þriðjudagur, 6. janúar 2009

Frjálshyggjan misheppnuð


Í hverri fréttinni á fætur annarri er upplýst að helstu fyrirtæki skuldi milljarða króna. Hafi fengið lán hjá bönkum án nokkurra veða og allt í tjóni. T.d. eins og þær fréttir sem hafa verið að koma fram um Morgunblaðið og fjölmiðlaveldi Baugsmanna. Fermingarbarn hefði getað rekið fyrirtækin, ekkert mál einungis sótt meira rekstrarfé í bankana ef ekki er til aur. Hverjir greiða þennan rekstur þegar upp er staðið?

Í gærkvöldi kom einn af íslenskum viðskiptasnillingunum fram í Kastljósinu og baðst afsökunar á getuleysi sínu og reyndi soldið að kenna öðrum um. Allt sem hann hefur gert er hrunið og í slóð hans sitja eftir milljarða skuldir. Hann virðist aftur á móti hafa stungið spilapeningunum í eigin vasa og er orðin sterkefnaður. Býr erlendis og passar aurana sína sem hann hefur pumpað út úr íslensku efnahagslífi. Hverjir greiða þennan kostnað þegar upp er staðið?

Nú eru komin fram gögn frá Háskólanum sem staðfesta að hagvöxtur var mun meiri á tímabilinu frá 1960 til um 1980 en tímabilið eftir 1995. Frjálshyggjutímabilið stendur fyrri góðærum talsvert að baki. Hagvöxtur allra áranna frá 2003, ná ekki máli fyrri góðæranna. „Efnahagsundur“ Sjálfstæðisflokksins var byggt á gríðarlegri skuldasöfnun og sölu á eigum ríkissins. Hverjir áttu þessar eignir og greiða upp skuldirnar þegar upp er staðið?
Hvar standa þessi áður traustu fyrirtæki í dag? Landssíminn, bankarnir, Flugleiðir sem fengu ríkisaðstoð, Eimskip, öll þessi fyrirtæki eru tæknilega gjaldþrota í dag. Eignir og varasjóðir horfnir. Úr landi að því virðist.

Hvert einasta atriði sem hagfræðingar aðila vinnumarkaðs vöruðu við og hefur svo margoft verið rakið hér, er komið fram. Allan þann tíma hafa efnahagsspekingar frjálshyggjunnar ásamt ráðherrum og þingmönnum sínum virt aðvaranir að vettugi og haldið alröngum veruleika að almenning og hvatt hann til þess að taka ekki mark á aðvörunum.

Ekkert stendur eftir af „efnahagsundri“ frjálshyggjunnar. Ríkissjóður skuldsettur í botn og eigur ríkissins horfnar í útsölum til valinna vina. Heimilin riða til falls og fyrirtækin hrynja hvert af öðru.

Og forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins hamast við í öllum fréttatímum að lýsa því yfir, að þeir séu svo undrandi á því að til sé fólk sem vilji slíta samstarfinu við þá. Stór hluti almennings krefst afsagna ráðherranna. Hvað þarf að gerast svo þessum mönnum sé komið frá?

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er athyglisvert að lesa Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson. Þar segir frá tískubólunni Frjálshyggju sem dettur inn í tómarúmið sem marxismi menntamanna skilur eftir sig (í Frakklandi?). Þar passar margt við það sem frjálshyggjuráðherrar eru að gera hér í dag: einkavæða heilsugæslu; minnka velferðina; maka krókinn.

Nafnlaus sagði...

Heitir þetta ekki efnahagsviðundur.

Nafnlaus sagði...

Það sem mér finnst furðulegt er að enn er til fólk sem er að verja Sjálfstæðisflokkinn og fyrirmenn hans. Það er eins og sumu fólki sé fyrirmunað að koma auga á spillinguna og eða vankanntana hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er eins og fólk sé svo innmúrað og innvígt að það geti ekki komið auga á neitt rangt. Þetta er spilltasti flokkurinn í íslenskri stjórnmálasögu og samt er fjórðungur þjóðarinnar sem er tilbúinn að kjósa þennan flokk. Hvað er eiginlega að okkur Íslendingum, er þetta einhver undirlægjuháttur? Ég skil þetta alla vega ekki. En þetta er sorglegt því ef þetta væri í einhvrju öðru landi þá myndi þessi flokkur hverfa í næstu kosningum.

Nafnlaus sagði...

Tek undir hvert orð Guðmundur.
Þóra Guðmundsdóttir

Nafnlaus sagði...

Gumað var af góðæri, efnahagslegum stöðuleika, skuldlausum ríkissjóði.
Gleymdist að telja heildarskuldir
þjóðarinnar.
Það er með ólíkindum að þessi
flokkur mælist enn með fylgi í
2 stafa tölu og líka þeir, í hverra
skjóli hann starfaði og starfar enn í. Þeir bera líka ábyrgð.
En frjálshyggjuliðið hefur enn ekki lokið sér af - enn er eftir
lokahnykkurinn á heilbrigðis-, velferða- og menntamálum.
Þar er unnið hörðum og fljótum höndum.