laugardagur, 24. maí 2008

Matareitrun

Tugir þúsunda íslendinga fara til Evrópu árlega bæði vegna vinnu og ekki síður til orlofsdvalar, jafnvel svo vikum skiptir. Ekki hefur borið á því að þeir komi fárveikir heim, þó svo þeir taki ekki með sér íslenskan mat og borði í þess stað mat sem er framleiddur niður í Evrópu.
Ég hef gagnrýnt í vetur á þessari síðu málflutning stjórnmálamanna og bent á að þeir hafi glatað trúverðuleika á því að vera staðnir að því að hafa ítrekað haldið að almenning augljóslega röngum upplýsingum.

Málflutningur nokkurra þingmanna um innflutning matvæla frá Evrópu er hreint út sagt ótrúlegur og fór í sérstakar hæðir í þessari viku, réttara sagt niður á lægsta plan. Því er blákalt haldið fram í ræðustól Alþingis að þeir sem vilji lækka matvöruverð hér á landi með því að flytja inn matvæli frá Evrópu standi fyrir aðför að heilsu íslensks almenning og búfénaður minni hrynja niður úr fári. Ætlast þessir þingmenn að fólk sem flest ef ekki allt hefur dvalið um lengri eða skemmri tíma í Evrópu og á skyldmenni sem búa í Evrópu trúi þessum rangarrökum?

Það er gengið svo langt að fyrirferðarmesti ræðumaður Alþingis heldur því blákalt fram að öll egg í Evrópu séu harðsoðin vegna salmonellueitrunar. Á öllum hótelum sem ég hef dvalið á í Evrópu er boðið upp á tvær gerði eggja á morgunverðarborðinu, linsoðin og harðsoðinn. Ég vel alltaf linsoðin vegna þess að mér þykja þau mikið betri. (7-9-13) ég hef ekki orðið fyrir barðinu vegna matareitrunar. Sömu þingmenn gagnrýna svo Evrópu fyrir strangar reglur og við vitum öll að það eru strangar reglur um framleiðslu matvæla í Evrópu.

Laun bænda eru lág, en verð matvæla hér á landi er það hæsta sem þekkist í Evrópu. Þetta er augljóslega vegna þess að milliliðir hér á landi komast upp með að taka til sín of stóran hluta. Það er vegna þess að fáum aðilum hefur tekist að koma málum þannig fyrir að þeir eru í öllum hlutverkum milli framleiðenda og almennings. Eins og komið hefur fram í fréttum undanfarna daga beita milliliðirnir framleiðendur hér á landi ofríki.

Eftir inngöngu í Evrópusambandið hefur landbúnaður blómstrað á norðurlöndum, sérstaklega eftir því sem norðar dregur. Almenning þar stendur til boða matvara á verði sem er um 40% lægra en hér á landi. Það er augljóslega vegna þess að að milliliðir þar eru að taka minna til sín vegna aukinnar samkeppni. Samfara þessu fer ekki faraldur matareitrunar um norðurlönd.

Þar búa vel á annan tug þúsunda íslendinga og samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum líður þeim bara ágætlega.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Auðvitað er afar ólíklegt að þér verði meint af linsoðnu eggi á hóteli í útlöndum, enda ertu heilsuhraustur og á besta aldri. Ögmundur Jónasson hefur sömuleiðis lítið að óttast á ferðum sínum.

Hitt er hins vegar staðreynd að bæði í Bandaríkjunum og á nær öllu meginlandi Evrópu er varað við því að börn, gamalmenni eða fólk með veikt ónæmiskerfi borði linsoðin egg. Það hélt ég að væri nokkuð almenn vitneskja.

Ef þú vilt lesa meira um þetta mál, bendi ég á grein frá bandaríska matvælaeftirlitinu um sjúkdóma í eggjum: http://www.fda.gov/FDAC/departs/1999/599_upd.html

Bretar giska á að svona 0,5% mannfjöldans fái kamfílóbakter á ári hverju. Langflestir þeirra hafa ekki hugmynd um það, fá kannski í mesta lagi smávelgjutilfinningu í einn dag. Í fáeinum tilvikum verða afleiðingarnar alvarlegri - einkum þegar um börn, gamalmenni eða sjúklinga er að ræða.

Svo þurfa menn bara að vega og meta - hvort er hagur samfélagsins betur tryggður með því að lækka matarverð eða afstýra veikindum nokkurra einstaklinga á ári hverju. Það verður hver og einn að gera upp við sjálfan sig.

Nafnlaus sagði...

Alverlega sammála, þetta er með ólíkindum, ég ferðast amk. mánaðarlega yfirleitt til Evrópu og USA og hef ferðast mjög mikið á síðustu 15 árum. Ég hef 3 sinnum fengið kveisu vegna matvæla og í öllum sinnum á Íslandi.

Einnig er fráleitt að horfa til gæða án tillits til verðs, þannig getur vel verið að gæði Íslensk landbúnaðar sé t.d. mun betri en þess danska, en er þá ekki bara hægt að gefa mönnum val, sumir vilja ef til vill greiða hærra verð (sýnist það vera um helmingi hærra) fyrir gæði, en á það ekki að vera val.

Nafnlaus sagði...

Skil ekki umræðuna. Hef etið á gangstéttargrillum í Bangkok án þess að verða meint af, er þó í hæsta áhættuhóp matareitrunar vegna brottnáms briskirtils.
Hef einnig etið Evrópskt lambakjöt og fannst það bara vont á bragðið.
Mín skoðun er þessi: Okkar ástkæra lamb mun sigra! Slæ þó ekki hendi mót villisvíni og dádýri að hætti Bæverskra smáþorpakokka.

Nafnlaus sagði...

Blessaður Guðmundur
já þetta eru oft ótrúleg rök sem borin eru á borð fyrir mann.Var á hóteli á Spáni um daginn, þar voru þau bæði linsoðin harðsoðin, og steikt. Ennþá er maður samt við hestaheilsu
Kveðjur

Hannes Friðriksson
smali@blog.is

Nafnlaus sagði...

Er ekki uppistaðan í carbonara sósu þeirra ítala, sem er á matseðlum allra veitingastaða, bistróa og brassería um alla evrópu og þótt víða væri leitað, akkúrat hrá egg. ég veit ekki betur.

eidur sagði...

Góður pistill.
Margir eru furðu lostnir að fylgjast með þeirri sérkennilegu umræðu sem nú á sér stað um innflutning á fersku kjöti (hrátt kjöt heitir það reyndar í munni flestra). Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur rökstutt Það rækilega hversvegna við þurfum að taka upp matvælalöggjöf ESB, búa við sömu reglur og aðrar evrópuþjóðir og tryggja matvælum frá okkur aðgang að mörkuðum í Evrópu..
En eins og ævinlega þegar auka á frelsi á Íslandi, ætlar allt um koll að keyra og hver heimsendaspámaðurinn á fætur öðrum segir það þjóðarháska ef leyft verður að flytja inn ferskt kjöt frá Evrópu. Það verði ekki aðeins stórskaðlegt heilsufari þjóðarinnar heldur beinlínis lífshættulegt.
Muna menn þegar landið átti á fara á hliðina ,þegar við gengum í EFTA?
Landið átti líka að fara hliðina þegar gjaldeyrishöftum var aflétt.
Það átti líka að stefna í þjóðarvoða , þegar leyft var að flytja inn erlent sælgæti.
Eftir gildistöku EES samningsins átti allt að verða á hverfanda hveli.
En hvað hefur gerst ?
Ekkert. Ekkert annað en það að lífið hefur orðið betra og einfaldara.
Aukið frelsi hefur aldrei orðið okkur til ills.
Það er stórmerkilegt að hlusta á þingmenn segja þjóðinni, að svo blómlegur sé sýkla- og bakteríubúskapurinn í Evrópu að þar sé ekki lengur óhætt að borða linsoðin egg. Hvernig á að vera hægt að taka slíka stjórnmálamenn alvarlega ?
Annar þingmaður segir um mötuneyti leikskólanna:” Hætta vofir yfir. Mötuneyti gætu fyllst af innfluttu kjöti.”

Hvað finnst fólki um svona málflutning ?

Unknown sagði...

Ég sé reyndar bara tækifæri í þessu.

Þessi dásemdar matur sem við eigum, laus við alla sýkingu og er sá bezti í öllum alheiminum,
það hlýtur að vera hægt að selja hann á sama kílóaverði og gull er selt á?

Eða það skildi maður ætla eftir að hafa lesið um þessar lýsingar á íslenska matnum.