miðvikudagur, 10. desember 2008

Góður gestur

Göran Person fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra Svíþjóðar er áhugaverður og þarfur gestur er hér á landi. Maður sem getur kennt íslenskum ráðamönnum margt hafandi stýrt Svíum í gegnum bankakreppu í byrjun síðasta áratugar. Hann segir að Evrópusambandsaðild hafi skipt sköpum fyrir Svía til að vinna bug á kreppunni.

Svíar þurftu að endurskipuleggja nánast allt sitt fjármálakerfi. Göran leggur á það áherslu að við verðum að endurheimta trúverðugleikann. Yfirvöld verði að hafa skýra aðgerðaáætlun. Fólk verði að vita hvert eigi að stefna og þekkja markmiðin. Hafi fjármunum verið komið undan í bankahruninu væri lífsnauðsyn að ná aftur eins miklu af því fé því það væri eign þjóðarinnar.

Ég hef reyndar komið að þessu öllu nokkrum sinnum áður í pistlum hér á síðunni, þar sem ég hef verið að vitna í ummæli nágranna okkar frá ráðstefnum sem ég hef verið þátttakandi á. Margoft hefur komið fram að Svíar hafa ásamt öðrum nágrannalöndum sett íslenskum ráðamönnum ákveðin skilyrði. Það var gert vegna þess að íslenskir ráðamenn hafa allt fram á síðustu daga þverskallast við að horfast í augum við staðreyndir og hafa forsætisráðherra ásamt samflokksmönnum hingað til kallað ráðleggingar annarra Norðurlanda kúgun. Það segir okkur hversu veruleikafyrrtir íslenskir ráðherrar eru.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, við þurfum á öllum að halda til að uppgvöta það sem gerðist framan nefið á okkur.

Við horfðum á þetta nefnilega gerast í meir en áratug, spillingin grasseraði, við snerum okkur á hina hliðina og töldum fingur okkar, hvort einhvern vantaði, þvílíkur fíflagangur hjá einni þjóð

Nafnlaus sagði...

Göran Persson er allra góðra gjalda verður, alvöru stjórnmálamaður par exellance. Hinsvegar er ég farinn að staldra við þegar hver "umsagnaraðilinn" á fætur öðrum er dreginn upp á svið til að útmála það fyrir okkur, að við getum fengið flýtimeðferð við inngöngu í Evrópusambandið og það eigi helst að drífa okkur þar inn án þess að nokkur undirbúningur fari fram að gagni. Þótt ég sé hlynntur EU per se og sjái ekki fyrir mér að krónuræfillinn eigi nokkra framtíð, þá finnst mér ekki við hæfi að fara þarna inn á hröðum flótta undan vandamálum, sem við sjálf sköpuðum.

Nafnlaus sagði...

Það þarf að taka ESB með töluverðum fyrirvara.

Við hefðum samt átt að byrja undirbúning fyrir ESB-skooðun fyrir löngu síðan, svo við vissum svart á hvítu hvað svona aðild þýðir.