Birgir Ármannsson, skrifar í 24 stundir í dag. Þar heldur hann áfram sínum hræðsluáróðri um fullveldisframsal. Nú er það svo að hvert atriðið á fætur öðru er að koma fram í dagsljósið þar sem málflutningur Þorvaldar ásamt öðrum háskólaprófessor Stefáni Ólafssyni er að staðfestast. En það sem Birgir og skoðanabræður hans hafa haldið fram á undanförnum árum reynist rangt. Hvort sem það er vísvitandi eða þá að Birgir ásamt félögum sínum séu svona illa að sér í efnhagsmálum.
Hvað varðar fullveldishræðsluáróðurinn þá er það svo, að íslendingar hafa allt frá 1992 búið við það að umtalsverður hluti reglugerða ESB taka gildi hér á landi og það breytist ekkert þó svo Ísland gerist aðili að ESB ásamt öðrum fullvalda ríkjum eins og t.d. nágranna- og bræðraþjóðir okkar. Þessi ríki réttu okkur hjálparhönd þegar forsvarsmenn okkar fóru þangað með sinn betlistaf. Þar fara vart forsvarsmenn fullvalda þjóðar, Birgir ásamt þeim sem hafa staðið að efnahagsstefnunni eru í raun búnir að framselja efnahagslegt fullveldi til ESB.
Einnig má benda á að Ísland er aðili að opnum vinnumarkaði Evrópu og býr þar af leiðandi við frjálsa för launamanna á því svæði, þannig að hræðsluáróður Birgis og skoðanabræðra hans um innflutning á atvinnuleysi við inngöngu í ESB er marklaust hjal. Aftur á móti hafa Birgir og skoðanabræður hans nýtt íslenska launamenn áratugum saman til þess að leiðrétta rangan efnahagskúrs, eins hann er að gera þessa dagana, með því að fella gengið um 30%, lækka laun og hella yfir okkur atvinnuleysi.
Að fenginni reynslu erum við orðin allmörg sem tökum ekki lengur mark á Birgi og skoðanabræðrum hans. Jafnvel þó hann hefji mál sitt ætíð með sömu orðum, að auðvitað hafi hann rétt fyrir sér. Gagnstætt því liggja haldgóð rök fyrir því að hlusta á Þorvald og skoðanabræður hans. Þetta heitir á íslenskri tungu að ávinna sér traust. Birgir og skoðanabræður hans hafa með hátterni sínu grafið undan trausti á íslensku efnahagslífi, samfara að skapa algjörlega óviðunandi stöðu launamanna.
Birgir hefur staðið fremst allra í að verja Eftirlaunaósómann og stungið allri gagnrýni og breytingartillögum þar um í neðstu skrifborðsskúffu sína. Í þessu sambandi má velta því fyrir sér hverjir það eru sem hafa staðið í vegi fyrir breytingum á Stjórnarskránni, þá sérstaklega að styrkja stöðu forsetans og aðkomu þjóðarinnar af veigamiklum málum. Hér á ég við það afhroð sem Birgir og skoðanabræður hans urðu fyrir í fjölmiðlalagafárinu.
1 ummæli:
Það er fengur að pistlunum þínum, Guðmundur. Það er gott, að launþegar eigi sér talsmenn eins og þig með fínt jarðsamband, næmt hagskyn og hjartað á réttum stað.
Með beztu óskum,
Þorvaldur Gylfason.
Skrifa ummæli