mánudagur, 22. desember 2008

Mútuþægni?

Ég fæ stundum sendar einkennilegar og órökstuddar fullyrðingar. En kannski lýsa þær best sendandanum.

Eiríkur Thor sendi inn eftirfarandi athugasemd til mín vegna pistils þar sem ég fjallaði um lífeyrissjóði:
Og svo má ekki gleyma því að almennir sjóðsfélagar hafa ekkert um það að segja hvernig þessum fjármunum er ráðstafað. Það gerir verkalýðselítan með Guðmund í fararbroddi og þeir pótintátar sem þeir koma fyrir til við stjórna sjóðunum, og margir þeirra þiggja mútur fyrir að fjárfesta á "réttum stöðum. T.d. eins og laxveiðiferðir og utanlandsferðir.

Svar :
Í undanfara ársfundar þess lífeyrissjóðs sem flestir rafiðnaðarmenn eru aðilar að, eru kjörnir á fundum stjórnarmenn sjóðsfélaga sem er helmingur stjórnarmanna. Hinn helmingur stjórnarmanna er tilnefndur af samtökum fyrirtækja í rafiðnaði.

Ég hef aldrei verið aðalmaður í stjórn lífeyrissjóðs, en var kjörin sem varamaður í fyrsta skipti fyrir 2 árum í umræddan lífeyrissjóð.

Á ársfundi lífeyrissjóðsins er fjárfestingarstefna lífeyrissjóðsins tekin til umfjöllunar og borinn upp á fundinum.

Ég hef einungis farið til veiða í tveim laxveiðiám. Faðir minn er fæddur og uppalinn á Auðunarstöðum í Víðidal. Systir hans ásamt bónda sínum tóku við búinu þegar afi og amma hættu að búa. Ég var þar í sveit í 10 sumur. Pabbi og Bjössi bóndi mágur hans voru af þeirri kynslóð sem vann alla daga ársins og tók helst aldrei orlof. En pabbi og Bjössi áttu sama afmælisdag 10. september.

Þeir veittu sér þann munað að leigja sér 2 daga í Víðidalsánni, afmælisdaginn og næsta dag við. Þegar þeir tóku að reskjast buðu þeir mér ásamt bróður mínum og mági okkar að skiptast á um að vera með sér við veiðarnar. Þannig að ég fór annað eða þriðja hvert ár að veiða í ánni með þeim pabba og Bjössa. Ég held að ég muni það rétt að ég hafi farið 6 eða 7 sinnum í ánna. Við greiddum sjálfir allan kostnað af þessum túrum.

Ég fór tvö haust með samstarfsmönnum mínum til veiða í Vesturdalsá í Vopnafirði. Við greiddum sjálfir allan kostnað af þessum túrum.

Þar með eru upptaldir allir þeir laxveiðitúrar sem ég hef farið á mínum lífsferli.

Ég hef að auki farið til veiða alloft í nokkrum silungsvötnum. Þann kostnað hef ég tekið að fengnu samþykki makans af heimilispeningunum, enda hef ég tekið börn okkar með í flesta þeirra túra.

Ég er nú búinn að vera í þessum bransa í 17 ár hjá Rafiðnaðarsambandinu og get ég fullyrt að enginn af stjórnarmönnum í RSÍ eða fulltrúum rafiðnaðarmanna í stjórn lífeyrissjóðsins hafi farið í utanlandsferð eða veiðiferð eða þegið mútur með öðrum hætti af fjárfestum eða öðrum. En Eiríkur Thor telur sig hafa vitneskju um slíkt og hvet ég, eða frekar krefst þess, að hann komi fram sem fyrst með þau mál svo hægt sé að taka á þeim. Ásakanir um mútuþægni eru líka alvarlegar.

Í lokin sendi ég Eirík Thor jólakveðjur með óskum um að hann megi njóta árs og friðar á komandi ári. Sé hann félagsmaður í samtökum rafiðnaðarmanna hvet ég hann eindregið að koma á fundi og taka þátt í kosningum og allri ákvarðanatöku og stefnumótun varðandi kaup og kjör rafiðnaðarmanna.

Sama á við um stefnu lífeyrissjóðsins, gott gengi hans er sannarlega hluti af kjörum rafiðnaðarmanna og félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins skipta sér mikið af stefnu og rekstri sjóðsins, enda um 40% sjóðsfélaga. Eins og þeir eiga að gera. Lífeyrissjóður okkar er með töluvert betri réttindi en flestir aðrir sjóðir á almennum markaði, hraðari ávinnslu og töluvert hærri makalífeyri. Það er nefnilega töluverður munur á lífeyrissjóðunum og nánast ekki hægt að tala um þá alla í einni hendingu.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur ertu undrandi yfir því að fólk sé tortryggið. Lífeyrisjóðir búnir að tapa miklu fé í margar vafasamar fjárfestingar.
ASÍ gat ekki gefið Gunnari Páli rauðaspjaldið vegna aðkomu hans að málum lífeyrisjóðs VR. Gunnar sat beggjavegna á bykkjunni. VR samþykkti gjörninginn, það gerði ASÍ líka. Þetta er ekki peningar í eigu stjórnamanna Lífeyrisjóða,fólkið í landinu á þetta fé.
Mér hefur þú fundist taka illa í það að fólk svari hjá þér greinum þínum. Vertu glaður að einhver nenni að lesa þessi sjálhverfu skrif þín. Óska þér gleðilegra jóla.
Bloggi.

Unknown sagði...

Þakka þér góða pistla Guðmundur og vona að þú haldir áfram á sömu braut. Mig langar að koma upp með eitt atriði er varðar lífeyrissjóði almennt. Hví í ósköpunum eru fulltrúar atvinnurekenda í stjórn lífeyrissjóða? Eru ekki greiðslur í lífeyrissjóð hluti launakjara? Hvað réttlætir að fulltrúar launagreiðenda hafi áhrif á ráðstöfun launa starfsmanna?

Guðmundur sagði...

Það hefur verið töluvert deilumál að einungis helmingur stjórnarmanna sé kjörinn af sjóðsfélögum, en framkvæmdastjórn SA hinn helming. Það er rétt að allt iðgjaldið sem rennur til lífeyrisjóðanna er hluti launakjara viðkomandi sjóðsfélaga, þó það sé meðhöndlað með þessum hætti.

Því hefur verið haldið fram að fyrirtækin verði með þessu fyrirkomulagi ábyrgari gagnvart lífeyriskerfinu. Fundir meðal rafiðnaðarmanna hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag kröftuglega. En það eru alþingismenn sem setja lögin.

Og svo einkennilegt sem það nú er hafa þeir kosið að hafa sín lífeyrismál með öðrum hætti og Sjálfstæðismenn ásamt Samfylkingu vilja við halda þeirri spillingu áfram. En með hinni hendinni eru þeir hinir sömu að skerða kjör almennu sjóðsfélaganna.

Arnþór sagði...

"Lífeyrissjóður okkar er með töluvert betri réttindi en flestir aðrir sjóðir á almennum markaði, hraðari ávinnslu og töluvert hærri makalífeyri. Það er nefnilega töluverður munur á lífeyrissjóðunum og nánast ekki hægt að tala um þá alla í einni hendingu."

Þú ert einkennilegur maður Guðmundur. Andskotast útí lífeyrisréttindi þeirra sem hafa betri réttindi en þú hefur og montar þig svo yfir því að hafa betri réttindi en sumir aðrir. Sérðu engar mótsagnir í því?

Guðmundur sagði...

Sæl Arnþór
Þakka spurninguna. Almennir lífeyrissjóðir starfa allir í sama umhverfi, með sömu lögbundnu iðgjöldin og búa við sömu löggjöfina. Þar er hörkusamkeppni milli almennu sjóðanna um hver nái bestu ávöxtun og hverjir nái lægsta rekstrarkostnaði. Einnig hafa þeir valið um mismunandi tengingar hvað varðar lífaldurstengingar. Þetta hefur skilað sér í mismunandi afkomu sem hefur skilað sér í mismunandi réttindum milli almennu sjóðanna. Sumir hafa þurft að skerða réttindi meir en aðrir.

Það hefur verið mikið skrifað um hversu óréttlátur sá mismunur sé sem alþingismenn hafa búið almennu sjóðunum gagnvart lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Á þessu sviði hef ég verið fyrirferðamikill á undanförnum árum.

Þar hefur verið gagnrýnt hvers vegna alþingismenn hafa sett á sína sjóði ríkisábyrgð en ekki á almennu lífeyrissjóðina. Það skiptir semsagt engu hvort opinberu sjóðirnir eigi fyrir skuldbindingum, þeir þurfa aldrei að skerða réttindi, jafnvel þó ávöxtun þeirra verði léleg, rekstrarkostnaður hár, þeir tapi í bankahruni, örorka aukist eða lífaldur hækki. Það sem upp á vantar er sótt í ríkissjóð.

Alþingismenn setja lög um starfsemi lífeyrissjóða jafnt almennra og opinberra. Í þessum lögum eru ákvæði um að almennu sjóðirnir verði að skerða réttindi ef þeir eigi ekki fyrir skuldbindingum, þeir geti ekki sótt um það sem upp á vantar í ríkissjóð.

Það er ákaflega ósanngjarnt kerfi sem alþingismenn hafa búið til og þeir hafa ekki láti það nægja, þeir hafa um leið búið sér sérstök réttindi sem þeir ætla sér ekki að afnema nema að litlum hluta til. Það sem komið hefur fram í þessari gegnrýni er hvers vegna þingmenn og ráðherrar búi ekki við sama rétt og aðrir opinberir starfsmenn og hvers vegna almennir lífeyrissjóðum sé gert að búa við lakara umhverfi en opinberu sjóðirnir. Þetta hefur komið margítrekað fram Arnþór.

Nafnlaus sagði...

Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að atvinnurekendur eiga ekkert heima í stjórnum sjóðana. Það er rétt hjá Guðmundi að Alþingi setur löginn, enn við eigum að setja þessa kröfu fram í næstu samningum, semsagt ein af þeim kröfum sem verður beint að ríkinu. Er sammála Guðmundi um það að fólk á að mæta á fundi hvort sem það er hjá félaginu eða lífeyrissjóðnum. Enn þá verður fundartími að vera á þeim tíma sem félagar geta mætt á. Menn skulu muna það að síðasti aðalfundur lífeyrissjóðsins Stafa þar sem Guðmundur er varamaður í stjórn var haldin Kl 14,00 sem er sá tími sem flestir eru í vinnu.Það er ekkert að því að fólk finni að því að aðrir séu með ofur réttindi þó að þeir sömu séu með góð réttindi.
Svo óska ég Guðmundi og fjölskyldu gleðilegra jóla. Kv Simmi

Guðmundur sagði...

Kæri nafnlaus

Ég hef breytt aths. kerfinu þannig að allt birtist ekki umsvifalaust. Vegna þess að í vaxandi mæli hafa einstaklingar verið að setja inn á aths. dálkana eitthvað sem kemur viðkomandi pistli ekkert við og oft eitthvað sem er ekki birtingarhæft. Það eru öll bloggkerfin að gera þetta. T.d. tilkynnti MBL.is þessa breytingu í gær. Engir fara þar inn nema undir fullu nafni og skráðir með póstfangi og öllu.

Ég tók þó þá ákvörðun að setja "nafnlausan" inn núna. Hann verður einfallega að virða það við mig þó ég sé ekki sáttur við að þurfa að sitja undir því að vera sakaður um mútuþægni.

Hvað varðar Gunnar Pál. Þá hefur ASÍ ekki samþykkt eitt eða neitt hvað varðar hans mál, hvorki með eða móti. Enda hefur ASÍ ekki vald til þess. Það eru félagsmenn VR sem hafa valdið, engir aðrir.

Ef aðrir eins og t.d. ég gerði það þá myndi það vera túlka sem afskipti Rafiðnaðarsambandsins af innri málum VR vegna stöðu minnar.

Það hafa allir fjármagnseigendur tapað fjármunum að undanförnu ekki bara lífeyrissjóðir. Almennu lífeyrissjóðirnir töpuðu sumir hverjir töluvert minna en bankalífeyrissjóðirnir, eins var m.a. í fréttum í gær.

Það er rétt að það eru sjóðsfélagar lífeyrissjóðanna sem eiga sjóðina. Það er reyndar ekki allir sem hafa kosið að greiða í þá.

En það virðist vera sumir af þeim sem aldrei hafa greitt krónu í þá séu með háværustu kröfurnar gagvart þeim, m.a. að þeir verði nýttir til þess að greiða upp skuldir annarra, líka þeirra sem ekki eiga þar nokkur réttindi.

Eitt að lokum þingmenn hafa sett lífeyrissjóðunum mjög þröngar skorður í lögum um hvar þeir megi fjárfesta. T.d. verði þeir að fjárfesta í íslenskum hlutabréfum þar hefur nú ekki verið um auðugan garð að gresja og hafa lífeyrissjóðirnir ítrekað krafist þess að fá að fjárfesta í öðrum hlutum en ætíð verið hafnað af hálfu þingmanna. Ef þeim lögum hefðu verið breytt fyrir 3 árum eins og krafist var þá hefðu þeir tapað töluvert minna að öllum líkindum.