mánudagur, 15. desember 2008

Verðtrygging

Í umræðum um verðtryggingu kemur sjaldnast fram hvað fólk vill í staðinn. Þegar fólk tekur lán getur það valið um breytilega vexti, erlenda myntkörfu eða fasta vexti og verðtryggingu. Verðtrygging er mishá eftir hversu há verðbólgan er. Með föstum vöxtum og verðtryggingu er í raun verið að velja greiðsludreifingarleið þar sem afborganir eru lægri en þær eiga að vera fyrri hluta lánstímans.

Fjölmargir hafa undanfarið útskýrt mjög vel hvernig lánakerfið virkar. Auk þess eru nokkrir sem hafa gefið út þær yfirlýsingar að verðtryggingin eigi að fara. Ég er því algjörlega fylgjandi og taka upp breytilega vesti eins og tíðast í nágrannalöndum okkar. Ég hef kynnt mér málið eins vel og ég get og komist að þeirri niðurstöðu að það sé einungis ein leið fær, það er að losna við krónuna og taka upp alvöruefnahagsstjórn hér á landi og fylgja nágrannaþjóðum okkar.

Sumir hafa lagt til að strika einfaldlega út verðtryggingu, ef ekkert annað væri að gert, leiðir það til þess að verið væri að færa greiðslur á lánum allra yfir á gamalt fólk og öryrkja sem er með sparifé sitt í lífeyrissjóðnum sínum og bönkunum. Mér er óskiljanlegt af hverju á þetta ráðdeildarsama fólk sem hefur safnað upp sparifé, eigi að sætta sig við að það sé nýtt til þess að greiða skuldir annarra?

Sumir lýðskrumarar hafa þá sagt að þetta sé allt verkalýðsforystunni að kenna, hún hugsi einungis um hagsmuni lífeyrisjóðanna. Það er einfaldlega ekki rétt. Lífeyrissjóðirnir eiga engar eignir. Það eru aftur á móti sjóðsfélagar í viðkomandi lífeyrissjóð sem eiga sparifé sitt í lífeyrissjóðum.

Sjóðsfélagar eru í langflestum tilfellum félagsmenn í stéttarfélögum. Á fundum stéttarfélaga er oft fjallað um lífeyrissjóðina og ávöxtum þeirra og þess krafist að séð verði til þess að farið sé að lögum og fjármunir í lífeyrissjóðum fari einungis í að greiða örorku- og lífeyrisbætur. Ekki í að greiða upp skuldir fólks sem jafnvel er ekki einu sinni í viðkomandi lífeyrissjóð.

Í þessu sambandi hvað varðar verkalýðsforystuna er einnig ástæða að geta þess að það er Alþingi sem setur lög um lífeyrissjóði. Það er hlutverk stjórna sjóðanna að fara að þessum lögum. Hvorki stjórnir sjóðanna eða ársfundir þeirra gætu tekið það upp hjá sjálfum sér að nýta það sparifé sem er í lífeyrissjóðunum til annarra hluta en fram kemur í landslögum.

Ef tekið er lán með breytilegum vöxtum í íslensku hagkerfi, þar sem verðbólga sveiflast upp og niður um tugi prósenta, þá sveiflast vextir líka upp og niður. Sama gildir um verðmöt. Ef verðbólgan fer upp fyrir 3% verða afborganir lána á breytilegum vöxtum svo háar fyrri hluta lánstímans að fáir ráða við þær. Svo maður tali nú ekki um þegar verðbólgan er kominn á annan tug prósenta. Þess vegna var tekið upp greiðsludreifingarkerfi eins og verðtryggingakerfið.

Það er einungis ein leið til þess að losna við verðtryggingu, komast með íslenska hagkerfið í umhverfi þar sem verðbólga er lág og stöðugleiki ríki. Það verður aldrei hægt að losna við verðtryggingu meðan við höfum krónuna.

Sumir virðast telja að hægt sé að velja föstu vextina í stað breytilegu vaxtanna og strika svo út verðtryggingu. Það er að segja greiða einungis hluta afborgunar lánsins. Valið stendur á milli breytilegra vaxta eða fastra vaxta og verðtryggingar.

Mjög einfaldað dæmi : Tekið er 20 millj. kr. lán. í 40 ár. Afborganir af láninu sjálfu eru 500 þús á ári.

Á breytilegum vöxtum sem hafa verið upp á síðasta ári 20% þá væri vaxtagreiðsla þessa láns 4 millj. kr. fyrsta árið. Það er að viðkomandi þyrfti að greiða af láninu 4.5 millj. kr. fyrsta ári, eða tæp 400 þús. kr. á mán.

Með verðtryggingu og föstum 5% vöxtum þá væri afborgunin eftir sem áður 500 þús. kr. á ári og vaxtagreiðsla 1 millj. Afborgun fyrsta árið væri þá 1.5 millj. kr. á mán. eða um 130 þús. kr. á mán. Með þessu er greinilega verið að flytja hluta af vaxtagreiðslu það er 3 millj. kr. yfir á seinni hluta lánstímans. Einhver verður að inna af hendi þessa greiðslu.

Svo það sé ljóst vegna margendurtekinna ummæla á aths. síðunum. Þá þekki ég engan hvorki í verkalýðshreyfingunni eða í samtökum atvinnurekenda sem er fylgjandi hárri verðbólgu, sem leiðir til hárra vaxta, sem síðan leiða til greiðsludreifingarkerfis eins og verðtryggingarkerfið er.

Verðtryggingarkerfið var samið af þáverandi forsætisráðherra Ólafi Jóhannssyni og sett á af Alþingi, til þess að koma á langtímalánum hér á landi óstöðugleikans og hárrar verðbólgu.

4 ummæli:

Unknown sagði...

Sæll Guðmundur,

Það er ekki rétt hjá þér að enginn komi með lausnir við afnám verðtryggingar, það eru bara frekar lágróma raddir. En það sem öllu alvarlega er: ráðamenn og fjármagnseigendur, þ.m.t. lífeyrissjóðir hafa heldur ekki komið með aðrar tillögur. Ég er sammála þér í grundvallaratriðum að það er best að losa okkur við krónuna, af hverri krónu sem við búum til fara 16 aurar í að halda henni/myntkerfinu uppi (stýrivaxtamunur seðlabanka okkar og annarra). Það er skelfilegur fórnarkostnaður sem við höfum ekki efni á. En það er alveg hægt að byrja á afnámi verðtryggingar - það er eftir engu að bíða. Ég hef sjálfur dottið niður á lausnir á verðtryggingarvandamálinu og engin þeirra er algerlega gallalaus. Nærtækast er að leysa málin með því að gjörbreyta starfssemi (hlutverki) íbúðalánasjóðs, hluta bankanna og lífeyrissjóðanna.

Það er lausn sem þarfnast kjarks, þors og vilja. Ég get ekki útskýrt mál mitt í stuttri athugasemd sem þessarri, en ég skal glaður hitta þig og útskýra í hverju lausnin felst, þú veist hvar þú nærð í mig.

Hefurðu nægan vilja í slíkt? Ég hef mikla trú á þér og það væri frábært ef þú fylgdir orðum þínum eftir með gjörðum.

Kær kveðja,

Arnar Knútsson

Arnþór sagði...

Allt má þetta venjulega vera satt og rétt hjá þér Guðmundur. En núna eru óvenjulegir tímar. Launamenn er í þeirri stöðu að þurfa taka á sig að greiða skuldir óreiðumanna sem hafa leikið hér lausum hala og sett þjóðfélagið á hausinn. Fjármagnseigendur og atvinnurekendur munu ekki leggja til peninga til að greiða þessar erlendu skuldir vegna þess að þeir greiða ekki tekjuskatta í taprekstri og ekki heldur fjármagnstekjuskatta með allt niðrumsig. Launamenn borga þetta einir. Og verðtrygginguna líka. Það verður flestum um megn. Afleiðingar þessa óréttlætis munu verða óbærilegir skuldafjötrar komandi kynslóða í landi sem stjórnað verður af útlendingum. Nema gripið sé til óvenjulegra ráða.

Unknown sagði...

Það er stórskrýtið með þessa verðtryggingu, það má afnema hana af launum, það má frysta hana þegar ríkið þarf að greiða bændum fyrir afurðir sínar. Enn þegar kemur að lánum þá má ekki hreyfa við henni. Hef ekki trú á að verðtrygging hverfi við það að við göngum í ESB, frekar enn að matvara lækki við það. Menn skulu muna þegar tollar voru teknir af grænmeti þá átti verð að lækka enn gerði það ekki, Þó svo að krónan myndi styrkjast á þessum tíma. Veit ekki betur enn að við látum okra á okkur hvort sem það er matvara, vextir af lánum eða annað. Kv Simmi

Dagbjartur sagði...

Það er einkennilegt að maður með svo ríka réttlætiskennd. Skulir vilja stíga með í dauðadansi verðtryggingarinar.
Hún sér alls enga afsökun.