miðvikudagur, 21. maí 2008

Leiktjöldin fallin

Skuggastjórn Markaðarins tekur undir ítrekaðar spár að hætta sé á ofkólnun í hagkerfinu. Edda Rós gagnrýnir að það vanti fullkomnari gögn um gang efnahagslífsins. Það hafa reyndar aðrir haldið fram en fengið ákúrur fyrir. Skuggastjórnin tekur undir það sem hagdeildir aðila vinnumarkaðsins hafa hamrað á í vetur, um að Seðlabankinn hafi ekki stjórn á verðbólgumarkmiðunum og fram hafi komið gallar í íslenska fjármálakerfinu sem þurfi að takast á við nú þegar.

Margir hafa sett fram harða gagnrýni á stjórnvöld um aðgerðaleysi, ekki bara undanfarna mánuði, heldur undanfarin ár. Fyrir löngu hefði átt að stórauka gjaldeyrisvaraforðann ef halda ætti sjálfstæða mynt. Trúverðugleiki hefði fengist með evru á mun ódýrari hátt. Enn einu sinni er það staðfest að stjórn efnahagsmála er ekki og hefur ekki verið í lagi. Hvað segja menn nú um ferðir forsvarsmanna banka og stjórnvalda m.a. til Kaupmannahafnar þar sem þeir sýndu dönskum efnhagsspekingum rauða spjaldið. Nú liggur fyrir að hinir íslensku fjármálaspekingar voru ekki í úrvalsdeild, heldur utandeildar eins og erlendir efnhagsspekingar héldu fram og þeir eiga stóran þátt í þeirri stöðu sem nú hellist yfir íslenskan almenning.

Orð Þýska forsetans sem birt voru með Reykjavíkurbréfi um helgina þau segja flest."Það eina góða við kreppuna á alþjóða lánamörkuðum, er að hún hefur gert öllu hugsandi fólki ljóst að hinir alþjóðlegu fjármálmarkaðir eru orðnir að skrímslum, sem koma þarf í bönd.
Við þurfum strangari og áhrifaríkari reglur, kröfur um meira eigið fé til að standa undir viðskiptum, meira gegnsæi og alþjóðlega stofnun til þess að fylgjanst með stöðugleika hins alþjóðlega fjármálakerfis."

Ítrekaðar yfirlýsingar forsætisráðherra um að botninum sé náð virðast óraunhæfar. Verðbólga er vaxandi. Nú þarf að skuldsetja ríkisstjóð og vaxandi fjöldi telur að það þurfi allt að eitt þúsund milljarða gjaldeyrisvarasjóð svo hann sé í samræmi við núverandi umfang íslensks efnahagslífs. Það hafi legið fyrir um allangt skeið og stjórnendur efnhagslífisins hefðu átt að auka gjaldeyrisforðann í samræmi við umsvif efnhagslífsins. En forsvarsmenn efnahagsstjórnar hafa ekki sýnt neitt frumkvæði, en slá í stað þess um sig með einhverjum sigrum.

Við vorum best í öllu, og maður gat ekki annað en brosað þegar einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hélt því fram að nú í vikunni að íslendingar hefðu fundið upp nýja varnartækni í hernaði og aðrar þjóðir muni leita eftir þessari yfirburða þekkingu okkar. Herlaus þjóð sem aldrei hefur átt í ófriði, er orðin best í heimi í þeirri tækni. Er ekki komið nóg af þessum sjálfbirgingshætti? Vilja stjórnendur efnhagsmála ekki sýna okkur almenning þá virðingu og viðurkenna að þeim hafi orðið á alvarleg mistök og þeir verði að taka höndum saman við okkur við að leysa þann griðarlega vanda sem við erum í.

Skuldlaus ríkissjóður var blekking ein, sama gilti um verðbólguna eins og svo margt annað. Og Geir sendir þeim tóninn sem ekki eru honum sammála um sigrana og segir þá vera gamaldags. Leiktjöldin eru fallin. Það má einnig nota orð Þýska forsetans um íslenska hagkerfið.

Engin ummæli: