mánudagur, 19. maí 2008

Forsætisráðherra á sigurbraut


Tryggari stoðum rennt undir vaxandi ójöfnuð

Sé litið til þeirrar umræðu sem á sér nú stað meðal almennings mun fólk ekki sætta sig við þær yfirlýsingar sem forsætisráððherra gaf út á laugardaginn um að ekki sé ætlunin að breyta efnahagsstefnunni. Það hefur vakið reiði að ríkisstjórnin lýsi því sem sigri og útsjónarsemi að henni hafi tekist að draga það að taka erlent lán til þess að renna styrkari stoðum undir efnahagslífið. Þann biðtíma blæddi heimilum og fyrirtækjum enn meir.

Almenningur veit að ríkisstjórnin ásamt stjórn Seðlabankans hafa á undanförnum árum virt að vettugi aðvaranir nánast allra hagfræðinga þessa lands og helstu erlendra hagstofnana. Ríkisstjórnin ásamt Seðlabankanum keyrði með þessu hátterni efnahagsstöðuna svo kirfilega út af sporinu, að okkur stóðu ekki til boða nein lán, nema með afarkjörum. Á þessum tímamótum kom ríkisstjórnin fram og lýsti því sem sigri að frændur okkar hefðu aumkvast yfir okkur, en þó með þeim skilyrðum að tekið yrði til í íslensku hagkerfi. Niðurlæging okkar er algjör.

Forsætisráðherra beit svo endanlega úr nálinni gagnvart þeim hluta almennings sem hefur orðið fyrir gríðarlegri eignaupptöku, þegar hann lét fylgja siguryfirlýsingunum sínum að hann ætlaði að halda áfram að tryggja kjósendum sínum áfram aðgang að bættri efnahagsstöðu á kostnað þeirra sem minna mega sín. Jafnframt því lýsti hann því yfir að þær þjóðir sem höfðu efnahagslegt bolmagn að koma okkur til hjálpar og gerðu okkur kleift að hefja uppgöngu úr táradalnum, hefðu gert hrikaleg mistök í efnahagsstjórn með því að ganga í ESB og hann ætlað sko ekki að fylgja fordæmi þeirra. Kjósendur hans og þeir sem hafa orðið harkalega fyrir barðinu á gríðarlegri eignamyndun klöppuðu vitanlega vel og lengi í Valhöll á laugardagsmorgun. Á meðan hrundi fylgið af Samfylkingunni.

Forsætisráðherra lýsti því einnig yfir á laugardag að ekki stæði til að afnema það svigrúm sem hann hefði til þess að afskrifa umsamdar launahækkanir og lækka kaupmátt með einu pennastriki að lokinni undirskrift kjarasamninga. Samfara því að hækka jafnframt skuldir heimilanna um milljarða króna til þess að rétta af rangan kúrs í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Þessar yfirlýsingar ráðherrans lýsa svo óendanlegum hroka og sjálfbirgingshætti að maður gengur með veggjum þegar maður hittir starfsbræður sína á hinum norðurlandanna. Hvers vegna eru hinar fullvalda þjóðir Danir, Finnar og Svíar í þeirri stöðu að geta rétt okkur hjálparhönd? Í framhaldi af þessu kemur svo fram að yfirstandi viðræður Seðlabankastjóra og forsætisráðherra við Seðlabanka ESB um enn fleiri ölmusur!! Sem sagt fóstbræðurnir úr Valhöll ætla að fara undir dynjandi klappi og fagnaðarlátum tiltekins hóps til ESB og biðja þá gaura sem eru svo vitlausir að fylgja ekki hinni íslensku efnahagsstefnu um aðstoð!!

Ef efnahagsvandi okkur er alfarið kominn erlendis frá hvers vegna er verðbólga og vextir helmingi lægri þar? Hvers vegna er efnhagsástand innan ESB svo mikið betra hér en þar ef íslensk efnhagsstefna er einstök? Með leyfi, var ég að koma eða fara? Má ekki lyfta þessari umræða á hærra plan? Thank you for this program.

Eina von íslenskra launamanna og fyrirtækja í dag virðist vera sú að frændur okkar, sem enn einu sinni hafa komið okkur til hjálpar, láti nú hné fylgja kviði og dragi tilbaka aðstoðina og krefji forsætisráðherra skýringa á því hvað hann eigi við með þessum siguryfirlýsingum og niðurlægjandi yfirlýsingum um allar hinar norðurlandaþjóðirnar. Þær séu á rangri braut í efnhagsstjórn á meðan hann sé að vinna sigra með sinni.

Það er að renna upp fyrir allmörgum íslendingum að nýfrjálshyggjan hefur leitt yfir okkur hratt vaxandi ójöfnuð og sá mikli ávinningur sem sértæk íslensk efnhagstefna var hjóm eitt og hafði það eitt að markmiði að bæta stöðu ákveðins hluta landsmanna. Að meðaltali höfum við það betra, en það meðaltal byggist á mun betri stöðu tiltekinns hóps, sem þessa dagana er aumur í lófunum vegna fagnaðarláta.

Yfirlýsingar forsætisráðherra á laugardag lýsa svo einstaklega vel hugsunarhætti nýfrjálshyggjunnar, að vilja vernda þá stöðu hvað sem það kosti að geta hrifsað til sín bestu bitana og henda svo nögðuðum beinunum til þeirra sem ekki eru í aðstöðu til þess að sitja að kjötkötlunum.

Engin ummæli: