Það er harla bratt af Davíð, svo ekki sé nú meira sagt, að ráðast að Þorvaldi og kalla hann eftiráspeking sama dag og verið er að samþykkja að taka 500 milljarða lán til þess að efla gjaldeyrisforðann. Aðgerð sem sem Þorvaldur er búinn að benda á fyrir margt löngu að þurfti að framkvæma. Þorvaldur hefur ekki verið einn um þessa skoðun, allir hagfræðingar aðila atvinnulífisins og reyndar margir fleiri hafa bent á nauðsyn aðgerða til þess að styrkja krónuna undanfarin misseri.
Það er liggur fyrir að ef Davíð og félagar hefðu farið eftir þessum ráðleggingum á sínum tíma þá hefði í fyrsta lagi kostnaður af lántökunni verið umtalsvert minni og í öðru lagi kostnaður heimilanna og fyrirtækjanna margfalt minni, þar sem lægðin sem við erum að ganga í gegnum væri mun grynnri.
Það liggur líka fyrir að sú mikla efnahagslega velgengni íslensks efnhagslífs sem Davíð og félagar hafa viljað fá okkur til að trúa og þeir hefðu búið okkur, var ekki rétt. Og þar höfðu eftiráspekingarnir líka rétt fyrir sér. Töluverður hluti efnahagslægðarinnar er heimatilbúin vandi Davíðs og félaga. Það er mikið frekar Davíð og félagar sem eru eftiráspekingar og afleiðingarnar rangra ákvarðana þeirra bitna harðast á þeim sem síst skildi.
Það lá alltaf fyrir fyrir hverjar yrði afleiðingar stefnu félaga Davíðs, efnahagsleg misskipting. Á það hafa ofangreindir hagfræðingar skoðanabræður Þorvaldar ítrekað bent. Félagar Davíðs hafa hampað reglulega bandarískum spekingum, sem hafa komið á þessari stefnu heima fyrir og afleiðingar þess blasa við í hratt vaxandi fátækt hluta þjóðarinnar. Var það kannski alltaf ætlun félaga Davíðs, spyrja margir.
Ef svo var ekki, þá liggur fyrir að þeir eru fjarri því að valda hlutverki sínu og myndu gera landsmönnum mikinn greiða með því að snúa sér að því að þiggja eftirlaunin sem þeir hinir sömu sömdu við sjálfa sig um. Þó þau séu dýr er sá stöðumælakostnaður lítill í samanburði við þann kostnað sem eftiráspekingar Davíðs hafa valdið heimilum þessa lands með gríðarlegri eignaupptöku hjá þeim sem minna mega sín.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli