FUNDARSTJÓRI og svoleiðs er ekki góður fundarstjóri sem á að hafa skipulag og stjórn á fundinum en ekki vera æsa fólkið upp.

Nafnlaus sagði...

Ég verð að viðurkenna að ég sá ekki aðra þingmenn en Björgvin og svo téða vinstri græna á fundinum, ég skil að hann hafi hælt þeim fyrir að mæta, ekki fer hann að hæla þeim sem mættu ekki.
Ég velti því hins vegar fyrir mér af hverju þú kýst að slökkva á Steingrími. Ekki að ég sé neinn sérstakur aðdáandi hans en kýst þú kannski að hlusta bara á ákveðnar raddir?

logi sagði...

Mér finnst vanta áhuga á að ræða hvernig við getum fengið óhlutdræga yfirsýn yfir hvað gerst hafi í öllu þessu fjármála svindli frjálshyggjumanna og þeirra sem þeirra taum draga og þar hef ég sett fram tillögu um alsherjarverkfall sem sé eina verkfærið sem sannarlega getur komið gerendum þessara atburða frá og skapað þar með grundvöll fyrir alvöru rannsókn og uppgjörs allra þessara atburða... vissulega má gera athugasemd við formið á umræðunum í Háskólabío en virkilega nauðsynlegt að fjalla um kjarna málsins líka, þ.e. hvernig við fáum hreinst borð og gagnsæi og sátt og þar með vænlega framtíðarmöguleika.. sjá: http://tryggvigunnarhansen.blog.is/

Tryggvi

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,
það er umhugsunarefi hvers vegna þú beinir athyglinni að smátriðum en ekki aðaðlatriðum. Svo það fari ekkert á milli mála Gunnar er mjög góður fundastjóri. Að halda heilu bíói á mottunni er ekki létt verk.Sérstaklega þegar mið er tekið af því að fundargestir vildu helst af ölli tjarga og fiðra ykkur öll á sviðinu.Það er ef til vill það sem þú fattar ekki. Lífeyrismál og verkalýðsforusta eru nátengd mál. Verðtryggingin er þar kjarnaatriði. Þessi pakki allur er að setja heiðvirð heimili á landinu á hausinn. Að þú sért að fara fram á einhverja miskunn eða sérmeðferð á Borgarafundi er hjákátlegt. Stattu þig og hættu að væla.